Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

599/2001

Reglugerð um vaktstöður um borð í íslenskum farþegaskipum og flutningaskipum.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um vaktir um borð í íslenskum farþegaskipum og flutningaskipum.

Farþegaskip er hvert það skip, skrásett sem farþegaskip, sem getur flutt fleiri en 12 farþega til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan.

Flutningaskip er hvert það skip, skrásett sem flutningaskip, er siglir með varning til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan.

2. gr. Vaktstaða.

Þeir sem standa vaktir skulu fylgja ákvæðum þessarar reglugerðar um vaktstöður.

Skipstjóri skal tryggja að fyrirkomulag vakta sé á þann veg að ávallt sé staðin örugg vakt um borð, hvort sem skipið er á siglingu, í höfn, á legu eða við akkeri. Undir yfirumsjón skipstjóra eru stýrimenn ábyrgir fyrir öruggri siglingu skipsins á sinni vakt og ber þeim sérstaklega að varast árekstur og strand.

Yfirvélstjóri er ábyrgur fyrir öruggri vakt í vélarrúmi og skal tryggja að vélstjóri sé tiltækur til að gegna vakt í ómönnuðu vélarrúmi og standa þar vaktir ef þörf krefur.

Þeir sem gegna starfi fjarskiptamanns eru á sinni vakt ábyrgir fyrir samfelldri hlustun á viðeigandi tíðnum.

Vaktir skulu þannig skipulagðar að þeir sem standa vakt séu ávallt vel hvíldir svo að ekki dragi úr árvekni þeirra. Sérstaklega skal þessa gætt við fyrstu vakt og í upphafi sjóferðar.

3. gr.

Um borð í íslenskum farþegaskipum og flutningaskipum, þar sem stærð skips, farsvið og fjöldi í áhöfn leiðir til þess að ekki er unnt að uppfylla að öllu leyti kröfur reglugerðar þessarar um vaktstöður, skal reglunum fylgt eftir því sem aðstæður leyfa. Utan hafnar eða öruggs akkerislægis skal gæta þess að ávallt sé staðin örugg vakt. Sérstaklega er vakin athygli á 2. hluta vaktreglnanna um siglingaáætlun, 3. hluta um vaktir á sjó, útvörð, skipun vakta, vaktaskipti og siglingavakt, einnig hluta 3-2 um grundvallaratriði vélstjórnarvaktar og hluta 3-3 um grundvallaratriði fjarskiptavaktar.

4. gr. Refsiákvæði.

Um brot á reglugerð þessari fer eftir ákvæðum 15. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001.

5. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 17. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Reglugerðin er sett með hliðsjón af ákvæðum alþjóðasamþykktar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW) frá 1978 með síðari breytingum. Annars vegar er byggt á VIII. kafla í A-hluta alþjóðasamþykktarinnar sem samþykkt var á ráðstefnu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar árið 1995, "Vaktreglur", sem er I. viðauki með reglugerð þessari og hins vegar á VIII. kafla í B-hluta alþjóðasamþykktarinnar "Leiðbeiningar um vaktreglur", sem er II. viðauki með reglugerð þessari.

Samgönguráðuneytinu, 5. júlí 2001.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.