Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

588/2002

Reglugerð um þjónustustöðvar gúmmíbjörgunarbáta.

1. gr. Gildissvið, markmið og tilgangur.

Reglugerð þessi og viðaukar hennar eru kröfur sem Siglingastofnun Íslands gerir til þjónustustöðva gúmmíbjörgunarbáta.

Markmið reglugerðarinnar er að tryggja öryggi íslenskra sjófarenda. Þessu markmiði skal ná með því að gera tilteknar kröfur til þjónustustöðva gúmmíbjörgunarbáta, staðfesta nægjanlegan fjölda þjónustustöðva og hafa virkt eftirlit með þeim.

Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja að gúmmíbjörgunarbátar um borð í íslenskum skipum séu örugg björgunarför á neyðarstundu.

2. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. Gúmmíbjörgunarbátur er uppblásanlegur björgunarfleki, með eða án tjaldþaks, sem blæs sig upp og er að jafnaði geymdur óuppblásinn og tilbúinn til notkunar.
  2. Þjónustustöð gúmmíbjörgunarbáta er stöð sem skoðar, gerir við, og athugar ástand og virkni gúmmíbjörgunarbáta.

3. gr. Viðurkenningar.

Siglingastofnun Íslands viðurkennir þjónustustöðvar gúmmíbjörgunarbáta, veitir þeim starfsleyfi og hefur eftirlit með þeim. Einungis þeir sem hlotið hafa viðurkenningu Siglingastofnunar Íslands mega reka þjónustustöð gúmmíbjörgunarbáta.

Starfsleyfi Siglingastofnunar Íslands til þjónustustöðva gúmmíbjörgunarbáta eru í fyrsta sinn gefin út til eins árs og síðan til fimm ára í senn. Í starfsleyfi skal rita nöfn þeirra skoðunarmanna sem hafa viðurkenningu og þjálfun til að starfa við og þjónusta gúmmíbjörgunarbáta.

Siglingastofnun Íslands getur afturkallað starfsleyfi telji hún að þjónustustöð uppfylli ekki reglur þessar eða vegna annarra gildra ástæðna.

Siglingastofnun Íslands og framleiðendur gúmmíbjörgunarbáta skulu tryggja að þjónusta við þjónustustöðvar gúmmíbjörgunarbáta sé með þeim hætti að aðgengi notenda sé tryggt og ávallt sé fyllstu öryggissjónarmiða gætt.

4. gr. Skoðun gúmmíbjörgunarbáta.

Skoðun gúmmíbjörgunarbáta skal framkvæmd með hliðsjón af II. - IV. viðauka reglugerðar þessarar.

Fyrir sérhverri þjónustustöð skal vera umsjónarmaður eða verkstjóri.

Við pökkun gúmmíbjörgunarbáta skulu að lágmarki starfa tveir menn og skal að minnsta kosti annar þeirra hafa hlotið menntun og þjálfun samkvæmt reglugerð þessari.

5. gr. Húsnæði þjónustustöðva gúmmíbjörgunarbáta.

Húsnæði þjónustustöðva gúmmíbjörgunarbáta skal uppfylla ákvæði I. viðauka við þessa reglugerð svo og gildandi íslenskar reglur um húsnæði vinnustaða.

Húsnæði þjónustustöðva gúmmíbjörgunarbáta skal að jafnaði ekki notað til annarrar starfsemi.

Í sérstökum tilfellum er heimilt er að leyfa þjónustustöð gúmmíbjörgunarbáta að nota annað húsnæði til tímabundinna verkefna enda uppfylli það viðeigandi kröfur. Sækja skal skriflega um leyfi til notkunar slíks húsnæðis til Siglingastofnunar Íslands.

6. gr. Menntun og þjálfun starfsmanna.

Til að hljóta viðurkenningu sem skoðunarmaður gúmmíbjörgunarbáta skal viðkomandi hafa fengið lágmarksþjálfun sem hér segir:

  1. Hafa starfað við pökkun gúmmíbjörgunarbáta samfellt í tvo mánuði, þ.e.a.s. 320 klukkustundir.
  2. Hafa á þeim tíma pakkað án aðstoðar að minnsta kosti tíu viðurkenndum gúmmíbjörgunarbátum af mismunandi gerðum undir eftirliti viðurkennds skoðunarmanns.
  3. Að starfsþjálfun lokinni skal skoðunarmaður sækja námskeið hjá viðurkenndum framleiðanda gúmmíbjörgunarbáta.
  4. Skoðunarmaður skal sækja námskeið hjá Siglingastofnun Íslands um reglur sem varða gerð gúmmíbjörgunarbáta og íslenskar sérkröfur. Þátttakendur á námskeiðinu skulu greiða allan kostnað vegna námskeiðsins.
  5. Hafi skoðunarmaður sótt námskeið í þjónustu og viðgerðum hjá tveimur viðurkenndum framleiðendum gúmmíbjörgunarbáta ásamt því að hafa sótt námskeið

Siglingastofnunar Íslands um reglur er varða gúmmíbjörgunarbáta telst það vera jafngilt liðum 1. - 4.

Frameiðendur gúmmíbjörgunarbáta, sem heimild hafa til að selja framleiðslu sína hér á landi, skulu tryggja að starfsfólki þjónustustöðva sé veitt sú menntun og þjálfun sem reglugerð þessi gerir ráð fyrir.

7. gr. Handbækur, verkfæri og varahlutir.

Framleiðendum gúmmíbjörgunarbáta, sem heimild hafa til að selja framleiðslu sína hér á landi, ber að útvega þjónustustöð, sem hefur viðurkenningu Siglingastofnunar, þjónustuhandbækur, verkfæri og varahluti.

8. gr. Eftirlit Siglingastofnunar Íslands.

Eftirlitsmaður Siglingastofnunar Íslands skal skoða árlega hverja þjónustustöð gúmmíbjörgunarbáta og fylgjast með pökkun gúmmíbjörgunarbáta. Jafnframt skal hann ganga úr skugga um að stöðin uppfylli að öðru leyti kröfur þessarar reglugerðar.

9. gr. Skýrslugerð.

Þjónustustöðvar gúmmíbjörgunarbáta skulu fyrir sérhvern bát, sem stöðin þjónustar, fylla út þau eyðublöð sem Siglingastofnun Íslands gefur fyrirmæli um. Árlega skulu þjónustustöðvar senda upplýsingar til Siglingastofnunar um fjölda skoðaðra báta ásamt samantekt á ástandi þeirra og helstu athugasemdum sem koma fram við skoðun.

Þjónustustöðvar skulu tilkynna til Siglingastofnunar um gúmmíbjörgunarbáta sem ekki uppfylla reglur svo og um gúmmíbjörgunarbáta sem fara í aukaskoðun.

10. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 4. gr. laga nr. 35 frá 30. apríl 1993 um eftirlit með skipum og með hliðsjón af reglum um öryggisbúnað íslenskra skipa, nr. 189/1994, með síðari breytingum og ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) A 761 (18) og öðlast gildi þann 1. ágúst 2002.

Jafnframt falla úr gildi reglur um þjónustustöðvar gúmmíbjörgunarbáta, dags. 16. mars 1995.

Samgönguráðuneytinu, 18. júlí 2002.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.