Brottfallnar

142/1950

Reglugerð fyrir Vestmannaeyjaflugvöll, um umferð, öryggi o. fl. - Brottfallin

Almenn ákvæði.

Flugvallastjóri ríkisins eða umboðsmaður hans veitir einstaklingum eða félögum heimild til að nota Vestmannaeyjaflugvöll vegna farþegaflugs, póstflugs, kennsluflugs o. þ. h. Þegar slíkt leyfi til afnota af flugvellinum er leyft, skal leyfishafi verða háður þeim ákvæðum, sem í gildi eru eða sett verða um greiðslu lendingargjalda, flugskýlisleigu o. s. frv., ásamt þeim skilmálum öðrum, er settir kunna að verða. Sérhvert loftferðafyrirtæki, sem starfrækt er á flugvellinum, skal skila flugvallastjóra ríkisins mánaðarlega skýrslum eftir á um fjölda farþega og magn flutnings, sem farið hefur um flugvöllinn á þess vegum í mánuðinum.

Stjórn og starfsmönnum fyrirtækja, svo og einstaklingum, sem starfrækslu hafa á flugvellinum, er skylt að kynna sér reglugerð þessa, svo og þær reglur aðrar, sem settar kunna að verða, um umferð, öryggi o. fl. á flugvellinum. Stjórn fyrirtækis skal sjá um, að menn þess kynni sér þær.

Flugvallastjóri ríkisins eða umboðsmaður hans skal í samráði við flugumferðarstjórn ákveða athafna- og afgreiðslusvæði allra loftferðafyrirtækja á flugvellinum, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða félög. Loftför skulu ekki fermd eða affermd nema á áður ákveðnum afgreiðslusvæðum.

2. gr.

Um veðurskilyrði.

Vestmannaeyjaflugvöllur skal því aðeins opinn fyrir flugumferð, að skýjahæð (miðað við flugbraut) og skyggni sé ekki minna en hér segir:

Við flugtak.
Að degi: 150 metra (500 feta) skýjahæð og 1,5 km (1 mílu) skyggni. Þó má skýjahæð lækka í 120 metra (400 fet), ef skyggni er 20 km ( 12 mílur) eða meira.
Að nóttu: 180 metra (600 feta) skýjahæð og 3 km (2 mílna) skyggni.

Við lendingu.
Að degi: 180 metra (600 feta) skýjahæð og 3 km (2 mílna) skyggni. Þó má skýjahæð lækka í 150 metra (500 fet), ef skyggni er 20 km (12 mílur eða meira.
Að nóttu: 240 metra (800 feta) skýjahæð og 4,5 km (3 mílna) skyggni.

Þá skal flugvöllurinn því aðeins opinn fyrir flugumferð, að vindstyrkleiki, með tilliti til einstakra vindátta, sé ekki meiri en hér greinir:

Vindátt:

Vindstig:

A

ASA

8

ASA

SA--A

7

SA--A

S

3

S

SV

4

SV

V

5

V

NV

6 (við lendingu)8 (við flugtak)

NV

NA

4

NA

A

5

Flugumferðarstjórnin á Vestmannaeyjaflugvelli úrskurðar á þessum grundvelli, hvort flugvöllurinn skuli teljast opinn eða lokaður og tilkynnir það flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík. Hafi flugvellinum verið lokað skal hann teljast lokaður áfram, unz flugumferðarstjórnin á Vestmannaeyjaflugvelli hefur úrskurðar hann opinn á ný.

3. gr.

Um almenna flugumferð.

Loftför, sem koma til eða fara frá umferðarstjórnarsvæði Vestmannaeyjaflugvallar, skulu hafa samband við Vestmannaeyjaflugturninn og fá þaðan fyrirmæli um lendingu og flugtak. Öll loftför, sem hafa talstöð, skulu hafa hlustvörð á radiotíðni flugturnsins, á meðan þau eru innan umferðarstjórnarsvæðis flugvallarins, og þangað til þau hafa staðnæmzt á ákvörðunarstað á flugvellinum eða fengið leyfi flugumferðarstjórnarinnar til þess að skipta um radiotíðni.

Fyrir loftför, sem fara frá Vestmannaeyjaflugvelli, skal gera flugáætlanir, sem skila skal umferðarstjórn flugvallarins fyrir brottför þeirra.

Loftför skulu jafnan fljúga rangsælis, þ. e. til vinstri handar umhverfis flugvöllinn, séu þau stödd innan umferðarstjórnarsvæðis hans, en það nær 12 km út frá miðju flugvallarins og eru takmörk þess að ofan í 450 metra (1500 feta) hæð yfir flugvellinum. Loftför, sem koma inn í umferðahring flugvallarins, skulu fljúga a. m. k. hálfan hring (180°) að degi, en heilan hring (360°) að nóttu, umhverfis flugvöllinn, áður en þau koma til lendingar. Þó skal flugumferðarstjórninni heimilt að veita undanþágu frá þessum ákvæðum, ef henni þykir ástæða til.

Flugumferðarstjórninni skal í samráði við flugvallastjóra ríkisins heimilt að takmarka flug loftfara, sem notuð eru til einka- og kennsluflugs, við ákveðinn tíma daglega, eftir því, sem þurfa þykir vegna umferðar annarra loftfara eða af öðrum ástæðum. Loftför í reynsluflugi í nágrenni flugvallarins, skuli eftir því sem við verður komið, forðast flug yfir Vestmannaeyjabæ.

4. gr.

 Um umferð loftfara á jörðu.

Loftför skulu fá akstursleiðbeiningar frá Vestmannaeyjaflugturni í radio, nema leyfi hafi áður verið veitt loftförum, sem ekki hafa radiotæki, og skal þeim leiðbeint með sérstökum ljósmerkjum.

Loftför mega ekki aka út á flugbraut nema með leyfi flugturnsins. Að lokinni lendingu skal loftförum ekið út af flugbraut svo fljótt, sem við verður komið.

Loftförum skal ekið með gætni og ekki hraðar en sem svarar 40 km á klst. Sérstakrar varúðar skal gætt við akstur nálægt byggingum og öðrum mannvirkjum á flugvellinum. Loftförum skal aldrei ekið með eigin afli þeirra inn í flugskýli eða úr þeim.

5. gr. 

 Umferð manna og ökutækja.

Eftirlitsmaður flugvallarins hefur fullt skipunarvald gagnvart almenningi á flugvallarsvæðinu. Mönnum er óheimilt að fara inn á flugvallarsvæðið á öðrum en þeim stöðum, sem til þess eru ætlaðir. Ölvuðum mönnum er óheimil umferð um flugvallarsvæðið. Mönnum og ökutækjum er óheimilt að fara út á flugbraut flugvallarins, án undangengis leyfis flugturnsins, nema um neyðarástand sé að ræða. Ökutækjum skal einatt ekið sem næst flugbrautarbrún nema brýn nauðsyn beri til, og skal þá gætt fyllstu varúðar. Ekki skal gengið eða ekið fyrir enda flugbrautar nema viðkomandi hafi fullvissað sig um, að loftfar sé ekki að lenda eða hefja flug. Bifreiðum skal ekki ekið um eða stöðvaðar á athafnasvæði flugvallarins né heldur ekið inn í flugskýli, nema vegna nauðsynlegra athafna. Ökutæki skulu ávallt víkja fyrir loftförum, sem þau kunna að mæta.

6. gr.

Um almennt öryggi.

Flugliðsmaður má ekki stjórna loftfari á eða í grennd við Vestmannaeyjaflugvöll, nema í fullu samræmi við gildandi flugreglur og reglugerð þessa. Engum nema flugmanni eða flugvélavirkja er heimilt að vera við stjórntæki loftfara, þegar hreyflar eru í gangi eða settir í gang, né aka lofförum um flugvöllinn. Jafnan skal maður með slökkvitæki vera viðstaddur, þegar hreyflar loftfara eru settir í gang. Hreyflar skulu aldrei settir í gang eða reyndir á þeim stöðum, sem kunna að orsaka slysahættu fyrir almenning. Ekki má heldur reyna hreyfla á þeim stöðum, þar sem slíkt gæti valdið truflun á viðskiptum flugturnsins. Farþegar skulu ekki fara inn í loftför eða úr þeim, meðan hreyflar eru í gangi.

7. gr.

Um eldvarnir og flugskýli.

Ekki má láta eldsneyti á geyma loftfara, meðan þau eru inni í flugskýli eða meðan hreyflar þeirra eru í gangi. Ekki má reykja eða vera með opinn eld í námunda við loftför. Sérstakrar varúðar skal gæta, þegar verið er að setja eldsneyti á þau.

Reykingar í flugskýli eru bannaðar.

Ekki skal að jafnaði hreinsa hreyfla eða aðra hluta loftfara með eldfimu efni inni í flugskýli. Ef slíkt er nauðsynlegt, skal gæta fyllstu varúðar og jafnan hagað svo til, að hægt sé fyrirvaralaust að koma hlut þeim, sem verið er að hreinsa út úr flugskýlinu. Jafnan skal haga svo til, að auðvelt sé at koma loftförum út og inn í flugskýli og skal varast að hafa fyrir dyrum flugskýlisins nokkrar hindranir er torveldað gætu slíkt. Skylt er notendum flugskýlis að halda gólfum jafnan vel hreinum og varast skal að skilja eftir tvist, tuskur, bréf og annað slíkt, er orsakað gæti íkveikju, annars staðar en í þar til gerðum ílátum. Ef slíkum úrgangi er brennt, skal það gert í öruggri fjarlægð frá byggingum og loftförum og skal fyllstu varúðar gætt og flugturninum gert aðvart í hvert sinn. Fullkomin slökkvitæki skulu jafnan vera í flugskýli og skulu þau athuguð og endurnýjuð á ákveðnum fresti.

8. gr.

Um neyðarástand og slys.

Ef um neyðarástand er að ræða, skal loftfar haga fluginu samkvæmt alþjóðareglum um neyðarástand og skal þá tekið fullt tillit til öryggis mannslífa og verðmæta og án þess, ef nauðsynlegt telst, að binda sig við ákvæði þessarar reglugerðar. Þegar svo stendur á, skal loftferðaeftirlitinu send bráðabirgðaskýrsla um málið innan 48 klukkustunda og fullkomin skrifleg skýrsla, eins fljótt og auðið er.

Berist flugturninum tilkynning um flugslys í síma, skal hann leitast við að fá upplýsingar um nafn þess, er tilkynninguna gaf, símanúmer hans, hvenær og hvar slysið skeði, hvers konar slys sé um að ræða, hvers konar neyðarhjálp sé nauðsynleg og aðrar nauðsynlegar upplýsingar. Síðan skal hann tilkynna hlutaðeigandi aðilum um slysið. Flugturninum er óheimilt að veita öðrum en þeim aðilum, er málið beinlínis varðar, upplýsingar um slys.

Verði flugslys eða annað neyðarástand á flugvellinum, skal flugturninn senda út slysaboð, og skal hver aðili gera það, sem fyrir hann er lagt samkvæmt þeim reglum, sem ákveðnar eru um neyðarástand.

Hafi loftfar orðið fyrir skemmdum, skal bað, eða hlutar þess, fluttir burt af eigendum þess eða umboðsmanni hans og/eða á hans ábyrgð og kostnað. Þó skal slíkur brottflutningur ekki framkvæmdur, fyrr en loftferðaeftirlitið hefur gefið leyfi til þess.

9. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varðar sektum, allt að 10000 krónum, varðhaldi eða fangelsi, ef ekki liggur þyngri refsing við samkvæmt hegningarlögunum.

Farið skal með mál út af brotum á reglugerð þessari sem almenn lögreglumál.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 32 14. júní 1929, um loftferðir, og lögum nr. 65 31. maí 1947, um viðauka við breytingar á lögum nr. 24 12. febrúar 1945, um flugvelli og lendingarstaði fyrir flugvélar. Öðlast reglugerðin þegar gildi, og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Samgöngumálaráðuneytið, 16. júní 1950.

Björn Ólafsson.

Páll Pálmason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica