Samgönguráðuneyti

734/2000

Reglugerð um starfsemi fjarskiptafyrirtækja með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins

1. gr.

Fyrirtæki með staðfestu í aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar en utan Evrópska efnahagssvæðisins getur starfrækt fjarskiptanet og veitt fjarskiptaþjónustu hér á landi að fullnægðum skilyrðum III. kafla fjarskiptalaga.

2. gr.

Ákvæði XVI. kafla laga um hlutafélög nr. 2/1995, um útibú erlendra hlutafélaga skulu eiga við um útibú og umboðsskrifstofu erlends félags sem rekur fjarskiptanet eða veitir fjarskiptaþjónustu hér á landi samkvæmt þessari reglugerð. Hið sama gildir um XVI. kafla laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 um útibú erlendra einkahlutafélaga.

3. gr.

Í umsókn erlends fyrirtækis um heimild til reksturs fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanets skulu koma fram upplýsingar um fyrirhugaða starfsemi hér á landi, sbr. 5. gr. laga nr. 107/1999 um fjarskipti. Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist frekari upplýsinga m.a. varðandi eignaraðild og fjárhagsstöðu ef þörf er á rekstrarleyfi fyrir starfsemina.

4. gr.

Í almennri heimild eða rekstrarleyfi erlends fyrirtækis skal tilgreina starfsskilyrði. Þau skulu vera hin sömu og fjarskiptafyrirtækja sem hlotið hafa starfsleyfi og höfuðstöðvar hafa hér á landi. Með starfsskilyrðum er átti við að starfsemin skal lúta íslenskum lögum og lögsögu, svo sem skattalögum, lögum um stjórn efnahagsmála, löggjöf um neytendamálefni, svo og samkeppnislögum.

Öll lögskipti sem leiða af rekstri fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu hér á landi lúta íslenskum lögum og lögsögu.

5. gr.

Vegna útibús og umboðsskrifstofu erlends fjarskiptafyrirtækis skal færa sérstakt bókhald vegna starfseminnar hér á landi.

6. gr.

Svipti Póst- og fjarskiptastofnun erlent fyrirtæki rekstrarheimild skal útibú þess eða umboðsskrifstofa hér á landi lögð niður.

7. gr.

Verði erlent fyrirtæki gjaldþrota, því slitið eða lagt niður með öðrum hætti skal, þegar í stað og í síðasta lagi innan fjórtán daga, tilkynna um það til Póst- og fjarskiptastofnunar og eftir atvikum hlutafélagaskrár eða firmaskrár.

8. gr.

Reglugerð þessi sem er sett samkvæmt heimild í 4. gr. fjarskiptalaga nr. 107/1999, öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 19. september 2000.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica