Samgönguráðuneyti

704/2002

Reglugerð um breytingu á reglugerð um almannaflug nr. 488/1997 með síðari breytingum. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

1. gr.

Við grein 1.0 bætast eftirtaldar orðskýringar í stafrófsröð:
Hámarksflugtaksmassi miðað við burðarþol (Maximum structural take-off mass): Mesti leyfilegi heildarmassi flugvélar við upphaf flugtaksbruns.
Tómaþungi (Empty weight): Grunnþyngd loftfars að viðbættum föstum val- og sérbúnaði en án lausahleðslu, þ.e. áhafnar, eldsneytis og arðhleðslu.


2. gr.

Síðari málsliður d-liðar gr. 4.4.1 fellur brott.


3. gr.

Á eftir gr. 4.19 koma fjórar nýjar greinar, svohljóðandi:

4.20 Ákvörðun tómaþunga.
Skráður umráðandi flugvélar skal ákvarða tómaþunga og þyngdarmiðju hverrar flugvélar með því að láta vigta hana áður en hún er fyrst tekin í notkun. Flugvélar með hámarksflugtaksmassa 2730 kg og meira skal eftir það vigta á 5 ára fresti. Flugvélar með hámarksflugtaksmassa undir 2730 kg skal vigta á 10 ára fresti. Gera skal grein fyrir samanlögðum áhrifum breytinga og viðgerða á tómaþunga og jafnvægi og skrásetja á tilskilinn hátt. Flugvélar með hámarksflugtaksmassa undir 2730 kg sem eingöngu eru notaðar í einkaflugi þarf ekki að endurvigta ef sýnt er fram á að haldin hafi verið skrá um breytingar og viðgerðir og áhrif þeirra á tómaþunga og jafnvægi. Vigta skal flugvélar ef ekki er vitað nákvæmlega um áhrif breytinganna á tómaþunga og jafnvægi.

4.21 Massi og jafnvægi.
4.21.1 Flugstjóri skal sjá til þess að í öllu flugi sé hleðsla, massi og þyngdarmiðja flugvélar jafnan í samræmi við þær takmarkanir sem tilgreindar eru í samþykktri flughandbók flugvélarinnar eða flugrekstrarhandbók ef hún er meira takmarkandi.
4.21.2 Flugstjóri skal fyrir hvert flug gera massa- og jafnvægisútreikning sem sýnir að hleðslu og dreifingu sé þannig háttað að ekki sé farið yfir massa og jafnvægismörk fyrir flugvélina.
4.21.3 Flugstjóri skal ákvarða massa eldsneytis á flugvél út frá raunverulegum eðlismassa eldsneytisins eða ef eðlismassi eldsneytisins er ekki þekktur, með aðferð sem tilgreind er í flughandbók flugvélarinnar.

4.22 Massagildi fyrir farþega og farangur.
4.22.1 Flugstjóri skal reikna út massa farþega, annaðhvort með því að nota raunverulega þyngd hvers einstaklings samkvæmt vigt eða staðalmassagildi farþega sem tilgreind eru í töflu í gr. 4.22.3. Sé flugvél með færri en 10 farþegasætum er heimilt að ákvarða massa farþega með því að láta hvern farþega, eða einhvern fyrir hans hönd, gefa upp þyngd sína eða með því að áætla hana. Skal þá handfarangur reiknaður 10 kg á hvern farþega. Ef þyngd farþega er fengin með vigtun eða áætluð skal skrá hana sérstaklega fyrir hvern farþega. Ef raunmassi er ákvarðaður með vigtun skal flugstjóri sjá til þess að persónulegir munir og handfarangur teljist þar með. Skal þá vigtun fara fram sem næst flugvélinni, strax áður en farið er um borð.
4.22.2 Flugstjóri skal reikna út massa farangurs með því að nota raunverulega þyngd farangurs samkvæmt vigtun. Sé ekki unnt að vigta farangur skal áætla þyngd hans eins nákvæmlega og hægt er.
4.22.3 Í staðalmassagildi fyrir farþega er innifalinn handfarangur (6 kg) og massi allra ungbarna undir tveggja ára aldri sem fullorðinn farþegi situr með í einu farþegasæti. Ungbörn sem sitja ein í farþegasætum teljast börn.
Staðalmassagildi fyrir farþega:
Farþegasæti
1-5
6-9
10-19
Karlar
104 kg
96 kg
92 kg
Konur
86 kg
78 kg
74 kg
Börn
35 kg
35 kg
35 kg

Ef enginn handfarangur er í farþegarými í flugi eða ef handfarangur er reiknaður sér er heimilt að draga 6 kg frá massagildum fyrir karla og fyrir konur hér að framan. Hlutir eins og yfirhafnir, regnhlífar, litlar handtöskur eða veski, lesefni eða litlar myndavélar teljast ekki handfarangur að því er þennan lið varðar.
Staðalmassagildi fyrir fallhlíf er 10 kg.

4.24 Frágangur farangurs.
Flugstjóri skal sjá svo um að allur farangur, sem farþegar flytja með sér sé á öruggum stað við flugtak og lendingu, svo sem í farangurs- og vöruhólfi, undir farþegasætum eða á annan hátt tryggilega frá honum gengið.


4. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.


5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 137. gr. sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um meðalþunga sem lagður er til grundvallar við hleðslu loftfara, nr. 52/1976 með síðari breytingum.


Samgönguráðuneytinu, 3. október 2002.

Sturla Böðvarsson.
Jóhann Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica