Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

443/1976

Reglugerð um skoðanir, viðhald og viðgerðir loftfara

1. gr.

Orðaskýringar.

Gangtími (time in service) : Hér er átt við þann hluta flugtíma sem líður frá þeirri stundu að loftfar lyftist frá yfirborði jarðar þar til það snertir hana aftur á næsta lendingarstað.

Létt loftfar (small aircraft) : Loftfar sem hefur mestan leyfilegan flugtaksþunga 5700 kg eða minni.

Loftfar (aircraft) : Sérhvert það tæki sem haldist getur á flugi vegna verkana loftsins, annarra en loftpúðaáhrifa við yfirborð jarðar.

Þungt loftfar (large aircraft) : Loftfar sem hefur leyfilegan flugtaksþunga meiri en 5700 kg.

2. gr.

Almennt.

Loftfar má ekki fljúga nema það hafi gilt lofthæfiskírteini og því sé haldið við og það skoðað skv. þessum reglum. Þó má loftfar fljúga reynsluflug án gilds lofthæfisskírteinis þegar um er að ræða reynsluflug eftir smíði, samsetningu, skoðun, viðhald, viðgerð, breytingu eða ísetningu enda sé reynsluflugið framkvæmt f því einu skyni að ganga úr skugga um flughæfi loftfarsins.

3. gr.

Skoðanir.

3.1. Þung loftför og önnur loftför sem notuð eru til flugrekstrar í atvinnuskyni.

Eigandi/umráðandi loftfars skal semja skoðanaáætlun fyrir sérhvert loftfar, sem hann rekur, og leggja fyrir flugmálastjórn til samþykktar. Telst loftfar ekki lofthæft nema fylgt sé samþykktri skoðanaáætlun.

3.2. Létt loftför sem ekki eru notuð til flugrekstrar í atvinnuskyni.

Skoðanir skulu gerðar í samræmi við fyrirmæli skoðunarhandbókar, þó ekki sjaldnar en á 50 og 100 gangtíma fresti (50 og 100 klst. skoðanir) eða skv. öðrum reglum sem flugmálastjórn hefur samþykkt.

Minnst eina 100 klst. skoðun skal gera því sem næst árlega til endurnýjunar lofthæfiskírteinis (ársskoðun) undir eftirliti fulltrúa flugmálastjórnar.

4. gr.

Viðhald og viðgerðir.

Loftförum skal við haldið og við þau gert skv. viðhalds- og viðgerðarbókum, sem samþykktar hafa verið fyrir hlutaðeigandi tegund loftfara og/eða samkvæmt almennt viðurkenndum aðferðum flugiðnaðarins. Flugmálastjórn sker úr í vafaatriðum.

Ath.: Sem dæmi um almennt viðurkenndar aðferðir flugiðnaðarins má nefna:

FAA - Advisory Circular No. 43. 13-1, Acceptable Methods, Techniques and Practices. Aircraft Inspection and Repair.

- No. 43. 13-2, Acceptable Methods, Techniques and Practices. Aircraft Alteration.

BCAA - Insptection Procedures.

5. gr.

Viðhaldsskrá loftfara og hreyfla.

5.1. Hverju loftfari og hverjum hreyfli loftfars skal fylgja sérstök bók, sem í eru skráðir gangtímar loftfarsins/hreyfilsins. Einnig skal skráð í bók þessa þegar viðhald, viðgerð, skoðun eða breyting fer fram á loftfari/hreyfli. Flugmálastjórn getur samþykkt aðra tilhögun skráningar þessara atriða.

5.2. Einnig skal á hentugan hátt skrá gangtíma og önnur mikilvæg atriði er varða lofthæfi þeirra hluta loftfars sem háðir eru gangtíma eða öðrum tímatakmörkunum.

5.3. Flugmálastjórn hefur ávallt aðgang að viðhaldsskrám loftfara og hreyfla og öðrum skrám og gögnum, er loftfar varðar, í því skyni að hafa eftirlit með því að viðhaldsskyldu sé fullnægt.

6. gr.

Lofthæfi

6.1. Loftfar telst ekki lofthæft nema undirritað hafi verið viðhaldsvottorð sem staðfestir að eftirlit og viðhald hafi verið innt af hendi skv. reglum þessum.

6.2. Loftfar eða hlutar þess teljast ekki lofthæfir eftir smíði, samsetningu, grannskoðun, viðgerð, breytingu eða ísetningu nema loftfarið eða hlutar þess hafi verið lýstir lofthæfir.

6.3. Einungis þeir aðilar, sem til þess hafa fullgild réttindi mega undirrita viðhaldsvottorð, skv. gr. 6.1., eða lýsa lofthæfi skv. gr. 6.2.

7. gr.

Undantekningar.

Flugmálastjórn getur, þegar sérstaklega stendur á, veitt undanþágur frá reglum þessum.

8. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt XIII. kafla laga nr. 34 21. maí 1964.

9. gr.

Gildissvið og -taka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt III. kafla, sbr. 186. og 188. gr. laga nr. 34 21. maí 1964 um loftferðir og gildir um íslensk loftför hvar sem þau eru stödd, staðfestist hér með til að öðlast gildi þegar í stað.

Jafnframt er úr gildi felld reglugerð nr. 145 15. sept. 1967.

Samgönguráðuneytið, 28. desember 1976.

Halldór E. Sigurðsson.

Birgir Guðjónsson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica