Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

224/1995

Reglugerð um leigubifreiðar. - Brottfallin

Reglugerð

um leigubifreiðar.

I. KAFLI 

 Almenn ákvæði.

1. gr. - Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um fólksbifreiðar, sem notaðar eru til leiguaksturs og mega flytja allt að átta farþega. Leiguakstur fólksbifreiða telst það þegar slík bifreið er seld á leigu ásamt ökumanni fyrir tiltekið gjald til flutnings á farþegum og farangri þeirra. Farangur skal flytja í farangursgeymslu bifreiðar, en þó má setja ferðatöskur inn í bifreiðina, ef farþegi krefst þess. Eigi er heimilt að flytja farangur án farþega nema í undantekningartilfellum, enda sé um að ræða flutning bréfa, skjala, blóma eða neyðarsendinga fyrir sjúkrahús. Félög sendibifreiðastjóra og fólksbifreiðastjóra skulu gera með sér nánara samkomulag um verkaskiptingu, sem samgönguráðuneytið staðfestir.

2. gr. - Auðkenni.

Leigubifreið til fólksflutninga skal auðkennd með þakljósi samkvæmt ákvæðum reglugerðar um gerð og búnað bifreiða. Ennfremur skal fólksbifreið, sem ekur frá bifreiðastöð, auðkennd með merki stöðvarinnar í framrúðu og stöðvarnúmeri á áberandi hátt í afturrúðu bifreiðar.

Í leigubifreiðum til fólksflutninga skal vera á áberandi stað skilríki samkvæmt 6. mgr. 8. gr. sem sýnir að ökumaðurinn hafi tilskilin atvinnuleyfi eða akstursheimild.

3. gr. - Gjaldmælar.

Gjaldmælar skulu vera í fólksbifreiðum, sem notaðar eru til leiguaksturs. Löggildingarstofan hefur eftirlit með notkun og meðferð gjaldmæla.

4. gr. 

 Skilyrði atvinnuleyfa.

Þeir einir, sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum, geta öðlast atvinnuleyfi samkvæmt lögum um leigubifreiðar og reglugerð þessari:

Fullnægjandi starfshæfni, þ.e. að hafa tilskilin ökuréttindi.

Óflekkað mannorð. Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem dæmdur hefur verið til óskilorðsbundinnar fangelsisvistar eða varðhalds. Ef meira en fimm ár eru liðin frá uppkvaðningu dómsins og dómurinn hefur ekki kveðið á um lengri en 4 mánaða fangelsis- eða varðhaldsvist telst brotið fyrnt í skilningi laganna nema um sé að ræða skírlífisbrot eða að viðkomandi hafi verið dæmdur fyrir kynferðislegt ofbeldi. Brotið telst þó ætíð fyrnt ef viðkomandi hefur fengið uppreisn æru.

Hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu, sem felst í að vera fjár síns ráðandi og eiga að minnsta kosti kr. 250.000 eigið fé og að sýna fram á með staðfestingu að viðskiptabanki eða sparisjóður treysti umsækjanda fjárhagslega til að stunda atvinnurekstur.

Hafa fullnægjandi heilbrigðisvottorð, þ.e. vottorð trúnaðarlæknis viðkomandi umsjónarnefndar eða samgönguráðuneytis um að viðkomandi sé líkamlega og andlega hæfur til að stunda leiguakstur á fólki.

Vera 70 ára eða yngri, sbr. þó 14. gr. reglugerðar þessarar.

Þessum skilyrðum verður atvinnuleyfishafi einnig að fullnægja eftir að leyfi er fengið.

II. KAFLI

Takmarkanir á fjölda bifreiða.

5. gr. 

 Svæði og hámarkstala.

Takmarkanir á fjölda fólksbifreiða í leiguakstri gilda á eftirtöldum svæðum:

Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Bessastaðahreppur. Hámarkstala er 570 fólksbifreiðar.

Keflavík, Njarðvík, Hafnir, Miðnes-, Gerða og Vatnsleysustrandarhreppur. Hámarkstala er 40 fólksbifreiðar.

Akureyri. Hámarkstala er 22 fólksbifreiðar.

Selfoss. Hámarkstala er 7 fólksbifreiðar.

Takmörkun er framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa svo sem hámarkstala segir til um. Nú eru fleiri atvinnuleyfi í gildi en hámarkstalan segir til um við gildistöku þessarar reglugerðar og skal þá einungis úthluta öðru hverju leyfi, sem úr gildi fellur, uns réttri tölu er náð. Umsjónarnefnd skal svo fljótt sem við verður komið úthluta atvinnuleyfum til að fylla hámarkstölu.

6. gr.

Umsjónarnefnd fólksbifreiða.

Þar sem takmörkun er heimiluð starfar umsjónarnefnd fólksbifreiða sem skipuð er þremur mönnum. Ákvarðanir umsjónarnefndar eru gildar hafi þær hlotið a.m.k. tvö atkvæði á nefndarfundi. Á nefndarfundum skal halda gerðabók þar sem ákvarðanir og samþykktir skulu skilmerkilega færðar til bókar. Allir nefndarmenn undirrita fundargerð. Umsjónarnefnd setur sér starfsreglur sem taka gildi þegar ráðuneytið staðfestir þær og skulu þær birtar á þann hátt að þær séu aðgengilegar hverjum leyfishafa og launþega. Nefndin velur sér trúnaðarlækni.

>Umsjónarnefnd skal fylgjast með því að atvinnuleyfishafar fullnægi á hverjum tíma skilyrðum laga um leigubifreiðar og relgugerðar þessarar.

Umsjónarnefnd gefur samgönguráðuneytinu árlega skriflega skýrslu um störf sín. Ráðuneytið getur þó hvenær sem er krafist greinargerðar frá umsjónarnefnd um tiltekið málefni.

7. gr. 

 Úthlutun atvinnuleyfa.

Umsjónarnefndir, hver á sínu svæði, gefa út atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða og annast úthlutun þeirra. Úthlutun skal fara fram þegar hennar er þörf.

Að jafnaði skal umsjónarnefnd halda námskeið fyrir umsækjendur um atvinnuleyfi, sem fullnægja skilyrðum laga um leigubifreiðar og reglugerðar þessarar og stundað hafa leiguakstur á fólki í að minnsta kosti eitt ár. Umsjónarnefnd skipuleggur slík námskeið, ákveður kennslutilhögun, námsefni, prófreglur og námskeiðsgjald.

Þegar atvinnuleyfum er úthlutað án undangengins námskeiðs skal auglýst eftir umsækjendum með a.m.k. þriggja vikna fyrirvara. Bifreiðastjóri, sem óskar eftir atvinnuleyfi, skal sækja um það á sérstöku eyðublaði, sem umsjónarnefnd lætur gera. Umsókninni skulu fylgja öll þau gögn og vottorð, sem umsjónarnefnd gerir kröfu til, þar með talið vottorð um að umsækjandi eigi kost á afgreiðslu á bifreiðastöð.

8. gr.

Úthlutunarreglur.

Atvinnuleyfum skal einungis úthlutað til þeirra, sem fullnægja skilyrðum laga um leigubifreiðar og reglugerðar þessarar.

Þegar atvinnuleyfi eru veitt að undangengnu námskeiði skal prófárangur að jafnaði ráða veitingu atvinnuleyfa til umsækjenda. Rétt til setu á námskeiði hafa þeir sem uppfylla skilyrði laga og reglugerða um leigubifreiðar til að öðlast atvinnuleyfi.

Þegar atvinnuleyfum er úthlutað án undanfarandi námskeiðs metur umsjónarnefnd það af réttsýni hverjir umsækjenda eru hæfastir til að hljóta atvinnuleyfi og að öðru jöfnu sitja þeir fyrir við úthlutun leyfa er stundað hafa leiguakstur á fólki í að minnsta kosti eitt ár. Jafnframt skulu þeir að jafnaði sitja fyrir, sem hafa öðlast fjögurra ára starfsreynslu við akstur á fólki. Þess utan er nefndinni heimilt að taka sérstakt tillit til umsókna frá öryrkjum, sem leiguakstur hentar vel enda hafi þeir meðmæli Öryrkjabandalags Íslands og tryggingayfirlæknis.

Umsjónarnefnd er heimilt að höfðu samráði við hagsmunafélög fatlaðra og viðkomandi stéttarfélag að úthluta atvinnuleyfum til reksturs á sérbúnum bifreiðum til flutnings á hreyfihömluðum.

Atvinnuleyfin skulu tölusett og skal leyfishafi fá í hendur frumrit atvinnuleyfisins. Umsjónarnefnd fólksbifreiða geymir samrit atvinnuleyfa. Gjald fyrir atvinnuleyfi er kr. 5.000 og tekur breytingum samkvæmt 18. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991 með síðari breytingum.

Umsjónarnefnd skal sjá um útgáfu skírteina til sönnunar á að ökumaðurinn hafi atvinnuleyfi, en þar skal koma fram mynd af ökumanni, nafn, kennitala, bifreiðastöð, stöðvanúmer og félag bifreiðastjóra. Skírteinið skal ávallt vera í bifreiðinni á áberandi stað, sbr. 3. mgr. 2. gr. reglugerðar þessarar.

9. gr.

Eigin bifreið.

Við leiguaksturinn ber leyfishafa að nota bifreið, sem samþykkt er af umsjónarnefnd fólksbifreiða og hann er skráður eigandi að eða hefur umráð yfir samkvæmt kaupleigusamningi við eignarleigufyrirtæki samkvæmt lögum um eignarleigustarfsemi.

>Við leiguaksturinn ber leyfishafa að nota fólksbifreið samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

10. gr. 

 Nýting atvinnuleyfis.

Leyfishafi skal nýta atvinnuleyfi sitt með eðlilegum hætti og stunda aksturinn sem aðalatvinnu. Akstur eigin leigubifreiðar telst aðalatvinna leyfishafa þegar hann að jafnaði stundar aksturinn eigi færri en 40 klst. á viku hverri. Frá þessu má þó víkja á svæðum með færri en 5000 íbúa á þeim tíma árs þegar lítil þörf er fyrir leigubifreiðaþjónustu.

>Bifreiðastjóra, sem öðlast atvinnuleyfi, ber að hefja nýtingu þess innan sex mánaða frá útgáfudegi leyfisins. Að öðrum kosti fellur atvinnuleyfið úr gildi.

Leyfishafi, sem nýtir ekki atvinnuleyfi sitt í sex mánuði eða lengur án þess að lögmætar ástæður séu fyrir hendi, skal sviptur því fyrir fullt og allt, ef hann lætur ekki skipast við áminningu.

Umsjónarnefnd getur heimilað leyfishafa að láta atvinnuleyfið ónotað í allt að fjögur ár á hverju 10 ára tímabili, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Óski forseti Íslands eða ráðherra að ráða leyfishafa sem einkabílstjóra á meðan þeir gegna embætti, er þeim leyfishöfum heimilt að leggja atvinnuleyfið inn á meðan starfinu stendur.

11. gr. 

 Undanþágur.

Heimilt er að veita leyfishafa tímabundnar undanþágur frá akstri eigin bifreiðar vegna veikinda eða annarra forfalla, orlofs, vaktaskipta á álagstímum og viðgerðar eða endurnýjunar á bifreið.

>Samgönguráðuneytið setur reglur um undanþágur samkvæmt 1. mgr. að fengnum tillögum umsjónarnefndar og félags eða félaga bifreiðastjóra. Umsjónarnefnd og félag eða félög bifreiðastjóra skulu sjá um birtingu þeirra á þann hátt að þær séu aðgengilegar hverjum leyfishafa.

Félag bifreiðastjóra, þar sem meirihluti bifreiðastjóra á svæðinu er félagar, annast framkvæmd á veitingu undanþága í samráði við umsjónarnefnd. Fyllsta jafnræðis skal gætt gagnvart leyfishöfum. Bifreiðastjóri getur áfrýjað ákvörðunum félagsins til umsjónarnefndar sem tekur endanlega ákvörðun á sviði stjórnsýslu. Gjald fyrir veitta undanþágu er kr. 700 fyrir hvern byrjaðan mánuð sem undanþágan er veitt fyrir.

Þegar leyfishafi setur annan mann á bifreið sína skal ökumaðurinn fullnægja skilyrðum laga um leigubifreiðar til þess að öðlast atvinnuleyfi og reglugerðar þessarar, sbr. 1., 2., 4. og 5. tölul. 4. gr.

12. gr.

Eftirlifandi maki og dánarbú.

Þegar leyfishafi fellur frá skal umsjónarnefnd að undangenginni umsókn veita dánarbúi hans eða eftirlifandi maka heimild til að nýta atvinnuleyfið í allt að þrjú ár frá dánardægri, þó eigi lengur en til þess tíma er leyfishafi hefði misst það fyrir aldurs sakir, ef hann hefði lifað. Eftirlifandi sambýlismaður eða sambýliskona skoðast sem eftirlifandi maki hafi sambúðin staðið yfir í að minnsta kosti tvö ár samfleytt samkvæmt þjóðskrá.

>Þegar maki leyfishafa er fallin frá er dánarbúi óheimilt að nýta atvinnuleyfi eftir að skiptum á búinu er lokið.

Þegar eftirlifandi maki eða dánarbú setur ökumann á bifreiðina skal fara eftir ákvæðum 11. gr. reglugerðar þessarar.

13. gr.

Svipting atvinnuleyfis.

Ef leyfishafi fullnægir eigi lengur skilyrðum laga um leigubifreiðar til þess að halda atvinnuleyfi sínu eða brýtur á annan hátt gegn ákvæðum laganna eða þessarar reglugerðar er umsjónarnefnd rétt að beita hann viðurlögum. Viðurlögin fara eftir eðli brotsins og á hvern hátt þau tengjast nýtingu atvinnuleyfisins.

>Viðurlögin eru þessi:

Áminning.

Tímabundin svipting atvinnuleyfis.

Endanleg svipting atvinnuleyfis.

Þrátt fyrir endanlega sviptingu atvinnuleyfis getur bifreiðastjórinn sótt um atvinnuleyfi að nýju að fimm árum liðnum, enda hafi hann þá bætt ráð sitt og tekið út refsingu fyrir brotið, ef svo ber undir.

Nú er bifreiðastjóri sviptur atvinnuleyfi sínu samkvæmt framangreindu og er þá fólksbifreiðastöðvum á svæðinu óheimilt að veita honum afgreiðslu á meðan sviptingin varir.

14. gr. 

 Brottfall atvinnuleyfis.

Atvinnuleyfi fellur úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa, þ.e. daginn áður en hann nær 71 árs aldri. Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn allt til 75 ára aldurs leyfishafa ef hann telst hæfur til að stunda leiguakstur á grundvelli hæfnisprófs og læknisskoðunar trúnaðarlæknis samgönguráðuneytis. Samgönguráðuneytið skipuleggur og ákveður framkvæmd hæfnisprófa í samráði við viðkomandi umsjónarnefnd.

15. gr. 

 Bifreiðastöðvar.

Umsjónarnefnd hefur eftirlit með bifreiðastöðvum og þjónustu þeirra og er heimilt að setja reglur þar um. Umsjónarnefnd skal tilkynna sveitarstjórn, sem veitt hefur stöð viðurkenningu á grundvelli laga um leigubifreiðar, ef bifreiðastöðin hefur brotið reglur um leigubifreiðar eða ekki hlýtt fyrirmælum nefndarinnar.

Leyfishafa er heimilt að hafa bifreið sína í afgreiðslu hjá hvaða viðurkenndri fólksbifreiðastöð sem er á svæðinu. Bifreiðastöð er óheimilt að taka bifreið í afgreiðslu fyrr en tilkynning um útgáfu atvinnuleyfis eða flutning á milli stöðva hefur borist frá viðkomandi umsjónarnefnd. Vilji leyfishafi flytja sig á aðra stöð skal hann segja upp stöðvarleyfi sínu með eins mánaðar fyrirvara.

Fólksbifreiðastöðvum er óheimilt að taka aðrar bifreiðar í afgreiðslu en fólksbifreiðar samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

Bifreiðastöð skal fylgjast með því að ökumenn á stöðinni nýti atvinnuleyfi sín og tilkynna umsjónarnefnd og félagi þeirra, ef útaf ber í þeim efnum. Ennfremur tilkynnir bifreiðastöð það til umsjónarnefndar og félagsins, ef leyfishafi á stöðinni brýtur stöðvarreglur og sætir viðurlögum af þeim sökum.

III. KAFLI

Atvinnuleyfi utan takmörkunarsvæða.

16. gr.

Þeir sem stunda leiguakstur á fólksbifreið utan takmörkunarsvæða samkvæmt 5. gr. skulu sækja um atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs til samgönguráðuneytis fyrir 1. janúar 1996.

Umsækjendur um atvinnuleyfi verða að uppfylla skilyrði laga og reglugerðar um að mega aka bifreið í leiguakstri. Gjald fyrir atvinnuleyfi er kr. 5.000 og tekur breytingum samkvæmt 18. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991 með síðari breytingum.

Ákvæði 1.-4. gr., 9., 12.-15. gr. þessarar reglugerðar gilda um atvinnuleyfi utan takmörkunarsvæða eftir því sem við á.

IV. KAFLI 

 Ýmis ákvæði.

17. gr

Eðalvagnaþjónusta.

Samgönguráðherra veitir tímabundið og skilyrt atvinnuleyfi til reksturs eðalvagnaþjónustu (limousine). Leyfi til reksturs eðalvagnaþjónustu skal að jafnaði veitt til tveggja ára í senn. Umsækjandi um slíkt leyfi skal uppfylla skilyrði 3. gr. laga um leigubifreiðar og 4. gr. reglugerðar þessarar. Samgönguráðherra getur afturkallað leyfi ef leyfishafi brýtur gegn ákvæðum laga og reglugerða um leigubifreiðar.

>Þjónusta eðalvagna er sérhæfður leiguakstur fólksbifreiða og fellur undir 2. mgr. 1. gr. laga um leigubifreiðar. Til eðalvagna teljast glæsilegar fólksbifreiðar sem flutt geta 4-8 farþega að öllu jöfnu með skilrúmi á milli bílstjóra og farþegarýmis. Slíkar bifreiðar skulu búnar sérþægindum fyrir farþega, t.d. farsíma og síma sem notaður er innan bifreiðarinnar. Eðalvagnar skulu ekki stunda almennan leiguakstur, heldur aðeins notaðir til sérstakrar viðhafnarþjónustu, t.d. við brúðkaup, jarðarfarir og heimsóknir erlendra gesta og önnur sérstök tilefni þar sem viðhafnar er óskað.

Eðalvagna má einungis nota til aksturs farþega gegn gjaldi samkvæmt fyrirfram gerðri pöntun á þjónustu þeirra. Fyrir þjónustu eðalvagna skal að öðru jöfnu greiða hærra gjald en fyrir akstur með almennum leigubifreiðum. Eðalvagn skal ávallt leigja út með ökumanni. Ökumenn eðalvagna skulu vera snyrtilegir og vel klæddir og færir um að tala ensku og eitt skandinavískt tungumál.

18. gr.

Leiðsöguþjónusta.

Samgönguráðherra er heimilt að veita tímabundið og skilyrt atvinnuleyfi til bifreiðastjóra sem jafnframt er leiðsögumaður.

Leyfi til reksturs leiðsöguþjónustu í leigubifreið er að jafnaði veitt til tveggja ára í senn. Umsækjandi um slíkt leyfi skal uppfylla skilyrði 3. gr. laga um leigubifreiðar og 4. gr. reglugerðar þessarar og hafa lokið prófi sem leiðsögumaður eða sýnt fram á nauðsynlega þekkingu og reynslu til að stunda leiðsöguþjónustu í leigubifreið. Samgönguráðherra getur afturkallað leyfi ef leyfishafi brýtur gegn ákvæðum laga og reglugerða um leigubifreiðar.

19. gr. 

 Brot og gildistaka.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum samkvæmt 11. gr. laga nr. 61/1995 um leigubifreiðar.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 61/1995 um leigubifreiðar, öðlast þegar gildi og staðfestist hér með til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um fólksbifreiðar, sem notaðar eru til leiguaksturs og takmarkanir á fjölda þeirra nr. 308/1989 með síðari breytingum.

Samgönguráðuneytið, 30. mars 1995.

Halldór Blöndal.

Jón Birgir Jónsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica