Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

286/2010

Reglugerð um sérstaka úthlutun aflaheimilda í skötusel samkvæmt ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 22/2010, um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um úthlutun aflaheimilda í skötusel samkvæmt ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 22/2010, um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

2. gr.

Úthluta skal allt að 500 lestum af skötusel á fiskveiðiárinu 2009/2010 frá og með 3. maí 2010.

Heimilt er að úthluta á skip allt að 5 lestum í senn gegn greiðslu gjalds enda hafi viðkomandi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni.

3. gr.

Fiskistofa skal auglýsa eftir umsóknum um sérstaka úthlutun aflaheimilda í skötusel.

Fiskistofa annast úthlutun aflaheimilda sem skal fara fram þann 3. maí 2010 á grundvelli umsókna sem borist hafa stofunni eigi síðar en 26. apríl 2010. Ef umsóknir um aflaheimildir eru umfram þær aflaheimildir sem til ráðstöfunar eru skal Fiskistofa skipta því sem til ráðstöfunar er jafnt á milli umsækjenda, enda hafi umsækjandi ekki sótt um minna magn en því nemur.

Verð á aflaheimildum skötusels er 120 kr. hvert kg og skal það greitt Fiskistofu fyrir úthlutun. Hafi gjald ekki verið greitt á úthlutunardegi fellur réttur útgerðar til viðkomandi úthlutunar niður og skiptast aflaheimildirnar á önnur skip enda hafi úthlutun þeirra ekki numið 5 lestum.

4. gr.

Framsal aflaheimilda sem úthlutað er samkvæmt reglugerð þessari er óheimilt. Aflaheimildum í skötusel samkvæmt reglugerð þessari skal haldið aðgreindum frá aflaheimildum sem úthlutað er í skötusel á grundvelli aflahlutdeildar við aflaskráningu og skal skipstjóri við löndun afla gefa hafnarvigtarmanni upplýsingar um aflann.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, og öðlast gildi 15. apríl 2010 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 31. mars 2010.

Jón Bjarnason.

Sigurgeir Þorgeirsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica