Samgönguráðuneyti

364/2003

Reglugerð um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu. - Brottfallin

I. KAFLI
1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi nær til þeirra þátta póstþjónustu sem skilgreindir eru sem alþjónusta.

Þá gildir reglugerðin, einnig eftir því sem við á, um framkvæmd póstþjónustu.


2. gr.
Markmið.

Markmið reglugerðar um alþjónustu er að tryggja landsmönnum án mismununar, greiðan aðgang að póstþjónustu, einkum með því að kveða á um lágmarksfjölda afgreiðslustaða, setja skilyrði um söfnun og móttöku pósts, útburð og skilgreina gæðakröfur innan alþjónustu.


II. KAFLI
Alþjónusta.
3. gr.
Alþjónustukröfur.

Eftirfarandi kröfur eru gerðar til póstþjónustu sem fellur undir alþjónustu:

1. Þjónustan skal uppfylla grunnkröfur, eins og þær eru skilgreindar í lögum um póstþjónustu á hverjum tíma og aðrar þær kröfur sem yfirvöld gera til póstþjónustu með stoð í grunnkröfunum.
2. Öllum notendum, sem búa við sambærilegar aðstæður, standi til boða samskonar þjónusta.
3. Þjónustan skal vera veitt án mismununar.
4. Þjónustan má ekki stöðvast nema af ófyrirsjáanlegum ástæðum.
5. Þjónustan skal þróast í takt við tækni-, hagfræði- og félagslegt umhverfi og þarfir notenda.


4. gr.
Réttur til alþjónustu.

Rétt til alþjónustu eiga allir landsmenn eftir því sem nánar er kveðið á um í þessari reglugerð.


5. gr.
Umfang alþjónustu.

Alþjónusta nær til póstsendinga innanlands og til annarra landa.

Eftirfarandi þjónusta fellur undir alþjónustu:

Aðgangur að afgreiðslustað rekstrarleyfishafa.
Útburður einu sinni á dag alla virka daga nema kringumstæður og landfræðilegar aðstæður hindri slíkt, sbr. 10. gr.
Póstþjónusta vegna:
- bréfa og orðsendinga með utanáskrift
- markpósts og annarra sendinga með utanáskrift
- dagblaða, vikublaða, tímarita, bóka og verðlista með utanáskrift
- ábyrgðarsendinga
- tryggðra sendinga
- fjármunasendinga
- blindrasendinga allt að tveimur kílóum
- bögglasendinga allt að tuttugu kílóum.


6. gr.
Einkaréttur ríkisins.

Íslenska ríkið hefur einkarétt á póstþjónustu vegna póstsendinga bréfa allt að 100 g að þyngd svo framarlega sem burðargjaldið fyrir bréfið er minna en þrisvar sinnum lægsta burðargjald sem gildir fyrir venjuleg bréf innan lands. Hið sama gildir um dreifingu innanlands á bréfum frá útlöndum innan sömu takmarkana.

Póst- og fjarskiptastofnun veitir rekstrarleyfishafa leyfi til að annast einkarétt ríkisins.


7. gr.
Alþjónustuframboð.

Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja ákvæði um skyldu til að veita alþjónustu í leyfisbréfi rekstrarleyfishafa. Við leyfisveitingu er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að leggja kvöð á rekstrarleyfishafann um að alþjónusta skuli veitt alls staðar á landinu eða á tilteknum svæðum. Heimilt er að deila alþjónustukvöðum milli tveggja eða fleiri rekstrarleyfishafa. Kvöð um að veita alþjónustu verður þó aldrei lögð á fleiri en einn rekstrarleyfishafa á hverju svæði. Kvaðir vegna alþjónustu skulu vera tímabundnar, en gildistími slíkra kvaða skal aldrei vera lengri en gildistími viðkomandi rekstrarleyfis. Stofnuninni er heimilt að breyta áður útgefnu leyfisbréfi og leggja á leyfishafa breyttar kvaðir um alþjónustu.


8. gr.
Afgreiðslustaðir.

Póst- og fjarskiptastofnun skal setja reglur um staðsetningu og fyrirkomulag afgreiðslustaða fyrir póst, sbr. 9. gr. og 3. mgr. 15. gr. laga um póstþjónustu.


9. gr.
Umsóknir um fjárframlög vegna alþjónustu.

Rekstrarleyfishafi, sem gert hefur verið að veita alþjónustu, skal fyrir 1. september ár hvert sækja skriflega til Póst- og fjarskiptastofnunar um fjárframlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu á komandi ári.

Nú hefur Póst- og fjarskiptastofnun, innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 1. mgr., fengið beiðni um fjárframlög vegna alþjónustu og skal stofnunin þá kanna hvort þjónustan falli undir ramma alþjónustu og hvort hún verði tryggð með öðrum hagkvæmari hætti. Eigi síðar en 15. október skal Póst- og fjarskiptastofnun gera grein fyrir fjárþörf jöfnunarsjóðsins á næsta ári. Jöfnunargjald skal ákveðið með lögum í samræmi við fjárþörfina.

Um álagningu og innheimtu jöfnunargjalds fer samkvæmt ákvæðum VIII.-XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum, og stjórnvaldsfyrirmælum settum samkvæmt þeim eftir því sem við á.


III. KAFLI
Þjónustu- og gæðakröfur.
10. gr.
Útburður.

Rekstrarleyfishafi, sem fengið hefur leyfi til að starfrækja póstþjónustu sem fellur undir alþjónustu og á hafa verið lagðar kvaðir samkvæmt rekstrarleyfi um að veita alþjónustu á landinu eða á ákveðnu svæði, skal bera út póst alla virka daga til heimila og fyrirtækja á landinu öllu eða á viðkomandi svæði eftir því sem við á.

Telji rekstrarleyfishafi að kringumstæður eða landfræðilegar aðstæður valdi því að útburður pósts alla virka daga sé verulegum erfiðleikum bundinn á tilteknum stöðum er honum heimilt að senda Póst- og fjarskiptastofnun rökstudda umsókn um undanþágu frá ákvæðum 1. mgr. Við mat sitt á umsókninni skal Póst- og fjarskiptastofnun taka tillit til annars vegar mikilvægi póstþjónustu fyrir þá aðila sem í hlut eiga og hins vegar erfiðleika og kostnað við útburð, svo sem vegna fjarlægðar eða lélegs vegasambands.

Ekki er skylda til að bera út póst í sumarhús eða á svæðum sem teljast til hálendis.


11. gr.
Tæming póstkassa.

Móttöku- og söfnunarstaði fyrir póstsendingar sem falla undir alþjónustu skal tæma a.m.k. einu sinni hvern virkan dag. Rekstrarleyfishafar sem á hafa verið lagðar kvaðir um að veita alþjónustu, skulu gera Póst- og fjarskiptastofnun grein fyrir fyrirkomulagi tæminga á móttöku- og söfnunarstöðum fyrir póst.


12. gr.
Opnunartími afgreiðslustaða.

Opnunartími afgreiðslustaða skal taka mið af almennum opnunartíma samsvarandi þjónustu. Við mat á því hvað telst hæfilegur opnunartími má einnig taka mið af fjölda íbúa á því svæði sem afgreiðslustaðurinn þjónar og stærð svæðisins.

Rekstrarleyfishafi sem á hafa verið lagðar kvaðir um að veita alþjónustu, skal gera Póst- og fjarskiptastofnun grein fyrir opnunartíma afgreiðslustaða sé þess óskað.


13. gr.
Gæði póstþjónustu.

Að lágmarki skal 85 af hundraði innanlandspósts í hraðasta flokki borinn út daginn eftir að hann hefur verið lagður í póst (D+1), og 97 af hundraði pósts skal borinn út innan þriggja daga (D+3) frá póstlagningu. Krafan miðast við þriggja mánaða tímabil.

Að lágmarki skal 85 af hundraði pósts í hraðasta flokki milli landa, innan Evrópska efnahagssvæðisins borinn út innan þriggja daga (D+3) frá póstlagningu og 97 af hundraði pósts skal borinn út innan fimm daga (D+5) frá póstlagningu. Krafan miðast við sex mánaða tímabil.


14. gr.
Afhending póstsendinga.

Póstsendingu skal dreift til eða afhent þeim sem hún er stíluð á eða hefur umboð til móttöku hennar, í pósthólf viðkomandi eða þangað sem utanáskrift segir að öðru leyti til um, sbr. þó 3. mgr. 10. gr.

Póstsending telst í vörslu póstþjónustuaðila frá móttöku og þar til hún hefur verið afhent viðtakanda.

Sendingu má afhenda viðtakanda með eftirfarandi hætti:

a) Með því að hún er sótt á afgreiðslustað póstrekanda;
b) Með útburði til viðtakanda eftir því sem póstfang segir til um;
c) Með því að láta hana í pósthólf, sem viðtakandi tekur á leigu á afgreiðslustöðum.

Almennar bréfapóstsendingar teljast réttilega afhentar, þegar bréfberi hefur fengið þær í hendur viðtakanda sjálfum, eða einhverjum á heimili hans, starfsmanni í móttöku, ef viðtakandi er fyrirtæki, látið þær í gegnum bréfarifu á hurð viðtakanda eða í bréfakassa, ef viðtakandi er þar merktur.

Sendingar til manna sem sitja í fangelsi skal afhenda eftir því sem reglur um slíkt mæla fyrir um.

Sendingar til ólögráða má afhenda þeim sjálfum eða þeim sem að lögum hafa forsjá þeirra.


15. gr.
Dagstimplun.

Allar póstsendingar í alþjónustu skulu dagstimplaðar. Þó er heimilt að undanþyggja markpóst, dagblöð, vikublöð, tímarit, bóka og verðlista, þar sem ekki er gerlegt að dagstimpla, t.d. þar sem plastumbúðir eru utan um sendinguna. Enda sé ekki um að ræða póstsendingu sem felur í sér mikilvægar tilkynningar til móttakanda.


IV. KAFLI
Almennar reglur um póstþjónustu.
16. gr.
Staðsetning bréfakassa.

Hús í merkingu þessarar greinar tekur til íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis.

Skilgreiningar vegalaga á þjóðvegum gilda eftir því sem við á.

Við val á staðsetningu bréfakassa skal eftirfarandi lagt til grundvallar:


Þéttbýli.
Í þéttbýli skal bréfakassi vera staðsettur við eða í húsi.
Þéttbýli er þegar að lágmarki 50 íbúar búa á svæði, þar sem almennt er ekki meira en 50 metra fjarlægð á milli húsa.


Dreifbýli.
Í dreifbýli skal bréfakassi vera staðsettur við eða í húsi ef lengd safnvegar frá tengivegi eða stofnvegi er ekki lengri en 50 metrar.
Ef vegur er allt að 500 metrar skal bréfakassinn vera staðsettur við vegamót safnvega við tengiveg eða stofnveg. Að jafnaði skal bréfakassi ekki vera staðsettur fjær en 500 metra frá húsi.


Við eftirfarandi aðstæður er heimilt að víkja frá ofangreindu varðandi staðsetningu bréfakassa.

1. Ef tvö eða færri hús eru að meðaltali á hverja 2000 metra safnvegar eða tengivegar.
2. Ef ekkert vegasamband er við húsið.
3. Þegar viðkomandi hús er staðsett langt utan við almenna byggð.

Þrátt fyrir ofangreint skal að jafnaði fara heim að húsi, þegar afhenda skal skráðar sendingar.

Rekstrarleyfishafi skal leitast við að ná samkomulagi við notendur póstþjónustu um staðsetningu bréfakassa.

Rekstrarleyfishafi skal senda til Póst- og fjarskiptastofnunar skrá yfir þá viðtakendur póstsendinga, sem falla undir tilfelli 1-3. Þá skal og gera grein fyrir þeim úrræðum sem valin eru í hverju tilviki.

Viðtakanda póstsendinga er heimilt að semja um annan afhendingarmáta, s.s. afhendingu á afgreiðslustað rekstrarleyfishafa.

Ef ekki næst samkomulag um staðsetningu bréfakassa, skal viðtakandi pósts eiga kost á að koma að skriflegum athugasemdum við rekstrarleyfishafa varðandi staðsetninguna, sem tekur síðan rökstudda ákvörðun. Ef aðili sættir sig ekki við niðurstöðu rekstrarleyfishafa, er honum heimilt að bera ágreiningsefnið undir Póst- og fjarskiptastofnun, sbr. 7. gr. laga nr. 110/1999.

Nú á viðtakandi póstsendingar rétt á að bréfakassi sé staðsettur við hús eða í húsi og er honum þá einnig heimilt að koma fyrir bréfarifu. Um stærð og frágang bréfakassa og bréfarifa gilda ákvæði byggingareglugerðar nr. 441/1998, með síðari breytingum.


17. gr.
Geymslutími sendinga.

Sé ekki unnt að afhenda sendingu vegna rangrar eða ófullnægjandi utanáskriftar eða af öðrum ástæðum, t.d. vegna þess að viðtakandi neitar að taka við henni, er látinn eða fluttur burt án þess að vitað sé hvar hann er niðurkominn, skal ekki geyma sendinguna lengur en með þarf til þess að ganga úr skugga um að henni verði ekki komið til skila. Sending sem þannig er ástatt um skal að jafnaði ekki geymd lengur en einn mánuð að telja frá næsta degi eftir komu hennar til póstrekanda, áður en hún er endursend.

Sending sem á er ritað að skuli geymast þar til hennar verði vitjað (Poste restante) skal geymd fyrir viðtakanda í allt að tvo mánuði að telja frá næsta degi eftir komu til póstrekanda.

Sendandi getur ákveðið styttri geymslutíma fyrir sendinguna en að framan greinir og ber honum þá að rita um það athugasemd á sendinguna og sömuleiðis á fylgibréfið þegar um böggla er að ræða.

Sending sem ekki er hægt að afhenda viðtakanda innan geymslufrests, telst óskilasending.


18. gr.
Óskilasendingar.

Póstsendingu telst ekki hafa verið skilað:

a) Þegar viðtakandi skorast undan að taka við henni;
b) þegar viðtakandi er fluttur eða finnst ekki;
c) þegar sending hefur ekki verið sótt innan reglulegs geymslutíma þrátt fyrir að tilkynning hafi verið send út um komu hennar.

Á sendingar sem ekki verður komið til skila skal að jafnaði rita ástæðuna fyrir því. Í því skyni má nota sérstaka miða eða stimpla.


19. gr.
Meðferð óskilasendinga.

Óskilasending endursendist sendanda, ef nafn hans og póstfang er tilgreint á sendingunni.

Óskilasending, sem endursend hefur verið til þess að afhendast sendanda, skal afhent eftir sömu reglum og gilda um venjulega afhendingu til viðtakanda.

Hafi póstsending verið skilin eftir á tilgreindum viðtökustað en verið skilað aftur til póstrekanda með nýrri utanáskrift má endursenda sendinguna til sendanda. Beri sendingin ekki með sér hver sé sendandi og póstrekandi velur að senda póstsendinguna á nýja heimilisfangið er heimilt að innheimta hjá viðtakanda nýtt burðargjald.

Þegar starfsfólk á afgreiðslustað, sem óskilasending hefur verið endursend til, hefur gengið úr skugga um að sendingunni verði ekki komið til sendanda skal farið með hana í samræmi við ákvæði 20. gr.


20. gr.
Opnun óskilasendinga.

Póstrekanda er heimilt að opna óskilasendingar sem hvorki hefur verið hægt að afhenda viðtakanda né endursenda sendanda í þeim tilgangi að komast að því hver sendandi eða viðtakandi er.

Eftirfarandi verklag skal viðhaft við opnun óskilasendinga:

1. Póstrekandi skal tilnefna allt að þrjá starfsmenn sem heimild hafa til að opna óskilasendingar.
2. Tilkynna skal Póst- og fjarskiptastofnun hvaða starfsmenn það eru sem heimild hafa til þess.
3. Þeir póststarfsmenn sem tilnefndir hafa verið til að opna póst skulu undirrita trúnaðareið.
4. Aðeins þeir starfsmenn sem tilnefndir hafa verið mega vera viðstaddir opnun óskilasendinga auk fulltrúa frá Póst- og fjarskiptastofnun.
5. Halda skal skrá yfir hvenær og hvaða póstsendingar eru opnaðar og af hverjum.
6. Þau bréf sem eru opnuð skulu sérstaklega merkt og ástæða fyrir opnuninni skal koma fram utan á bréfinu.
7. Ekki skal skoða innihaldið frekar en nauðsynlegt er til að komast að því hver sendandi eða móttakandi er.

Póst- og fjarskiptastofnun skal kanna að lágmarki þrisvar á ári hvort ofangreindu verklagi hafi verið fylgt við opnun óskilasendinga og greina frá í ársskýrslu sinni.

Ef engar upplýsingar fást um hver sendandi eða móttakandi er, skulu sendingar sem hafa að geyma reiðufé eða aðra muni er meta má til fjár sendar til Póst- og fjarskiptastofnunar til varðveislu. Aðrar sendingar skulu eyðilagðar undir eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar.


21. gr.
Gjaldfrjálsar póstsendingar.

Póstsending sem ekki ber gjald samkvæmt alþjóðasamningum skal einnig vera gjaldfrjáls hér á landi.


22. gr.
Óheimilar póstsendingar.

Til viðbótar því sem tilgreint er í 4. mgr. 33. gr. laga um póstþjónustu er óheimilt að setja eftirfarandi sendingar í póst hér á landi og gildir þá einu hvort skráður viðtakandi er hér á landi eða erlendis, svo sem:

1. efni sem eld- eða sprengihætta stafar af,
2. eiturlyf og ofskynjunarefni, nema til læknisfræðilegra eða vísindalegra nota,
3. geislavirk efni, nema til þeirra landa sem ekki banna viðtöku þeirra,
4. klámfengnir og siðlausir hlutir,
5. hlutir sem í eðli sínu eða sökum óvandaðra umbúða, geta skaðað póststarfsmenn, óhreinkað eða skemmt aðrar sendingar eða tæki póstsins,
6. lifandi dýr,
7. fersk matvæli, frosin, reykt eða óelduð, sbr. kjöt, fiskur, egg eða annað matarkyns sem getur skemmst í flutningum.

Um annað en greinir hér að framan fer leyfilegt innihald sendinga sem fara eiga til viðtakenda utan Íslands eftir reglum ákvörðunarlands.

Póst- og fjarskiptastofnun skal með hliðsjón af ofangreindu gefa út lista sem birtur skal á heimasíðu stofnunarinnar með nánari upplýsingum um það hvaða sendingar er óheimilt að setja í póst.


23. gr.
Umbúðir póstsendinga.

Póstsendingar sem valdið geta skaða, smiti eða veikindum skal ganga frá, þannig að öryggi póststarfsmanna sem og flutningsstarfsmanna og viðtakenda sé tryggt.

Sendingarnar skal merkja með viðeigandi hætti skv. eftirfarandi:


1.Líffræn auðskemmd efni, smitandi efni.
Líffræn auðskemmd efni, sem bera smit eða rökstuddur grunur leikur á að geti smitað menn eða skepnur skal merkja "smitandi efni" (Infectious Substances).


2. Lífræn auðskemmd smitlaus efni.
Lífræn auðskemmd smitlaus efni skal merkja með miða "Perishable Biological Substance". Þau skal einnig merkja með "Diagnostic specimen" ef við á.


3. Geislavirk efni.
Ytri umbúðir sendinga, sem innihalda geislavirk efni, skal sendandi merkja með miða "Radioactive Materials".


Um frágang sendinganna og hvaða geislavirk efni heimilt er að senda með pósti skal fara eftir reglum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA).

Póst- og fjarskiptastofnun skal setja nánari reglur um sérstakan frágang og umbúnað sendinga sem valdið geta skaða, smiti eða veikindum. Við gerð reglnanna skal hafa hliðsjón af reglum Alþjóðapóstsambandsins (UPU), Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO), Alþjóðasamtaka flugfélaga (IATA) og Alþjóðasamtaka atvinnuflugmanna (IAEA).


V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
24. gr.
Skýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar.

Póst- og fjarskiptastofnun skal birta opinberlega á ári hverju skýrslu um kostnað við alþjónustu og framlög allra aðila til jöfnunarsjóðs.


25. gr.
Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt XVII. kafla laga nr. 19/2002 um póstþjónustu.


26. gr.
Póstþjónusta við önnur lönd.

Ákvæði reglugerðarinnar gilda einnig um póstþjónustu við önnur lönd að svo miklu leyti sem þau brjóta ekki í bága við milliríkjasamninga um póstþjónustu.


27. gr.
Gildisákvæði.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 6. og 35. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002, sbr. lög nr. 136/2002, um breytingu á þeim lögum, öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 505/1997 um grunnpóstþjónustu, með síðari breytingum.


Samgönguráðuneytinu, 12. maí 2003.

Sturla Böðvarsson.
Halldór S. Kristjánsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica