Sjávarútvegsráðuneyti

924/2005

Reglugerð um vigtun og skráningu norsk íslenskrar síldar við veiðar á sumargotssíld. - Brottfallin

1. gr.

Vigtunarleyfishafi sem tekur á móti síld eða skipstjóri skips sem vinnur afla um borð skal taka sýni úr afla svo sem mælt er fyrir um í 2. gr. Niðurstaða sýnatöku skal lögð til grundvallar við ákvörðun magns og skráningu síldartegunda.


2. gr.

Sýni skulu tekin úr hverjum farmi skips hjá vigtunarleyfishafa og úr hverju kasti um borð í skipi sem vinnur afla um borð. Sýnataka skal fara fram fyrir stærðarflokkun afla og framkvæmd þannig að tekið skal eitt 100 sílda sýni í úrtak fyrir hverjar 100 lestir. Þó skal að lágmarki taka samtals 200 síldar og að hámarki 400 síldar. Hvert sýni skal aðgreint til tegunda í samræmi við kynþroskastig.



Skipstjóri skal ávallt áætla aflamagn og eftir atvikum tilkynna það til vigtunarleyfishafa fyrir löndun.


3. gr.

Í hverju sýni skal magn hverrar síldartegundar vigtað og talið og uppreiknað með tilliti til heildarafla hverrar löndunar. Hver síldartegund skal skráð til afla viðkomandi fiskiskips í aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Allar niðurstöður mælinga skulu skráðar á sérstök eyðublöð sem skulu varðveitt í a.m.k. tvö ár.


4. gr.

Um vigtun og skráningu síldarafla gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar nr. 552, 18. ágúst 1998, um vigtun sjávarafla.


5 gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt IV. kafla laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum og VI. kafla laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.



Fiskistofa skal afturkalla leyfi til vigtunar ef vigtunarleyfishafi, starfsmenn hans eða aðrir þeir sem starfa í hans þágu brjóta gegn ákvæðum þessarar reglugerðar.Þá skal Fiskistofa svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð, áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa brjóta gegn ákvæðum þessarar reglugerðar.


6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, og laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 21. október 2005.


Einar K. Guðfinnsson.
Vilhjálmur Egilsson.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica