Fara beint í efnið

Prentað þann 23. apríl 2024

Stofnreglugerð

301/2008

Reglugerð um töku sýna og rannsókn vegna aksturs undir áhrifum vímuefna.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið og gildissvið.

Með reglugerð þessari er kveðið á um hvernig staðið skuli að framkvæmd lögboðinnar sýnatöku af ökumanni sem grunaður er um að vera undir áhrifum vímuefna við akstur vélknúins ökutækis. Ennfremur er kveðið á um meðferð og rannsókn sýna.

Þegar ákvörðun lögreglu liggur fyrir skv. 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 um nauðsyn sýnatöku skal meðalhófs gætt við meðferð málsins.

2. gr. Orðskýringar.

Vímuefni í reglugerð þessari eru a) áfengi, b) ólögleg fíkniefni og c) lyf sem valda vímu og/eða hafa örvandi eða deyfandi áhrif á miðtaugakerfið.

II. KAFLI Mat á ástandi ökumanns á vettvangi.

3. gr.

Við mat á ástandi ökumanns sem grunaður er um akstur undir áhrifum vímuefna skal atferli og hegðun ökumanns höfð til hliðsjónar sem og önnur einkenni, svo sem lykt, þanin eða samandregin sjáöldur, munnþurrkur eða kjálkastífni.

III. KAFLI Sýnataka.

4. gr.

Við öflun sýnis vegna gruns um brot gegn 2. eða 4. mgr. 44., 45. og 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987 skal þess sérstaklega gætt að ganga ekki lengra en brýnustu nauðsyn ber til í þágu rannsóknar máls.

Gera skal ökumanni grein fyrir því í hvaða tilgangi sýnið er tekið og hverju það geti varðað ef ekki er veitt nauðsynlegt og lögboðið sýni.

5. gr.

Sannreyna skal áhrif vímuefna á ökumann með mildari hætti en töku blóðsýnis sé þess kostur.

Viðurkenndar aðferðir við töku öndunarsýnis skulu notaðar sé viðkomandi sýnagjafi fær um að veita slíkt sýni.

Neiti ökumaður að veita öndunarsýni eða er ófær um það skal taka blóðsýni.

Þvagsýni skal ekki taka ef beita má öðrum, vægari úrræðum.

6. gr.

Læknir, hjúkrunarfræðingur eða lífeindafræðingur annast töku blóð- og þvagsýnis. Aðrar rannsóknir og klínískt mat skulu framkvæmdar af lækni.

Lögregla annast töku öndunar-, svita- og munnvatnssýnis. Læknir, hjúkrunarfræðingur eða lífeindafræðingur mega annast töku sýnis og skulu gera það ef sérstök ástæða er til að mati lögreglu. Skal við það miðað að taka sýnis valdi sem minnstri röskun á högum sýnagjafa.

7. gr.

Ökumanni er heimilt að láta í té þvagsýni án milligöngu starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar, sbr. 6. gr. Skal það framkvæmt á þann hátt að óyggjandi sé að sýnið stafi frá ökumanni. Gæta skal þess að viðstaddur lögreglumaður eða annar vottur sé af sama kyni og sýnagjafi.

8. gr.

Við töku sýnis skulu notaðar viðurkenndar aðferðir og sýni tekið í lokuðu rými, sé þess kostur.

Þess skal gætt að ekki séu aðrir viðstaddir en nauðsyn ber til og að valdi sé ekki beitt nema öryggissjónarmið krefjist þess.

9. gr.

Lögreglu er heimilt að vera viðstödd töku blóð- og þvagsýnis og skylt að vera viðstödd beiðist starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar þess.

10. gr.

Ef nauðsynlegt reynist að taka þvagsýni án þess að samþykki ökumanns liggi fyrir eða hann er ófær um að láta það í té skal það gert á heilbrigðisstofnun, sé þess kostur. Læknir annast sýnatökuna telji hann það óhætt, meðal annars með hliðsjón af ástandi ökumanns og aðstæðum að öðru leyti.

11. gr.

Þeir sem annast sýnatöku, aðrir en lögreglumenn skulu gæta þess að fara að þeim reglum sem gilda um starf heilbrigðisstétta.

IV. KAFLI Magn sýna.

12. gr.

Þegar blóð- og/eða þvagsýni er tekið vegna aksturs undir áhrifum vímuefna skal leitast við að hafa magn þeirra sem hér segir:

Þegar rannsóknarhagsmunir krefjast þess að aflað sé blóðsýnis vegna gruns um ölvunarakstur skal magn sýnis vera um 5 ml í þar til gerðu glasi.

Þegar rannsóknarhagsmunir krefjast þess að aflað sé blóðsýnis vegna gruns um akstur undir áhrifum lyfja og/eða ólöglegra fíkniefna skal magn sýnis vera um 20 ml (um 4 glös).

Þegar rannsóknarhagsmunir krefjast þess að fleiri en eitt blóðsýni séu tekin skal leitast við að því sem næst klukkustund líði milli töku sýna.

Þegar rannsóknarhagsmunir krefjast þess að aflað sé þvagsýnis skal magn sýnis vera um 10-25 ml. Ef fleiri en eitt blóðsýni eru tekin samhliða skal leitast við að afla þvagsýnis á svipuðum tíma og fyrsta blóðsýni var tekið.

V. KAFLI Rannsókn á teknu sýni.

13. gr.

Við rannsókn sýnis sem tekið er samkvæmt þessari reglugerð skal farið að stöðluðum reglum Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands. Rannsóknarstofan skal ávallt leitast við að nota alþjóðlegar, viðurkenndar aðferðir við þessar rannsóknir.

14. gr.

Við nánari útfærslu á aðferð við töku sýnis og rannsóknar vegna aksturs ökumanns undir áhrifum vímuefna skal stuðst við verklagsreglur sem Ríkislögreglustjórinn setur, sbr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

VI. KAFLI Gildistaka o.fl.

15. gr.

Reglugerðin er sett samkvæmt heimild í 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 28. febrúar 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.