Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

579/2001

Reglugerð um breytingu á reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands nr. 419/1999. - Brottfallin

579/2001

REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð um skírteini útgefin
af Flugmálastjórn Íslands nr. 419/1999.

1. gr.

Eftirfarandi bætist við orðskýringar í 1.1.:
Fis (microlight) er loftfar sem hefur ekki fleiri en tvö sæti og hefur ofrishraða í lendingarham (VSO) að hámarki 35 hnúta (65 km/klst) sýndan hraða leiðréttan (CAS) og hámarksflugtaksmassa sem er ekki hærri en
300 kg fyrir landfis (landplane) með einu sæti, eða
450 kg fyrir landfis með tveimur sætum, eða
330 kg fyrir láðs og lagar fis (amphibian) eða fis á flotum (floatplane) með einu sæti,
eða
495 kg fyrir láðs og lagarfis eða fis á flotum með tveimur sætum að því tilskyldu að hægt sé að nota fisið bæði sem fis á flotum og sem landfis þannig að það sé innan marka beggja flokka hvað varðar hámarksflugtaksmassa, eins og við á.

Hreyfillaust loftfar sem er léttara en 70 kg telst til fisa án hreyfils. Hreyfilknúið loftfar sem er léttara en 70 kg og flugtak er af fæti telst til fisa án hreyfils. Fallhlífar (parachutes) teljast ekki ekki til fisa.


2. gr.

Í gr. 1.2.5.2. bætist við nýr liður aftan við upptalningu í 2. málslið:
60 – – – fisflugmanns.
Í gr. 1.2.5.2.2. bætist við aftan við svifflugmanns: , fisflugmanns.
Í gr. 2.1.1.1 bætist við aftan við upptalningu í 2. málslið: – fis.


3. gr.
Skírteini fisflugmanns.

Ný grein bætist við I. hluta reglugerðarinnar:

2.14. Skírteini fisflugmanna.
Reglur þessar um skírteini fisflugmanna eiga við um stjórnanda hreyfilknúinna fisa.
2.14.1. Skilyrði fyrir útgáfu skírteinis.
2.14.1.1. Aldur.
Umsækjandi skal ekki vera yngri en 16 ára.
2.14.1.2. Þekking.
Umsækjandi skal hafa sannað þekkingu sína, með bóklegu prófi hjá Flugmálastjórn eða á annan hátt sem hún viðurkennir, á tilteknum sviðum að því marki sem réttindi handhafa skírteinis fisflugmanns segja til um. Sviðin skulu a.m.k. vera þessi:
Lög um loftferðir.
Reglur og reglugerðir sem varða handhafa skírteinis fisflugmanns. Flugreglur. Þær venjur og þeir starfshættir í flugumferðarþjónustu sem við eiga.
Almenn þekking á loftförum.
Undirstöðuatriði um starfrækslu fisa og mælitæki þeirra. Getumörk hreyfla.
Takmörk þau sem sett eru starfrækslu fisa. Upplýsingar sem skipta máli um starfrækslu úr flughandbók eða öðrum gögnum sem við eiga.
Afkastageta og áætlanagerð.
Áhrif hleðslu og dreifingar massa á flugeiginleika, vandamál sem varða massa og jafnvægi. Notkun og hagnýt beiting upplýsinga um afköst við flugtak, lendingu og við aðrar aðstæður. Gerð leiðarflugáætlana fyrir flug og meðan á flugi stendur samkvæmt reglum um sjónflug. Starfshættir og venjur í flugumferðarþjónustu, eftir því sem við á. Stilling flughæðarmæla. Flug á svæðum með mikilli flugumferð. Eldsneytiseyðsla og eldsneytisútreikningar.
Mannleg geta og takmörk.
Mannleg geta og takmörk sem varða handhafa skírteinis fisflugmanns.
Veðurfræði.
Beiting undirstöðuatriða flugveðurfræði. Notkun upplýsinga um veður og hvernig skal afla þeirra.
Leiðsaga.
Hagnýt atriði flugleiðsögu og staðarákvörðun eftir leiðarreikningi og áttavita.
Notkun flugkorta.
Venjur og starfshættir.
Notkun gagna er flug varða, svo sem AIP, NOTAM, táknmerki og skammstafanir.
Mismunandi flugtaksaðferðir og starfshættir þar að lútandi. Viðeigandi varúðar- og neyðarráðstafanir, þ.m.t. hvernig forðast skal hættuleg veðurskilyrði, ókyrrð í slóð annars loftfars og aðrar hættur við stjórn loftfars.
Flugfræði.
Grundvallaratriði flugfræði er varða fis.
Fjarskipti.
Starfshættir og orðaval við notkun talstöðva í fjarskiptum að því er varðar flug samkvæmt sjónflugsreglum. Viðbrögð ef talstöðvarsamband rofnar.
2.14.3. Reynsla.
2.14.3.1. Umsækjandi skal hafa lokið a.m.k. 12 klst. fartíma sem flugmaður í hreyfilknúnu fisi, þ.m.t. 3 klst. einflugstími þar sem eigi færri en 15 flugtök og lendingar skulu hafa verið framkvæmdar í einflugi. Heildarfjöldi flugferða skal vera minnst 40 síðastliðna 18 mánuði. Til að fljúga með farþega skal flugmaður hafa flogið a.m.k. 25 fartíma með skírteini fisflugmanns auk þess að hafa minnst 3 flugtök og lendingar síðustu 3 mánuði.
Þegar umsækjandi hefur áunnið sér fartíma sem handhafi skírteinis flugmanns á flugvél ákveður Flugmálastjórn hvort slík reynsla skuli talin fullnægjandi og, ef svo er, að hvaða marki megi slá af kröfum um fartíma sem mælt er fyrir um.
Meta má slíka reynslu til allt að 5 tíma af heildarfartímakröfum fyrir skírteini fisflugmanns og allt að 12 tíma af heildarfartímakröfum fyrir heimild til að fljúga með farþega.
2.14.3.2. Umsækjandi skal á tilteknum sviðum og undir viðeigandi umsjón hafa aflað sér reynslu við stjórn fisa með þriggja ása stjórn og þyngdartilfærslu eftir því sem við á. Sviðin skulu a.m.k. vera þessi:
Aðgerðir þær sem framkvæma þarf fyrir flug, þ.m.t. samsetning og skoðun fisa, tækni og aðferðir við framkvæmd þeirrar flugtaksaðferðar sem beitt er hverju sinni, þ.m.t. viðeigandi flughraðatakmarkanir, neyðarráðstafanir og táknmerki sem notuð eru, aðgerðir í umferðarhring flugvalla, varúðarráðstafanir til að forðast árekstra, stjórn fiss eftir sýnilegum kennileitum, flug á öllu flugsviðinu, að bera kennsl á einkenni og ná fisi út úr frumofrisi og fullu ofrisi, svo og gormdýfu, flugtak, aðflug og lending við eðlilegar aðstæður og í hliðarvindi, landflug þar sem aðeins er stuðst við sýnileg kennileiti og ákvörðun hnattstöðu eftir leiðarreikningi og áttavita, neyðarráðstafanir.
2.14.4. Færni.
Umsækjandi skal sanna hæfni sína, með prófi hjá prófdómurum Flugmálastjórnar eða á annan hátt sem Flugmálastjórn viðurkennir, til að fullnægja kröfum fyrir skírteini fisflugmanns og beita þeim aðgerðum og starfsháttum sem lýst er í gr. 2.14.1.2. að því marki sem krafist er af handhafa skírteinis fisflugmanns, og að:
stjórna fisi innan þeirra takmarka sem því eru sett,
ljúka öllum aðgerðum af lipurð og nákvæmni,
sýna góða dómgreind og flugmennsku,
beita þekkingu í flugi, og
hafa ætíð stjórn á fisinu á þann hátt að aldrei leiki vafi á að hlutaðeigandi aðgerð hafi heppnast vel.
2.14.5. Heilbrigði.
2.14.5.1 Umsækjandi skal vera handhafi 2. flokks heilbrigðisvottorðs sem í gildi er.
2.14.5.2 Heilbrigðisskor er heimilt að veita sérstaklega reynslumiklum fisflugmönnum með lágmarks heildarflugtíma yfir 50 tíma á síðastliðnum 3 árum, undanþágu frá heilbrigðiskröfum JAR-FCL 3 vegna heilbrigðisvottorðs fyrir fisflugmenn, þegar sérstökum ástæðum er til að dreifa og flugöryggi er ekki stefnt í hættu, enda hafi umsókn samkvæmt ákvæði þessu borist heilbrigðisskor fyrir 31. desember 2001.
Heimild þessi gildir ekki fyrir umsækjendur 2. flokks heilbrigðisvottorðs fyrir aðra flokka flugmannsskírteina. Þann 1. janúar 2002 fellur gr. 2.14.5.2. úr gildi.
2.14.6. Reglusemi.
Synja skal skírteinis þeim manni sem dæmdur hefur verið fyrir refsiverða hegðun er veitir ástæðu til að ætla að hann misfari með skírteinið. Hann skal ekki eiga óafplánaðan dóm um missi skírteinis til stjórnar loftfara, bifreiða eða annarra vélknúinna farartækja.
2.14.7. Ríkisfang.
Umsækjandi skal vera:
íslenskur ríkisborgari, eða
eiga lögheimili á Íslandi, eða
hafa stundað flugnám á Íslandi til þeirra réttinda sem sótt er um.
2.14.8. Réttindi handhafa skírteinisins og skilyrði sem fullnægja þarf til að neyta þeirra.
Að því tilskildu að fullnægt sé skilyrðum þeim, sem um getur í gr. 1.2.5, 1.2.6 og 2.1, hefur handhafi skírteinis fisflugmanns rétt til þess að annast flugstjórn samkvæmt áritun skírteinis. Áritanir í skírteini fisflugmanns eru tvennskonar: a. Áritun til flugs í þriggjaása fisi og b. Áritun til flugs í fisi með þyngdartilfærslu.
Sé sótt um fleiri en eina áritun í skírteini fisflugmanns þarf kröfum í gr. 2.14.3.1 um reynslu að vera fullnægt. Til að fljúga með farþega skal flugmaður hafa flogið a.m.k. 25 fartíma með skírteini fisflugmanns auk þess að hafa minnst 3 flugtök og lendingar síðustu 3 mánuði. Getið skal takmörkunar í skírteini uppfylli fisflugmaður ekki kröfur til að fljúga með farþega.
Til þess að halda réttindum sínum þarf fisflugmaður að hafa flogið a.m.k. 8 flugferðir, sem samtals eru a.m.k. 2 klst., á síðasta 24 mánaða tímabili eða standast hæfnipróf (PFT) eftir nánari ákvörðun Flugmálastjórnar.


Öll hæfnipróf skulu staðfest í flugdagbók.


4. gr.
Aðlögunartími.
Fram til 31. desember 2001 skal Flugmálastjórn Íslands heimilt að meta sérstaklega reynslumikla umsækjendur um skírteini fisflugmanna, að undangengnum bóklegum og verklegum stöðuprófum, til fullnægjandi árangurs samkvæmt gr. 2.14.1.2., 2.14.3., 2.14.4. og 2.14.8., enda sé heildarflugtími umsækjenda a.m.k. 50 tímar síðastliðin 3. ár, þar af 8 flugtök og lendingar og tvær flugstundir síðastliðna 12 mánuði.


5. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 145. gr., sbr. 31., 73. og 74. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 ásamt síðari breytingum og tekur gildi við birtingu.


Samgönguráðuneytinu, 10. júlí 2001.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.Þetta vefsvæði byggir á Eplica