Samgönguráðuneyti

142/2004

Reglugerð um viðurkenningu flokkunarfélaga og um reglur og staðla fyrir stofnanir sem sjá um skipaeftirlit og -skoðun.

1. gr.
Markmið og tilgangur.

Í reglugerð þessari er kveðið á um tilteknar aðferðir sem fylgja skal við skoðun, eftirlit og viðurkenningu skipa í því skyni að fara að alþjóðasamningum um öryggi á hafi úti og varnir gegn mengun sjávar ásamt því að stuðla að frelsi til að veita þjónustu. Þetta ferli felur í sér þróun og framkvæmd öryggiskrafna sem gilda um bol, vél-, raf- og stjórnbúnað skipa sem falla undir gildissvið alþjóðasamninganna.


2. gr.
Skilgreiningar.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a) Skip: skip sem falla undir gildissvið alþjóðasamninganna;
b) Skip sem sigla undir íslenskum fána: skip sem er skráð á íslenska skipaskrá og siglir undir íslenskum fána í samræmi við lög um skráningu skipa nr. 115/1985, með síðari breytingum;
c) Skoðanir og eftirlit: skoðanir og eftirlit sem skylt er að framkvæma samkvæmt alþjóðasamningunum;
d) Alþjóðasamningar: alþjóðasamningurinn um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974 (SOLAS), alþjóðasamningur um hleðslumerki skipa frá 1966 og alþjóðasamningur (1973/78) um varnir gegn mengun frá skipum svo og bókanir og breytingar við þá, ásamt reglum sem tengjast þeim og eru bindandi í öllum aðildarríkjunum og í gildi eru samkvæmt nýjustu útgáfu þeirra;
e) Stofnun: flokkunarfélag eða annar einkaaðili sem framkvæmir öryggismat fyrir Siglingastofnun Íslands;
f) Viðurkennd stofnun: stofnun sem hefur hlotið viðurkenningu í samræmi við 4. gr.;
g) Leyfi: sú framkvæmd af hálfu Siglingastofnunar að veita viðurkenndri stofnun leyfi eða fela henni vald;
h) Skírteini: skírteini gefið út fyrir hönd Íslands í samræmi við alþjóðasamninga;
i) Flokkunarskírteini: skjal sem gefið er út af flokkunarfélagi til marks um að smíði skips og vélbúnaður þess til tiltekinna nota eða reksturs sé í samræmi við ákvæði og reglur sem flokkunarfélagið hefur mælt fyrir um og birt opinberlega;
j) Öryggisskírteini fyrir fjarskiptabúnað flutningaskipa: skírteini sem kveðið er á um í breyttum alþjóðareglum um þráðlaus fjarskipti samkvæmt samningnum um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS 74/78), samþykktum af Alþjóðasiglingamálastofnuninni;
k) Staðsetning: sá staður þar sem skráða skrifstofu, aðalstjórn eða aðalstarfsemi stofnunar er að finna.


3. gr.
Alþjóðasamningar og beiting heimilda samkvæmt þeim.

Siglingastofnun ber að tryggja að ákvæði alþjóðasamninganna séu virt, einkum að því er varðar eftirlit og skoðun skipa og útgáfu skírteina og undanþáguskírteina.

Ef Siglingastofnun ákveður, í samræmi við 1. mgr., að því er varðar skip sem sigla undir íslenskum fána:

i) að veita stofnun leyfi til að framkvæma að fullu eða að hluta allt eftirlit og allar skoðanir sem tengjast skírteinum, og ef við á, að gefa út eða endurnýja tengd skírteini; eða
ii) að láta stofnanir framkvæma að fullu eða að hluta eftirlit og skoðanir sem um getur í undirlið i);

skal hún eingöngu fela viðurkenndum stofnunum þessar skyldur.

Siglingastofnun þarf í öllum tilvikum að vera sá aðili sem samþykkir fyrstu útgáfu undanþáguskírteinanna.

Að því er varðar öryggisskírteini fyrir fjarskiptabúnað flutningaskipa má fela þessar skyldur fyrirtækjum sem Siglingastofnun eða Póst- og fjarskiptastofnun viðurkenna og búa yfir nægilegri sérþekkingu og hæfu starfsfólki til að framkvæma fyrir þeirra hönd sérhæft mat á öryggisþáttum fjarskipta.

Þessi grein á ekki við um útgáfu skírteina fyrir tiltekna hluta búnaðar um borð í skipum.


4. gr.
Viðurkenning stofnana.

Framkvæmdastjórn ESB viðurkennir stofnanir í samræmi við tilskipun ráðsins nr. 94/57/EB frá 22. nóvember 1994 um sameiginlegar reglur og staðla fyrir stofnanir sem sjá um skipaeftirlit og -skoðun fyrir tilheyrandi starfsemi siglingamálayfirvalda, með síðari breytingum.


5. gr.
Starfsleyfi stofnana.

Siglingastofnun veitir viðurkenndum stofnunum leyfi til að sjá um skipaeftirlit og -skoðun hér á landi.

Við beitingu i) liðar 2. mgr. 3. gr. skal Siglingastofnun að meginreglu til ekki synja þeim viðurkenndu stofnunum sem staðsettar eru á Evrópska efnahagssvæðinu um leyfi til að vinna slík verkefni að teknu tilliti til ákvæðanna í 6. og 9. gr. Þó má Siglingastofnun takmarka fjölda stofnana sem hún veitir leyfi við þá þörf sem er fyrir hendi að því tilskildu að það sé gert með gagnsæjum og hlutlausum hætti.

Skilyrði starfsleyfis er að ákvæði þessarar reglugerðar séu uppfyllt, auk þess skal viðurkennd stofnun:

a) hafa skrifstofu á Íslandi,
b) hafa minnst einn skoðunarmann, sem starfar fyrir félagið og hefur fast aðsetur á Íslandi,
c) vera fullgildur aðili í alþjóðasamtökum flokkunarfélaga (IACS).


6. gr.
Samningar Siglingastofnunar við stofnanir (flokkunarfélög).

Ef Siglingastofnun ákveður að gera eins og lýst er í 2. mgr. 3. gr. skal stofnunin koma á samvinnu við viðkomandi stofnanir. Slík samvinna skal byggjast á formlegum, skriflegum samningi á jafnréttisgrundvelli sem felur að minnsta kosti í sér:

a) ákvæði II. viðbætis ályktunar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.739(18) um viðmiðunarreglur vegna leyfisveitingar fyrir stofnanir sem starfa fyrir hönd yfirvalda en jafnframt skal taka mið af viðaukum, viðbætum og fylgiskjali IMO MSC/umburðarbréf 710 og MEPC/umburðarbréf 307 um fyrirmynd að samkomulagi um leyfisveitingar fyrir stofnanir sem starfa á vegum yfirvalda;
b) eftirfarandi ákvæði varðandi fjárskuldbindingar:
i) ef yfirvöld eru endanlega og afdráttarlaust dæmd samkvæmt úrskurði dómstóls til að bera bótaábyrgð sökum óhapps eða ef gerðardómi er beitt sem lið í lausn deilumáls og auk þess gerð krafa um bætur til tjónþola sökum taps, eignatjóns, líkamstjóns eða mannsláts sem sýnt hefur verið fram á fyrir dómstólnum að rekja megi til vísvitandi athæfis, vanrækslu eða vítaverðs gáleysis af hálfu viðurkenndu stofnunarinnar eða aðila, starfsmanna, fulltrúa eða annarra sem starfa fyrir hennar hönd skulu yfirvöldin eiga kröfu á hendur viðurkenndu stofnuninni um fébætur að svo miklu leyti sem viðurkennda stofnunin er, samkvæmt úrskurði dómstólsins, völd að framangreindu tapi, tjóni, líkamstjóni eða mannsláti;
ii) ef yfirvöld eru endanlega og afdráttarlaust dæmd samkvæmt úrskurði dómstóls til að bera bótaábyrgð sökum óhapps eða ef gerðardómi er beitt sem lið í lausn deilumáls og auk þess gerð krafa um bætur til tjónþola sökum líkamstjóns eða mannsláts sem sýnt hefur verið fram á fyrir dómstólnum að rekja megi til hvers konar gáleysis, glæfralegs athæfis, eða vanrækslu af hálfu viðurkenndu stofnunarinnar, starfsmanna hennar, fulltrúa eða annarra sem starfa fyrir hennar hönd skulu yfirvöldin eiga kröfu á hendur viðurkenndu stofnuninni um fébætur að svo miklu leyti sem viðurkennda stofnunin er, samkvæmt úrskurði dómstólsins, völd að framangreindu líkamstjóni eða mannsláti;
iii) ef yfirvöld eru endanlega og afdráttarlaust dæmd samkvæmt úrskurði dómstóls til að bera bótaábyrgð sökum óhapps eða ef gerðardómi er beitt sem lið í lausn deilumáls og auk þess gerð krafa um bætur til tjónþola sökum taps eða eignatjóns, sem sýnt hefur verið fram á fyrir dómstólnum að rekja megi til hvers konar gáleysis, glæfralegs athæfis eða vanrækslu af hálfu viðurkenndu stofnunarinnar eða starfsmanna hennar, fulltrúa eða annarra sem starfa fyrir hennar hönd skulu yfirvöldin eiga kröfu á hendur viðurkenndu stofnuninni um fébætur að svo miklu leyti sem viðurkennda stofnunin er, samkvæmt úrskurði dómstólsins, völd að framangreindu tapi eða tjóni;
c) ákvæði um reglulega úttekt yfirvalda eða utanaðkomandi aðila skipuðum af yfirvöldum á þeim störfum sem stofnanir framkvæma á vegum þeirra eins og um getur í 1. mgr. 9. gr.;
d) möguleika á að hægt sé að framkvæma nákvæmar úrtaksskoðanir á skipum;
e) ákvæði um að tilkynna mikilvægar upplýsingar um flokkaðan flota þeirra, breytingar á flokkun skipa eða útstrikun þeirra úr flokki sem um getur í 3. mgr. 11. gr.


7. gr.
Afturköllun viðurkenningar.

Framkvæmdastjórn ESB afturkallar viðurkenningu þeirra viðurkenndu stofnana sem um getur í 4. gr. ef þær uppfylla ekki lengur kröfurnar sem mælt er fyrir um í viðaukanum eða ef frammistaða þeirra, að því er varðar öryggi og mengunarvarnir, uppfyllir ekki kröfurnar sem um getur í 2. mgr.


8. gr.
Afturköllun starfsleyfis.

Þrátt fyrir viðmiðanirnar, sem tilgreindar eru í viðauka með reglugerð þessari, getur Siglingastofnun ákveðið að fella úr gildi leyfi ef hún telur að viðurkennd stofnun eigi ekki lengur að hafa leyfi til að framkvæma fyrir hennar hönd þau verkefni sem tilgreind eru í 3. gr. Siglingastofnun skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA, framkvæmdastjórn ESB og hinum EES-ríkjunum um slíka ákvörðun án tafar og gefa rökstuddar ástæður fyrir henni.


9. gr.
Eftirlit með viðurkenndum stofnunum.

Siglingastofnun skal ganga úr skugga um að viðurkenndar stofnanir, sem starfa á Íslandi fyrir hana í skilningi 2. mgr. 3. gr., inni af hendi þau hlutverk sem um getur í þeirri grein. Siglingastofnun skal sinna slíku eftirliti á a.m.k. tveggja ára fresti og skal samgönguráðherra skila EES-ríkjunum og framkvæmdastjórn ESB skýrslu um niðurstöðu þessa eftirlits eigi síðar en 31. mars árið eftir að eftirlitstímabilinu lýkur.

Þá skal Siglingastofnun tryggja að hvert það skip sem siglir undir íslenskum fána sé smíðað og því viðhaldið í samræmi við íslenskar kröfur eða í samræmi við kröfur sem viðurkennd stofnun gerir um bol, vél-, raf- og stjórnbúnað.

Siglingastofnun er heimilt að nota reglur sem hún telur jafngildar reglum viðurkenndrar stofnunar að því gefnu að hún tilkynni Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) án tafar um þær, í samræmi við málsmeðferðina í tilskipun 98/34/EB sbr. ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 146/99 og að hvorki framkvæmdastjórn ESB né önnur EES-ríki andmæli reglunum og að það verði ekki staðfest samkvæmt málsmeðferðinni í 2. mgr. 7. gr. tilskipunar 2001/105/EB að þessar reglur séu ekki jafngildar.


10. gr.
Tilkynningarskylda í tengslum við hafnarríkiseftirlit.

Í tengslum við skoðanarétt og skyldur sem hafnarríki skal Siglingastofnun tilkynna EES-ríkjunum og framkvæmdastjórn ESB ef hún kemst að því að stofnanir, sem starfa fyrir hönd fánaríkis, gefa út gild skírteini til handa skipi sem uppfyllir ekki viðeigandi kröfur alþjóðasamninganna eða í hvert sinn sem kemur í ljós að skip með gilt flokkunarfélagsskírteini uppfyllir ekki þær kröfur sem því ber samkvæmt því skírteini. Að því er þessa grein snertir skal eingöngu tilkynnt um skip sem stofna öryggi og umhverfi í alvarlega hættu eða þar sem vísbendingar eru fyrir hendi um mikla vanrækslu af hálfu stofnanna. Gera skal viðurkenndu stofnuninni sem í hlut á, grein fyrir slíku þegar upphafleg skoðun fer fram svo að hún geti þegar í stað gripið til viðeigandi ráðstafana í framhaldi af því.


11. gr.

Viðurkenndar stofnanir skulu ráðfæra sig hver við aðra með jöfnu millibili í því skyni að tæknilegir staðlar þeirra séu ávallt jafngildir svo og framkvæmd þeirra, í samræmi við ákvæði ályktunar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.847(20) um viðmiðunarreglur um aðstoð við fánaríki við framkvæmd löggerninga Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.

Viðurkenndar stofnanir skulu láta í ljós vilja til að vinna með eftirlitsyfirvöldum hafnarríkis þegar um er að ræða eitt af skipum í þeirra flokki, einkum til að auðvelda leiðréttingu á annmörkum eða misræmi sem tilkynnt er um.

Viðurkenndar stofnanir skulu útvega Siglingastofnun allar viðeigandi upplýsingar um flokkaðan flota þeirra, tilfærslur milli stofnana, breytingar, niðurfellingar og útstrikun skipa úr flokki, óháð því undir hvaða fána þau sigla. Upplýsingar um tilfærslur milli stofnana, breytingar, niðurfellingar og útstrikun skipa úr flokki, þ. m. t. upplýsingar um allar óafgreiddar skoðanir og tilmæli, flokkunarskilyrði, skilyrði fyrir rekstri eða takmarkanir á honum, sem gefin eru út fyrir skip sem þær hafa flokkað, skulu – óháð því undir hvaða fána skipin sigla – sendar Sirenac-upplýsingakerfinu og birtar á vefsíðum þessara viðurkenndu stofnana ef slíkar vefsíður eru fyrir hendi.

Viðurkenndar stofnanir skulu ekki gefa út skírteini fyrir skip sem hefur verið strikað út úr flokki eða þar sem flokknum hefur verið breytt af öryggisástæðum, óháð því undir hvaða fána þau sigla, fyrr en lögbærum yfirvöldum fánaríkisins hefur gefist hæfilegur frestur til að skila áliti sínu svo að unnt sé að ákveða hvort nauðsynlegt sé að krefjast alhliða skoðunar.

Við tilfærslu skips frá einni stofnun til annarrar skal sú stofnun, sem lætur skipið af hendi, m.ö.o. víkjandi stofnun, upplýsa stofnunina, sem tekur við skipinu, um allar skoðanir og tilmæli, sem dregist hefur að sinna og komin eru fram yfir tímann, um flokkunarskilyrði, skilyrði fyrir rekstri eða takmarkanir á honum sem gefin eru út fyrir skipið. Við tilfærslu skal víkjandi stofnunin láta viðtökustofnuninni í té heildarferilsskrá skipsins. Viðtökustofnunin getur þá fyrst gefið út skírteini fyrir skipið þegar öllum skoðunum, sem eru á eftir áætlun, er lokið og öll tilmæli eða flokkunarskilyrði, sem gefin hafa verið út fyrir skipið en eru komin fram yfir tímann, eru afgreidd með þeim hætti sem víkjandi stofnun mælir fyrir um. Áður en skírteinin eru gefin út skal viðtökustofnunin gera víkjandi stofnuninni grein fyrir dagsetningu útgáfu skírteinanna og staðfesta hvenær, hvar og til hvaða aðgerða verður gripið til að afgreiða skoðanir, tilmæli og flokkunarskilyrði sem dregist hefur að sinna. Viðurkenndu stofnanirnar skulu vinna saman að því að koma ákvæðum þessarar málsgreinar í framkvæmd með viðeigandi hætti.


12. gr.
Lagaheimildir.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 10. gr. laga um eftirlit með skipum nr. 47/2003 til innleiðingar á tilskipun nr. 94/57/EB sem vísað er til í 55-b lið, 13. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 30/1995 eins og henni var breytt með tilskipun 97/58/EB sbr. ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 33/98 og tilskipun 2001/105/EB sbr. ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar 56/02.


13. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.


Samgönguráðuneytinu, 5. febrúar 2004.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.VIÐAUKI
Lágmarkskröfur fyrir stofnanir sem um getur í 3. gr.

A. Almennar lágmarksviðmiðanir.
1. Viðurkennd stofnun skal geta sýnt fram á víðtæka reynslu við að leggja mat á hönnun og smíði kaupskipa.
2. Stofnunin skal hafa í sínum flokki flota sem samanstendur a.m.k. af 1000 hafskipum (yfir 100 brúttórúmlestir) sem að samanlagðri stærð er ekki undir 5 milljónum brúttórúmlesta.
3. Stofnunin skal ráða tæknimenntað fólk í réttu hlutfalli við fjölda flokkaðra skipa. Nauðsynlegt er að ráða að minnsta kosti 100 sérstaka skoðunarmenn í fullt starf til að uppfylla kröfur í 2. mgr.
4. Stofnunin skal setja sér alhliða reglur og reglugerðir um hönnun, smíði og reglubundið eftirlit með kaupskipum sem skulu birtar og uppfærðar reglulega og endurbættar með rannsóknar- og þróunaráætlunum.
5. Stofnunin skal ár hvert gefa út skipaskrá sína eða geyma hana í rafrænum gagnagrunni sem er aðgengilegur almenningi.
6. Stofnuninni skal ekki stjórnað af skipaeigendum eða aðilum í skipasmíðum eða af öðrum sem eiga viðskiptalegra hagsmuna að gæta varðandi framleiðslu, útbúnað, viðgerð eða rekstur skipa. Ekki er leyfilegt að stofnunin sé að verulegu leyti háð einstöku atvinnufyrirtæki um öflun tekna. Viðurkennda stofnunin má ekki framkvæma lögboðin verk ef hún er sjálf eigandi eða útgerðaraðili skipsins sem skoða skal eða þegar um er að ræða viðskipta-, persónu- eða fjölskyldutengsl við eigendur eða útgerð skipsins. Þessi vanhæfisregla gildir einnig um þá skoðunarmenn sem viðurkennda stofnunin hefur ráðið til starfa.
7. Stofnunin skal starfa í samræmi við ákvæði viðaukans við ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.789(19) um forskriftir að því er varðar eftirlits- og vottunarhlutverk viðurkenndra stofnana, sem starfa á vegum stjórnvalda, að því marki sem þær fjalla um málefni sem falla undir gildissvið þessarar reglugerðar.

B. Sérstakar lágmarksviðmiðanir.
1. Stofnunin hefur yfir að ráða:
a) mikilvægu tækni-, stjórnunar-, aðstoðar- og rannsóknarstarfsliði í réttu hlutfalli við verkefnin og fjölda flokkaðra skipa þar, auk þess sem stofnunin getur einnig þróað og viðhaldið reglum og reglugerðum;
b) tæknistarfsliði út um allan heim eða aðgang að tæknistarfsliði annarra viðurkenndra stofnana.
2. Stofnunin lýtur siðareglum.
3. Stofnunin er starfrækt og stjórnað á þann hátt að tryggt sé að farið sé með upplýsingar sem yfirvöld þurfa á að halda sem trúnaðarmál.
4. Stofnunin skal vera reiðubúin að útvega yfirvöldum, framkvæmdastjórninni og hagsmunaaðilum allar viðeigandi upplýsingar.
5. Stjórn stofnunarinnar hefur skilgreint og skráð stefnu sína, markmið og skuldbindingar í gæðamálum og hefur tryggt að inntak stefnunnar sé skilið, hún sé framkvæmd og henni viðhaldið á öllum stigum innan stofnunarinnar. Í stefnu stofnunarinnar skal fjallað um markmið, að því er varðar öryggi og mengunarvarnir, og um vísbendingar um árangur.
6. Stofnunin hefur þróað, framkvæmt og viðheldur áhrifaríku innra eftirlitskerfi sem byggist á viðeigandi alþjóðlega viðurkenndum gæðastöðlum í samræmi við EN 45004 (skoðunaraðilar) og EN 29001, eins og það er túlkað í kröfum um gæðavottunarkerfi Alþjóðasambands flokkunarfélaga (IACS) og tryggir m.a.:
a) að reglur og reglugerðir stofnunarinnar séu settar og þeim viðhaldið á kerfisbundinn hátt;
b) að farið sé að reglum og reglugerðum stofnunarinnar og innra kerfi komið á til að meta gæði þjónustunnar með tilliti til þessara reglna og reglugerða;
c) að kröfur, sem gerðar eru til lögboðins starfs sem stofnuninni er heimilt að sinna, séu uppfylltar og innra kerfi komið á til að meta gæði þjónustunnar með tilliti til þess hvort hún uppfylli alþjóðasamninga;
d) að ábyrgðir, heimildir og innbyrðis tengsl meðal starfsliðs sem vinnur starf, sem hefur áhrif á gæði þjónustu stofnunarinnar, séu skilgreind og skráð;
e) að öll vinna fari fram undir eftirliti;
f) að komið verði á fót eftirlitskerfi sem hefur eftirlit með aðgerðum og starfi sem skipaskoðunarmenn, tæknimenn og starfslið stjórnsýslunnar, sem er ráðið milliliðalaust af stofnuninni, sinnir;
g) að lögboðin störf, sem stofnuninni er heimilt að sinna, annist eingöngu sérstakir skoðunarmenn stofnunarinnar eða sérstakir skoðunarmenn annarra viðurkenndra stofnana; í öllum tilvikum skulu þessir sérstöku skoðunarmenn hafa til að bera yfirgripsmikla þekkingu á þeirri tilteknu gerð skipa sem er viðfangsefni lögboðinna starfa þeirra að því er varðar þá tilteknu skoðun sem framkvæma skal, sem og á viðeigandi, gildandi kröfum;
h) að komið verði á hæfismatskerfi fyrir skipaskoðunarmenn og séð til þess að þeir búi ávallt yfir nýjustu þekkingu;
i) að færð sé skrá sem sýnir að staðlar séu uppfylltir vegna þeirra liða sem varða þjónustuna sem innt er af hendi og að gæðakerfið sé skilvirkt;
j) að fyrir hendi sé heildarkerfi yfir innra gæðaeftirlit, bæði áætlað og skráð, í öllum deildum stofnunarinnar;
k) að lögboðið eftirlit og skoðanir, sem krafist er samkvæmt samræmdu skoðunar- og vottunarkerfi sem stofnunin hefur heimild til að vinna eftir, séu framkvæmdar í samræmi við ákvæðið í viðaukanum og viðbætinum við ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.746(18) um viðmiðunarreglur um skoðun samkvæmt samræmdu skoðunar- og vottunarkerfi;
l) að komið verði á skýrri skiptingu ábyrgðar og beinum boðleiðum stjórnunar milli aðal- og svæðisskrifstofa félagsins og milli viðurkenndu stofnunarinnar og skoðunarmanna á hennar vegum.
7. Stofnunin skal sýna fram á getu til að:
a) þróa og uppfæra ítarlegar og fullnægjandi reglur og reglugerðir um bol, vél-, raf- og stjórnbúnað af sömu gæðum og alþjóðlega viðurkenndir tæknistaðlar sem útgáfa öryggisskírteina SOLAS (að því er varðar smíði skipsins og nauðsynlegan vélbúnað um borð í skipinu), öryggisskírteinis fyrir farþegaskip og hleðslumerkjaskírteinis byggist á;
b) sinna öllu eftirliti og skoðunum sem krafist er samkvæmt alþjóðlegum samningum að því er varðar útgáfu skírteina, þ.m.t. að fagmenntaðir starfsmenn meti framkvæmd og viðhald öryggisstjórnunarkerfisins, bæði í landi og um borð í skipum, sem ætlunin er að fjallað verði um í viðkomandi skírteinum, í samræmi við ákvæði viðaukans við ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.788(19) um viðmiðunarreglur um beitingu yfirvalda á alþjóðareglum um öryggisstjórnun (ISM).
8. Gæðaeftirlitskerfi stofnunarinnar skal löggilt af óháðum eftirlitsmanni sem viðurkenndur er af Siglingastofnun Íslands.
9. Stofnunin skal leyfa fulltrúum Siglingastofnunar og öðrum hlutaðeigandi aðilum að taka þátt í þróun reglna og reglugerða.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica