Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

415/1988

Reglugerð um styrktarsjóð til öflunar atvinnuréttinda á skipum

1. gr.

Nafn sjóðsins.

Sjóðurinn heitir styrktarsjóður til öflunar atvinnuréttinda á skipum. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Stofnun sjóðsins.

Sjóðurinn er stofnaður með tilvísun til 21. gr. laga nr. 112/1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og 8. gr. laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða.

3. gr.

Tilgangur sjóðsins.

Tilgangur sjóðsins er að veita þeim mönnum fjárstyrk sem stunda nám til öflunar atvinnuréttinda.

Rétt til styrks skv. 1. mgr. eiga þeir einir, sem stunda nám 1. stigs skipstjórnar eða 1. eða 2. stigs vélstjórnar.

4. gr.

Tekjur sjóðsins.

Tekjur sjóðsins eru:

a. Undanþágugjöld er viðkomandi undanþáguhafar greiða til sjóðsins. b. Vaxtatekjur og verðbætur.

c. Aðrar tekjur eða framlög er sjóðnum kunna að áskotnast.

5. gr.

Innheimta undanþágugjalds.

Fyrir hverja veitta undanþágu skal undanþáguhafi greiða ákveðið gjald, nú kr. 2 000,00 fyrir hvern byrjaðan mánuð þess tíma sem undanþágan gildir. Þann 1. janúar 1989 skal gjaldið hækka í kr. 3 000,00.

Greiðsla undanþágugjalds skal fylgja umsókn um undanþágu. Synji undanþágunefnd umsókn um undanþágu eða veiti undanþágu til styttri tíma en umsóknin gerir ráð fyrir, skal greiðslan öll eða sá hluti hennar sem umfram er endursendur.

Þeir nemendur stýrimannaskóla og vélskóla sem starfa á undanþágu milli námsára eiga rétt á endurgreiðslu undanþágugjalds haldi þeir áfram námi á næsta námsári gegn framvísun vottorðs frá viðkomandi skóla þar um.

Eigi skal innheimta undanþágugjald af þeim er lokið hafa fyllsta skólanámi til viðkomandi starfs, sé þeim veitt undanþága til starfs.

6. gr.

Stjórn sjóðsins.

Undanþágunefnd, eins og hún er á hverjum tíma skal skipa stjórn sjóðsins, sbr. 21. gr. laganna um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og 8. gr. laganna um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða.

Stjórnin skal annast úthlutun styrkja úr sjóðnum, svo og vörslu hans og ávöxtun. Skal stjórnin á hverjum tíma kappkosta að ávaxta fé hans á sem hagkvæmastan hátt.

7. gr.

Umsóknir um styrki.

Allar umsóknir skulu ritaðar á þar til gerð eyðublöð, sem sjóðstjórn lætur í té og skal þeim fylgja staðfesting viðkomandi skólayfirvalda um að umsækjandi sé við nám.

8. gr.

Úthlutunarreglur.

Fjárhæðir styrkja skulu hverju sinni ákveðnar af stjórn sjóðsins í samræmi við tekjur hans og eignir og miðast við námslengd og búsetu umsækjenda.

9. gr.

Afgreiðsla styrkja.

Afgreiðsla styrkja fer fram samkvæmt ákvörðun stjórnar á hverjum tíma.

Við móttöku styrkja úr sjóðnum skal styrkhafi sýna fram á framvindu náms með vottorði frá viðkomandi skóla.

Afgreiðsla sjóðsins skal vera hjá Siglingamálastofnun ríkisins, en heimilt er stjórn sjóðsins að fela viðurkenndri bankastofnun vörslu hans.

10. gr.

Reikningsskil.

Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af tveimur mönnum, sem skipaðir eru af ráðherra til tveggja ára í senn, skv. tilnefningu Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

Skal stjórnin leggja endurskoðaða reikninga fyrra almanaksárs fyrir samgönguráðherra eigi síðar en 15. apríl árið eftir.

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. lögum nr. 112/1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og lögum nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða, og öðlast gildi þann 1. september 1988. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 496/1984 um styrktar- og lánasjóð til öflunar atvinnuréttinda á skipum.

Samgönguráðuneytið, 26. júlí 1988.

Matthías Á. Mathiesen.

Ragnhildur Hjaltadóttir
Þetta vefsvæði byggir á Eplica