Samgönguráðuneyti

610/2003

Reglugerð um eftirlit og skráningu á afli aðalvéla íslenskra skipa. - Brottfallin

1. gr.

Ákvæði þessarar reglugerðar taka til skipa á íslenskri skipaskrá sem eru skoðunarskyld samkvæmt lögum um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, með síðari breytingum.


2. gr.

Í þessari reglugerð merkir:
Afl bremsuafl, þ.e. heildarúttaksafl véla sem notaðar eru til að knýja skipið.

Eigandi skráðan eiganda skips samkvæmt lögum um skráningu skipa nr. 115/1985 með síðari breytingum.


3. gr.

Eigandi, sem óskar eftir skráningu eða breytingu á skráningu á afli vélar, skal leggja fram þau gögn sem talin eru nauðsynleg að mati Siglingastofnunar Íslands.


4. gr.

Þegar skráð er afl véla, skal skrá það í kW og miða við mesta stöðuga álag sem framleiðandi gefur upp fyrir umrædda vélargerð og árgerð.

Ef fyrir hendi er reynslukeyrsla á vélinni með ákveðnum búnaði, sem gefur annað afl, en að framan greinir, þá er Siglingastofnun Íslands heimilt að skrá afl vélarinnar í samræmi við þær niðurstöður enda séu þær samkvæmt staðfestum gögnum frá framleiðanda vélarinnar.

Aflið skal mælt samkvæmt ISO-staðli 3046.


5. gr.

Þegar afl við stöðugt álag er óþekkt en framleiðandi gefur upp afl vélar miðað við sérlega létt álag, létt álag eða miðlungs álag skal Siglingastofnun Íslands, þrátt fyrir ákvæði 4. gr., skrá aflið á eftirfarandi hátt:

1. Sé afl við sérlega létt álag þekkt og afl við létt álag og miðlungs álag óþekkt, skal margfalda tölugildi sérlega létta álagsins með stuðlinum 0,7 til að finna afl til skráningar.
2. Sé afl við létt álag þekkt og afl við sérlega létt álag og miðlungs álag óþekkt, skal margfalda tölugildi létta álagsins með stuðlinum 0,8 til að finna afl til skráningar.
3. Sé afl við miðlungs álag þekkt, skal margfalda tölugildi þess með stuðlinum 0,9 til að finna afl til skráningar.

Óheimilt er að nota framangreinda reikniaðferð ef reiknað afl reynist vera meira en 400 kW miðað við mesta stöðuga álag.


6. gr.

Skráðu afli verður ekki breytt nema gerðar séu breytingar á þeim búnaði sem á vélinni er og hefur áhrif á afl hennar. Við framkvæmd þessarar reglugerðar telst breyting á eldsneytisbúnaði, þ.m.t. breyting á olíugjöf, breyting á forþjöppu, breyting á kælibúnaði og breyting á tölvustýringu vélar vera breyting á búnaði vélar. Skulu breytingar vera háðar samþykki Siglingastofnunar Íslands og framkvæmdar undir eftirliti hennar, eða annars aðila sem hún samþykkir, samkvæmt skriflegum fyrirmælum vélaframleiðandans, af honum, eða aðila sem hann samþykkir.


7. gr.

Á skilti á aðalvél skipa skal tilgreind gerð, framleiðslunúmer og smíðaár, skráð afl og snúningshraði vélarinnar.

Skiltið skal vera úr varanlegu efni og skal það tryggilega fest utanvert á framhlið vélar eða ofan á hana þannig að ekkert skyggi á það. Skal áletrunin vera vel læsileg og með greinilegu letri.


8. gr.

Óheimilt er að gera breytingar á aðalvélum og búnaði sem hefur áhrif á afl þeirra án samþykkis Siglingastofnunar Íslands.

Siglingastofnun Íslands, eða öðrum aðilum sem stofnunin virðurkennir, er heimilt að framkvæma aukaskoðanir á aðalvélum skipa til að sannreyna að vélar og búnaður þeirra sé í samræmi við skráð afl.


9. gr.

Eigandi skal greiða fyrir kostnað vegna skoðunar á vélum og búnaði þeirra, samþykkt teikninga og annarra gagna, og aðra skoðun, sem framkvæmd er af starfsmönnum Siglingastofnunar Íslands, eða annars aðila sem stofnunin viðurkennir.


10. gr.

Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða refsingum samkvæmt VII. kafla laga um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, 14. gr. laga um atvinuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða nr. 113/1984 og 21. – 25. gr. laga um skráningu skipa nr. 115/1985.


11. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 5. mgr. 3. gr. laga nr. 35/1993 um eftirlit með skipum með síðari breytingum, 13. gr. laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum með síðari breytingum og 4. gr. laga nr. 115/1985 um skráningu skipa með síðari breytingum, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um skráningu á afli aðalvéla nr. 143/1984.


Samgönguráðuneytinu, 16. júlí 2003.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica