Samgönguráðuneyti

535/2006

Reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu. - Brottfallin

1. gr.

Orðskýringar.

Þegar eftirfarandi hugtök eru notuð í reglugerð þessari hafa þau þá merkingu sem hér greinir:

Aðflugsstjórnarþjónusta (Approach control service): Flugstjórnarþjónusta við stjórnað flug í aðflugi og brottflugi.

Flugleiðsöguþjónusta (Air Navigation Services): Með flugleiðsöguþjónustu er átt við flugumferðar- og fjarskiptaþjónustu, leiðsögu- og kögunarþjónustu, veður­þjónustu fyrir flugleiðsögu og flugupplýsingarþjónustu.

Flugstjórnarsvæðisþjónusta (Area control service): Flugstjórnarþjónusta fyrir stjórnað flug í tilteknu loftrými.

Flugstjórnarþjónusta (Air traffic control (ATC) service): Þjónusta sem veitt er í þeim tilgangi að: (a) að koma í veg fyrir árekstur: - milli loftfara, og - á umferðarsvæði flugvalla milli loftfars og hindrana; og (b) flýta fyrir og stuðla að skipulegri flugumferð.

Flugumferðarþjónusta (Air traffic services): Heiti yfirhugtaks sem nær til mismunandi flugupplýsingaþjónustu, viðbúnaðarþjónustu, ráðgjafaþjónustu og flugstjórnarþjónustu (aðflugsstjórnarþjónustu, flugstjórnarsvæðisþjónustu og flugturnsþjónustu).

Leiðsöguþjónusta (Navigation service): Sú þjónusta sem veitir upplýsingar um stöðu og tíma til loftfara.

Rekstrarstjórnun flugumferðar (Air Traffic Management): Samstillt stjórnun í lofti og á jörðu niðri (flugumferðarþjónustu, loftrýmisstjórnun og flæðisstjórnun flugumferðar) sem krafist er til að tryggja örugga og skilvirka hreyfingu loftfars á öllum stigum starfrækslu.

Starfsmenn í öryggistengdum störfum (Safety-sensitive personnel): Starfsmenn sem gætu heft öryggi í flugi ef þeir framkvæma störf sín og skyldur á óviðeigandi hátt. Þeir eru, en þó ekki takmarkaðir við, flugáhafnir, viðgerðarmenn loftfara og flugumferðarstjóra.

Upplýsingaþjónusta flugmála (Aeronautical Information Service): Þjónusta sem stofnuð er innan skilgreinds rýmis og sem er ábyrg fyrir að miðla flugmála­upplýsingum og gögnum sem nauðsynleg eru til að tryggja öryggi, reglufestu og skilvirkni í flugleiðsögu.

Veðurþjónusta (Meteorological services): Sú aðstaða og þjónusta, sem veitt er af ríkjum til notkunar fyrir flug, sem veitir loftfari veðurspár, yfirlit og athuganir sem og hvers konar aðrar veðurupplýsingar og gögn.

Viðbúnaðarþjónusta (Alerting service): Þjónusta sem tilkynnir viðeigandi stofnunum, þegar nauðsyn er leitar- og björgunaraðgerða vegna loftfara, og er til aðstoðar slíkum stofnunum eftir þörfum.

Öryggisstjórnunarkerfi (Safety management system): Kerfi til að stjórna öryggi í flugleiðsöguþjónustu, sem felur í sér stjórnunarlega uppbyggingu, ábyrgð, verklag, aðferðir og ráðstafanir til að öryggisstefnu í flugleiðsöguþjónustu sé framfylgt af rekstraraðila, sem sér um öryggisráðstafanir og örugga starfrækslu þjónustunnar.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til flugleiðsöguþjónustu sem veitt er hér á landi, í lofthelgi Íslands og í því loftrými sem Íslandi hefur verið falin þjónusta í samkvæmt alþjóðlegum eða tvíhliða samningum, eftir atvikum.

3. gr.

Leiðbeiningarefni.

Víða í reglugerð þessari er vísað til krafna og leiðbeiningarefnis í viðaukum við Chicago-samninginn og leiðbeinandi efnis útgefins af Alþjóðaflugmálastofnuninni og krafna og leiðbeiningarefnis Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu (EUROCONTROL).

Leiðbeiningarefnið hefur að geyma viðeigandi og tækar leiðir til að fullnægja skilyrðum þeim sem í reglugerð þessari er lýst eða er þeim kröfum til frekari uppfyllingar. Fylgja skal þessu leiðbeiningarefni til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar, nema til komi a.m.k. jafngildar aðferðir sem ekki eru taldar skerða flugöryggi að mati Flugmálastjórnar. Til að samþykkja aðferðir sem jafngildar, þarf umsækjandi að sýna á fullnægjandi hátt fram á að flugöryggi skerðist ekki með sérfræðiáliti sem Flugmálastjórn metur viðunandi.

4. gr.

Starfsleyfisskylda.

Rekstraraðili flugleiðsöguþjónustu er hver sá opinber aðili eða fyrirtæki sem veitir flugleiðsöguþjónustu fyrir flugumferð. Nú vill aðili hefja starfrækslu flugleiðsöguþjónustu og skal þá umráðamaður og/eða eigandi sækja um starfsleyfi til Flugmálastjórnar minnst þremur mánuðum fyrir upphaf þjónustunnar.

5. gr.

Starfsleyfiskröfur.

Umsækjandi um starfsleyfi skal sýna fram að hann uppfylli þau almennu skilyrði sem tilgreind eru í viðauka I við reglugerð þessa og sérstök skilyrði, í samræmi við þá þjónustu sem hann óskar eftir að veita, sem tilgreind eru í viðauka II-V.

Flugmálastjórn er heimilt að undanþiggja umsækjanda tímabundið frá einstökum skilyrðum samkvæmt viðaukum II-V enda sé flugöryggi ekki stefnt í hættu að mati stofnunarinnar. Meta skal reglubundið forsendur, eðli og gildissvið undanþágu samkvæmt skilyrðum starfsleyfis. Telji Flugmálastjórn forsendur undanþágu ekki lengur eiga við skal hún þá tilkynna leyfishafa ákvörðun sína og samhliða gera breytingar á starfs­leyfis­skilyrðum.

6. gr.

Afgreiðsla starfsleyfis.

Umsækjandi um starfsleyfi skal veita allar upplýsingar og framvísa gögnum sem sýna fram á að hann uppfylli almenn og sérstök skilyrði til starfsleyfisins. Eftirfarandi upp­lýsingar skulu fylgja með fyrstu umsókn og eftir því sem við á, umsóknum um breyt­ingu eða endurnýjun:

  1. Opinbert nafn, firmanafn, heimilisfang og póstfang umsækjanda;
  2. Lýsing á fyrirhuguðum rekstri og eða breyting á rekstri;
  3. Aðrar upplýsingar og gögn sem við eiga samkvæmt viðaukum I-V. Umsækjandi skal sýna fram á að hann valdi þeim þáttum í starfseminni sem gerir honum kleift að starfrækja flugleiðsöguþjónustu í samræmi við umsóknina og reglur þessar;
  4. Upplýsingar um flugleiðsöguþjónustu sem veitt er eða stendur til að veita, upplýsingar um opnunartíma og þjónustustig.

Umsókn um starfsleyfi skal tekin til afgreiðslu er tilskildar upplýsingar og gögn hafa borist Flugmálastjórn.

Óski umsækjandi eftir því að takmarkaður verði aðgangur að þeim upplýsingum sem hann leggur fram með starfsleyfi, í samræmi við ákvæði upplýsingalaga, skal hann tilgreina hvaða upplýsingar hann óski að svo skuli fara með og tilgreina ástæður þess.

7. gr.

Aðgengi að gögnum.

Leyfishafi skal á hverjum tíma veita Flugmálastjórn Íslands fullan aðgang að mann­virkjum, búnaði, upplýsingum og gögnum er snerta leyfisskylda starfsemi hans og sýna fram á að leyfishafi fullnægi þeim skilyrðum sem lög og reglur kveða á um.

Leyfishafi skal tilkynna Flugmálastjórn Íslands, eins fljótt og verða má, fyrirhugaðar breytingar á þjónustu sem kunna að hafa áhrif á getu hans til að uppfylla almenn skilyrði fyrir rekstarleyfi eða sérstök skilyrði starfsleyfisins.

Leyfishafi skal tilkynna Flugmálastjórn Íslands eins fljótt og verða má um fyrirhugaðar öryggistengdar breytingar á þjónustunni.

8. gr.

Útgáfa starfsleyfis.

Starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu er veitt til ákveðins tíma að því tilskildu að handhafi þess fullnægi þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum, reglugerð þessari og öðru leiðbeiningarefni. Fyrsta útgáfa starfsleyfis má vera til allt að 1 árs en til allt að fimm ára við endurútgáfu.

Ef leyfishafi hefur stöðvað rekstur í sex mánuði eða ekki hafið rekstur að sex mánuðum liðnum frá veitingu starfsleyfis skal Flugmálastjórn ákveða hvort umsókn um starfsleyfi skuli lögð fram til samþykktar að nýju.

Í starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu skal tilgreint nafn og aðsetur rekstraraðila, útgáfudag og gildistíma leyfis, nafn ábyrgðaraðila og helstu stjórnenda, lýsingu á þjónustunni og hvers konar starfsemi er heimiluð. Undanþágur, takmarkanir eða skilyrði fyrir veitingu starfsleyfisins skulu tilgreind í því.

Komi nýr rekstraraðili að rekstri flugleiðsöguþjónustu er hefur gilt starfsleyfi er Flugmálastjórn heimilt, að fenginni umsókn þar um, að færa starfsleyfið yfir á nýjan rekstraraðila án þess að gefið verði út nýtt, enda verði engin önnur breyting á starfseminni. Með þessu færast öll réttindi og allar skyldur varðandi starfsleyfið yfir á hinn nýja rekstraraðila.

9. gr.

Svipting eða brottfall starfsleyfis og skráningar.

Handhafi starfsleyfis skal tafarlaust skýra Flugmálastjórn frá því ef starfsemi hans breytist þannig að forsendur starfsleyfis eða skráningarinnar bresti, t.d. að því er lýtur að stjórnun og starfrækslu einhverra þátta flugleiðsöguþjónustu, starfsliði, ástandi búnaðar eða mannvirkja.

Flugmálastjórn skal, eftir atvikum, veita leyfishafa tímabundinn frest til að gera við­eigandi ráðstafanir til að bæta úr annmörkum á starfseminni og gera viðeigandi ráð­stafanir, sé þess kostur, áður en gripið er til úrræða samkvæmt 3., 5. eða 6. mgr. þessarar greinar.

Uppfylli starfsleyfishafi ekki lengur almennar og eða sérstakar kröfur í viðaukum I-V og eða bresti forsendur annarra skilyrða starfsleyfisins að einhverju leyti skal Flug­mála­stjórn heimilt að breyta starfsleyfi, fella starfsleyfi úr gildi að hluta eða öllu leyti tíma­bundið eða afturkalla leyfi, enda telji Flugmálastjórn sig ekki lengur hafa fulla vissu um að leyfishafi geti haldið uppi öruggum rekstri.

Starfsleyfi fellur úr gildi hafi handhafi starfsleyfisins verið tekinn til gjaldþrotaskipta eða sambærilegrar meðferðar og Flugmálastjórn telur engar raunhæfar líkur á að fjárhagsleg endurskipulagning takist svo fullnægjandi sé innan hæfilegs tíma.

Brjóti leyfishafi í mikilvægum atriðum lagaboð, önnur fyrirmæli um starfsemina, skilyrði starfsleyfis eða reynist ófær um að reka starfsemina skal svipta hann leyfi.

Flugmálastjórn Íslands skal heimilt að rjúfa, takmarka eða loka starfsemi leyfishafa tímabundið sé ástand eða rekstur með þeim hætti að stofnunin telur flugöryggi stefnt í hættu.

10. gr.

Verktaka.

Nú hefur umsækjandi samið við aðra aðila um að sinna tilteknum þáttum í starfsemi flugleiðsögu fyrir sína hönd og skal þá skýrlega kveðið á um þá þjónustuþætti og ábyrgð í samningi milli aðila.

11. gr.

Misnotkun geðvirkra efna.

Hver sá sem hefur á hendi störf sem varða öryggi flugs (starfsmenn í öryggistengdum störfum), skal ekki gegna starfa sínum ef hann hefur neytt einhverra geðvirkra efna sem rýra starfshæfni hans. Slíkum starfsmönnum skal óheimil hvers konar misnotkun geðvirkra efna.

12. gr.

Tilkynningarskylda.

Leyfishafi skal tilkynna um öll frávik frá starfseminni í samræmi við ákvæði reglugerðar um tilkynningarskyldu flugslysa, alvarlegra flugatvika og atvika, eins og hún er á hverjum tíma.

13. gr.

Rekstrarfyrirmæli.

Flugmálastjórn Íslands getur gefið út rekstrarfyrirmæli til handhafa starfsleyfis varðandi einstaka rekstrarþætti eða reksturinn í heild. Rekstrarfyrirmæli geta lotið að því að banna tiltekna starfrækslu, binda hana takmörkunum eða gera hana háða því að tiltekin skilyrði sem stofnunin setur séu uppfyllt í þágu flugöryggis.

Rekstrarfyrirmæli skulu greina ástæðu fyrir útgáfu þeirra, gildissvið og gildistíma og þær ráðstafanir sem hlutaðeigandi ber að viðhafa.

14. gr.

Ábyrgðarmaður daglegs rekstrar og öryggisstjóri.

Ábyrgðarmaður daglegs rekstrar ber ábyrgð á rekstri á flugleiðsöguþjónustu í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Öryggisstjóri ber ábyrgð á öryggisstjórnunarkerfi skv. 3. gr. viðauka II við reglugerð þessa.

Ábyrgðarmaður daglegs rekstrar og öryggisstjóri skulu vera sérstakir trúnaðarmenn Flugmálastjórnar hjá rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu og hljóta til þess viðurkenningu stofnunarinnar samkvæmt umsókn. Skal mat Flugmálastjórnar á viðurkenningu grundvallast á forsendum um menntun, kunnáttu og reynslu.

Ef ábyrgðarmaður daglegs rekstrar og öryggisstjóri láta af störfum hjá rekstraraðila eða hyggjast gera það, ber ábyrgðarmanni flugleiðsöguþjónustu að tilkynna Flugmálastjórn um það tafarlaust og sækja um viðurkenningu á eftirmanni. Starfsemi rekstaraðila má ekki halda áfram án leyfis Flugmálastjórnar fyrr en nýr ábyrgðarmaður daglegs rekstrar og öryggisstjóri hafa hafið störf að nýju.

Tilnefna má staðgengla ábyrgðarmanns daglegs rekstrar og öryggisstjóra. Leita ber viðurkenningar Flugmálastjórnar fyrirfram á hlutaðeigandi.

Nú telur Flugmálastjórn að ábyrgðarmaður daglegs rekstrar og öryggisstjóri uppfylli ekki lengur það traust sem honum er áskilið og skal stofnuninni þá heimilt að draga viðurkenningu sína til baka til bráðabirgða en að fullu telji stofnunin forsendur brostnar fyrir viðurkenningu. Flugmálastjórn skal eiga endanlegt mat á viðurkenningu á trúnaðarmönnum.

15. gr.

Málskotsréttur.

Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands sæta kæru samkvæmt almennum reglum stjórn­sýslu­laga.

16. gr.

Refsingar.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

17. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 57. gr. a., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og staðfestist hér með til að taka gildi þann 1. júlí 2006.

Ákvæði til bráðabirgða.

  1. Flugumferðarsvið Flugmálastjórnar Íslands skal hafa sjálfstæða aðild gagnvart flugöryggissviði stofnunarinnar hvað málsmeðferð snertir samkvæmt reglugerð þessari til 1. janúar 2007.
  2. Flugmálastjórn Íslands er heimilt að gefa út bráðabirgða starfsleyfi til þeirra aðila sem nú hafa flugleiðsöguþjónustu með höndum, enda telur stofnunin að flugöryggi verði ekki stefnt í hættu.

Samgönguráðuneytinu, 19. júní 2006.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica