Landbúnaðarráðuneyti

411/1983

Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 168 17. ágúst 1970 um heilbrigðisskoðun á sláturafurðum. - Brottfallin

1. gr.

Á eftir þriðja tölulið 13. gr. reglugerðarinnar komi nýr töluliður svohljóðandi:

4. Öllu kjöti og sláturafurðum, sem seldar eru til útlanda skal fylgja uppruna- og heilbrigðisvottorð. Heilbrigðisvottorð skulu gerð eftir fyrirsögn yfirdýralæknis á sérstök eyðublöð sem landbúnaðarráðuneytið skal hafa tiltæk.

Á heilbrigðisvottorði skal koma fram að afurðir þær sem tilgreindar eru á vottorðinu séu af íslenskum gripum, er hafi hlotið heilbrigisskoðun fyrir og eftir slátrun og reynst heilbrigðir, og að meðferð þeirra hafi verið í samræmi við fyllstu hollustukröfur.

Heilbrigðisvottorð skulu útfyllt svo sem við á hverju sinni og undirrituð af yfirdýralækni að fengnum nauðsynlegustu upplýsingum staðfestum af viðkomandi kjötskoðunarlækni eða fulltrúa hans og útflutningsaðila.

Á heilbrigðisvottorði skal tilgreina hvaða tegund afurða vottorðið nær til.

Ennfremur skal tilgreina fjölda skrokka og stykkja, þyngd þeirra og auðkenni eða númer. Þá skal greina á vottorðinu númer sláturhúss og nafn, sláturmánuð og ár, sendanda vöru og móttakanda sem og flutningstæki.

Þegar um sendingu í lokuðum gámum er að ræða, skal tilgreina númer og auðkenni gámsins.

Kjötskoðunarlæknir eða fulltrúi hans skal fylgjast með þegar hleðsla fer fram og sjá um að gámar séu innsiglaðir á viðhlítandi hátt, strax og hleðslu er lokið.

Heilbrigðisvottorð skulu samin á ensku eða á þeirri tungu sem innflytjandi óskar eftir. Frekari upplýsingar má tilgreina á vottorðinu teljist það nauðsynlegt eða sé þess óskað.

2. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 30, 28. apríl 1966 og öðlast gildi þegar í stað.

Landbúnaðarráðuneytið, 9. júní 1983.

Jón Helgason.

Sveinbjörn Dagfinnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica