Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

941/2016

Reglugerð um kostnað vegna sölu afla á uppboðsmarkaði.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um sjávarafla sem seldur er á uppboðsmarkaði samkvæmt 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

2. gr.

Skipstjóra fiskiskips er heimilt að ákveða að hluti af afla skipsins reiknist ekki til aflamarks þess. Sá hluti sem reiknast ekki til aflamarks skipsins skal þó aldrei nema meira en 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla sem hlutaðeigandi skip veiðir á hverju fiskveiðiári. Heimild þessi er háð eftirfarandi skilyrðum:

  1. Að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður.
  2. Að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til Verkefnasjóðs sjávar­útvegsins, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum.

3. gr.

Forráðamenn uppboðsmarkaðarins, sbr. 2. gr., skulu standa skil á andvirði hins selda afla að frá­dregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboð aflans. Til kostnaðar við uppboð aflans telst:

  1. Flutningur afla frá löndunarbryggju á næsta uppboðsmarkað.
  2. Annar kostnaður: Eftir atvikum ísun aflans á markaði, flokkun og slæging hans.
  3. Þóknun markaðar vegna sölu aflans.

Eftirstöðvar andvirðis aflans skiptast með þeim hætti að útgerð skipsins skal fá 20% sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um og 80% greiðast til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins.

Greiðslur til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins skal leggja inn á bankareikning sjóðsins eigi síðar en á föstudegi vegna afla sem seldur var í vikunni á undan.

4. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 692/2008, um kostnað vegna sölu afla á uppboðs­markaði samkvæmt 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 27. október 2016.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Hinrik Greipsson.

Erna Jónsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica