Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

283/2009

Reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra skipa árið 2009. - Brottfallin

1. gr.

Heimilt er öllum fiskiskipum, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands, að stunda veiðar á makríl í fiskveiðilandhelgi Íslands og á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar NEAFC, utan lögsögu ríkja, að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu.

Fari heildarafli íslenskra skipa í markríl á árinu 2009 yfir 112.000 lestir, þar af ekki meira en 20.000 lestir á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar NEAFC, utan lögsögu ríkja, ákveður ráðherra hvort veiðar á makríl skuli bannaðar eða tak­mark­aðar með einhverjum hætti.

Leyfi til makrílveiða skulu gefin út fyrir hvert almanaksár en ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi til makrílveiða sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra. Þá er heimilt að áskilja að flotvörpuveiðar á makríl skuli aðeins heimilaðar á tilteknu svæði ef varpan er búin meðaflaskilju.

2. gr.

Íslenskum skipum sem leyfi hafa fengið til makrílveiða er skylt að halda afladagbækur um veiðarnar sbr. reglugerð nr. 557/2007, með síðari breytingum, um afladagbækur. Þar skal fram koma m.a. veiðisvæði, veiðitími og afli í hverju togi. Sé makríll veiddur á línu eða handfæri er heimilt að færa fleiri en eina veiðiferð á hverja síðu í afladagbók. Skal Fiskistofu sent afrit af afladagbókunum eigi síðar en 14 dögum eftir hver mánaðamót eða eftir að veiðum lýkur. Ennfremur skal allur meðafli skráður nákvæmlega.

3. gr.

Sé makríll veiddur í flottroll eða nót, skulu tekin sýni úr afla, a.m.k. eitt í hverri veiðiferð og skal skrá sýnatökuna í afladagbók skipsins. Í hverju sýni skulu vera 100-200 stk. af makríl, sem valin eru af handahófi. Gæta skal þess að sýni sé tekið í öllum tilkynninga­skyldureitum þar sem skipið stundar veiðar. Sýnin skulu fryst um borð, rækilega merkt (staður, dagsetning og dýpi) og send Hafrannsóknastofnuninni, þegar að lokinni veiðiferð.

4. gr.

Aðeins er þeim íslenskum fiskiskipum heimilt að stunda makrílveiðar sem búin eru fjar­skipta­búnaði sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til sameiginlegrar eftirlits­stöðvar Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu, hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin, um staðsetningu viðkomandi skips á klukkustundar fresti. Óheimilt er að halda úr höfn til veiða fyrr en starfsmenn Eftirlitsstöðvarinnar hafa staðfest til skipstjóra að ofangreindur búnaður starfi eðlilega.

5. gr.

Um tilkynningar varðandi makrílveiðar á alþjóðlegu hafsvæði gilda ákvæði reglugerðar nr. 1221/2008, um veiðieftirlit á samningssvæði Norðaustur-Atlants­hafs­fisk­veiði­nefndar­innar (NEAFC) og taka þær tilkynningar einnig til veiða innan íslensku lögsögunnar. Ákvæði þessarar greinar á þó ekki við sé makríll veiddur á línu eða handfæri innan íslenskrar lögsögu.

6. gr.

Makrílafla skal landað og hann veginn í íslenskri höfn. Heimilt er þó með leyfi Fiskistofu að landa makrílafla og makrílafurðum í höfnum erlendis enda sé tryggt að eftirlit með vigtun aflans sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Jafnframt er heimilt að fengnu leyfi Fiskistofu að landa óvigtuðum makríl um borð í vinnsluskip og flutningaskip, enda sé tryggt að skráning og vigtun afla sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Sækja skal um leyfi til löndunar makríls utan íslenskra hafna til Fiskistofu og skal skipstjóri í umsókn tilgreina nákvæmlega hvar hann hyggst landa aflanum og áætlað magn makríls. Þegar að löndun lokinni skal skipstjóri veiðiskips senda Fiskistofu endanlegar tölur um landaðan afla og aflaverðmæti, staðfestar af móttakanda makrílsins eða staðfest afrit af vigtarnótu, liggi það fyrir.

Um vigtun á makríl gilda ákvæði reglugerðar nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla, með síðari breytingum og ákvæði reglugerðar nr. 246/2008 um vigtun og skráningu meðafla á uppsjávarfiski, með síðari breytingum. Sé makríll veiddur á línu eða handfæri skal afla haldið aðgreindum um borð í veiðiskipi eftir tegundum. Verði slíku ekki við komið vegna smæðar báts skal afli aðgreindur eftir tegundum við löndun.

Landi skip frystum afurðum utan Íslands skal tilkynna um það í samræmi við ákvæði 5. kafla reglna Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) um fiskveiðieftirlit og framkvæmd þess.

Þegar makríll er reiknaður til þorskígilda skal miðað við verðmætastuðulinn 0,06.

7. gr.

Brot á reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út með stoð í henni varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 151, 27. desember 1996, um veiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

Jafnframt er Fiskistofu heimilt að svipta skip leyfi til makrílveiða vegna brota á reglugerð þessari.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum og laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 13. mars 2009.

Steingrímur J. Sigfússon.

Steinar Ingi Matthíasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica