Landbúnaðarráðuneyti

168/1970

Reglugerð um heilbrigðisskoðun á sláturafurðum. - Brottfallin

I. KAFLI.

Almenn ákvæði.

1. gr.

1. Heilbrigðisskoðun á sláturafurðum, sem ætlaðar eru til sölu og neyzlu, skal framkvæma af dýralæknum eftir því sem aðstæður leyfa, sbr. 8. gr. laga nr. 31 5. maí 1970, um dýralækna og 5. gr. og 7. gr. laga nr. 30 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum.

2. Þeir, sem framkvæma heilbrigðisskoðun á sláturafurðum, verða að hafa góða sjón og mega ekki vera haldnir smitandi berklum.

3. Tríkínuskoðun skal eingöngu framkvæmd af dýralæknum eða undir umsjón og ábyrgð þeirra af sérþjálfuðum mönnum. Yfirdýralæknir segir fyrir um. hvar tríkínuskoðun skuli framkvæmd og á hvaða dýrum.

4. Ef nauðsynlegt er að fá úr því skorið með sýklarannsókn, hvort sláturafurðir eru hæfar til manneldis, skal senda sýni af gripnum til rannsóknar að Tilraunastöð háskólans í meinafræði, sem framkvæmir hana gegn hæfilegri þóknun.

5. Skylt er dýralæknum, læknum og öðrum, sem starfa að heilbrigðisskoðun sláturafurða að hlíta þeim reglum, sem hér eru settar.

Skoðun á lifandi sláturgripum.

2. gr.

Aðalmarkmið heilbrigðisskoðunar á sláturgripum er að verja heilbrigði neytenda gegn þeim margvíslegu hættum, sem neyzla kjöts getur haft í för með sér og girða fyrir að til neytenda berist óhreinar, mengaðar eða ógeðfelldar afurðir, skemmdar eða með annarlegu bragði eða útliti. Til að tryggja þetta sem bezt er ekki nóg að skoða kjöt og innyfli að lokinni slátrun, heldur þarf einnig að skoða sláturgripi á fæti.

1. Við skoðun gripa á fæti verður kjötskoðunarlæknir að leitast við að gera sér sem gleggsta grein fyrir heilsufari skepnanna og öðru, sem haft getur þýðingu fyrir kjötskoðunina, en einkum skal beina athygli að því, hvort um smit- eða septiska sjúkdóma eða eitranir geti verið að ræða.

2. Til að geta myndað sér skoðun um heilsufar sláturpenings skal,kjötskoðunarlæknir athuga:

a. Holdafar og háralag.

b. Augnaráð, yfirbragð og andardrátt.

c. Hreyfingar, limaburð, liðamót, eitla júgur og naflastæði á ungviði.

d. Hvort um sé að ræða rennsli úr munni, nösum eða skeið eða merki um skitu.

e. Hvort merki séu um útbrot, áverka, sár, mar, brákun eða beinbrot.

3. gr:

1. Virðist kjötskoðunarlækni skepna vera sjúk, skal rannsaka hana nánar, mæla líkamshita o. s. frv. Ef ástæða er til, skal dýralæknir leita upplýsinga um heilsufar skepnunnar undanfarið.

2. Sé líkamshitinn óeðlilega hár, en að áliti læknis skammvinnur, skal ráðlagt að fresta slátrun skepnunnar, auðkenna hana og halda henni sér.

3. Sjúkum skepnum skal slátra sér, og þess skal vandlega gætt, að afurðir þeirra geti undir engum kringumstæðum mengað afurðir af heilbrigðum sláturpeningi. Jafnframt skal framkvæma nauðsynlega hreinsun og sótthreinsun á þeim hluta sláturhússins, sem kann að hafa mengazt. Forðast skal að slátra sjúkum skepnum á sláturhúsum, sé þess nokkur kostur, nema til þess sé ætlaður sérstakur staður í húsinu.

4. Hafi sláturpeningur verið rekinn langar leiðir til slátrunar eða fluttur á vögnum eða skipum, einkum í heitu veðri, geta sjúkleg einkenni iðulega komið i ljós af völdum flutnings.

Ber þá að fresta slátrun um stundarsakir unz gripirnir hafa jafnað sig. Séu skepnur úr hófi skítugar, má vísa þeim frá slátrun unz þær hafa verið þrifnar.

5. Skoðun skal framkvæmd sjálfan slátrunardaginn, og mega ekki líða meira en 12 klst. frá þeirri skoðun til slátrunar.

6. Við skoðun verður að vera góð birta, dagsbirta eða ljós ígildi hennar. Læknir skal auðkenna þá gripi, sem athugunarverðir reynast við skoðun, svo þá megi þekkja við slátrun.

7. Dýralækni ber að hafa gát á því, að ómannúðleg meðferð eða misþyrming dýra eigi sér ekki stað í sláturhúsi eða við flutninga sláturpenings.

Kjötskoðun.

4. gr.

1. Kjötskoðunarlæknir skal hafa eftirlit með því, að hreinlæti sé um hönd haft í sláturhúsi, umgengni þrifaleg og að afurðir óhreinkist ekki eða sóttmengist, sbr. reglugerð um útbúnað sláturhúsa nr. 205/1967.

Hann á sjálfur að vera hreinlátur í vinnubrögðum og hafa hrein hlífðarföt og höfuðbúnað við vinnu. Hnífum og öðrum áhöldum, sem hann notar við skoðina, skal halda vel hreinum og sótthreinsa þau jafnaðarlega. Öll framkoma hans skal vera þannig, að til fyrirmyndar sé þeim, sem við sláturstörf fást.

2. Kjötskoðunarlæknir skal gæta þess, að fláning sláturdýra nema svína sé framkvæmd án tafar að lokinni blæðingu skepnunnar. Hann skal gæta þess, að líffæri, sem tekin eru úr skrokknum áður en skoðun fer fram, séu merkt eða þeim raðað þannig, að rekja megi saman líffæri og skrokka og hausa. Einnig skal hann gæta þess, að ekki séu fjarlægð sjúk líffæri eða líffærahlutar. Ljúka skal skoðun þeirra sláturdýra, sem ætla verður heilbrigð, áður en skoðun á sjúkum dýrum hefst. sé þess kostur.

Ef líffæri vantar við skoðun á sláturdýrum eða hafi merkingar ruglazt, er kjötskoðunarlækni óheimilt að merkja sláturafurðir skilyrðislaust hæfar til manneldis. Kjötskoðunarlæknir skal gæta þess vandlega, að smitdreifing eigi sér ekki stað við skoðun á sláturafurðum, sem sjúklegar breytingar finnast í.

3. Kjötskoðunarlæknir á að vera til staðar í sláturhúsinu dag hvern meðan á slátrun stendur. Sé kjötskoðunarlæknir ekki viðlátinn einhvern tíma, skal trúnaðarmaður hans eða aðstoðarmaður fylgjast með því, að öll störf og meðferð sláturafurða fari fram reglum samkvæmt.

4. Kjötskoðun skal framkvæma eftir föstum reglum og í góðri birtu, helzt við dagsbirtu.

5. Endist dagur ekki til skoðunar, getur skoðun og merking afurða beðið næsta dags. Þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, er dýralækni heimilt að fresta lokadómi kjötskoðunar, t. d. ef þörf er fyllri upplýsinga eða rannsókna.

6. Kjötskoðunarlæknir má að jafnaði dag hvern ekki skoða yfir 1500 dilka eða 1000 sauðkindur fullorðnar, eða 100 stórgripi eða 200 svín eða 200 kálfa eða folöld. Fyrir heilbrigðisskoðun sláturgripa ber dýralækni þóknun samkvæmt gjaldskrá fyrir dýralækna. Sama gegnir um eftirlit með hreinlæti og þrifnaði í sláturhúsum. Nauðsynlega aðstoð við heilbrigðisskoðun og merkingu skal sláturleyfishafi greiða.

5. gr.

Fullorðna nautgripi skal skoða sem hér greinir:

Hausinn er skoðaður á þann hátt, að skornar eru ein eða tvær lengdarristur í innri og ytri tyggingarvöðva allt eftir þykkt þeirra. Er þar leitað að sullum (Cysticercus bovis). Finnist einn sullur eða fleiri, verður að hefja leit í öllum tyggingarvöðvum, þind og hjarta, sem skorið er í þunnar sneiðar. Kljúfa skal skrokkinn og hefja skipulega leit að fleiri sullum í vöðvum, einkum þó í tungu-, háls- og kviðarvöðvum.

Því næst skal skoða eitla í kverk (lgl. submandibularis, lgl. subparotidea, lgl. retropharyngeales), góm, nasir, kjálka og augu.

Tungan er skoðuð, þukluð, hvort ekki kunni að vera mein eða hnútar í henni: skorið i gl. tonsillaris. Vélinda skoðað. Barki og barkakýli opnað og skoðað.

Lungun. Við lungnaskoðun er fyrst skorið í eitla (lgll. mediastinales, lgl. bronchiales). Því næst eru lungnablöðin skoðuð og þukluð og ristur lagðar í lungun.

Hjarta og gollurshús er skoðað. Hjartahólf opnuð og rista skorin í vöðvann milli þeirra.

Lifur er skoðuð, skorið í lifrareitla (lgll. hepaticae) og rista lögð þvert á stærstu gallgangana.

Þindin er skoðuð beggja vegna og eitlar skornir (lgll. mediastinales).

Miltið er skoðað og þuklað, og lagðar i það tvær lengdarristur.

Vömb, magar og þarmar eru skoðaðir. Ekki þykir ástæða til að opna meltingarveginn, nema grunur sé vakinn um sjúklegar breytingar.

Netjan og hengið er skoðað og rist í eitla (lgll. mesentericae).

Legið er athugað og þuklað og leghornin opnuð, ef vakinn er grunur um sjúklegar breytingar. Sama máli gegnir um þvagblöðru.

Nýrun eru skoðuð, nýrnahjúpur tekinn af, og ef ástæða þykir til, eru nýrun opnuð með djúpri ristu.

Nýrnahetturnar eru skoðaðar og skurður lagður í þær.

Júgrið er skoðað og þuklað, djúp rista lögð í hvorn júgurhelming. Júgureitlar (lgll. inguinales superficiales) ristir sundur.

Getnaðarlimur og eistu skoðuð og þukluð.

Þegar innyflin hafa verið skoðuð, er skrokkurinn sjálfur skoðaður, vöðvar, fitulög, bein og liðir. Leitað er eftir bólgu í liðum, sárum, marblettum og blæðingum.

Brjósthimna og lífhimna eru skoðaðar, og rist er í lgll. inguinales profundac.

6. gr.

Kálfar. Skoðun fer fram með svipuðum hætti og á fullorðnum nautgripum. Þegar um smákálfa er að ræða, má sleppa ristum i tyggivöðva. Hnífristur í kverkeitla skal aðeins gera, ef ástæða er til. Gætt skal vandlega að því, hvort um sé að ræða

bólgu við naflastreng, stækkun á milti, lífhimnubólgu, liðabólgur, þarmabólgu, gulu, lungnabólgu, smáþarmabólgu eða sepsis og lélega blóðtæmingu úr skrokknum.

7. gr.

Hross. Skoðun fer eftir sömu reglum og nautgripaskoðun, þó er ekki leitað eftir sullum í tyggivöðvum. Athuga ber sérstaklega: Ef hrossið er grátt eða hvítt, eða ef dökkur litur sést í vegg æða í grindar- og kviðarholi, skal hefja leit að blekæxlum (melanosarkom). Bógar eru skornir frá, því oft er æxlið að finna í vöðvum undir herðablaðinu ofanvert.

Gæta skal að meltingarfærum, sérstaklega vegna kveisueinkenna, óeðlilegrar blóðfylli, dreps, magarifu eða æðatappa. Lífhimnu skal athuga vel, og hvort annarlegur þefur sé í kviðarholi, hvort meðalalykt finnist af kjötinu og hvort sjáanlegar séu blæðingar í bóg og lendavöðvum, sem merki þess, að hrossið hafi hent sér niður og velt sér.

Enn fremur skal aðgætt, hvort æxlismyndanir finnist á getnaðarlim og lgll. inguinales profundae eða ígerðir á geldingarstað.

Við skoðun á folöldum og tryppum skal sérstaklega aðgætt, hvort vöðvar á ganglimum séu bólgnir vegna ofreynslu, og aðgæta ormalirfur í fitu í kviðarholi.

8. gr.

Sauðfé og geitfé. Í stórum dráttum er farið eftir sömu reglum og við skoðun nautgripa. Þó skal eftirfarandi gætt:

1. Vömb ásamt vélinda, mögum og þörmum er skoðuð. Milti skoðað.

2. Mjógarnir eru breiddar út og hengi og hengiseitlar skoðaðir. Ef taka á sýni til skoðunar vegna garnaveiki, er það tekið aftast úr mjógörn framan við langa.

3. Netja er skoðuð, einkum með tilliti til sulla.

4. Lifur er þukluð og skoðuð frá báðum hliðum.

5. Lungu og hjarta eru skoðuð og þukluð.

6. Skrokkurinn er skoðaður að utan og gát höfð á óhreinindum, sárum og marblettum liðabólgum, beinkröm og grófum fláningsgöllum.

7. Gáð er að óhreinindum i grindarholi, kviðar- og brjóstholi, smáblæðingum undir lífhimnu, rifbrotum, lífhimnu- og brjósthimnubólgu.

8. Nýrun eru þukluð, fylgi þau skrokknum.

9. Þukla skal læreitil (lgl. subiliaca), júgureitla (lgll. inguinales superficiales) og hnésbótareitil (lgl. poplitea). Síðan skal þukla bógeitilinn (lgl. cervicalis superficialis), og um leið er athugað, hvort óhreinindi og hár sé að finna framan við bóga og á hálsi.

Varðandi skoðun sauðfjár skal taka fram eftirfarandi um einstaka sjúkdóma:

Bráðapest. Það ber eigi sjaldan við, að bráðapestar verði vart í dilkum, sem bíða slátrunar. Ber þá við, að þessar kindur komi til slátrunar.

Sé bráðapest á háu stigi, leggur megnan, sérkennilegan óþef af innyflum og skrokk. Rauðir og rauðbláir flekkir sjást utan á vinstur, og sé vinstrin opnuð, er gorið oft blóðlitað og blóðug slímhúðarsár sjást einkum á vinstrarfellingum. Oft sést útbreidd lífhimnuhólga með þrútnum háræðum og fíbrínskánum. Allur er skrokkurinn með sérkennilegum, brúnbláum litblæ.

Gula getur leynzt, ef ekki er skoðað við dagsbirtu, en oft sjást þá samtímis sjúklegar breytingar á lifur. Gulur litur á fitu sést af og til á heilbrigðum dilkum og er bundinn við ætterni.

Lungnakvillar af ýmsu tagi eru algengir, mest ber á langvinnri ormalungnabólgu, lungnapest og ákafri lungnabólgu í framblöðum. Þessum sjúkdómum fylgja iðulega ígerðir og samgróningar milli lungna og brjóstveggs.

Sullir. Kjötskoðunarlækni ber að hafa gát á því, að sullir séu jafnóðum teknir frá, látnir í sérstök ílát og brenndir. Enn fremur að hundum sé meinaður aðgangur að sláturhúsum og úrgangi þaðan.

Nú eru sullir horfnir að mestu nema netjusullur, sem enn er algengur.

Lífhimnubólgur eru ekki fágætar, oft afleiðingar erfiðra fæðinga og legbólgu í því sambandi. Stöku sinnum kemur fyrir þykknun í lífhimnu og þrengsli í mjógörn með stíflu, uppdrætti og megurð.

Hundsbit á hæklum og lærum eru tíð, stundum eru sárin mikið spillt. Liðabólgur, beinbrot, marblettir, sár eftir gaddavír eru algeng fyrirbæri.

Kýlapest kemur fram sem sérkennilegar ígerðir, einkum í eitlum f kverk og á hálsi.

Harðsperra sést oftast eftir erfiðan rekstur, einkum á vænum dilkum. Eru þá vöðvar á bringu og undir bógblöðum áberandi bólgnir.

Í nýrum eru sjúklegar breytingar af ýmsu tagi ekki óalgengar.

Garnavei'ki gerir nær eingöngu vart við sig í fé, sem er tvævetur og eldra. Mjógörnin aftantil er þykknuð, slímhúðarfellingar i henni áberandi, görnin rekst illa. Hengiseitlar stækkaðir og vessaæðar í hengi áberandi.

Bólusetning er notuð i sumum landshlutum til varnar garnaveiki. Þessi bólusetning skilur nær alltaf eftir sig merki, er þó hverfa smám saman er frá líður. Venjulega er bólusett innanvert á læri, stundum á miðja síðu aftan við bógblað. Á bólusetningarstað koma langvinnar ostkenndar ígerðir, síðan bandvefsþykknun. Ostkenndar bólgur er oft að finna í tilheyrandi sogæðaeitlum á afturfæti, lgl. poplitea, lgl. subiliacae, lgl. inguinalis superficialis og lgl. iliosacralis. Skera verður inn á þessa eitla, ef bólusett hefur verið á læri. Sé bólusett á síðu, geta skemmdir fundizt í lgl. cervicalis superficialis, lgl. axillaris propriae og e. t. v. í lgl. sternalis.

9. gr.

Svín. Við heilbrigðisskoðun á svínum skal gæta eftirfarandi:

1. Magi, þarmar, netja og hengi eru athuguð og rist f hengiseitla.

2. Milti skal þuklað.

3. Lifur er skoðuð og rist í lifrareitla.

4. Lungu skulu skoðuð og þukluð og rist í þau og lungnaeitla, ef ástæða þykir til.

5. Hjarta og gollurshús skoðað og hjartahólf opnuð, ef ástæða þykir til. 6. Nýru skal skoða og taka af nýrnahjúpinn.

7. Leg og þvagblaðra eru þukluð, en ekki er rist í þessi líffæri nema ástæða sé til.

8. Haus. Rist er í kjálkaeitla (lgl. submandibularis et subparotidea) og aðgætt, hvort merki sjáist um snúðtrýni.

9. Skrokkur. Húð, kjöt, fita, bein og liðamót skoðuð ásamt brjóst- og lífhimnu. Á gyltum er júgrið þuklað vandlega, og rista skal í það, ef ástæða er til. Júgureitlar (lgll. inguinales superificiales) skoðaðir og rist f þá ásamt lgll. inguinales profundae. Á karldýrum skal þukla geldingarstað vandlega og þess gætt, hvort "galtarlykt" sé af kjötinu, ef um nýlega gelt eða ógelt dýr er að ræða. Rista skal í hálseitla (lgll. cervicales superficiales), ef sjúklegar breytingar er að finna á haus. Gát skal hafa á sárum á rófu og kanna vel eitla í grindarholi og undir hrygg og kljúfa hrygg að endilöngu. ef rófusár finnast.

Við skoðun á svínum skal hafa í huga sjúklegar breytingar af völdum berkla. Finnist berklahnútar, skal kljúfa skrokkinn að endilöngu, skoða vandlega hryggjarliði og mænu og rista eitla i þunnar sneiðar.

Tríkínuskoðun skal fyrst og fremst gera á fullorðnum svínum. Sýni eru tekin úr þindarálmunum sem næst sininni eða af þindarvöðvunum þar sem þeir festast við rifbeinin. Kjötbitar eru skornir úr vöðvunum á þessum stöðum. Af þessum bitum eru síðan klipptir 14 smábitar á stærð við hrísgrjón úr hverju dýri og flattir út milli tveggja glerplatna af sérstakri gerð og síðan skoðaðir vandlega i smásjá eða trikinoskópi.

Skoðun á skepnum, sem lóga verður vegna sjúkdóma eða slysa.

10. gr.

Þar sem ítarleg skoðun er nauðsynleg, skal kjötskoðunarlæknir láta kljúfa skrokkinn að endilöngu eftir miðjum hrygg. Þetta skal ávallt gera, ef grunur er um blekæxli (melanosarkom), hrossasótt, berkla, sulli í kjöti, ígerðir eða kýli, megurð, beinkröm og sjúklegar breytingar, sem ætla má, að meinvörp eða dreifing á smiti með blóðinu hafi fylgt. Sama máli gegnir, ef ætla má, að orsakir sjúkdómseinkenna sé að finna í miðtaugakerfi.

Afurðum af skepnum, sem slátrað er vegna sjúkdóms eða slysfara, skal fylgja greinargerð dýralæknis, eiganda eða umráðamanns um það með hvaða hætti slysið varð, lyfjanotkun o. fl.

Við skoðun á slíkum afurðum verður kjötskoðunarlæknir að vera á verði um það, að þær séu ekki af sjálfdauðum skepnum.

Óleyfilegt er að selja eða afhenda afurðir af sjálfdauðum skepnum til manneldis í hvaða mynd sem er.

Á sjálfdauðum skepnum eru allar æðar blóðfylltar, fituvefur allur með rauðbrúnum blæ, vöðvar dökkir á lit, og oft sjást útsvitanir af blóðvara á milli þeirra. Ítarleg skoðun verður þá að fara fram með ristu í eitla, vöðva og fituvef, kljúfa skrokkinn að endilöngu eftir hrygg o. s. frv. Sjálfdauðar skepnur má ekki flytja inn í sláturhús né á lóð þess.

Þegar um aðflutt kjöt er að ræða af skepnum, sem farga hefur þurft vegna slysa eða sjúkdóms, skulu öll innyfli fylgja skrokknum greinilega merkt. Sláturafurðir, sem reynast spilltar eða sýktar svo óhæfar eru til manneldis eftir úrskurði kjötskoðunarlæknis, skulu þegar í stað auðkenndar og eytt á þann hátt, að tryggt sé, að þær verði ekki nýttar eða hætta geti stafað af þeim. Ef þörf krefur, skal hella yfir þær sterkt lyktandi efnum, t. d. kreolinblöndu 5%.

Val og sending sýna til sýklarannsóknar.

11. gr.

1. Til þess að gera kjötskoðun tryggari og ítarlegri er oft nauðsynlegt að grípa til sýklarannsóknar, svo úr því fáist skorið, hvort kjötið er hæft til manneldis.

2. Þar sem ekki er aðstaða eða útbúnaður til sýklaskoðunar við sláturhús, verður að velja sýnishorn til sendingar á rannsóknarstofu þannig:

a. Óskert milti og óskert nýra.

b. Hluta af lifur með eitlum og helzt gallblöðru.

c. Tvo kjöteitla.

d. Vöðvapart (ca. 250 gr.) með vöðvahimnum af ganglim. Af svíni er sendur hluti af framfæti.

e. Ef um líffærasjúkdóm er að ræða, skal senda álitlegan hluta hins sjúka líffæris ásamt tilheyrandi eitlum óskertum.

3. Sýni skal taka með sótthreinsuðum áhöldum svo fljótt sem auðið er. Skal kæla þau áður en búið er um þau i hreinum pappír, svo miklum að ekki sé hætta á leka. Forðast skal að setja sýni í loftþéttar umbúðir.

4. Allar sendingar skal merkja greinilega og láta fylgja sem fyllstar upplýsingar um sjúkdóminn og sjúklegar breytingar.

5. Hraða skal sendingu sem kostur er.

Að lokinni sýklarannsókn skal kjötskoðunarlæknir skoða afurðirnar á nýjan leik með hliðsjón af niðurstöðum sýklarannsóknar.

Heilbrigðisflokkun og merking á sláturafurðum.

12. gr.

Sláturafurðir skulu dæmdar á þrennan hátt, eftir heilbrigði, útliti, hreinlegri meðferð og gæðum.

1. Sláturafurðir, sem eru óaðfinnanlegar með öllu og skilyrðislaust hæfar til manneldis.

2. Sláturafurðir, sem hæfar eru til manneldis vel soðnar eða vel steiktar. Sláturafurðir af þessu tagi má ekki nota til vinnslu á neinn hátt né heldur til útflutnings.

3. Sláturafurðir, sem eru dæmdar óhæfar til manneldis vegna sjúklegra breytinga, mengunar, skemmda, óhreininda eða af öðrum ástæðum. Getur hér verið um allar afurðir af sláturgripnum að ræða eða hluta af þeim, ef sjúklegar breytingar eru staðbundnar og hafa ekki haft áhrif á almenna heilbrigði gripsins.

13. gr.

Við heilbrigðisskoðun skulu afurðir stimplaðar og merktar, sem hér segir:

1. Afurðir, sem skilyrðislaust eru hæfar til manneldis, skulu merktar með jafnarma þríhyrndum stimpli og tölunni 1 innan í þríhyrningnum. Landbúnaðarráðherra getur ákveðið að breyta til um merkingu á afurðum þessa flokks, ef um útflutning er að ræða eða önnur ástæða þykir til.

2. Sláturafurðir, sem dæmdar eru hæfar til manneldis vel soðnar eða vel steiktar, skal merkja með jafnarma þríhyrndum stimpli og tölunni 2 innan í þríhyrningnum.

3. Sláturafurðir, sem dæmdar eru óhæfar til manneldis skulu merktar mjög áberandi með ferhyrndum stimpli og orðinu "sjúkt" innan í ferhyrningnum. Kjötskoðunarlæknir skal hlutast til um að afurðir, sem þannig eru dæmdar og merktar, séu fjarlægðar úr sláturhúsi og eytt jafnskjótt og auðið er.

Löggildingarnúmer sláturhúss skal koma fram í stimplum, sem þar eru notaðir. Óheimilt er að merkja sláturafurðir með öðrum stimplum en þeim, sem kjötskoðunarlæknir notar. Gæta skal kjötstimpla vandlega, svo misnotkun þeirra geti ekki átt sér stað.

Yfirdýralæknir skal gefa fyrirmæli um stærð og gerð kjötstimpla og tegund og gerð lita, sem nota skal við stimpilmerkingar. Hann skal enn fremur gefa fyrirmæli um, hvar og hvernig stimpla skuli skrokka og slátur o. s. frv.

Merkimiða skal binda með sterku garni á hvern skrokk eða hluta af skrokk. Skal númer sláturhúss og nafn kjötskoðunarlæknis ritað eða stimplað á miðann til sönnunar því, að heilbrigðisskoðun hafi verið fullnægt. Í umbúðir pakkaðrar sláturvöru skulu lagðir miðar, sem á sama hátt gefa til kynna heilbrigðisskoðun og númer sláturhúss. Ef afurðir eru ætlaðar til útflutnings getur landbúnaðarráðherra ákveðið sérstakar merkingar á miða þessa.

FLOKKUN SJÚKDÓMA.

Illkynja smitsjúkdómar.

14. gr.

Allar afurðir af gripum höldnum neðangreindum sjúkdómum skulu dæmdar óhæfar

1. Hundaæði (Rabies).

2. Miltisbruni (Antrax).

3. Snífi (Malleus humidus et farciminosus).

4. Illkynjuð lungnabólga i hrossum (Pleuropneumonia contagiosa equorum).

5. Illkynjuð lungnabólga í nautgripum (Pleuropneumonia contagiosa bovum).

6. Nautgripapest (Pestis bovina).

7. Gin- og klaufaveiki (Aphtae Epizooticae).

8. Fjárbóla (Variola ovina).

9. Illkynjuð klaufaveiki i sauðfé (Paramychia contagiosa ovinum).

10. Svínapest (Pestis suum).

11. Smitandi blóðleysi f hrossum (Anemia infectiosa equorum).

12. Smitandi sogæðabólga í hrossum (Blastomycosis).

13. Illkynjuð stóðhestapest (Dourine, Trypanosomiasis equiperda).

14. Aðrir illkynja smitsjúkdómar, t. d. afríkönsk svínapest (Pestis suum africana), hrossapest (Pestis equorum), blátunga (Febris catarrhalis ovium), agalactia contagiosa, o. s. frv.

15. Verði vart einhvers framangreinds sjúkdóms við heilbrigðisskoðun á sláturafurðum, ber dýralækni að tilkynna það yfirdýralækni án tafar og gera þegar í stað bráðabirgðaráðstafanir til að hindra smitdreifingu og eyða öllum afurðum af sjúkum dýrum.

Aðrir smitsjúkdómar.

15. gr.

1. Rauðsýki: Afurðir óhæfar sé um bráða rauðsýki að ræða. Ef aðeins er um að ræða einstaka húðflekki eða staðnaða liðabólgu og engan sótthita: 1. eða 2. flokkur að fráskildum sjúkum hlutum eða líffærum og að undangenginni sýklarannsókn.

2. Salmonellasýki: Óhæft.

3. Inflúenza í hrossum (Catarrhal influenza) : Óhæft.

4. Illkynjuð slímhúðarbólga í nautgripum: Óhæft.

5. Pestbjúgur (Oedema malignes) : Óhæft.

6. Bráðapest (Gastromycosis ovis) : Óhæft.

7. Rotbjúgur (Gangrena emphysematosa) : Óhæft.

8. Lungnapest (Pasteurellosis) : Óhæft.

9. Pyæmia og septicemia: Óhæft.

10. Hníslasótt (Coccidiosis) : Óhæft, ef um ákafa hníslasótt er er að ræða, annars 1. eða 2. fl.

11. Bólgur í görnum ungdýra (kálfa) : Óhæft.

12. Stífkrampi (Tetanus) : Óhæft.

13. Ákafar bólgur á naflastað: Óhæft.

14.Aktinomycosis, Botrymycosis: Óhæft, ef sjúkdómurinn hefur valdið megurð og meinvörpum. Annars 1. fl. eða 2. fl. Sjúk líffæri og eitlar óhæft.

15. Mæðiveiki: Óhæft, sé veikin á háu stigi og hafi valdið hor og vanþrifum. Annars 1. fl. eða 2. fl. Lungu og lifur: Óhæf.

16. Garnaveiki (Paratuberculosis) : Óhæft, ef hor fylgir, annars 1. eða 2. fl. Lifur, garnir og mör óhæfur.

17. Berklaveiki (Tuberculosis) : Óhæft, nema veikin sé mjög takmörkuð og stöðnuð, þá 1. eða 2. fl. Sjúk líffæri og eitlar óhæfir.

18. Hitasótt: Óhæft.

19. Blóðmiga í nautgripum: Óhæft.

Æxli og æxlissjúkdómar.

16. gr.

1. Góðkynjuð æxli (Tumores benignae) : 1. fl. Líffæri eða líkamshlutar, þar sem æxlið finnst, óhæft.

2. Myksofibrom, Neurofibrom. Óhæft, sé útbreiðsla æxlanna mikil. 1. eða 2. fl. sé um afmarkað æxli að ræða og holdafar sæmilegt.

3. Melanosarkom: 1. fl., þegar um lítið afmarkað æxli er að ræða. Óhæft, þegar æxlismyndanir eru miklar eða meinvörp.

4. Illkynjuð æxli (Carcinoma, sarcoma o. s. frv.) : Óhæft, ef æxlismyndun er útbreidd með meinvörpum og hor. 1. eða 2. fl., ef æxlin eru lítil og afmörkuð og engin meinvörp nema til eitla sjálfs líffærisins.

5. Leucosis: Óhæft.

Efnaröskunar-, hörgul og eitrunarsjúkdómar.

17. gr.

1. Anæmi með hor: Óhæft.

2. Hydræmi: Óhæft, þegar hor fylgir með vökva í brjóst- og kviðarholi.

3. Acetonæmi í nautgripum og puerperal hæmoglobinuria: Óhæft.

4. Hæmoglobinuria i hrossum: Óhæft.

5. Doði: Óhæft.

6. Krampadoði (Eklampsia) : Óhæft.

7. Uræmi: Óhæft.

8. Ikterus: 1. fl., þegar gulan er staðbundin við lifur. Lifrin óhæf. Standi gulan í sambandi við smitsjúkdóm, eitrun eða langvinna sjúkdóma í lifur, svo um almenna gulu sé að ræða: Óhæft.

9. Melanosis i kálfum: Óhæft, ef útbreiðsla er mikil. Sé útbreiðsla afmörkuð og umfangslítil: 1. eða 2. fl. og hið litaða óhæft.

10. Acut tympanitis: Óhæft, hafi skepnan verið veik nokkurn tíma. 2. fl., ef skepnunni er lógað i byrjun veikinnar, og skrokkur og líffæri laus við óþef. 11. Rachitis, osteodystrofi og osteomalacia: 1. eða 2. fl., ef hold eru sæmileg, annars óhæft.

12. Bráðar eitranir: Óhæft.

13. Langvinnar eitranir, sem haft hafa í för með sér sjúklegar breytingar: Óhæft.

Óeðlileg lykt, bragð, litur.

18. gr.

1. Sláturafurðir með óþef eða óbragði af völdum sjúkdóms: Óhæft.

2. Sláturafurðir með óþef eða óbragði vegna fóðrunar með fiskimjöli, vissum káltegundum o. s. frv. Sé gallinn lítið áberandi og hverfi innan sólarhrings: 1. eða 2. fl. Annars óhæft.

3. Sláturafurðir með óþef eða óbragði vegna lyfjanotkunar: Óhæft.

4. Sláturafurðir af geithöfrum, hrútum og göltum, sem við loðir óþefur eða keimur: 2. fl. og kjöt og líffæri skal merkja tegundarheiti.

5. Fóstur fullburða: Óhæft.

6. Sláturafurðir af gripum, sem dældir hafa verið í hold, æð eða verið gefið inn lyf, er stöðvar sýklavöxt (fúkalyf eða kemotherapeutika): Óhæft, ef liðnir eru minna en 6 sólarhringar frá síðustu inngjöf, annars 1. fl. Í vafaatriðum má senda sýni (nýru) til rannsóknar.

Sjúkdómar í hjarta og æðakerfi.

19. gr.

1. Áköf bólga í gollurshúsi af völdum smits : Óhæft.

2. Langvinn bólga í gollurshúsi: 1. eða 2. fl., enda sé gripurinn i góðum holdum, laus við sótthita og blóðrásartruflanir.

3. Gollurshúsbólga í nautgripum og sauðfé af völdum aðskotahluta: Óhæft ef um hitasótt og blóðrásartruflanir er að ræða, annars 1. fl. að lokinni sýklarannsókn.

4. Langvinn afmörkuð gollurshúsbólga: 1. eða 2. fl., enda sé gripurinn í góðum holdum og blóðrásartruflanir engar.

5. Ulcerös endocarditis: Óhæft.

6. Verrucös endocarditis: Óhæft (sjá þó rauðsýki).

7. Hjartasjúkdómar, sem smitefni valda ekki (vansköpun o. þ. h.) : 1. eða 2. fl., en hlutar af skrokk og líffæri óhæf, sé um blóðrásartruflanir að ræða.

8. Trombosis af völdum orma: 1. eða 2. fl. Óhæft, ef blóðrásartruflanir í kviðarholsæðum eða bólgur fylgja.

Sjúkdómar í öndunarfærum.

20. gr.

1. Sinuitis: Óhæft, ef sótthiti fylgir, annars 1. eða 2. fl. Haus: Óhæfur.

2. Snúðtrýni: 1. fl., enda sé gripurinn í sæmilegum holdum og ekki um aðra sjúkdóma að ræða. Haus ásamt eitlum óhæfur.

3. Kronisk katarrhalsk eða purulent bronchopneumonia: Óhæft, ef hor fylgir sjúkdóminum. Annars 1. fl. að lokinni sýklarannsókn. Lungu óhæf.

4. Pleuropneumonia í svínum: Óhæft. Sé um gamlar, afmarkaðar og staðnaðar bólgur að ræða, hold sæmileg og meinvörp engin: 2. fl. Lungu óhæf.

5. Gamlar ígerðir eða drephnútar, staðnaðir: 1. fl., enda sé holdafar gott og meinvörp engin.

6. Áköf lungnabólga: Óhæft.

7. Berkjubólga: 1. fl. Lungu óhæf.

8. Atelektasis, emfysem, blæðingar, aspirerað blóð o. s. frv.: 1. fl. Lungu óhæf.

Sjúkdómar í brjósthimnu.

21. gr.

1. Brjósthimnubólga: Dæmist eftir sjúkdómi þeim, sem hún stafar af.

2. Diffus serofibrinös, suppurativ ikorös brjósthimnubólga: Óhæft.

3. Samgróningur og óhrein brjósthimna vegna bandvefsmyndana: 1. fl. Lungu óhæf.

4. Vökvi í brjóstholi: 2. fl., ef holdafar er gott og enginn bjúgur. Annars óhæft.

Sjúkdómar í meltingarfærum.

22. gr.

1. Maga- og garnakvef i fullorðnum skepnum: 1. fl., ef skepnan er hitalaus og engar sjúklegar breytingar sjáanlegar annars staðar nema smávægilegur þroti í hengiseitlum. Sýklarannsókn í vafatilfellum. Óhæft, ef hitasótt fylgir og mikil bólga er í þörmum, milti og lifur.

2. Langvinnt maga- og garnakvef : 1. eða 2. fl., ef holdafar er sæmilegt. Óhæft, sé skrokkurinn daunillur og horaður.

3. Septisk, krupös og hæmorrhagisk garnabólga: Óhæft.

4. Kveisa og vægar stíflur í hrossum, þar sem ekki er um lífhimnubólgur að ræða: 1. fl., annars óhæft.

5. Þemba, vindkveisa, garnaflækja, rifinn magi: Óhæft.

6. Loftmyndun i hengiseitlum á svínum (mesenterialemfysem) : 1. fl. Hengi og garnir óhæft.

Sjúkdómar í lífhimnu.

23. gr.

1. Áköf eða útbreidd lífhimnubólga: Óhæft.

2. Vel afmörkuð fibrinös lífhimnubólga: 1. fl. að lokinni sýklarannsókn.

3. Bandvefsmyndanir og samgróningar í lifhimnu og afmarkaðar gamlar ígerðir: 1. fl. Hið sjúka óhæft og numið burt.

4. Vökvasafn í kviðarholi: 2. fl., ef holdafar er gott en enginn bjúgur. Annars óhæft.

Sjúkdómar í lifur.

24. gr.

1. Angioma, blöðrumyndanir, gallsteinar: 1. fl. Hluti af lifur eða lifrin öll óhæf. 2. Fituinfiltration: 1. fl. Lifur óhæf, ef mikil brögð eru að.

3. Útbreiddar lifrarskemmdir (degeneration) : Óhæft (sjá smitsjúkdóma og eitranir ) .

4. Lifrarbólgur : Óhæft, ef um ákafar og útbreiddar bólgur er að ræða af völdum smitefna, eitrunar eða sníkjudýra. Sama máli gegnir um langvinnar lifrarbólgur, ef þeim fylgir hor, blóðrásartruflanir,gula eða óþefur. Langvinn lifrarbólga, án blóðrásartruflana og megurðar: 1. fl. Lifrin óhæf.

5. Hnútar í lifur af völdum sníkjudýra: 1. fl. Lifur óhæf.

6. Drephnútar eða ígerðir í lifur af völdum sýkla: Óhæft, ef um útbreidda og bráða skemmd er að ræða. Gamlar, staðnaðar skemmdir: 1. eða 2. fl. Lifur óhæf.

7. Drephnútar í lifur af völdum salmonellasýkla í kálfum: Óhæft.

Sjúkdómar í þvagfærum.

25. gr.

1. Nýrnasteinar, blöðrumyndanir eða litarefni í nýrum: 1. fl. Nýrun óhæf.

2. Bólga í nýrum: Óhæft, ef um hor og þvaglykt er að ræða. Langvinn bólga f nýrum, þar sem holdafar er gott og engin merki um ófullkomna nýrnastarfsemi: 1, fl. Nýrun óhæf.

3. Áköf nýrnabólga af völdum sýkla: Óhæft.

4. Blöðrubólga: Óhæft, ef hitasótt og þvaglykt fylgir, annars 1. eða 2. fl.

5. Sprungin þvagblaðra eða þvagrás: Óhæft, ef lífhimnubólga og þvaglykt fylgir.

Sjúkdómar í júgri og getnaðarfærum.

26. gr.

1. Áköf legbólga, hér með talin rotnandi fóstur i legi: Óhæft.

2. Langvinn legbólga með graftarhroða í legi: Óhæft, ef hor fylgir eða hitasótt. Annars 2. fl. að undangenginni sýklarannsókn.

3. Innþornuð fóstur í legi án útferðar: 1. fl. 4. Fastar hildir: Óhæft.

5. Brucellosis: 1. fl. Kynfæri og eitlar þeirra ásamt júgri: Óhæft.

6. Distokia og fæðingarhjálp ólokið. óhæft, ef legbólga fylgir eða rotið fóstur. Annars 2. fl. að undangenginni sýklarannsókn.

7. Úthverft leg, rifið leg, snúið leg: Óhæft, ef hitasótt og lífhimnubólga fylgir. Annars 2. fl. að undangenginni sýklarannsókn.

8. Vökvasöfnun í legi: Óhæft, fylgi hor og blóðrásartruflanir. Annars 1. fl.

9. Septisk eða gangrænös júgurbólga: Óhæft. Sama máli gegnir um júgurbólgu, valdi hún hitasótt, hor eða spilltum líffærum.

10. Langvinn júgurbólga, sem ekki fylgir hitasótt eða almenn vanlíðan: 1. fl. Júgur og júgureitlar óhæfir.

11. Gamlir, inniluktir, staðnaðir drephnútar eða ígerðir í júgri: 1. fl. Júgur og júgureitlar óhæfir.

12. Litarmyndun (pigmentation) í júgri á gyltum: 1. fl. Júgur og júgureitlar óhæfir.

Sjúkdómar í beinum, liðum og sinaslíðrum.

27. gr.

1. Beinbrot:

a) sóttmenguð brot: Óhæft.

b) ósóttmenguð, ný eða gróin brot: 1. fl.

Allt marið og spillt kjöt umhverfis brotið og tilheyrandi eitlar skornir frá.

2. Ígerðir í beinum og beinmerg             (osteomyelitis) : Óhæft, ef meinvörp, hitasótt eða vanlíðan fylgir. 1. fl, sé um staðnaða skemmd og staðbundna að ræða, sem ekki veldur hitasótt, enda sé sýklarannsókn neikvæð. Hið skemmda skorið burt.

3. Liðabólgur:

a) ósóttmenguð liðabólga, langvinn eða bráð: 1. fl. Liður og tilheyrandi eitlar: Óhæft.

b) sóttmenguð liðabólga (fibrinös, purulent)

1. Í tveim eða fleiri liðum: Óhæft.

2. Bólga í einum lið hjá ungdýrum: Óhæft.

3. Bólga í einum lið hjá fullorðnum dýrum: Óhæft, ef hitasótt og vanlíðan fylgir, annars 1. fl. að undangenginni sýklarannsókn.

4. Langvinn liðabólga í svínum og sauðfé sjá rauðsýki (15. gr.).

5. Bólgur i sinaslíðrum dæmast á sama hátt og liðabólgur.

Sjúkdómar í vöðvum.

28. gr.

1. Kalkútfellingar í vöðvum: 1. fl. Hið skemmda skorið frá: Óhæft.

2. Vöðvadegeneration: Óhæft, þegar margir vöðvar eru spilltir eða ef hitasótt fylgir. Ef aðeins einstöku vöðvar eru spilltir: 1. fl. Spilltir vöðvar óhæfir.

3. Blæðingar í vöðvum: 1. fl. Hið skemmda skorið frá, sé um verulegar blæðingar að ræða.

Sjúkdómar í húð m. m.

29. gr.

1. Sár, marblettir og ígerðir:

a) Ný eða gróandi sár, marblettir: 1. fl. Skemmdir skornar frá.

b) Sóttmenguð sár eða ígerðir: Óhæft, ef hitasótt eða blóðeitrun fylgir. Annars 1. fl. að undangenginni sýklarannsókn.

2. Brunasár: Óhæft, ef hitasótt, bjúgur, spillt líffæri, berkju- eða lungnabólga fylgir eða ef reyklykt er af kjötinu. Annars 1. fl. að undangenginni sýklarannsókn.

3. Eksem og langvinn húðbólga í svínum: 1. fl., sé kvillinn á afmörkuðum svæðum og holdafar gott. Skemmdir og e. t. v. eitlar fjarlægðir. 2. fl., ef mikil brögð eru að húðskemmdum. Ef húðkvillinn hefur valdið hor og vanþrifum: Óhæft.

4. Húðbólgur af völdum sólarljóss, kals og kemiskra efna: 1. fl., ef ekki fylgir hitasótt. Skemmdir ásamt eitlum skornar burt.

5. Sarkopteskláði á svínum: Óhæft, ef útbreiðsla er mikil og hor fylgir. Annars 1. fl. Skemmdir, haus og lappir óhæft.

6. Psorópteskláði í sauðfé: Óhæft, ef veikin er á háu stigi og henni fylgir hor. Annars 1. fl.

7. Hringskyrfi: 1. fl. Húð, haus og lappir óhæft.

8. Mein og ígerðir eftir garnaveikibólusetningu: 1. fl., ef bólgan er afmörkuð og stöðnuð. Óhæft, ef hiti og hor fylgir. Hið skemmda og tilheyrandi eitlar numdir brott.

30. gr.

1. Cysticercus bovis: Óhæft.

2. Cysticercus cellulosae: Óhæft.

3. Trichinella spiralis: Óhæft.

4. Echinococcus sullir: 2. fl. Sollin líffæri: Óhæf og skulu brennd.

5. Höfuðsóttarsullur (Coenurus cerebralis) : 1. fl., ef holdafar er gott, annars óhæft. Haus óhæfur, skal brenndur.

6. Netjusullir (Cysticercus tenuicollis) : 1. fl., ef fáir sullir eru í kviðarholi. Óhæft, ef margir sullir finnast eða hor fylgir. Sullir skulu brenndir.

7. Lungna- og iðraormar: Óhæft, ef blóðleysi og hor fylgir. Annars 1. fl. Sjúk líffæri óhæf.

8. Sarkosporidia: Óhæft, ef sníklar þessir finnast um allan skrokkinn. Annars 1. fl., ef sníklar eru á fáum stöðum.

9. Hnútar af völdum sníkjudýra í görnum: 1. fl. Garnir óhæfar.

10. Lirfur og ormar i kviðarholi: 1. fl. Fituvefur í kviðarholi óhæfur.

Slasaðar og sjálfdauðar skepnur.

31. gr.

1. Sláturafurðir af skepnum, sem slátrað er vegna sjúkdóms eða slysfara og blætt hefur úr, skal dæma samkvæmt framangreindum reglum, ef sláturafurðir eru vel verkaðar og líta vel út. Að öðrum kosti óhæft.

2. Sláturafurðir af skepnum, sem drepast af völdum sjúkdóma eða slysa: Óhæft.

Sláturafurðir, er spillzt hafa eftir slátrun.

32. gr.

1. Útblásið kjöt eða útblásin lungu: Óhæft.

2. Óhreinkaðar sláturafurðir: 2. fl. eftir að möguleg hreinsun hefur farið fram. Óhæft, ef mjög mikil brögð eru að.

3. Skemmt kjöt, lágnað kjöt: Óhæft. Súrt og slepjað kjöt: Óhæft. Myglað kjöt: Séu myglublettir aðeins á yfirborði og auðvelt er að skera þá af : 2. fl. Annars óhæft.

4. Lýsandi kjöt: 2. fl., þegar um smábletti er að ræða, sem auðvelt er að skera af. Annars óhæft. Sama máli gegnir um rauðdílótt kjöt.

5. Kjöt með víum: 2. fl., ef tekst að hreinsa kjötið algjörlega. Annars óhæft.

6. Geymslugallar. Sláturafurðir, sem hafa þornað, þránað eða skrælnað við langa íshúsgeymslu: Óhæft. Afurðir, sem mengast hafa af kælivökva eða spillzt á annan svipaðan hátt: Óhæft, ef mikil brögð eru að, annars 1. eða 2. fl.

Eyðing á sláturafurðum, sem dæmdar eru óhæfar og auðkenning á afurðum ætlaðar dýrum.

33. gr.

1. Sláturafurðir, sem hlotið hafa þann dóm að vera óhæfar til manneldis, skal auðkenna greinilega með stimplinum "sjúkt". Dýralæknir eða trúnaðarmaður hans skal hlutast til um, að slíkar afurðir séu geymdar undir lás, unz þeim er eytt á tryggilegan hátt, annað hvort brenndar, grafnar eða soðnar og malaðar til skepnufóðurs. Til frekari tryggingar má hella yfir afurðir af þessu tagi kreolin upplausn 5%, svo engin hætta sé á, að þær verði nýttar til manneldis.

2. Sláturafurðir, sem ætlaðar eru sem dýrafóður, skulu auðkenndar með orðinu "dýrafóður" á umbúðirnar, er skulu vera hreinlegar, þéttar og vandaðar.

II. KAFLI .

Endurskoðun á sláturafurðum.

34. gr.

Þar sem endurskoðun á sláturafurðum er fyrirskipuð, sbr. 12. gr. laga um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum nr. 30 1966, skal sú skoðun fara fram í fullnægjandi húsnæði, sem viðkomandi sveitar- eða bæjarfélag leggur til og viðurkennt hefur verið af yfirdýralækni.

Við endurskoðun á sláturafurðum skal læknir sá, er starfið annast, gæta eftirfarandi

a) Að afurðir hafi verið læknisskoðaðar.

b) Að afurðirnar séu lausar við sjúklegar breytingar.

c. Að afurðirnar séu óskemmdar og óspilltar, svo af þeim sökum megi bjóða þær til sölu og nota til manneldis.

d) Að sláturafurðir hafi ekki óhreinkazt eða mengazt í geymslu eða flutningum eða spillzt á neinn hátt.

e) Að flutningstæki, sem notuð hafa verið, uppfylli þær kröfur, sem reglur gera ráð fyrir, og að umbúnaður hafi verið i samræmi við gildandi reglur.

35. gr.

Kjötskoðunarlæknir skal athuga gaumgæfilega vöðva, liði, brjóst- og lifhimnu. Ef nauðsyn krefur, skal rista í eitla á kjötskrokkum. Einnig er honum heimilt að skera í vöðva og liði til þess að ganga úr skugga um, hvort óþef leggi af kjötinu eða til að athuga vöðvafitu og bandvef.

36. gr.

Kjötskoðunarlækni er heimilt að taka sýnishorn til sýklarannsóknar, ef hann telur þörf á því, og má þá fresta úrskurði um kjötið þar til rannsókn er lokið.

37. gr.

Ef kjötskoðunarlæknir kemst að þeirri niðurstöðu, að sláturafurðir standast eigi lengur þann dóm, sem þær fengu að lokinni slátrun, er honum skylt að breyta stimplun og merkingu til samræmis við það.

Sé um óhæft kjöt að ræða, skal hann hlutast til um, að því verði eytt á tryggilegan hátt.

Honum er einnig heimilt að endursenda kjöt, ef það kemur í ljós, að stimpilmerkingu, spjöld og önnur auðkenni vantar eða eru í ósamræmi við gildandi reglur.

38. gr.

Ef kjötskoðunarlæknir verður var við, að sláturafurðir hafa óhreinkazt eftir slátrun, lágnazt, myglað o. s. frv., skal hann gera ráðstafanir til að vörum, sem óhæfar eru orðnar til manneldis, verði eytt á viðeigandi hátt. Jafnframt skal hann gæta þess, að sláturafurðir verði ekki fyrir skemmdum, óhreinindum eða spillist á annan hátt, meðan endurskoðun fer fram. Gildir það bæði um afurðir, sem berast frosnar til skoðunar og afurðir, sem þangað koma kældar.

39. gr.

Að lokinni endurskoðun skal auðkenna sláturafurðir með sérstöku stimpilmerki í bláum lit. Merkja skal hvern skrokk eða skrokkhluta með einu stimpilmerki að minnsta kosti. Yfirdýralæknir segir fyrir um gerð og auðkenni stimpla þessara.

40. gr.

Með mál út af brotum á þessari reglugerð skal farið að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 30, 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, til þess að öðlast þegar gildi, og birtist til eftirbreytni öllum, sem hlut eiga að máli.

Landbúnaðarráðuneytið, 17. ágúst 1970.

Ingólfur Jónsson.

Þorv. K. Þorsteinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica