Samgönguráðuneyti

53/1976

Reglugerð um mannflutninga í loftförum

1. gr.

Orðaskýringar.

1.1. Þegar eftirfarandi orð eru notuð í þessari reglugerð hafa þau merkingu þá sem hér segir:

a) Flugrekandi: Einstaklingur eða félag sem fengið hefur leyfi samgöngu­ráðuneytisins eða flugmálastjórnar eftir því sem við á til þess að stunda flugrekstur í atvinnuskyni.

b) Flugstjóri: Flugmaður, sem ber ábyrgð á ferðum og öryggi loftfars meðan á flugtíma stendur.

c) Þjónustuliði: Áhafnarliði, sem er starfsmaður flugrekanda, og falið er starf um borð í loftfari meðan á flugtíma stendur sem nauðsynlegt er öryggi farþega, annað en starf flugliða.

2. gr.

Almennt.

2.1. Hámarksfjöldi þeirra. sem nokkru sinni mega vera um borð í loftfari, takmarkast af tölu þeirri, sem getið er í lofthæfisskírteini eða tegundarskírteini þess. Enn fremur takmarkast hámarksfjöldinn af fjölda björgunarvesta, björgunarbáta, súrefnisgrímna og annars neyðarbúnaðar, eftir því sem við á hverju sinni.

2.1.1. Með þeirri undantekningu, sem um getur í 6. gr., má fjöldi þeirra, sem um borð eru, þó aldrei fara fram úr fjölda öryggisbelta á föstum sætum eða bekkjum um borð.

3. gr.

Öryggisbelti.

3.1. Áhöfn og farþegar skulu hafa öryggisbelti spennt í flugtaki og við lendingu.

Flugstjórinn skal, þegar flogið er í ókyrru lofti, fyrirskipa að öryggisbelti séu spennt.

3.2. Í loftförum, sem hafa aðgreind stjórnrými og farþegarími, skal vera greinilegt ljósskilti í farþegarými með textanum "SPENNID BELTIN" og/eða ,.FASTEN SEAT BELTS". Kveikt skal á skiltinu í hvert skipti sem farþegarnir eiga að vera spenntir fastir. Farþegunum skal og sagt að sitja ætíð fastspenntir er þeir sitja í sæti sinu, jafnvel þótt ekki sé kveikt á skiltinu.

4, gr.

Tóbaksreykingar.

4.1. Lofthæfisskírteini eða flughandbók loftfars segir til um hvort tóbaksreykingar eru leyfðar í loftfarinu. Reykingar má aðeins leyfa í stjórnklefa og farþegaklefa en ekki á salernum eða í öðrum afmörkuðum hlutum loftfarsins.

4.1.1. Í loftförum, þar sem tóbaksreykingar eru leyfðar og þar sem stjórnklefi og farþegaklefi eru aðgreindir, skal vera greinilegt ljósskilti í farþegaklefa með textanum "REYKINGAR BANNADAR" og/eða "NO SMOKING". Kveikt skal á skiltinu í hvert skipti sem reykingar eru bannaðar. Flugstjórinn skal sjá um að farþegar skilji merkingu textans.

4.1.2. Öll salerni og önnur afmörkuð svæði, sem farþegar hafa aðgang að, skulu vera greinilega merkt með textanum "REYKINGAR BANNAÐAR" og/eða "NO SMOKING", hvort sem reykingar eru leyfðar í loftfarinu eða ekki.

4.2. Tóbaksreykingar eru ekki leyfðar í loftförum í eftirfarandi tilvikum:

a) Í stjórnklefa og farþegaklefa:

þegar loftfarið er á jörðu niðri,

í flugtaki og rétt eftir flugtak,

rétt fyrir eða við lendingu,

við flug í ókyrru lofti þegar flugstjórinn ákveður svo,

í loftförum sem hafa mestan flugtaksþunga 5700 kg eða minni ef einhverjum um borð er gefið súrefni eða notar það.

b) Í farþegaklefa:

í loftförum sem hafa mestan leyfilegan flugtaksþunga meiri en 5700 kg

þegar súrefni er gefið farþegum í meira en 30%, farþegasæta; ef aðeins einstökum farþegum er gefið súrefni eru tóbaksreykingar bannaðar í sömu sætaröð, næstu sætaröð framan við og næstu sætaröð aftan við þá farþega sem gefið er súrefni.

c) Í stjórnklefa:

í loftförum sem hafa mestan leyfilegan flugtaksþunga meiri en 5700 kg þegar einhver notar súrefni í stjórnklefa.

5. gr.

Sala og neysla áfengra drykkja um borð í loftförum í atvinnuflugi

5.1. Flugstjóri skal banna farþega að kaupa áfenga drykki eða neyta þeirra um borð í loftfari ef farþeginn er svo mikið undir áhrifum áfengis að ætla má að hann geti skert nauðsynlegan aga um borð eða verið öðrum til ama eða tjóns.

5.2. Flugstjóri skal neita að taka um borð farþega, og ber að vísa frá borði .farþegum, sem eru svo mikið undir áhrifum áfengis að þeir geti stefnt í hættu öryggi og hindrað reglu um borð.

5.3. Flugstjóri skal fylgjast með að góð regla sé um borð.

6. gr.

Flutningur á börnum.

6.1. Setja má barn yngra en tveggja ára í sama sæti og fullorðinn að því tilskildu að aðeins sá fullorðni hafi öryggisbeltið spennt, þegar svo ber undir, og haldi á barninu.

6.2. Setja má tvö börn, sem eru í fylgd fullorðins og orðin eru tveggja ára en samanlagt ekki eldri en 12 ára, saman í eitt sæti þannig að þau sitji hlið við hlið og hæði séu spennt föst í sama öryggisbeltið, sbr. þó gr. 2.1., enda sé tilskilinn öryggisbúnaður við sætin (björgunarbelti og súrefnisgrímur ef við á) 6.3. Við sérstaka barnaflutninga skal vera hæfilegur fjöldi fullorðinna til eftirlits og aðstoðar börnunum.

7. gr.

Flutningur á fötluðu fólki.

7.1. Líkamlega fatlað fólk.

Ath.: Með líkamlega fatlað fólk er átt við persónur sem ekki geta hjálparlaust komist um borð eða frá borði.

7.1.1. Flugrekandi skal fyrir sérhverja tegund loftfars, sem hann notar, tilgreina nákvæmlega í flugrekstrarhandbók sinni á hvern hátt flutningur líkamlega fatlaðra skuli fara fram. Sama gildir um flutning sjúklinga f sjúkrakörfum.

7.1.1.1. Þegar líkamlega fötluðu fólki er valinn staður í loftfari skal eftirfarandi atriða gætt

a) hlutaðeigandi skal sitja í námunda við neyðardyr með neyðarrennu, og ef hún er ekki til, þá við aðrar stórar neyðardyr.

b) hlutaðeigandi skal ekki settur í sætaröð við glugga sem notaður er sem neyðardyr.

7.2. Andlega fatlað fólk.

Við flutning andlega fatlaðra skal krefjast skriflegs vottorðs læknis sem greinir hvort þörf sé að gæslumaður fylgi hinum fatlaða.

7.3. Áður en flug er hafið skal flugstjóra tilkynnt um tölu hinna sjúku og fötluðu, hvar þeir sitji, og með hverjum þeirra séu gæslumenn.

8. gr.

Áhöfn í farþegarými.

8.1. Í farþegarými skal vera sá lágmarksfjöldi þjónustuliða sem getur í gr. 8.3. hér á eftir,

8.2. Öðrum en þeim, sem fengið hafa sérstaka viðurkennda þjálfun, er óheimilt að starfa sem þjónustuliði í farþegarými.

8.3. Lágmarksfjöldi þjónustuliða í farþegarými fer að hluta eftir fjölda farþegasæta, sem eru í loftfarinu og að hluta eftir þeim fjölda farþega, sem fluttir eru hverju sinni.

8.3.1. Ef um er að ræða loftför með sætum fyrir 10-19 farþega ákveður flugmálastjórn hvort nauðsyn sé áhafnar í farþegarými og hefur þá hliðsjón af hverrar tegundar loftfarið er.

8.3.2. Í loftförum. sem hafa 20 eða fleiri farþegasæti, fer fjöldi þjónustuliða í farþegarými eftir því hve margir farþegar eru fluttir svo sem hér greinir.

Fjöldi farþega Fjöldi þjónustulið i farþegarími

1- 50 a. m. k. 1

51-100 a. m. k. 2

101 og þar yfir a. m. k. 1 að auki fyrir hverja 50 farþega eða færri.

8.3.2.1 Ef farþegarnir eru færri en 20, og eru allir starfsmenn flugrekanda vel kunnugir neyðarbúnaði farþegarýmis, þarf ekki áhöfn í farþegarými.

8.3.3. Reglur um fjölda og skipun þjónustuliða í farþegarými skulu vera í flugrekstrarhandbók flugrekanda.

8.4. Með hliðsjón af neyðarbúnaði, innréttingu og viðbrögðum við neyðarástandi getur flugmálastjórn krafist að einn eða fleiri þjónustuliðar í farþegarými séu karlmenn.

8.5. Fyrir hverja tegund loftfars, sem flugrekandi notar, skal hann setja reglur um staðsetningu þjónustuliða í farþegarými við flugtak og lendingu. Þeir skulu sitja eins nálægt neyðardyrum og hægt er og jafnframt geta fylgst með farþegunum. Ef fleiri áhafnarliðar eru í farþegarými skulu þeir vera dreifðir um farþegarýmið svo að auðvelda megi farþegum eftir megni að komast út úr loftfarinu í neyðartilvikum.

Brot á reglugerð þessari varða við 179. gr. laga um loftferðir, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum, auk þess sem heimilt er að svipta flugrekanda flugrekstrarleyfi, sbr. 86. gr. laga um loftferðir,

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 186. og 188. gr. laga um loftferðir nr. 34 21. maí 1964 og gildir um íslensk og erlend loftför sem íslenskur aðili notar eða ræður yfir, hvar sem þau eru stödd, staðfestist hér með til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim er hlut eiga að máli.

Samgönguráðuneytið, 27. febrúar 1976.

Halldór E. Sigurðsson.

Brynjólfur Ingó1fsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica