Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

204/2004

Reglugerð um samræmdar kröfur og aðferðir að því er varðar örugga lestun og losun búlkaskipa.

1. gr.
Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að auka öryggi búlkaskipa, sem hafa viðkomu í íslenskum höfnum þeirra erinda að lesta eða losa búlkafarm í föstu formi, með því að draga úr óhóflegu álagi og áþreifanlegum skemmdum á burðarvirki skipa sem á sér stað meðan á lestun eða losun stendur en það má gera með:

1. samhæfðum nothæfiskröfum fyrir þessi skip og búlkastöðvar, og
2. samhæfðum málsmeðferðarreglum fyrir samvinnu og samskipti milli þessara skipa og búlkastöðva.


2. gr.
Gildissvið.

Þessi reglugerð gildir um öll búlkaskip, sem hafa viðkomu á búlkastöðvum til þess að lesta eða losa búlkafarm í föstu formi, án tillits til þess undir hvaða fána þær sigla.

Með fyrirvara um ákvæði reglu VI/7 í SOLAS-samþykktinni frá 1974 skal þessi reglugerð ekki gilda um búnað sem eingöngu er notaður í sérstökum tilvikum til að skipa búlkafarmi í föstu formi út í eða upp úr búlkaskipum og hún gildir ekki í þeim tilvikum þegar lestun eða losun er eingöngu framkvæmd með búnaði búlkaskipsins sem um ræðir.


3. gr.
Skilgreiningar.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

1. alþjóðasamþykktir: samþykktir, samkvæmt nýjustu útgáfu þeirra, sbr. skilgreiningu í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um hafnarríkiseftirlit með sjóflutningum nr. 589/2003 og 1. mgr. 2. gr. tilskipunar ráðsins 95/21/EB um hafnarríkiseftirlit;
2. SOLAS-samþykktin frá 1974: alþjóðasamþykkt um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974 ásamt tilheyrandi bókunum og breytingum samkvæmt nýjustu útgáfu hennar;
3. BLU-reglur: reglur um starfsvenjur vegna öryggis við lestun og losun búlkaskipa, sem fram koma í viðauka við þingsályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.862(20) frá 27. nóvember 1997 samkvæmt nýjustu útgáfu þeirra;
4. búlkaskip: merkir hér hið sama og í reglu IX/1.6 í SOLAS-samþykktinni frá 1974 og í túlkun 6. ályktunar SOLAS-ráðstefnunnar sem haldin var 1997, þ.e.:
- skip með einföldu þilfari, vængtönkum og húftönkum í lestarrými og aðallega ætlað til flutninga á föstum búlkafarmi, eða
- málmgrýtisskip, þ.e. hafskip með einu þilfari, tveimur langskipsþiljum og tvöföldum botni undir öllu farmsvæðinu og eingöngu ætlað til flutnings á málmgrýtisfarmi í miðlestum, eða
- fjölnotaskip sem er skilgreint í reglu II-2/3.27 í SOLAS-samþykktinni frá 1974;
5. fastur búlkafarmur: búlkafarmur í föstu formi eins og hann er skilgreindur í reglu XII/1.4 í SOLAS-samþykktinni frá 1974, að frátöldu korni;
6. korn: merkir hér hið sama og í reglu VI/8.2 í SOLAS-samþykktinni frá 1974;
7. búlkastöð: hvers konar aðstaða, hvort sem hún er föst, fljótandi eða hreyfanleg, sem notuð er til að lesta eða losa búlkaskip með föstum búlkafarmi;
8. rekstraraðili búlkastöðvar: eigandi búlkastöðvar eða hvers konar stofnun eða einstaklingur sem eigandinn hefur falið ábyrgð á lestun eða losun tiltekins búlkaskips;
9. fulltrúi búlkastöðvar: hver sá einstaklingur sem eigandinn hefur tilnefnt og ber meginábyrgð á og hefur vald til að stjórna undirbúningi, framkvæmd og verklokum lestunar eða losunar tiltekins búlkaskips sem framkvæmd er á vegum búlkastöðvarinnar;
10. skipstjóri: einstaklingur sem hefur með höndum stjórn búlkaskips eða yfirmaður á skipinu sem skipstjóri hefur tilnefnt vegna lestunar eða losunar skipsins;
11. viðurkennd stofnun: stofnun sem viðurkennd er í samræmi við 4. gr. tilskipunar ráðsins 94/57/EB;
12. upplýsingar um farm: upplýsingar um farm sem krafist er í reglu VI/2 í SOLAS-samþykktinni frá 1974;
13. lestunar- eða losunaráætlun: áætlun sem um getur í reglu VI/7.3 í SOLAS-samþykktinni frá 1974 en framsetning hennar skal vera eins og kemur fram í 2. viðbæti við BLU-reglurnar;
14. sameiginlegur öryggisgátlisti skips og hafnar: gátlisti sem um getur í 4. þætti BLU-reglnanna en framsetning hans skal vera eins og kemur fram í 3. viðbæti við BLU-reglurnar;
15. yfirlýsing um eðlismassa fasts búlkafarms: upplýsingar um eðlismassa farms sem gefa skal upp í samræmi við reglu XII/10 í SOLAS-samþykktinni frá 1974.


4. gr.
Kröfur er varða nothæfi búlkaskipa.

Siglingastofnun skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að búlkaskip séu, að mati rekstraraðila búlkastöðva, nothæf til lestunar eða losunar á föstum búlkafarmi með því að ganga úr skugga um að þau uppfylli ákvæði I. viðauka með þessari reglugerð.


5. gr.
Kröfur er varða nothæfi búlkastöðva.

Siglingastofnun skal fullvissa sig um að rekstraraðilar búlkastöðva tryggi eftirfarandi að því er varðar búlkastöðvar sem þeir bera ábyrgð á samkvæmt þessari reglugerð:

1. búlkastöðvarnar uppfylli ákvæði II. viðauka með reglugerð þessari;
2. fulltrúi búlkastöðvar (einn eða fleiri) hafi verið skipaður;
3. upplýsingabækur hafi verið samdar, þar sem fram koma kröfur búlkastöðvarinnar og stjórnvalda og upplýsingar um höfnina og búlkastöðina sem skráðar eru í lið 1.2 í 1. viðbæti við BLU-reglurnar, en þessar upplýsingabækur skulu vera aðgengilegar skipstjórum búlkaskipa, sem fara um búlkastöðina til þess að lesta eða losa búlkafarm í föstu formi, og
4. gæðastjórnunarkerfi hafi verið þróað, komið á og viðhaldið. Slíkt gæðastjórnunarkerfi skal vottað af faggiltri vottunarstofu í samræmi við ISO 9001:2000-staðlana eða jafngildan staðal sem uppfylli a.m.k. alla þætti ISO 9001:2000, og gerð skal úttekt á því í samræmi við viðmiðunarreglur ISO 10011:1991 eða jafngildan staðal sem uppfylli alla þætti ISO 10011:1991. Fara skal að ákvæðum tilskipunar 98/34/EB.

Aðlögunarfrestur til að koma á fót gæðastjórnunarkerfinu er veittur til 5. febrúar 2005 og í eitt ár til viðbótar til að afla vottunar fyrir kerfið.


6. gr.
Starfsleyfi til bráðabirgða.

Þrátt fyrir kröfur 4. tölul. 5. gr. getur Siglingastofnun gefið út bráðabirgðaleyfi til nýstofnaðra búlkastöðva sem skal gilda í 12 mánuði hið mesta. Hins vegar skal sýnt fram á það, af hálfu búlkastöðvarinnar, að til sé áætlun um að hrinda í framkvæmd gæðastjórnunarkerfi í samræmi við ISO 9001:2000-staðalinn eða jafngildan staðal eins og fram kemur í 4. tölul. 5. gr.


7. gr.
Ábyrgðarstörf skipstjóra og fulltrúa búlkastöðva.

Siglingastofnun skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að eftirfarandi meginreglur um ábyrgðarstörf skipstjóra og fulltrúa búlkastöðva séu virtar og að þeim sé beitt:

1. Ábyrgð skipstjóra:
a) skipstjórinn ber ætíð ábyrgð á öruggri lestun og losun búlkaskips sem er undir hans stjórn;
b) með góðum fyrirvara fyrir áætlaðan komutíma skipsins til búlkastöðvarinnar skal skipstjóri veita búlkastöðinni þær upplýsingar sem mælt er fyrir um í III. viðauka með reglugerð þessari;
c) áður en lestun á föstum búlkafarmi hefst skal skipstjóri tryggja að hann hafi fengið þær upplýsingar um farminn sem krafist er samkvæmt reglugerð VI/2 í SOLAS-samþykktinni frá 1974 og, sé þess krafist, yfirlýsingu um eðlismassa fasts búlkafarms. Þessar upplýsingar skulu koma fram á eyðublaði um farmupplýsingar eins og mælt er fyrir um í 5. viðbæti við BLU-reglurnar;
d) áður en lestun eða losun hefst og meðan á henni stendur skal skipstjóri rækja þær skyldur sem taldar eru upp í IV. viðauka með reglugerð þessari;
2. Ábyrgð fulltrúa búlkastöðvar:
a) jafnskjótt og tilkynning berst frá skipinu um áætlaðan komutíma þess skal fulltrúi búlkastöðvarinnar láta skipstjóranum í té upplýsingarnar sem um getur í V. viðauka með reglugerð þessari;
b) fulltrúi búlkastöðvarinnar skal fullvissa sig um að skipstjórinn hafi fengið upplýsingarnar á farmupplýsingaeyðublaðinu eins fljótt og unnt er;
c) fulltrúi búlkastöðvarinnar skal tilkynna Siglingastofnun án tafar um augljósan vanbúnað um borð í búlkaskipi sem hætta gæti stafað af við lestun eða losun fasts búlkafarms;
d) áður en lestun eða losun hefst og meðan á henni stendur skal fulltrúi búlkastöðvarinnar rækja þær skyldur sem taldar eru upp í VI. viðauka með reglugerð þessari.


8. gr.
Fyrirkomulag samvinnu milli búlkaskipa og búlkastöðva.

Tryggja skal að eftirfarandi fyrirkomulag sé viðhaft í tengslum við lestun eða losun búlkaskipa með föstum búlkafarmi:

1. Áður en lestun eða losun fasts búlkafarms hefst skal skipstjórinn komast að samkomulagi við fulltrúa búlkastöðvarinnar um lestunar- eða losunaráætlun í samræmi við reglu VI/7.3 í SOLAS-samþykktinni frá 1974. Lestunar- eða losunaráætlunin skal vera í þeirri mynd sem mælt er fyrir um í 2. viðbæti við BLU-reglurnar, hún skal innihalda IMO-númer búlkaskipsins og skipstjórinn og fulltrúi búlkastöðvarinnar skulu staðfesta með undirskrift að þeir séu samþykkir áætluninni.
Sérhver breyting á áætluninni, sem að mati annars hvors aðilans kann að hafa áhrif á öryggi skips eða áhafnar, skal gerð, viðurkennd og samþykkt af báðum aðilum, sem endurskoðuð áætlun.
Samþykkta lestunar- eða losunaráætlunin, ásamt síðari breytingum, skal vera í vörslu skips og búlkastöðvar um sex mánaða skeið til þess að sannprófun af hálfu Siglingastofnunar geti farið fram reynist það nauðsynlegt.
2. Áður en lestun eða losun hefst skal ljúka við sameiginlegan öryggisgátlista skips og hafnar og skulu skipstjórinn og fulltrúi búlkastöðvarinnar undirrita hann í sameiningu í samræmi við viðmiðunarreglur 4. viðbætis við BLU-reglurnar.
3. Milli skips og búlkastöðvar skal komið á skilvirkum boðskiptum og þeim stöðugt viðhaldið þannig að unnt sé að bregðast við ef farið er fram á upplýsingar um lestunar- eða losunarferlið og tryggja að tafarlaust sé farið að fyrirmælum frá skipstjóra eða fulltrúa búlkastöðvarinnar um að fresta lestun eða losun.
4. Skipstjórinn og fulltrúi búlkastöðvarinnar skulu annast lestunar- eða losunaraðgerðirnar í samræmi við samþykkta áætlun. Fulltrúi búlkastöðvarinnar skal bera ábyrgð á lestun eða losun fasta búlkafarmsins að því er varðar röð lesta, það magn og þann hraða lestunar eða losunar sem fram kemur í áætluninni. Hann skal ekki víkja frá samþykktri lestunar- eða losunaráætlun, nema í samráði við skipstjórann og með skriflegu samþykki hans.
5. Að lokinni lestun eða losun skulu skipstjóri og fulltrúi búlkastöðvarinnar staðfesta skriflega að lestunin eða losunin hafi farið fram samkvæmt lestunar- eða losunaráætluninni, að meðtöldum samþykktum breytingum sem kunna að hafa orðið á henni. Þegar um losun er að ræða skal slíkri staðfestingu fylgja skjal þess efnis að lestir hafi verið tæmdar og þær þrifnar í samræmi við kröfur skipstjóra og enn fremur skal fylgja skrá yfir skemmdir, sem kunna að hafa orðið á skipinu, og viðgerðir sem framkvæmdar hafa verið.


9. gr.
Hlutverk Siglingastofnunar.

Með fyrirvara um réttindi og skyldur skipstjóra sem kveðið er á um í reglu VI/7.7 í SOLAS-samþykktinni frá 1974, skal Siglingastofnun tryggja að komið sé í veg fyrir eða stöðvuð lestun eða losun fasts búlkafarms hvenær sem fyrir liggja greinilegar vísbendingar í þá veru að skipi eða áhöfn kunni að stafa hætta af slíku.

Nú er Siglingastofnun tilkynnt að komið hafi til ágreinings milli skipstjóra og fulltrúa búlkastöðvar um framkvæmd starfsreglnanna sem kveðið er á um í 8. gr. og skal þá Siglingastofnun grípa inn í, eftir því sem þurfa þykir, af öryggisástæðum og/eða af ástæðum er varða umhverfi sjávar.


10. gr.
Viðgerðir á skemmdum sem verða við lestun eða losun.

Ef skemmdir verða á burðarvirki eða búnaði skipsins við lestun eða losun skal fulltrúi búlkastöðvarinnar tilkynna það skipstjóranum og fer þá fram viðgerð ef þörf er á.

Séu skemmdirnar þess eðlis að þær gætu dregið úr styrkleika burðarvirkis bolsins eða vatnsheldni þess eða skaðað aðaltæknikerfi skipsins skal fulltrúi búlkastöðvarinnar og/eða skipstjórinn tilkynna það Siglingastofnun eða viðurkenndri stofnun sem starfar í umboði hennar. Siglingastofnun skal, að teknu tilliti til álits viðurkenndrar stofnunar, komi slíkt álit fram, og með tilliti til álits skipstjóra, taka ákvörðun um það hvort hægt sé að fresta viðgerðum. Ef tafarlausar viðgerðir eru taldar nauðsynlegar skal þeim lokið, svo viðunandi sé að mati skipstjóra og Siglingastofnunar, áður en skipið lætur úr höfn.

Þegar taka skal ákvörðunina sem um getur í 2. mgr. getur Siglingastofnun fengið viðurkennda stofnun til að skoða skemmdirnar og gefa álit á því hvort þörf sé á viðgerðum eða hvort þeim megi fresta.

Þessi grein gildir með fyrirvara um ákvæði reglugerðar um hafnarríkiseftirlit, nr. 589/2003.


11. gr.
Sannprófun og skýrslugjöf.

Siglingastofnun skal sannprófa reglulega að búlkastöðvar standist kröfurnar í 5. gr. (1. tölul.), 7. gr. (2. tölul.) og 8. gr. Fyrirvaralaus skoðun, meðan á lestun eða losun stendur, skal vera þáttur í sannprófuninni.

Að auki skal Siglingastofnun sannprófa að búlkastöðvar standist kröfurnar í 4. tölul. 5. gr. í lok tímabilsins, sem þar er kveðið á um og, að því er varðar nýstofnaðar búlkastöðvar, í lok tímabilsins sem kveðið er á um í 6. gr.

Siglingastofnun Íslands skal láta Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í té niðurstöður slíkrar sannprófunar á þriggja ára fresti. Í skýrslunni skal koma fram mat á skilvirkni samhæfðu málsmeðferðarinnar við samvinnu og samskipti milli búlkaskipa og búlkastöðva sem kveðið er á um í þessari reglugerð. Skýrslan skal send í síðasta lagi 30. apríl næsta árs eftir lok þriggja almanaksára sem hún fjallar um.


12. gr.
Viðurlög.

Með mál sem kunna að rísa út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála og varða brot á viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, með síðari breytingum, og siglingalaga nr. 34/1985, með síðari breytingum.


13. gr.
Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum um eftirlit með skipum nr. 47/2003, með síðari breytingum og 243. gr. siglingalaga nr. 34/1985, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Höfð var hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/96/EB frá 4. desember 2001 um samræmdar kröfur og aðferðir að því er varðar örugga lestun og losun búlkaskipa, sem birtist í EES-viðbæti 6/2003, bls. 147 og ákvörðun EES-nefndar nr. 56/2002, sem birtist í EES-viðbæti 44/2002, bls. 12.


Samgönguráðuneytinu, 23. febrúar 2004.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.


I. VIÐAUKI
Kröfur er varða nothæfi búlkaskipa
við lestun og losun á föstum búlkafarmi.
(sem um getur í 4. gr.)

Hafa skal eftirlit með því að búlkaskip, sem hafa viðkomu á búlkastöðvum í íslenskum höfnum til lestunar eða losunar á föstum búlkafarmi, standist eftirfarandi kröfur:

1. Þau skulu vera með lestum og lestaropum sem eru nægilega stór og þannig hönnuð að unnt sé, með fullnægjandi hætti, að lesta fasta búlkafarminn, geyma hann, lesta hann rétt með tilliti til stafnhalla og losa hann.
2. Þau skulu hafa auðkenningarnúmer fyrir lestarlúgur eins og notuð eru í lestunar- eða losunaráætluninni. Staðsetning, stærð og litur þessara númera skulu vel sýnileg og auðgreinanleg notanda lestunar- eða losunarbúnaðar á búlkastöðinni.
3. Lestarlúgur skipanna, stýrikerfi þeirra og öryggisbúnaður skulu vera í góðu, starfshæfu ástandi og eingöngu notuð eins og til er ætlast.
4. Ljós, sem gefa til kynna slagsíðu, skulu, ef þau eru fyrir hendi, prófuð áður en lestun eða losun hefst og sýna skal fram á að þau séu virk.
5. Ef þess er krafist að viðurkennt hleðslutæki sé um borð skal slíkt tæki vera vottað og geta reiknað út álag meðan á lestun eða losun stendur.
6. Knúningsvél og hjálparvélar skulu vera í góðu, starfhæfu ástandi.
7. Útbúnaður á þilfari, sem notaður er þegar skipið leggst við legufæri og höfn, skal vera virkur og í góðu lagi.II. VIÐAUKI
Kröfur er varða nothæfi búlkastöðva
við lestun og losun á föstum búlkafarmi.
(sem um getur í 1. mgr. 5. gr.)

1. Búlkastöðvar skulu eingöngu taka á móti búlkaskipum til að lesta eða losa fastan búlkafarm ef þau geta með öruggum hætti lagst að bryggju meðfram lestunar- eða losunaraðstöðunni, að teknu tilliti til dýptar vatnsins í skipalæginu, hámarksstærða skips, fyrirkomulags legufæra, fríholta, öryggis við aðkomu og hugsanlegra hindrana við lestun eða losun.
2. Lestunar- og losunarbúnaður búlkastöðva skal hafa viðeigandi vottun, honum skal haldið í góðu, starfhæfu ástandi í samræmi við viðeigandi reglugerðir og staðla og skal öðrum ekki heimilt að nota hann en starfsmönnum sem hafa til þess tilskilinn réttindi og, ef við á, löggildingu.
3. Starfsmenn búlkastöðva skulu fá þjálfun í öllum þáttum er lúta að öruggri lestun og losun búlkaskipa og sem samrýmast ábyrgðarsviði þeirra. Þjálfunin skal miða að því að mönnum verði kunnugt um þær almennu hættur sem eru samfara lestun og losun á föstum búlkafarmi og um þau skaðlegu áhrif á skipið sem geta hlotist af röngum vinnubrögðum við lestun og losun.
4. Starfsmönnum búlkastöðva, sem starfa við lestun og losun búlkaskipa, skal séð fyrir persónuhlífum og þeir skulu fá næga hvíld til að forðast megi slys sem rekja má til þreytu.III. VIÐAUKI
Upplýsingar sem skipstjóra ber að veita búlkastöðinni.
(sem um getur í b-lið 1. mgr. 7. gr.)

1. Upplýsingar um áætlaðan komutíma skipsins til viðkomustaðar úti fyrir höfn með eins góðum fyrirvara og kostur er. Þessar upplýsingar skulu uppfærðar eftir því sem við á.
2. Við fyrstu tilkynningu um komutíma skal gefa upp eftirfarandi:
a) nafn, kallmerki, IMO-númer, fána og heimahöfn;
b) lestunar- eða losunaráætlun, þar sem fram kemur magn farmsins, frágangur hans eftir lestarlúgum, röð lestunar eða losunar og magn sem lestað er í hverri lotu eða losað á hverju stigi losunar;
c) djúpristu við komu og væntanlega djúpristu við brottför;
d) tíma sem tekur að taka eða losa sjókjölfestu;
e) heildarlengd og mestu breidd skipsins og lengd farmsvæðisins frá fremra kanti fremstu lestarlúgu að aftara karmi öftustu lestarlúgu lestarrýmisins sem farmi skal skipað út í eða upp úr;
f) fjarlægð frá vatnslínu að lúgu fyrstu lestar sem lesta skal eða losa og fjarlægð frá skipshlið að lestarlúgu;
g) staðsetningu landgöngubrúar á skipshlið;
h) hæð hæsta punkts skipsins yfir sjávarborði (air draught);
i) upplýsingar um lestunar- og losunarbúnað skipsins og um afköst hans;
j) fjölda og gerð landfesta;
k) sérstakar beiðnir, t.d. um lestun með tilliti til stafnhalla eða um stöðuga mælingu á vatnsinnihaldi farmsins;
l) upplýsingar um allar nauðsynlegar viðgerðir sem kunna að tefja fyrir því að skipið geti lagst að, að lestun eða losun geti hafist eða að skipið geti látið úr höfn að lokinni lestun eða losun;
m) allar aðrar upplýsingar um skipið sem búlkastöðin óskar eftir.IV. VIÐAUKI
Skyldur skipstjóra fyrir lestun eða losun
og meðan á henni stendur.
(sem um getur í d-lið 1. mgr. 7. gr.)

Áður en lestun eða losun hefst og meðan á henni stendur skal skipstjóri tryggja:

1. að lestun eða losun farmsins og tæming eða áfylling sjókjölfestugeymis sé undir stjórn ábyrgs yfirmanns á vakt;
2. að fylgst sé með niðurskipan farms og sjókjölfestu meðan á lestun eða losun stendur þannig að tryggt sé að ekki sé of mikið álag á burðarvirki skipsins;
3. að skipinu sé haldið í uppréttri stöðu eða ef þörf er á stafnhalla skal takmarka hann eins og kostur er;
4. að skipið sé tryggilega fest með landfestum og tekið sé tilhlýðilegt tillit til veðurskilyrða og veðurspár;
5. að nægilega margir yfirmenn og áhafnarmeðlimir séu um borð til að huga að landfestum eða hverju því sem við getur borið við eðlilegar aðstæður eða neyðarástand, enda sé þess gætt að áhöfnin fái nægan hvíldartíma til að komast hjá þreytu;
6. að fulltrúa búlkastöðvarinnar sé gerð grein fyrir kröfum um lestun farmsins með tilliti til stafnhalla en þær skulu vera í samræmi við málsmeðferðarreglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um öryggi í meðferð fasts búlkafarms;
7. að fulltrúa búlkastöðvar sé gerð grein fyrir kröfum um samræmingu milli losunar eða inntöku sjókjölfestu annars vegar og lestunar- eða losunarhraða farms fyrir skipið hins vegar, svo og fyrir frávikum frá áætlunum um losun eða inntöku sjókjölfestu eða öðru því sem kann að hafa áhrif á lestun eða losun farms;
8. að sjókjölfestan sé losuð á hraða sem samrýmist samþykktri áætlun um lestun farms og leiði ekki til þess að vatnið flæði yfir á hafnarbakkann eða í nærliggjandi skip. Þegar ekki reynist hagkvæmt að losa alla sjókjölfestuna úr skipinu, áður en að því kemur við lestun farms að stilla þarf stafnhalla skipsins, skal skipstjóri semja við fulltrúa búlkastöðvar um það hvenær og hve lengi í einu nauðsynlegt kunni að vera að fresta lestun farmsins;
9. að fyrir hendi sé samkomulag við fulltrúa búlkastöðvar um það til hvaða aðgerða beri að grípa ef eðli farmsins er slíkt að regn eða önnur veðurbrigði myndu reynast hættuleg;
10. að engin logsuða eða rafsuða eigi sér stað um borð í skipinu eða nágrenni þess meðan það liggur við bryggju, nema með leyfi fulltrúa búlkastöðvar og í samræmi við allar kröfur stjórnvalda;
11. að náið eftirlit sé haft með lestunar- eða losunarvinnunni og með skipinu á lokastigum lestunar eða losunar;
12. að fulltrúa búlkastöðvar sé tafarlaust gert viðvart ef lestun eða losun hefur valdið tjóni eða skapað hættuástand eða ef líkur eru á að svo geti farið;
13. að fulltrúa búlkastöðvar sé gert viðvart þegar lokastilling á stafnhalla þarf að hefjast svo unnt sé að tæma færibandið;
14. að losun fari fram samhliða á bakborða og stjórnborða í sömu lest því sem næst svo að ekki komi vindingsátak á burðarvirki skipsins;
15. að tekið sé tillit til þess, þegar taka skal sjókjölfestu í eina lest eða fleiri, að eldfimar gufur geti losnað úr lestunum og gerðar séu varúðarráðstafanir áður en leyfi er veitt fyrir logsuðu eða rafsuðu nálægt þessum lestum eða fyrir ofan þær.V. VIÐAUKI
Upplýsingar sem búlkastöðinni ber að veita skipstjóra.
(sem um getur í a-lið 2. mgr. 7. gr.)

1. Heiti skipalægis þar sem lestunin eða losunin er fyrirhuguð og hvenær gert er ráð fyrir að skipið leggist að og hvenær lestun eða losun ljúki.
2. Einkenni lestunar- eða losunarbúnaðar, þ.m.t. nafnhraði lestunar eða losunar á búlkastöðinni, fjöldi lestunar- eða losunareininga sem fyrirhugað er að nota og áætlaður tími sem þarf til að ljúka hverri lotu eða, þegar um losun er að ræða, áætlaður tími sem þarf til að ljúka hverju stigi losunar.
3. Þættir sem einkenna aðstæður við bryggju eða hafnargarð sem skipstjóri getur þurft að þekkja, þ.m.t. staðsetning fastra og hreyfanlegra hindrana, fríholta, bryggjupolla og fyrirkomulag legufæra.
4. Minnsta dýpi meðfram bryggju og á innsiglinga- og útsiglingaleiðum.
5. Eðlismassi vatns í skipalæginu.
6. Hámarksfjarlægð frá sjólínu að efsta hluta lestarhlera eða -karma, eftir því hvort skiptir máli vegna lestunar eða losunar, svo og hámarkshæð hæsta punkts skips yfir sjávarborði.
7. Aðstaða fyrir landgöngubrýr og inngönguleiðir.
8. Hvor hlið skipsins á að snúa að bryggju.
9. Leyfilegur hámarkshraði í aðsiglingu að hafnargarði, tiltækir dráttarbátar, gerð þeirra og togkraftur.
10. Röð lestunar fyrir mismunandi hluta farms og aðrar takmarkanir ef ekki er unnt að taka við farminum í þeirri röð eða í þær lestir sem henta skipinu.
11. Allir eiginleikar farmsins, sem fyrirhugað er að lesta, sem kunna að valda hættu ef hann kemst í snertingu við farm eða farmleifar sem eru um borð.
12. Upplýsingar um fyrirhugaðar lestunar- eða losunaraðgerðir eða breytingar á fyrirliggjandi lestunar- eða losunaráætlunum.
13. Að hve miklu leyti lestunar- eða losunarbúnaður búlkastöðvarinnar er fastur eða hvort einhverjar takmarkanir eru á hreyfanleika hans.
14. Kröfur um landfestar.
15. Viðvörun um óvenjulegt fyrirkomulag legufæra.
16. Hvers konar takmarkanir á inntöku eða losun sjókjölfestu.
17. Mesta djúprista sem viðkomandi höfn leyfir.
18. Allar aðrar upplýsingar um búlkastöðina sem skipstjórinn óskar eftir.VI. VIÐAUKI
Skyldur fulltrúa búlkastöðvar
fyrir lestun eða losun og meðan á henni stendur.
(sem um getur í d-lið 2. mgr. 7. gr.)


Áður en lestun eða losun hefst og meðan á henni stendur skal fulltrúi búlkastöðvar:

1. veita skipstjóra upplýsingar um nöfn þeirra starfsmanna búlkastöðvarinnar eða umboðsaðila farmflytjanda, sem bera ábyrgð á lestunar- eða losunaraðgerðunum og sem eru tengiliðir skipstjórans og um hvernig tengslunum skuli komið á;
2. gera allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að forðast tjón á skipinu af völdum lestunar- eða losunarbúnaðarins og gera skipstjóra viðvart ef til þess kemur;
3. tryggja að skipinu sé haldið í uppréttri stöðu eða ef þörf er á stafnhalla skal takmarka hann eins og kostur er;
4. tryggja að losun fari fram samhliða á bakborða og stjórnborða í sömu lest eða því sem næst svo að ekki komi vindingsátak á burðarvirki skipsins;
5. vara skipstjóra við því þegar farmur hefur mikla eðlisþyngd eða þegar hver gripskóflufylli er mjög stór, að burðarvirki skipsins geti orðið fyrir miklu, staðbundnu álagi þar til efsti hluti farmgeymisins er algerlega hulinn farmi, einkum þegar leyft er að sleppa farmi hindrunarlaust úr mikilli hæð, og gæta skal sérstakrar varúðar við upphaf lestunar í hverri lest;
6. tryggja að samkomulag sé milli skipstjóra og fulltrúa búlkastöðvar á öllum stigum að því er varðar alla þætti lestunar eða losunar og að skipstjóri sé látinn vita um allar breytingar sem kunna að verða á samþykktum hraða lestunar og um þyngd lestaðs farms við lok hverrar lotu;
7. varðveita skjöl um þyngd og niðurskipan farms sem er lestaður eða losaður og að þyngd farmsins í lestunum sé ekki önnur en sú sem fram kemur í umsömdu áætluninni;
8. tryggja að farmurinn sé rétt lestaður eða losaður með tilliti til stafnhalla samkvæmt kröfum skipstjóra;
9. tryggja að gert sé ráð fyrir því, við áætlun á því magni farms sem þarf til að skipið nái þeirri djúpristu og þeim stafnhalla sem stefnt er að fyrir brottför, að færibandskerfi búlkastöðvarinnar sé tæmt við lok lestunar. Í þessu skyni skal fulltrúi búlkastöðvar gera skipstjóra grein fyrir nafnþyngd farms, sem er í færibandskerfi búlkastöðvarinnar, og um hugsanlegar kröfur þess efnis að færibandskerfið sé tæmt við lok lestunar;
10. vara skipstjóra við með eins góðum fyrirvara og unnt er þegar fyrirhugað er að fjölga eða fækka losunareiningum og gera skipstjóra viðvart þegar losun telst vera lokið úr hverri lest;
11. tryggja að engin logsuða eða rafsuða eigi sér stað um borð í skipinu eða í nágrenni þess meðan það liggur við bryggju, nema með leyfi skipstjóra og í samræmi við allar kröfur stjórnvalda.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica