Samgönguráðuneyti

404/2008

Reglugerð um skírteini flugumferðarstjóra. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að auka kröfur um öryggi og bæta starfrækslu flugstjórnarþjónustu með útgáfu samræmdra skírteina fyrir flugumferðarstjóra.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um skírteini nema í flugumferðarstjórn og flugumferðarstjóra sem sinna verkefnum sínum á ábyrgð veitanda flugleiðsöguþjónustu.

Reglugerð þessari til nánari fyllingar gilda ákvæði í I., III., V., VI., VII. og VIII. kafla í reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands nr. 400/2008.

3. gr.

Leiðbeiningarefni.

Almennt er vísað til leiðbeiningarefnis með reglum Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu (EUROCONTROL), ESARR 5, um starfsfólk þjónustuveitanda í flugumferðarstjórn (ATM Services' Personnel). ESARR 5 reglunum fylgja leiðbeiningargögn (ESARR Advisory Material (EAM)), sem hafa að geyma viðeigandi og tækar leiðir til að fullnægja skilyrðum ESARR reglnanna (Acceptable Means of Compliance, AMC); leiðbeiningarefni (Guidance Material, GUI); fylgigögnum (Companion Documents, COD) og samanburður við kröfur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO). Leiðbeiningarefnið er aðgengilegt á heimasíðu Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu.

Ennfrekar er vísað til leiðbeiningarefnis um þjálfun flugumferðarstjóra útgefið af European Civil Aviation Conference, ECAC; "ECAC guidelines for Common Core Content training objectives". Leiðbeiningarefnið er hægt að nálgast hjá skrifstofu flugöryggissviðs Flugmálastjórnar Íslands.

Fylgja skal þessu leiðbeiningarefni, eftir því sem við á, til að uppfylla kröfur í þessari reglugerð, nema til komi a.m.k. jafngildar aðferðir sem ekki eru taldar skerða flugöryggi að mati Flugmálastjórnar. Til að samþykkja aðferðir sem jafngildar, þarf umsækjandi að sýna á fullnægjandi hátt fram á að flugöryggi skerðist ekki með sérfræðiáliti sem Flugmálastjórn metur viðunandi.

4. gr.

Orðskýringar.

Sé munur milli orðskýringa í töflu í 2. mgr. þessarar greinar og orðskýringum í reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands í I. kafla hennar skulu orðskýringar samkvæmt reglugerð þessari ganga framar.

Þegar eftirfarandi orð og orðasambönd eru notuð í þessari reglugerð hafa þau merkingu þá sem hér segir:

Almenn flugumferð (General air traffic): Allar hreyfingar almenningsloftfara og ríkisloftfara (þ.m.t. her-, toll- og lögregluloftför) þegar þessar hreyfingar fara fram í samræmi við verklagsreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.

Áritun (Rating): Heimild sem er skráð í skírteini eða á fylgiblað skírteinis, sem telst hluti þess, þar sem tilgreind eru skilyrði, réttindi eða takmarkanir sem tengjast slíku skírteini. Í hverju skírteini skal vera a.m.k. ein af eftirfarandi áritunum:

a)

flugstjórnarþjónusta veitt flugvallarumferð í sjónflugi (aerodrome control visual),

b)

flugstjórnarþjónusta veitt flugvallarumferð í blindflugi (aerodrome control instrument),

c)

huglæg aðflugsstjórnun án kögunarbúnaðar (approach control procedural),

d)

aðflugsstjórnun með kögunarbúnaði (approach control surveillance),

e)

huglæg svæðisstjórnun án kögunarbúnaðar (area control procedural),

f)

svæðisstjórnun með kögunarbúnaði (area control surveillance).

Deildarviðbótaráritun (Unit endorsement): Heimild sem er skráð í skírteini og telst hluti þess þar sem tilgreind eru staðarauðkenni Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og undirsvæðin og/eða vinnustöðvar þar sem handhafi skírteinisins er til þess bær að starfa.

Flugstjórnarþjónusta (Air traffic control service): Þjónusta sem er veitt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir árekstur milli loftfara og milli loftfars og á umferðarsvæði flugvalla milli loftfars og hindrana og flýta fyrir og stuðla að skipulegri flugumferð.

Hæfnisáætlun deildar (Unit competence scheme): Samþykkt áætlun þar sem tilgreind er aðferðin sem deildin notar til að viðhalda hæfni skírteinishafa sinna.

Kennaraviðbótaráritun (Instructor endorsement): Heimild sem er skráð í skírteini og telst hluti þess þar sem tilgreind er hæfni handhafa sem starfsþjálfari á vinnustað.

Skírteini (Licence): Skjal, hvaða nafni sem það kann að nefnast, sem gefið er út og áritað í samræmi við þessa tilskipun og veitir lögmætum handhafa þess rétt til að veita flugstjórnarþjónustu í samræmi við þær áritanir og viðbótaráritanir sem þar eru skráðar.

Skráning tungumálafærni (Language endorsement): Heimild sem er skráð í skírteini og telst hluti þess þar sem tilgreind er tungumálafærni handhafa.

Staðarauðkenni Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO location indicator): Fjögurra bókstafa kenninúmer sem er myndað í samræmi við reglur, sem Alþjóða­flugmálastofnunin mælir fyrir um í handbók sinni DOC 7910, og úthlutað er staðsetningu faststöðvaþjónustu.

Undirsvæði (Sector): Hluti af flugstjórnarsvæði og/eða efra/neðra flugupplýsingasvæði.

Veitandi flugleiðsöguþjónustu (Air navigation service providers): Opinber aðili eða einkaaðili sem veitir flugleiðsöguþjónustu fyrir almenna flugumferð.

Veitandi þjálfunar (Training provider): Stofnun/fyrirtæki sem innlent eftirlitsyfirvald hefur veitt starfsleyfi til að sjá um eina eða fleiri tegundir þjálfunar.

Viðbótaráritun (Rating endorsement): Heimild sem er skráð í skírteini og telst hluti þess, þar sem tilgreind eru skilyrði, réttindi eða takmarkanir sem tengjast viðkomandi áritun.

Þjálfun (Training): Öll fræðileg námskeið, hagnýtar æfingar, þ.m.t. þjálfun í hermi, og starfsþjálfun á vinnustað sem er nauðsynleg til að öðlast og viðhalda fagþekkingu til að unnt sé að koma til skila öruggri, fyrsta flokks flugstjórnarþjónustu. Hún samanstendur af:

a)

grunnþjálfun sem tekur til grunn- og réttindaþjálfunar og leiðir til veitingar nemaskírteinis,

b)

deildarþjálfun, þ.m.t. bráðabirgðaþjálfun, áður en starfsþjálfun á vinnustað hefst, og starfsþjálfun á vinnustað sem leiðir til veitingar flugumferðarstjóraskírteinis,

c)

síþjálfun til að halda viðbótaráritunum skírteinis í gildi,

d)

menntun starfsþjálfara á vinnustað sem leiðir til kennaraviðbótaráritunar,

e)

menntun prófdómara og/eða matsmanna,

Þjálfunaráætlun deildar (Unit training plan): Samþykkt áætlun þar sem tilgreindir eru ferlar og tímasetningar starfsþjálfunar sem ætlað er að tryggja þjálfun í beitingu verklagsreglna á staðbundnu svæði undir leiðsögn starfsþjálfara á vinnustað.

5. gr.

Hlutverk Flugmálastjórnar Íslands.

Flugmálastjórn Íslands skal heimilt að:

a)

gefa út skírteini, áritanir og viðbótaráritanir þegar viðkomandi þjálfun og próf hafa farið fram;

b)

viðhalda áritunum og ógilda tímabundið áritanir og viðbótarráritanir þar sem réttinda er neytt á ábyrgð Flugmálastjórnar Íslands;

c)

ógilda skírteini, áritun og viðbótaráritun þegar vafi leikur á að hæfni handhafa sé fullnægjandi eða þegar um misferli er að ræða;

d)

afturkalla skírteini þegar um stórfellt gáleysi eða misnotkun er að ræða;

e)

svipta handhafa skírteini í samræmi við 142.-144. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998;

f)

gefa út starfsleyfi fyrir veitendur þjálfunar;

g)

samþykkja þjálfunarnámskeið, þjálfunaráætlanir og hæfniáætlanir fyrir starfsdeildir flugleiðsöguþjónustu;

h)

samþykkja þá skírteinahafa sem prófa, meta hæfni og starfa sem prófdómarar.

Flugmálastjórn Íslands fer með eftirlit með, samkvæmt reglugerð þessari, og tekur út þjálfunarkerfi. Í því skyni skal stofnunin tryggja að starfræktur sé gagnagrunnur þar sem skráð er hæfni allra skírteinishafa á ábyrgð þeirra, gildistími áritana og viðbótaráritana, sbr. 5. gr.

Reglulega skal Flugmálastjórn Íslands fara í úttekt hjá þeim sem hafa þjálfunarleyfi til að tryggja að þjálfun fari fram samkvæmt kröfum þessum. Auk reglulegs eftirlits skal fara í skyndiheimsóknir til þess að ganga úr skugga um að farið sé eftir þessum kröfum.

Flugmálastjórn er heimilt að fela viðurkenndum stofnunum að fullu eða að hluta til úttekt og eftirlit í samræmi við 3. gr. í fylgiskjali III við reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu (3. grein reglugerðar EB nr. 550/2004).

Flugmálastjórn Íslands skal veita viðeigandi yfirvöldum annarra aðildarríkja upplýsingar og gagnkvæma aðstoð til þess að tryggja að farið sé eftir þessu, sérstaklega varðandi frjálsan flutning flugumferðarstjóra milli ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og EFTA.

6. gr.

Veitandi flugleiðsöguþjónustu.

Veitandi flugleiðsöguþjónustu skal starfrækja gagnagrunn þar sem skráð er hæfni allra skíreinishafa samkvæmt reglugerð þessari og gildistími áritana. Starfsdeildir flugleiðsöguþjónustu skulu halda skrá yfir vinnustundir í undirdeildum og á vinnustöðum deildar fyrir alla handhafa skírteina og afhenda Flugmálastjórn skrárnar þegar um það er beðið.

Veitandi flugleiðsöguþjónustu skal, til að tryggja áframhaldandi hæfni flugumferðarstjóra, hafa samþykktar verklagsreglur varðandi starfsreynslu, gátlista eða hvort tveggja sem farið er eftir til að fylgjast með eða prófa flugumferðarstjóra til að öruggt sé að þeir viðhaldi hæfni sinni.

7. gr.

Almennt um skírteinisútgáfu.

Ekki skulu aðrir takast á hendur störf við flugstjórnarþjónustu sbr. 2. gr. en handhafar skírteina í gildi.

Umsækjendur um skírteini skulu færa sönnur á að þeir séu til þess bærir að starfa sem flugumferðarstjórar eða sem nemar í flugumferðarstjórn. Gögnin, sem sanna hæfni þeirra, skulu varða þekkingu, reynslu, hæfni og tungumálafærni. Sá sem fær skírteini skal undirrita það og skal það vera eign hans.

II. KAFLI

Skírteini flugumferðarstjóra.

8. gr.

Almennt um skírteini nema í flugumferðarstjórn.

Skírteini nema í flugumferðarstjórn skal heimila handhafa þess að veita flug­stjórnar­þjónustu undir eftirliti starfsþjálfara.

Á skírteininu skulu tilgreindir þeir liðir sem er að finna í I. viðauka. Þegar skírteini er gefið út á öðru tungumáli en ensku skulu liðirnir, sem er að finna í I. viðauka, einnig þýddir þar á ensku.

Veitandi flugstjórnarþjónustu skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að nemar í flugumferðarstjórn skapi ekki hættu í flugi.

9. gr.

Skírteini nema í flugumferðarstjórn.

Nemaskírteini í flugumferðarstjórn skulu veitt umsækjendum sem:

a)

eru a.m.k. 18 ára og eru handhafar a.m.k. framhaldsskólaprófsskírteinis eða skírteinis sem veitir aðgang að háskóla eða sambærilegt skírteini eða menntun sem Flugmálastjórn telur fullnægjandi, enda gefi slík menntun umsækjanda eðlilega möguleika á að ljúka námi í flugumferðarstjórn;

b)

hafa lokið með viðunandi árangri viðurkenndri grunnþjálfun sem tengist áritun og viðbótaráritun, ef við á, eins og tilgreint er í A-hluta II. viðauka;

c)

eru handhafar gilds heilbrigðisvottorðs, í samræmi við ákvæði III. kafla reglugerðar þessarar;

d)

hafa sýnt fram á fullnægjandi tungumálafærni í samræmi við kröfurnar í III. viðauka. Í skírteinið skal skráð a.m.k. ein áritun og ein viðbótaráritun, ef við á.

10. gr.

Skírteini flugumferðarstjóra.

Flugumferðarstjóraskírteini skulu veitt umsækjendum sem:

a)

Eru a.m.k. 21 árs. Í undantekningartilvikum, þegar sérstaklega stendur á, er Flugmálastjórn Íslands heimilt að víkja frá aldurstakmörkum þessa liðar;

b)

Eru handhafar nemaskírteina og hafa lokið viðurkenndri þjálfunaráætlun deildar og staðist viðeigandi próf eða mat með viðunandi árangri í samræmi við kröfurnar í B-hluta II. viðauka;

c)

Eru handhafar gilds heilbrigðisvottorðs í samræmi við III. kafla reglugerðar þessarar; og

d)

Hafa sýnt fram á fullnægjandi tungumálafærni í samræmi við kröfurnar í III. viðauka.

Skírteinishafa er eigi rétt að starfa sem flugumferðarstjóri eftir að hann hefur náð 60 ára aldri. Heimilt er þó að framlengja þennan hámarksaldur um allt að 3 ár.

Skírteinið skal fullgilt með því að skrá í það eina eða fleiri tegundir áritana og viðeigandi áritun, deildarviðbótaráritun og skráningu tungumálafærni þar sem þjálfun lauk með viðunandi árangri.

Kennaraviðbótaráritun skal veitt handhöfum flugumferðarstjóraskírteina sem hafa:

a)

veitt flugstjórnarþjónustu á næstliðnu tímabili, sem er a.m.k. eitt ár, eða í lengri tíma sem innlenda eftirlitsyfirvaldið hefur fastsett með hliðsjón af þeim áritunum og viðbótaráritunum sem þjálfunin nær til og

b)

lokið með viðunandi árangri viðurkenndu starfsþjálfunarnámskeiði á vinnustað þar sem nauðsynleg þekking og kennsluhæfileikar voru metnir með viðeigandi prófum.

11. gr.

Áritanir flugumferðarstjóra.

Skírteini skulu innihalda eina eða fleiri eftirtalinna áritana sem gefa til kynna þá tegund þjónustu sem handhafi skírteinisins má veita:

a)

Áritun fyrir flugstjórnarþjónustu veitt flugvallarumferð í sjónflugi (Aerodrome Control Visual rating, ADV) sem tilgreinir að handhafi skírteinisins sé til þess bær að veita flugstjórnarþjónustu á flugvelli þar sem ekki hafa verið gefnar út verklagsreglur fyrir blindaðflug og blindbrottflug.

b)

Áritun fyrir flugstjórnarþjónustu veitt flugvallarumferð í blindflugi (Aerodrome Control Instrument rating, ADI) sem tilgreinir að handhafi skírteinisins sé til þess bær að veita flugstjórnarþjónustu á flugvelli þar sem gefnar hafa verið út verklagsreglur fyrir blindaðflug eða blindbrottflugi og skal árituninni fylgja a.m.k. ein af viðbótaráritununum sem lýst er í 1. mgr. 12. gr.

c)

Áritun fyrir huglæga aðflugsstjórnun án kögunarbúnaðar (Approach Control Procedural rating, APP) sem tilgreinir að handhafi skírteinisins sé til þess bær að veita loftförum flugstjórnarþjónustu í aðflugi, brottflugi eða gegnumferð án þess að nota kögunarbúnað.

d)

Áritun fyrir aðflugsstjórnun með kögunarbúnaði (Approach Control Surveillance rating, APS) sem tilgreinir að handhafi skírteinisins sé til þess bær að veita loftförum flugstjórnarþjónustu í aðflugi, brottflugi eða gegnumferð með því að nota kögunarbúnað og skal árituninni fylgja a.m.k. ein af viðbótaráritunum sem lýst er í 2. mgr. 12. gr.

e)

Áritun fyrir huglæga svæðisstjórnun án kögunarbúnaðar (Area Control Procedural rating, APC) sem tilgreinir að handhafi skírteinisins sé til þess bær að veita loftförum flugstjórnarþjónustu án þess að nota kögunarbúnað.

f)

Áritun fyrir svæðisstjórnun með kögunarbúnaði (Area Control Surveillance rating, ACS) sem tilgreinir að handhafi skírteinisins sé til þess bær að veita loftförum flugstjórnarþjónustu með því að nota kögunarbúnað og skal árituninni fylgja a.m.k. ein af viðbótaráritunum sem er lýst í 3. mgr. 12. gr.

12. gr.

Viðbótaráritanir.

Áritun fyrir flugstjórnarþjónustu veitt flugvallarumferð í blindflugi (ADI), skal fylgja a.m.k. ein af eftirfarandi viðbótaráritunum:

a)

Viðbótaráritun fyrir flugturnsþjónustu (Tower Control, TWR) sem tilgreinir að handhafi sé til þess bær að veita flugumferðarþjónustu þegar flugstjórnarþjónusta veitt flugvallarumferð fer fram í einni vinnustöð.

b)

Viðbótaráritun fyrir stjórnun umferðar á jörðu niðri (Ground Movement Control, GMC) sem tilgreinir að handhafi skírteinisins sé til þess bær að annast stjórnun umferðar á jörðu niðri.

c)

Viðbótaráritun fyrir stjórnun umferðar á jörðu niðri með kögunarbúnaði (Ground Movement Surveillance, GMS) sem er veitt auk viðbótaráritunar fyrir stjórnun umferðar á jörðu niðri eða viðbótaráritunar fyrir flugturnsþjónustu sem tilgreinir að handhafi sé til þess bær að stjórna umferð á jörðu niðri með aðstoð leiðsögukerfis á athafnasvæði flugvallar.

d)

Viðbótaráritun fyrir stjórnun loftfara á flugi (Air Control, AIR) sem tilgreinir að handhafi skírteinisins sé til þess bær að annast stjórnun loftfara á flugi.

e)

Viðbótaráritun fyrir ratsjárstjórnun flugvallar (Aerodrome Radar Control, RAD), sem er veitt auk viðbótaráritunar fyrir stjórnun loftfara á flugi eða viðbótaráritunar fyrir flugturnsþjónustu sem tilgreinir að handhafi skírteinisins sé til þess bær að veita flugvallarumferð flugstjórnarþjónustu með aðstoð kögunarratsjár.

Áritun fyrir aðflugsstjórnun með kögunarbúnaði (Approach Control Surveillance, APS) skal fylgja a.m.k. ein af eftirfarandi viðbótaráritunum:

a)

Viðbótaráritun fyrir ratsjárstjórnun (Radar Control, RAD) sem tilgreinir að handhafi skírteinisins sé til þess bær að veita aðflugsstjórnunarþjónustu með því að nota frumratsjárbúnað og/eða svarratsjárbúnað.

b)

Viðbótaráritun fyrir nákvæmnisaðflugsstjórnun með ratsjá (Precision Approach Radar, PAR) sem er veitt auk viðbótaráritunar fyrir ratsjárstjórnun sem tilgreinir að handhafi skírteinisins sé til þess bær að stjórna, frá jörðu, nákvæmnisaðflugi loftfara á lokastefnu að flugbraut með nákvæmnisratsjárbúnaði.

c)

Viðbótaráritun fyrir aðflugsstjórnun með kögunarratsjá (Surveillance Radar Approach endorsement, SRA), sem er veitt auk viðbótaráritunar fyrir ratsjárstjórnun, sem tilgreinir að handhafi sé til þess bær að stjórna, frá jörðu, grunnaðflugi loftfara á lokastefnu að flugbraut, með því að nota kögunarbúnað.

d)

Viðbótaráritun fyrir sjálfvirkt, skilyrt kögunareftirlit (Automatic Dependent Surveillance, ADS) sem tilgreinir að handhafi sé til þess bær að veita aðflugsstjórnunarþjónustu með því að nota sjálfvirkt, skilyrt eftirlit.

e)

Viðbótaráritun fyrir aðflugsstjórnun (Terminal Control, TCL), sem er veitt auk viðbótaráritunar fyrir ratsjárstjórnun eða sjálfvirkt, skilyrt kögunareftirlit sem tilgreinir að handhafi sé til þess bær að veita loftförum, sem starfrækt eru á tilgreindu aðflugssvæði og/eða aðliggjandi undirsvæðum, flugstjórnarþjónustu með því að nota hvers kyns kögunarbúnað.

Áritun fyrir svæðisstjórnun með kögunarbúnaði (Area Control Surveillance, ACS) skal fylgja a.m.k. ein af eftirfarandi viðbótaráritunum:

a)

Viðbótaráritun fyrir ratsjárstjórnun (Radar Control, RAD) sem tilgreinir að handhafi sé til þess bær að veita flugstjórnarsvæðisþjónustu með því að nota kögunarratsjárbúnað.

b)

Viðbótaráritun fyrir sjálfvirkt, skilyrt kögunareftirlit (Automatic Dependent Surveillance, ADS) sem tilgreinir að handhafi sé til þess bær að veita flugstjórnarsvæðisþjónustu með því að nota sjálfvirkt, skilyrt kögunareftirlit.

c)

Viðbótaráritun fyrir aðflugsstjórnun (Terminal Control, TCL) sem er veitt auk viðbótaráritunar fyrir ratsjárstjórnun eða sjálfvirkt, skilyrt kögunareftirlit, sem tilgreina að handhafi sé til þess bær að veita loftförum, sem starfrækt eru á tilgreindu aðflugssvæði og/eða aðliggjandi undirsvæðum, flugstjórnarþjónustu með því að nota hvers kyns kögunarbúnað.

d)

Viðbótaráritun fyrir úthafsstjórnun (Oceanic Control, OCN) sem tilgreinir að handhafi sé til þess bær að veita loftförum, sem starfrækt eru á úthafsstjórnarsvæði, flugstjórnarþjónustu.

Viðbótaráritanir, sem komið er á vegna sérkenna flugumferðar í loftrými á ábyrgð einstakra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríkja að stofnsamningi EFTA, skulu ekki hafa áhrif á frjálsa för flugumferðarstjóra.

13. gr.

Skráning tungumálafærni.

Umsækjendur skírteina flugumferðarstjóra skulu sýna fram á fullnægjandi færni í að tala og skilja ensku. Færni umsækjenda skal ákvörðuð í samræmi við ákvæði III. viðauka.

Heimilt er Flugmálastjórn Íslands að gera kröfu um staðbundnar tungumálakröfur ef það telst nauðsynlegt af öryggisástæðum.

Stigið, sem krafist er vegna beitingar 1. og 2. mgr., skal vera 4. stig á kvarða til að meta tungumálafærni sem tilgreindur er í III. viðauka.

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. getur Flugmálastjórn Íslands tekið ákvörðun um hærra stig tungumálafærni, vegna beitingar á 1. og/eða 2. mgr., þar sem aðstæður við starfrækslu, tengdar tiltekinni áritun eða viðbótaráritunum, gera kröfur um hærra tungumálafærnistig vegna brýnna öryggisráðstafana. Slík krafa skal rökstudd á hlutlægan hátt, án mismununar, í samræmi við meðalhóf og gagnsæ.

Færa skal sönnur á tungumálafærni með vottorði/skírteini sem gefið er út eftir gagnsætt og hlutlaust mat sem viðurkennt er af Flugmálastjórn Íslands.

14. gr.

Kennaraviðbótaráritanir.

Kennaraviðbótaráritun skal gefa til kynna að handhafi skírteinisins sé til þess bær að veita þjálfun og hafa umsjón á vinnustöð og á svæðum þar sem viðkomandi hefur gilda áritun.

15. gr.

Deildarviðbótaráritanir.

Deildarviðbótaráritun skal gefa til kynna að handhafi skírteinisins sé til þess bær að veita flugstjórnarþjónustu innan tiltekins undirsvæðis, hóps undirsvæða eða á vinnustöð sem er á ábyrgð flugumferðarþjónustudeildar.

Flugmálastjórn Íslands getur kveðið á um, sé það nauðsynlegt af öryggisástæðum, að eingöngu handhafar skírteina undir tilteknum aldri, megi starfa samkvæmt deildarviðbótaráritun.

16. gr.

Skilyrði fyrir að viðhalda áritunum og viðhalda viðbótaráritunum gildum.

Deildarviðbótaráritanir skulu til að byrja með gilda í 12 mánuði. Framlengja skal gildistíma slíkra viðbótaráritana um 12 mánuði til viðbótar ef veitandi flug­leiðsögu­þjónustu sýnir fram á að:

a)

Umsækjandi hafi, undanfarna tólf mánuði, starfað samkvæmt réttindum skírteinisins í þann lágmarksfjölda klukkustunda sem tilgreindur er í viðurkenndri hæfnisáætlun deildar;

b)

hæfni umsækjandans hafi verið metin í samræmi við C-hluta II. viðauka og;

c)

umsækjandi hafi undir höndum gilt heilbrigðisvottorð.

Fækka má lágmarksfjölda vinnustunda, þó ekki til kennsluverkefna, sem krafist er til að halda deildarviðbótaráritun í gildi hjá starfsþjálfurum á vinnustað í hlutfalli við tímann sem fer í að kenna nemendum á þeim vinnustöðvum þar sem sótt hefur verið um framlengingu.

Ef deildarviðbótaráritanir falla úr gildi skal hrinda í framkvæmd þjálfunaráætlun deildar og skal henni lokið með viðunandi árangri svo unnt sé að endurnýja viðbótaráritanirnar.

Handhafi áritunar eða viðbótaráritunar, sem hefur ekki veitt flugstjórnarþjónustu í tengslum við áritun eða viðbótaráritun í fjögur ár samfellt, má því aðeins hefja deildarþjálfun, að því er varðar þessa áritun eða viðbótaráritun, að farið hafi fram viðeigandi mat á því hvort hann uppfylli ennþá skilyrði fyrir þessari áritun eða viðbótaráritun og eftir að hann hefur fullnægt öllum þjálfunarkröfum sem leiða af þessu mati.

Meta skal tungumálafærni umsækjandans formlega með reglulegum hléum, nema í hlut eigi umsækjendur sem hafa fært sönnur á tungumálafærni sem svarar til 6. færnistigs.

Kennaraviðbótaráritun skal gilda í 36 mánuði með möguleika á endurnýjun.

17. gr.

Heilbrigðisvottorð.

Fluglæknasetur eða fluglæknar sem samþykktir eru af Flugmálastjórn Íslands skulu gefa út heilbrigðisvottorð. Nánar vísast til ákvæða reglugerðar um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands varðandi ákvæði er varða heilbrigðisvottorð.

Umsækjandi skal hafa gilt 1. flokks heilbrigðisvottorð samkvæmt ákvæðum reglugerðar um heilbrigðiskröfur flugliða (JAR-FCL 3) eða 3. flokks heilbrigðisvottorð samkvæmt ákvæðum III. kafla reglugerðar þessarar. Nánar vísast til ákvæða I. kafla reglugerðar um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands varðandi ákvæði er varða heilbrigðisvottorð.

Heilbrigðisvottorð flugumferðarstjóra gildir í 24 mánuði. Þegar handhafar flugumferðarstjóraskírteinis hafa náð 40 ára aldri styttist gildistími í 12 mánuði. Heimilt er að afturkalla heilbrigðisvottorðið hvenær sem er ef heilsufarsástand handhafa krefst þess.

Skírteinishafar skulu ekki neyta réttinda þeirra, sem skírteinið og áritanir þess veita, ef þeir verða þess varir að heilsu þeirra hafi hrakað eða þeir eru undir áhrifum geðvirkra efna eða geðlyfja sem gætu gert þá ófæra um að neyta réttinda skírteinisins á öruggan og réttan hátt. Tilkynna skal til Flugmálastjórnar Íslands um atriði er áhrif hafa á heilbrigði samkvæmt 23. gr.

18. gr.

Starfsleyfi fyrir veitendur þjálfunar.

Þjálfun fyrir flugumferðarstjóra, þ.m.t. tengdar matsaðferðir, skal háð starfsleyfi frá Flugmálastjórn Íslands.

Kröfur um starfsleyfi skulu tengjast tæknilegri og rekstrarlegri getu svo og getu til að skipuleggja þjálfunarnámskeið eins og tilgreint er í 1. lið IV. viðauka.

Sækja skal um starfsleyfi til eftirlitsyfirvalds í ríki þar sem aðalstarfsstöð umsækjandans er og skráð skrifstofa hans, ef hún er fyrir hendi.

Nú uppfyllir umsækjandi um veitingu þjálfunar þær kröfur sem mælt er fyrir um í 1. lið IV. viðauka og skal Flugmálastjórn Íslands þá gefa út starfsleyfi. Heimilt er að veita starfsleyfi fyrir hverja tegund þjálfunar fyrir sig eða sameiginlega með annarri flugleiðsöguþjónustu þar sem tegund þjálfunar og flugleiðsöguþjónustu fær starfsleyfi sem þjónustupakki.

Flugmálastjórn Íslands skal hafa eftirlit með því að farið sé að þeim kröfum og skilyrðum sem fylgja starfsleyfum. Ef handhafi starfsleyfis fullnægir ekki lengur slíkum kröfum eða skilyrðum skal Flugmálastjórn gera viðeigandi ráðstafanir sem geta falið í sér afturköllun starfsleyfisins.

Viðurkenna skal starfsleyfi sem gefin eru út í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu og af ríki sem aðili er að stofnsamningi EFTA.

19. gr.

Samþykki prófdómara eða matsmanna.

Flugmálastjórn Íslands samþykkir skírteinishafa sem tilnefndir hafa verið til að starfa sem prófdómarar eða matsmenn við að meta hæfni í tengslum við deildar- og síþjálfun hjá veitanda þjálfunar. Samþykkið skal gilda í þrjú ár með möguleika á endurnýjun.

20. gr.

Gagnkvæm viðurkenning.

Með fyrirvara um ákvæði 13. gr. skal Flugmálastjórn Íslands heimilt að viðurkenna skírteini flugumferðarstjóra með tilheyrandi áritunum, viðbótaráritunum, skráningu tungumálafærni og útgefin heilbrigðisvottorð, sem gefin eru út í aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi fríverslunarsamtaka Evrópu í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/23/EB frá 5. apríl 2006 um Bandalagsskírteini flugumferðarstjóra.

Flugmálastjórn Íslands er þó heimilt að viðurkenna einungis skírteini handahafa sem náð hafa 21 árs lágmarksaldri eins og getið er um í 10. gr.

Í tilvikum þar sem handhafi skírteinis neytir réttinda þess í öðru ríki skv. 1. mgr. en því þar sem það var gefið út, skal hann eiga rétt á að skipta á því skírteini fyrir annað, sem gefið er út í ríkinu þar sem hann neytir réttinda þess, án þess að honum sé gert að fullnægja viðbótarskilyrðum.

Til að unnt sé að veita deildarviðbótaráritun skal Flugmálastjórn Íslands krefjast þess að umsækjandi uppfylli sérstök skilyrði sem tengjast þessari viðbótaráritun og tilgreini deildina, undirsvæðið eða vinnustöðina.

Þegar veitandi þjálfunar semur þjálfunaráætlun deildar skal hann taka fyllsta tillit til fenginnar hæfni og reynslu umsækjanda.

Flugmálastjórn Íslands skal samþykkja og taka rökstudda ákvörðun um þjálfunaráætlun deildar sem tekur til fyrirhugaðrar þjálfunar umsækjanda, eigi síðar en sex vikum eftir að gögnin eru lögð fram, sbr. þó tafir vegna áfrýjunar sem kann að vera lögð fram.

Flugmálastjórn Íslands skal tryggja að meginreglan um bann við mismunun og meðalhófsreglan séu hafðar að leiðarljósi við ákvarðanatöku.

III. KAFLI

Heilbrigðiskröfur.

III. kafli um heilbrigðiskröfur byggir að öllu leyti á viðauka 1 (Personnel licensing) við Chicago-samninginn, 10. útgáfu júlí 2006 (til og með breytingu 168). Stuðst hefur verið við sömu greinanúmer til að auðvelda uppfærslu og leiðréttingar. Texti sem er innan sviga er yfirleitt til nánari skýringar.

Leiðbeiningar til afnota fyrir Flugmálastjórn Íslands og fluglækna vegna 3. flokks heilbrigðisvottorða eru gefnar út sérstaklega og er þær að finna í gildandi útgáfu ICAO af "Manual of Civil Aviation Medicine" (Doc 8984-AN/895) og leiðbeiningarefni Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu (EUROCONTROL) sem gefið er út í skýringarefni með reglum ESARR 5.

Ógerningur er að rekja staðla þessa í smáatriðum þannig að þeir nái yfir öll einstök tilvik. Hljóta því margar ákvarðanir, sem varða mat á heilbrigði, að vera háðar dómgreind og persónulegu mati hlutaðeigandi fluglæknis. Þess vegna verður að grundvalla matið á nákvæmri læknisskoðun í samræmi við strangar og almennar kröfur lækna. Tilhlýðilega hliðsjón verður að hafa af réttindum þeim, sem skírteini það veitir, sem sótt er um eða umsækjandi hefur, og þeim skilyrðum sem hann vinnur við er hann neytir heimilda sinna við skyldustörf sín.

6.1.

Flokkar heilbrigðisvottorða (Medical Assessments - General).

 

Flokkar heilbrigðisvottorða flugumferðarstjóra skulu vera tveir svo sem hér segir: 1. flokks heilbrigðisvottorð samkvæmt kröfum reglugerðar um heilbrigðiskröfur flugliða (JAR-FCL 3) eða 3. flokks heilbrigðisvottorð samkvæmt kröfum þessa kafla.

     

6.1.2

Umsækjandi um 3. flokks heilbrigðisvottorð skal láta fluglækni í té yfirlýsingu, sem hann hefur sjálfur undirritað, um heilsufar sitt og fjölskyldu sinnar, svo og um arfgenga sjúkdóma innan fjölskyldunnar. Athygli umsækjanda skal vakin á nauðsyn þess að yfirlýsing þessi sé eins fullkomin og nákvæm og vitneskja hans leyfir.

 

Nú reynist yfirlýsing, sem umsækjandi hefur látið fluglækni í té, röng og skal það þá tilkynnt Flugmálastjórn Íslands og/eða því erlenda stjórnvaldi sem gaf út viðkomandi skírteini, ef það er ekki íslenskt, þannig að hægt verði að gera viðeigandi ráðstafanir. Sama á við um upplýsingar samkvæmt 22. gr. reglugerðarinnar.

     

6.1.3

Læknir sá, sem sér um skoðunina, skal tilkynna Flugmálastjórn Íslands sérhvert tilvik þar sem umsækjandi stenst ekki að hans mati einhverjar kröfur, hvort sem þær eru tilgreindar í tölum eða á annan hátt, og mat læknisins er að þótt umsækjandi neyti heimilda skírteinis þess, sem hann sækir um eða hefur, sé ekki líklegt að það stofni flugöryggi í hættu.

     

6.1.4

Sömu kröfur eru gerðar um endurnýjun heilbrigðisvottorða og um fyrstu útgáfu þeirra nema annað sé sérstaklega tekið fram.

     

6.2

Skilyrði fyrir heilbrigðisvottorði (Requirement for Medical Assessments).

     

6.2.1

Almennt (General).

 

Umsækjandi um heilbrigðisvottorð, sem gefið er út samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar eða reglugerðar um heilbrigðiskröfur flugliða skal gangast undir læknisskoðun þar sem stuðst er við kröfur um eftirfarandi atriði:

 

a)

líkamshreysti og andlegt heilbrigði,

 

b)

sjón- og litaskynjun, og

 

c)

heyrn.

     

6.2.2

Kröfur um líkamshreysti og andlegt heilbrigði (Physical and mental requirements).

 

Umsækjendur heilbrigðisvottorða skulu vera lausir við:

 

a)

hvers konar afbrigðileika, meðfæddan eða ákominn, eða

 

b)

hvers konar virka, dulda, bráða eða langvinna vanhæfi, eða

 

c)

hvers konar sár, áverka eða eftirstöðvar aðgerða sem gætu haft í för með sér svo verulega óhæfi að líkindi væru til að truflað gæti örugga stjórn flugumferðar og loftfars eða örugga framkvæmd skyldustarfa.

 

d)

hvers konar áhrif eða aukaverkanir lyfseðilskyldra lyfja eða lausasölulyfja tekin við sjúkdómi eða í fyrirbyggjandi skyni sem geta dregið úr starfshæfni og eru líkleg til að hafa áhrif á starfrækslu loftfars eða framkvæmd skyldustarfa.

     

6.2.3

Kröfur um sjón (Visual acuity test requirements).

6.2.3.1

Þær aðferðir, sem notaðar eru við mælingu sjónskerpu, geta hæglega haft í för með misjafnt mat. Til að ná heildarsamræmi skal gæta þess að innbyrðis samkvæmni ríki í mati á mismunandi aðferðum.

6.2.3.2

Við sjónskerpupróf skal eftirfarandi haft í huga:

 

a)

Til sjónskerpuprófs í upplýstu herbergi skal notaður um það bil 50 lúxa ljósstyrkleiki en hann samsvarar 30 kandelum á fermetra. Ljósstyrkleiki herbergisins ætti að vera um það bil 1/5 af þeim ljósstyrkleika sem notaður er við mælingu.

 

b)

Sjónskerpa er mæld með röð af sjónspjöldum Landolts eða öðrum sjónspjöldum líkum þeim. Skulu þau vera í 6 m fjarlægð frá umsækjanda, eða 5 m eftir því sem á við prófunaraðferðina.

     

6.2.4

Kröfur um litaskynjun (Colour perception requirements).

6.2.4.1

Flugmálastjórn Íslands skal nota skoðunaraðferðir sem tryggja örugga prófun litaskynjunar.

6.2.4.2

Þess skal krafist að umsækjandi geti hæglega skynjað þá liti sem nauðsynlegt er að hann skynji til þess að geta leyst skyldustörf sín vel og örugglega af hendi.

6.2.4.3

Prófa skal hæfi umsækjanda til að þekkja rétta röð af samlitum plötum (töflum) í dagsljósi eða í gerviljósi sem hefur sama lithitastig og ljósgjafar CIE"C" og "D 65" sem skilgreindir eru af "International Commission on Illumination" (CIE).

6.2.4.4

Umsækjandi, sem stenst þær kröfur er Flugmálastjórn setur, skal teljast hæfur. Samt sem áður má telja umsækjanda hæfan þótt hann standist ekki slíkt próf ef hann getur hæglega þekkt ljósmerki í lit notuð í flugi.

6.2.4.4.1

Ef sólgleraugu eru notuð þegar handhafi skírteinis eða áritunar neytir heimilda sinna skulu þau vera án skautunarsíu (non-polarizing) og í hlutlausum gráum lit.

     

6.2.5

Kröfur um heyrn (Hearing test requirements).

6.2.5.1

Áreiðanlegum aðferðum skal beitt við heyrnarpróf.

6.2.5.2

Þess skal krafist að umsækjandi sé laus við hvers konar heyrnargalla sem myndu hamla því að hann gæti með öryggi gegnt þeim skyldustörfum sem skírteinið veitir honum heimild til.

6.2.5.3

Kröfur fyrir 1. fl. heilbrigðisvottorð eru í reglugerð um heilbrigðiskröfur flugliða (JAR-FCL 3).

6.2.5.4

Umsækjendur um 3. flokks heilbrigðisvottorð skulu prófaðir í heyrnarmælingum með hreinum tónum í fyrstu heilbrigðisskoðun og ekki sjaldnar en fjórða hvert ár til fertugs og eftir það annað hvort ár.

6.2.5.4.1

Aðrar aðferðir eru leyfilegar ef þær eru jafn áreiðanlegar.

6.2.5.5

Kröfur fyrir 2. fl. heilbrigðisvottorð eru í reglugerð um heilbrigðiskröfur flugliða (JAR-FCL 3).

     

6.3

Kröfur fyrir 1. flokks heilbrigðisvottorð (Class 1 Medical Assessment).

     
 

Kröfur fyrir 1. flokks heilbrigðisvottorð eru í reglugerð um heilbrigðiskröfur flugliða (JAR-FCL 3).

     

6.4

Kröfur fyrir 2. flokks heilbrigðisvottorð (Class 2 Medical Assessment).

     
 

Kröfur fyrir 2. flokks heilbrigðisvottorð eru í reglugerð um heilbrigðiskröfur flugliða (JAR-FCL 3). Slíkar kröfur eiga ekki við um handhafa skírteinis flugumferðarstjóra.

     

6.5

Kröfur fyrir 3. flokks heilbrigðisvottorð (Class 3 Medical Assessment).

     

6.5.1

Útgáfa og endurnýjun 3. flokks vottorðs (Assessment issue and renewal).

6.5.1.1

Umsækjandi um skírteini flugumferðarstjóra skal gangast undir læknisskoðun fyrir útgáfu 3. flokks heilbrigðisvottorðs skv. reglugerð þessari eða 1. flokks heilbrigðisvottorðs (JAR-FCL 3) skv. reglugerð um heilbrigðiskröfur flugliða.

6.5.1.2

Ef annað er ekki tekið fram í þessum kafla skulu handhafar skírteina flugumferðarstjóra endurnýja 3. flokks heilbrigðisvottorð sitt ekki sjaldnar en á 12 mánaða fresti og á 6 mánaða fresti eftir fertugt.

6.5.1.3

Þegar Flugmálastjórn getur sannprófað að kröfum þessa kafla og almennum ákvæðum í gr. 6.1 og 6.2 er fullnægt skal gefa út 3. flokks heilbrigðisvottorð umsækjanda til handa.

     

6.5.2

Kröfur um líkamshreysti og andlegt heilbrigði (Physical and mental requirements).

6.5.2.1

Umsækjandi má ekki þjást af neinum sjúkdómi eða vanhæfi til starfa sem gætu stuðlað að því að hann yrði skyndilega ófær um að vinna skyldustörf sín af öryggi.

6.5.2.2

Í sjúkrasögu eða við læknisskoðun umsækjanda má ekki koma fram:

 

a)

vefrænn geðsjúkdómur,

 

b)

geðraskanir vegna neyslu áfengis eða annarra ávanabindandi efna með geðvirk áhrif,

 

c)

geðklofi eða annar geðrofssjúkdómur,

 

d)

geðslagssjúkdómur,

 

e)

taugaveiklun vegna streitu eða ímyndaðra líkamlegra orsaka,

 

f)

sjúkleg hegðun vegna lífeðlisfræðilegra truflana eða af líkamlegum ástæðum,

 

g)

persónuleikaraskanir, sérstaklega ef þær eru staðfestar og hafa leitt til beinna athafna,

 

h)

greindarskerðing,

 

i)

þroskaskerðing,

 

j)

hegðunar- eða tilfinningaraskanir frá bernsku eða á fullorðinsárum, eða

 

k)

hvers konar aðrar geðraskanir;

 

þannig að það gæti gert umsækjanda óhæfan til þess að neyta af öryggi heimilda skírteinis þess sem hann sækir um eða er handhafi að.

     

6.5.2.3

Í sjúkrasögu eða við læknisskoðun umsækjanda mega ekki koma fram eftirfarandi atriði:

 

a)

sjúkdómur í taugakerfinu, sem kann að ágerast og/eða er óbreyttur og [ ] gæti truflað öryggi í störfum miðað við þær heimildir sem skírteini og áritanir umsækjanda veita,

 

b)

flogaveiki eða

 

c)

hvers konar truflun meðvitundar án fullnægjandi læknisfræðilegrar skýringar á orsök hennar.

6.5.2.4

Umsækjandi skal ekki hafa hlotið höfuðmeiðsli sem eru líkleg til að geta truflað öryggi í störfum, miðað við heimildir þær sem skírteinið veitir.

6.5.2.5

Umsækjandi má ekki þjást af neinum meðfæddum né ákomnum hjartagalla sem er líklegur til að geta truflað öryggi í störfum, miðað við þær heimildir sem skírteini veitir.

6.5.2.5.1

Umsækjandi, sem hefur gengist undir hjáveituaðgerð eða útvíkkun kransæða (with or without stenting) eða aðrar hjartaaðgerðir eða á sér sögu um kransæðastíflu eða hefur hugsanlega einhverja aðra hjartasjúkdóma, sem valda óhæfi, skal ekki talinn hæfur nema að lokinni ítarlegri hjartarannsókn og að viðurkenndu læknisfræðilegu mati sé talið að það trufli ekki það að neyta með öruggum hætti heimilda sem skírteini og áritanir veita.

6.5.2.5.2

Umsækjandi með hjartsláttartruflanir skal ekki talinn hæfur nema að það hafi verið ítarlega rannsakað og að viðurkenndu læknisfræðilegu mati sé ekki talið líklegt að það komi í veg fyrir að neyta með öruggum hætti heimilda sem skírteini og áritanir veita.

6.5.2.6

Hjartalínurit skal vera hluti hjartarannsóknar við fyrstu útgáfu heilbrigðisvottorðs.

6.5.2.6.1

Hjartalínurit skal tekið við endurskoðanir eftir að umsækjandi hefur náð 50 ára aldri og eftir það eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti.

6.5.2.7

Blóðþrýstingur (efra og neðra mark) skal vera eðlilegur.

6.5.2.7.1

Ef umsækjandi notar lyf gegn háum blóðþrýstingi telst hann ekki hæfur nema ef um er að ræða lyf sem trufla ekki öryggi í störfum miðað við þær heimildir sem skírteini hans veitir.

6.5.2.8

Ekki mega vera neinar starfrænar né vefrænar veilur í æðakerfinu.

6.5.2.9

Ekki má vera um neina sjúkdóma í lungum, miðmæti (mediastinum) né brjósthimnu (pleura) að ræða.

6.5.2.10

Umsækjandi með langvinnan teppandi sjúkdóm í öndunarfærum, sem er á því stigi að einkenni koma í ljós, skal ekki talinn hæfur nema að lokinni ítarlegri rannsókn og að viðurkenndu læknisfræðilegu mati sé talið að það trufli ekki það að neyta með öruggum hætti heimilda sem skírteini og áritanir veita.

6.5.2.11

Umsækjandi með hvarfagjarnan sjúkdóm í öndunarvegi sem veldur verulegum einkennum svo líklegt er að það geri hann ekki hæfan til starfa skal ekki talinn hæfur.

6.5.2.11.1

Umsækjandi með hvarfagjarnan sjúkdóm í öndunarvegi sem veldur verulegum einkennum og notar lyf telst ekki hæfur nema ef um er að ræða lyf sem trufla ekki það að neyta með öruggum hætti heimilda sem skírteini og áritanir veita.

6.5.2.12

Umsækjandi með virka lungnaberkla telst ekki hæfur.

6.5.2.12.1

Ef um óvirk eða læknuð mein er að ræða, sem greina má sem berkla eða ætla má að séu berklakyns, má telja umsækjanda hæfan.

6.5.2.13

Umsækjandi með sjúkdóm, sem veldur vanhæfi og er samfara verulegum truflunum í meltingarfærum eða líffærum, sem þeim eru tengd (adnexae), skal ekki talinn hæfur.

6.5.2.14

Umsækjandi með hvers konar afleiðingar sjúkdóms eða uppskurðar á meltingarvegi eða líffærum, sem honum eru tengd (adnexae), sérstaklega lokun líffæris vegna þrengsla eða þrýstings, sem gætu valdið óhæfi, skal ekki talinn hæfur.

6.5.2.14.1

Umsækjandi sem hefur gengist undir meiriháttar uppskurð á gallgöngum, meltingarfærum eða tengdum líffærum (adnexae) með algjöru eða að hluta til brottnámi eða hjáveitu skal ekki talinn hæfur fyrr en heilbrigðisskor hefur athugað öll gögn varðandi viðkomandi aðgerð og metur ólíklegt að það valdi óstarfhæfi.

6.5.2.15

Umsækjandi með efnaskipta-, næringar- og innrennsliskirtlatruflanir, sem gætu truflað öryggi í störfum, miðað við þær heimildir sem skírteinið veitir, skal ekki talinn hæfur.

6.5.2.16

Umsækjandi með sykursýki sem er meðhöndluð með insulini skal ekki talinn hæfur.

6.5.2.16.1

Umsækjandi með sykursýki, sem er ekki meðhöndluð með insulini, skal ekki talinn hæfur nema hægt sé að meðhöndla hann á fullnægjandi hátt með mataræði og lyfjum sem tekin eru inn (gleypilyf) og hann geti á öruggan hátt neytt heimilda þeirra sem skírteini hans og áritanir veita.

6.5.2.17

Umsækjandi með blóðsjúkdóm eða sjúkdóm í eitlakerfi líkamans, skal ekki talinn hæfur nema viðurkennt læknisfræðilegt mat bendi til þess að ekki sé líklegt að ástandið hafi áhrif á að neyta með öruggum hætti heimilda sem skírteini og áritanir veita.

6.5.2.18

Umsækjandi með einkenni um sjúkdóma í nýrum, þvagvegum og kynfærum skal ekki talinn hæfur nema, að loknum rannsóknum, sé ástand hans ekki talið hafa áhrif á öryggi í starfi miðað við þær heimildir sem skírteinið og áritanir veita.

6.5.2.18.1

Þvagpróf skal vera hluti heilbrigðisskoðunar og allt óeðlilegt skal rannsaka nánar.

6.5.2.19

Ef um er að ræða einhvers konar afleiðingar sjúkdóms eða uppskurðar á nýrum eða þvagvegum, sérstaklega lokun líffæris, sem stafar af þrengslum eða þrýstingi, skal umsækjandi ekki talinn hæfur nema að lokinni rannsókn og að viðurkenndu læknisfræðilegu mati sé ekki talið að það hafi áhrif á að störf séu unnin á öruggan hátt miðað við þær heimildir sem skírteini og áritanir veita.

6.5.2.19.1

Umsækjendur sem hafa farið í nýrnabrottnám skal ekki meta hæfa nema góðum bata sé náð.

6.5.2.20

Umsækjendur með áunna ónæmisbæklun, AIDS, skal ekki meta hæfa.

6.5.2.20.1

Umsækjendur með jákvætt serapróf fyrir HIV veiru sem veikir ónæmiskerfi skal ekki meta hæfa nema ítarlegar rannsóknir sýni engin sjúkdómseinkenni.

6.5.2.21

Umsækjandi sem er með starfrænan eða vefrænan kvensjúkdóm sem líklegt er að trufli að störf séu unnin á öruggan hátt, miðað við þær heimildir sem skírteini og áritanir veita, skal ekki talin hæf.

6.5.2.22

Barnshafandi umsækjendur skal ekki meta hæfa nema mæðraskoðanir og samfellt eftirlit bendi til að lítil hætta sé á að meðganga verði óeðlileg.

6.5.2.22.1

Þess skal gætt að barnshafandi flugumferðarstjórar hætti störfum tímanlega ef ótímabærar hríðir eða eitthvað óeðlilegt gerir vart við sig.

6.5.2.22.2

Gildistími heilbrigðisvottorða umsækjenda, sem hafa fengið það mat að lítil hætta sé á óeðlilegri meðgöngu og sem eru undir eftirliti í samræmi við 6.5.2.22, skal ekki vera lengri en þar til 34. viku meðgöngutímans lýkur.

6.5.2.23

Eftir fæðingu eða fósturlát/fóstureyðingu skal umsækjandi ekki neyta heimilda skírteinis síns fyrr en að loknu viðurkenndu læknisfræðilegu mati og staðfest hefur verið að hún geti á öruggan hátt neytt þeirra heimilda sem felast í skírteini hennar og áritunum.

6.5.2.24

Ekki má vera neitt óeðlilegt við bein, liðamót, vöðva og sinar eða annað í stoðkerfi, sem gæti haft áhrif á að neytt sé með öruggum hætti heimilda sem skírteini og áritanir veita.

6.5.2.25

Í eyrum umsækjanda eða tengdum líffærum skal hvorki vera neitt óeðlilegt né neinn sjúkdómur, sem gæti haft áhrif á að neytt sé með öruggum hætti heimilda sem skírteini og áritanir veita.

6.5.2.26

Engin vansköpun né sjúkdómur má vera í nefi, koki eða efri öndunarvegi sem gæti haft áhrif á að neytt sé með öruggum hætti heimilda sem skírteini og áritanir veita.

6.5.2.27

Ef umsækjandi stamar eða er málhaltur, þannig að það gæti truflað talsamskipti, skal hann ekki talinn hæfur.

     

6.5.3

Kröfur um sjón (Visual requirements).

 

Læknisskoðun skal miðuð við eftirfarandi kröfur:

6.5.3.1

Virkni augna og viðhengja þeirra skal vera eðlileg. Ekki skal vera fyrir hendi neitt sjúklegt ástand, brátt eða langvinnt, eða eftirstöðvar augnaaðgerðar eða meiðsli á augum eða viðhengjum þeirra sem líklegt er að skerði rétta augnvirkni í þeim mæli að það komi í veg fyrir að umsækjandi geti neytt réttinda skírteina sinna og áritana með öruggum hætti.

6.5.3.2

Fjarlægðarsjónskerpa, með eða án leiðréttingar, skal vera 6/9 eða betri á hvoru auga og tvísæisskerpa skal vera 6/6 eða betri. Engin mörk eru fyrir óleiðrétta sjónskerpu. Verði þessari sjónskerpu aðeins náð með sjónglerjum má þó meta umsækjanda hæfan að því tilskildu:

 

a)

að slík sjóngler séu notuð meðan réttinda skírteinis eða áritunar sem umsækjandi sækir um eða hefur er neytt; og

 

b)

einnig skulu viðeigandi varagleraugu vera við hendina þegar réttinda skírteinis umsækjanda er neytt.

6.5.3.2.1

Umsækjendur mega nota snertilinsur til að uppfylla þessa kröfu að því tilskildu:

 

a)

að linsurnar séu einskerpulinsur og ólitaðar;

 

b)

að linsurnar þolist vel;

 

c)

að viðeigandi leiðréttingargleraugu séu við hendina þegar réttinda skírteinis er neytt.

6.5.3.2.2

Umsækjendur með mikla ljósbrotsskekkju skulu nota snertilinsur eða sjóngler af háum gæðum.

6.5.3.2.3

Umsækjendur með óleiðrétta sjónskerpu á öðru hvoru auga verri en 6/60 skulu leggja fram fullkomna augnfræðilega skýrslu fyrir fyrstu læknisskoðun og síðan á fimm ára fresti.

6.5.3.3

Umsækjendur sem hafa gengist undir skurðaðgerð sem hefur áhrif á ljósbrotseiginleika augans skulu metnir vanhæfir nema þeir séu lausir við þau eftirköst sem líklegt er að komi í veg fyrir að umsækjandi geti neytt réttinda skírteina sinna og áritana með öruggum hætti.

6.5.3.4

Umsækjandinn skal geta, þegar hann notar leiðréttingarsjóngler samkvæmt 6.5.3.2, ef þeirra er þörf, lesið N5 spjaldið eða ígildi þess, í fjarlægð sem umsækjandi velur á bilinu 30 til 50 cm og geta lesið N14 spjaldið eða ígildi þess í 100 cm fjarlægð. Ef þessi krafa er aðeins uppfyllt þegar nærleiðrétting er notuð má meta umsækjanda hæfan að því tilskildu að þessari nærleiðréttingu sé bætt við leiðréttingu þeirra gleraugna sem þegar hefur verið ávísað í samræmi við 6.5.3.2; ef slíkri leiðréttingu er ekki ávísað skulu gleraugu til nærnotkunar höfð við hendina þegar réttinda skírteinisins er neytt. Þegar nærleiðréttingar er þörf skal umsækjandi sýna fram á að ein gleraugu nægi til að uppfylla sjónkröfur bæði nærri og í fjarlægð.

6.5.3.4.1

Þegar þörf er leiðréttingar á nærsjón í samræmi við þessa málsgrein skulu önnur leiðréttingargleraugu höfð tiltæk til tafarlausrar notkunar.

6.5.3.5

Umsækjandi skal hafa eðlilegt sjónsvið.

6.5.3.6

Umsækjandi skal hafa eðlilegt tvísýni.

6.5.3.6.1

Skert þrívíddarsýn, óeðlileg samhæfing augna sem ekki truflar nærsjón og skökk lega augna sem er ekki það mikil að hún valdi augnþreytu eða tvísýni þarf ekki að gera umsækjanda óhæfan.

     

6.5.4

Kröfur um heyrn (Hearing requirements).

6.5.4.1

Umsækjandi, sem prófaður er með hreintónsheyrnarmæli, má ekki vera haldinn heyrnardeyfð á hvoru eyra um sig meiri en 35 dB á neinni tíðni sem er 500, 1000 eða 2000 Hz, eða meiri en 50 dB við tíðnina 3000 Hz.

6.5.4.1.1

Ef heyrnardeyfð umsækjanda er meiri en að ofan greinir má samt sem áður telja hann hæfan, ef sýna má fram á fullnægjandi heyrn í hávaðasviði sem samsvarar eðlilegri starfsaðstöðu flugumferðarstjóra.

6.5.4.1.2

Það er einnig leyfilegt að prófa heyrn umsækjanda í sama vinnuumhverfi flugumferðarstjóra og viðkomandi heimildir skírteinis og áritana gilda fyrir.


IV. KAFLI

Lokákvæði.

21. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varðar viðurlögum samkvæmt ákvæðum 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

22. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 123/2006 um að fella inn í EES-samninginn og taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2006/23/EB frá 5. apríl 2006 um bandalagsskírteini fyrir flugumferðarstjóra.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 73., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Ákvæði a- og b-liðar 1. mgr. 10. gr. gilda ekki um handahafa skírteinis flugumferðarstjóra sem gefin eru út fyrir 17. maí 2008.

13. gr. reglugerðarinnar tekur gildi 17. maí 2009.

Samgönguráðuneytinu, 28. mars 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica