Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

474/2008

Reglugerð um flutning fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga með stórum flugvélum.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til loftfara sem skráð eru hér á landi og erlendra flugvéla sem íslenskur flugrekandi notar eða ræður yfir.

2. gr.

Orðskýringar.

Þegar eftirfarandi orð og orðasambönd eru notuð í þessari reglugerð hafa þau þá merkingu sem hér segir:

Aðstoðarmaður: Einstaklingur sem hefur fengið flugöryggislega þjálfun í að veita fötluðu og hreyfiskertu fólki aðstoð.

Fatlaður og hreyfihamlaður einstaklingur: Einstaklingur sem, að því er varðar notkun flutningatækja, hefur skerta hreyfigetu sem rakin verður til líkamlegrar fötlunar (skertrar skynjunar eða hreyfigetu, varanlegrar eða tímabundinnar), greindarskerðingar eða annars konar fötlunar eða aldurs og býr við aðstæður sem krefjast þess að hann fái athygli og þjónustu, sem er sérstaklega sniðin að þörfum hans, þannig að hann fái sömu þjónustu og öllum öðrum farþegum stendur til boða.

Sérflug: Áætlunarflug eða óreglubundið flug þegar fatlaðir og hreyfiskertir farþegar eru fleiri en leyfilegt er í venjulegu flugi.

Aths. Sérflug er venjulega undirbúið fyrirfram.

Venjulegt flug: Áætlunarflug eða óreglubundið flug þegar ákveðinn hámarksfjöldi farþega má vera fatlaðir og hreyfiskertir einstaklingar.

Stór flugvél: Flugvél sem hefur leyfilegan flugtaksþunga meiri en 5700 kg.

3. gr.

Leiðbeiningar um flutning.

Flugrekanda ber að semja sérstakar verklagsreglur um flutning fatlaðra og hreyfi­hamlaðra einstaklinga í venjulegu flugi fyrir allar flugvélategundir, sem flugrekandi hefur í notkun. Verklagsreglur skulu skráðar í flugrekstrarhandbók. Sérstakar verklagsreglur þarf líka ef svo mikill munur er á flugvélum sömu tegundar að ólíkar aðferðir þarf við neyðarrýmingu.

Ef flugrekandi ætlar að flytja fleiri fatlaða og hreyfihamlaða einstaklinga en leyfilegt er í venjulegu flugi ber honum að semja sérstakar verklagsreglur fyrir slíkt sérflug. Verklagsreglurnar skulu skráðar í flugrekstrarhandbók.

Áður en flug hefst ber að tilkynna flugstjóra fjölda fatlaðra og hreyfihamlaðra ein­staklinga, sætisnúmer þeirra í vélinni og hvort með þeim sé hjúkrunarfólk/aðstoðarfólk.

Flugrekandi skal skrá í flugrekstrarhandbók þær þjálfunarkröfur sem gerðar eru til aðstoðarfólks.

4. gr.

Venjulegt flug.

Flugrekandi skal tilgreina í flugrekstrarhandbók fjölda fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga sem heimilt er að flytja í flugvélategundum og afbrigða flugvéla, en fjöldi fatlaðra og hreyfihamlaðra farþega má ekki vera meiri en fjöldi fullfærra farþega sem geta aðstoðað við neyðarrýmingu.

Fatlaðir og hreyfihamlaðir farþegar skulu ekki sitja í sætaröð við neyðarútgang.

5. gr.

Sérflug.

Sérflug getur verið:

 

a)

Flug þar sem meðal farþega er hópur fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga.

 

b)

Flug þar sem farþegar eru eingöngu fatlaðir og hreyfihamlaðir ein­staklingar og einstaklingar sem eru í fylgd með þeim (t.d. aðstoðarfólk, hjúkrunarfólk, vanda­menn).Við sérflug skv. a-lið 1. mgr. ber hlutaðeigandi flugrekanda að ákveða fjölda fatlaðra og/eða hreyfihamlaðra einstaklinga sem flytja má. Þeir mega þó ekki vera fleiri en svo að unnt sé að koma þeim fyrir í þeim hluta farþegarýmis sem takmarkast af mið­gangi/hliðargangi og tveim neyðarútgöngum sömu megin.

Í sérflugi, skv. b-lið 1. mgr., ber hlutaðeigandi flugrekanda að ákveða fjölda fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga sem flytja má. Fatlaðir og hreyfihamlaðir farþegar mega þó ekki vera fleiri en fjöldi fullfærra farþega sem geta aðstoðað við neyðarrýmingu.

Aths. Fjöldi fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga getur verið ýmsu háður svo sem lengd flugs, hjálparþörf hins fatlaða og hreyfihamlaða farþega á leiðinni og flugvélar­tegund.

Í sérflugi ber að koma fötluðum og hreyfihömluðum einstaklingum fyrir á þann hátt sem flug­rekandi telur hentugastan. Fatlaðir og hreyfihamlaðir farþegar skulu ekki sitja í sæta­röð við neyðarútgang.

6. gr.

Aðstoðarmaður.

Í sérflugi á a.m.k. einn aðstoðarmaður að vera með hverjum fimm manna hópi fatlaðra og hreyfihamlaðra farþega sem er fram yfir þann fjölda sem er leyfilegur við venjulegt flug, skv. 4. gr. Aðstoðarmenn skulu sitja sem næst hinum fötluðu og hreyfihömluðu farþegum.

Í sérflugi þarf að fjölga leyfilegum lágmarksfjölda þjónustuliða í farþegarými um einn fyrir hvern 15 manna hóp fatlaðs og hreyfihamlaðs farþega sem er fram yfir þann fjölda sem flytja má skv. 4. gr. í venjulegu flugi.

Í stað þjónustuliða í farþegarými má vera aðstoðarmaður skv. 1. mgr. ef hann hefur fengið þjálfun, sem flugrekandi telur nægilega, um hlutaðeigandi búnað og notkun hans.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þess, sem sett er samkvæmt 80. gr., 85. gr. a, og 126. gr. b sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum, staðfestist hér með til þess að öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur þá úr gildi reglugerð um flutning hreyfiskertra farþega með stórum flugvélum nr. 442/1979.

Samgönguráðuneytinu, 5. maí 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica