Samgönguráðuneyti

423/2005

Reglugerð um breytingu á reglugerð um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum, nr. 666/2001.

1. gr.

Eftirfarandi skilgreiningar bætist við 2. gr.:

x) "ekjufarþegaskip": er skip sem flytur fleiri en 12 farþega, með ekjufarmrými eða sérstök rými eins og skilgreint er í reglu II-2/A/2 í I. viðauka;
y) "aldur" er aldur skipsins, gefinn til kynna í fjölda ára frá afhendingardegi þess;
z) "hreyfihamlaðir einstaklingar" eru allir þeir sem eiga í sérstökum erfiðleikum með að nota almenningssamgöngur, þ.m.t. aldraðir, fatlaðir, fólk með skerta skynjun og fólk sem notar hjólastól, þungaðar konur og fólk með lítil börn.


2. gr.

2. tölul. 4. gr. orðast svo:
Siglingastofnun Íslands skal:

a) taka saman og uppfæra, ef þörf krefur, skrá yfir hafsvæði innan íslenskrar lögsögu, afmarka svæði sem eru notuð allt árið og einnig, ef við á, þau svæði þar sem rekstur hinna ýmsu flokka skipa er stundaður hluta úr ári á grundvelli flokkunarviðmiðananna í 1. mgr., en í II. viðauka við þessa reglugerð eru skrár og kort yfir hafsvæði við Ísland þar sem viðmiðanir varðandi flokka, sem er að finna í 1. mgr. eru lagðar til grundvallar;
b) birta skrána á heimasíðu sinni;
c) tilkynna framkvæmdastjórninni hvar þessar upplýsingar er að finna og þegar breytingar eru gerðar á skránni.


3. gr.

Á eftir 6. gr. bætist við tvær nýjar greinar sem verða 6. gr. a og 6. gr. b, svohljóðandi:


6. gr. a
Kröfur um stöðugleika ekjufarþegaskipa og að taka þau úr notkun í áföngum.

1. Öll ekjufarþegaskip í flokki A, B og C, þar sem kjölurinn hefur verið lagður eða sem eru á svipuðu smíðastigi 1. október 2004 eða síðar, skulu vera í samræmi við ákvæði 6., 8. og 9. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/25/EB frá 14. apríl 2003 um sérkröfur um stöðugleika ekjufarþegaskipa.

2. Öll ekjufarþegaskip í flokki A og B, þar sem kjölurinn hefur verið lagður eða sem eru á svipuðu smíðastigi 1. október 2004 eða síðar, skulu vera í samræmi við ákvæði 6., 8. og 9. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/25/EB eigi síðar en 1. október 2010 nema taka eigi þau úr notkun í áföngum þann dag eða síðar þegar þau hafa náð 30 ára aldri en þó aldrei síðar en 1. október 2015.

6. gr. b
Öryggiskröfur fyrir hreyfihamlaða einstaklinga.

1. Siglingastofnun Íslands skal tryggja að gerðar séu viðeigandi ráðstafanir sem, eftir því sem við verður komið, byggjast á viðmiðunarreglunum í III. viðauka til að hreyfihamlaðir einstaklingar hafi greiðan aðgang að öllum farþegaskipum í flokki A, B, C og D og öllum háhraðafarþegaförum sem eru notuð í almenningssamgöngum þar sem kjölurinn hefur verið lagður eða sem eru á svipuðu smíðastigi 1. október 2004 eða síðar.

2. Siglingastofnun Íslands skal hafa samvinnu og samráð við stofnanir sem eru fulltrúar fyrir hreyfihamlaða að því er varðar framkvæmd viðmiðunarreglnanna í III. viðauka.

3. Að því er varðar breytingar á farþegaskipum í flokki A, B, C og D og háhraðafarþegaförum, sem eru notuð fyrir almenningssamgöngur, þar sem kjölurinn hefur verið lagður eða sem eru á svipuðu smíðastigi fyrir 1. október 2004, skal Siglingastofnun Íslands beita viðmiðunarreglunum í III. viðauka að því marki sem er fjárhagslega viðunandi og raunhæft. Siglingastofnun Íslands skal gera innlenda aðgerðaráætlun varðandi það hvernig eigi að beita viðmiðunarreglunum fyrir slík skip og för. Hún skal senda Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) áætlunina eigi síðar en 17. maí 2005.

4. Siglingastofnun Íslands skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um framkvæmd þessarar greinar að því er varðar öll farþegaskip sem um getur í 1. mgr., farþegaskip sem um getur í 3. mgr., þar sem heimilt er að hafa fleiri en 400 farþega innanborðs, og öll háhraðafarþegaför eigi síðar en 17. maí 2006.


4. gr.

Á eftir II. viðauka kemur nýr viðauki sem verður III. viðauki, svohljóðandi:


III. VIÐAUKI
Viðmiðunarreglur að því er varðar öryggiskröfur fyrir farþegaskip og háhraðafarþegaför fyrir hreyfihamlaða
(eins og um getur í 6 gr. b).

Þegar viðmiðunarreglunum í þessum viðauka er beitt skal fara eftir umburðarbréfi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar MSC/735 frá 24. júní 1996 "Tilmæli um hönnun og rekstur farþegaskipa til að koma til móts við þarfir aldraðra og fatlaðra."

1. Aðgangur að skipi.
Skip skulu smíðuð og útbúin þannig að hreyfihamlaðir geti farið um borð og frá borði á auðveldan og öruggan hátt og tryggt sé að þeir komist á milli þilfara, annaðhvort án aðstoðar eða með hjálp skábrauta eða lyftna. Leiðbeiningum um slíkan aðgang skal komið fyrir við aðrar aðgönguleiðir skipsins og á öðrum viðeigandi stöðum í skipinu.

2. Skilti.
Skilti um borð í skipi til að leiðbeina farþegum skulu vera aðgengileg og auðlæsileg fyrir hreyfihamlaða (þ.m.t. fólk með skerta skynjun) og skulu þau staðsett á mikilvægum stöðum.

3. Búnaður til að koma boðum til skila.
Rekstraraðilinn skal hafa búnað um borð í skipinu til að koma tilkynningum til skila á sjónrænan hátt og með tali til þeirra sem eru mismikið hreyfihamlaðir, t.d. varðandi seinkanir, breytingar á áætlun og þjónustu um borð.

4. Viðvörun.
Viðvörunarbúnaður skal þannig hannaður að hann geri öllum hreyfihömluðum farþegum viðvart og viðvörunarhnappar skulu vera aðgengilegir, þ.m.t. einstaklingum með skerta skynjun og þeim sem eiga við námsörðugleika að stríða.

5. Viðbótarkröfur sem tryggja hreyfanleika innan skipsins.
Handslár, gangar og gangvegir, dyragættir og hurðir skulu vera aðgengileg fyrir fólk í hjólastólum. Lyftur, ökutækjaþilför, farþegabiðsalir, klefar og snyrtiherbergi skulu þannig hönnuð að aðgengi fyrir hreyfihamlaða sé þægilegt og rými nóg.


5. gr.
Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 3. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, öðlast þegar gildi.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/24 frá 14. apríl 2003 um breytingu á tilskipun ráðsins 98/18/EB um öryggisreglur og staðla fyrir farþegaskip, sem vísað er til í EES-viðbæti nr. 56f í XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2003.


Samgönguráðuneytinu, 12. apríl 2005

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica