Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Breytingareglugerð

492/2002

Reglugerð um breytingu á reglugerð um mannflutninga í loftförum nr. 53/1976 ásamt síðari breytingum.

1. gr.

A-liður 1. gr. breytist svo:
Flugrekandi (Operator): Einstaklingur, fyrirtæki eða stofnun sem stundar eða býðst til að stunda rekstur loftfars. Flugrekandi þarf tilskilin leyfi Flugmálastjórnar Íslands til þess að stunda atvinnuflug.

2. gr.

4. gr. hljóðar svo:
liður 4.1.: Tóbaksreykingar eru óheimilar um borð í loftförum í atvinnuflugi. Öll salerni og önnur afmörkuð svæði sem farþegar hafa aðgang að skulu greinilega merkt með textanum "REYKINGAR BANNAÐAR" og eða "NO SMOKING".
Liðir 4.1.1 og 4.1.2 falla brott.

liður 4.2.: Þó skal flugrekanda heimilt að leyfa reykingar í hluta farþegarýmis í atvinnuflugi á flugleiðum milli erlendra ríkja án viðkomu á Íslandi. Þess skal þó ávallt gætt að óþægindi skapist ekki fyrir þá sem ekki reykja. Reykingar má aðeins leyfa í hluta farþegarýmis, en ekki í stjórnklefa, salernum eða öðrum afmörkuðum hlutum loftfarsins.

4.2.1. Í loftförum í atvinnuflugi á flugleiðum milli erlendra ríkja án viðkomu á Íslandi skal þó óheimilt að reykja í hluta farþegarýmis í eftirfarandi tilvikum:
a) þegar loftfarið er á jörðu niðri,
b) í flugtaki og við lendingu,
c) við flug í ókyrru lofti þegar flugstjórinn ákveður svo,
d) í loftförum sem hafa mestan flugtaksþunga 5700 kg eða minni ef einhverjum um borð er gefið súrefni eða notar það,
e) í loftförum sem hafa mestan leyfilegan flugtaksþunga meiri en 5700 kg þegar súrefni er gefið farþegum í meira en 30% farþegasæta. Ef aðeins einstökum farþegum er gefið súrefni eru tóbaksreykingar bannaðar í sömu sætaröð, næstu sætaröð fyrir framan og næstu sætaröð aftan við þá farþega sem gefið er súrefni.
4.2.2. Á þeim flugleiðum sem heimilt er að leyfa reykingar í hluta farþegarýmis og þar sem stjórnklefi og farþegaklefi eru aðgreindir skal vera greinilegt ljósaskilti í farþegaklefa með textanum "REYKINGAR BANNAÐAR" og/eða "NO SMOKING". Kveikt skal á skiltinu í hvert skipti sem reykingar eru bannaðar. Flugstjóri skal sjá um að farþegar skilji merkingu textans.

3. gr.

8. gr. 1. liður breytist svo:

Áhöfn í farþegarými og flutningur farþega í flugmannssæti.

liður 8.1. Þegar loftfar hefur tvö flugmannssæti og einungis einn flugmaður er í áhöfn skal leyfilegt að nýta annað flugmannssætið fyrir flutning farþega þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

A) Farþeginn er ekki hreyfihamlaður eða andlega fatlaður.
B) Farþegi í flugmannssæti má ekki sitja með barn í fanginu.
C) Farþegi skal fá ítarlegar leiðbeiningar frá flugstjóra varðandi skilyrði fyrir setu sinni í flugmannssæti, sérstaklega varðandi stjórntæki vélarinnar.
D) Farþegi skal sitja með sætisbelti spennt allan flugtímann.

4. gr.

Við bætist ný grein, 9. gr. sem orðast svo:

Farþegalisti í atvinnuflutningum.

9.1. Um borð í íslensku loftfari skal vera farþegalisti. Farþegalisti skal jafnframt liggja frammi í brottfararflughöfn.
Eftirfarandi upplýsingar skulu skráðar í farþegalista:
a) nöfn allra einstaklinga um borð;
b) hvaða aldursflokki (fullorðinn, barn (2-12) eða ungabarn (0-2)) þeir tilheyra eða aldur eða fæðingarár;
c) upplýsingar um hvort viðkomandi þurfi á sérstakri umönnun eða aðstoð að halda í neyðartilviki, ef farþegi býður þær sjálfviljugur;
d) flugnúmer flugs, brottfararflughöfn og flugvöllur á áfangastað.
9.2. Farþegalisti skal varðveittur í 3 mánuði. Heimilt skal að varðveita farþegalista á rafrænu formi.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt IX. kafla, 19. gr. og 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998, gildir um íslensk og erlend loftför sem íslenskur flugrekandi notar og ræður yfir, hvar sem þau eru stödd, staðfestist hér til þess að öðlast gildi nú þegar og birtist til eftirbreytni öllum þeim er hlut eiga að máli.

Samgönguráðuneytinu, 26. júní 2002.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.