Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

320/1998

Reglugerð um leiðsögu skipa.

1. KAFLI Almenn ákvæði.

1.gr.

Samgönguráðherra fer með yfirstjórn leiðsögumála. Siglingastofnun Íslands annast framkvæmd laga og reglugerða um leiðsögu skipa.

2.gr.

Skipstjóri ákveður hvort hann notar leiðsögumann eða ekki, nema mælt sé fyrir á annan veg í lögum eða reglugerðum.

Um hafnsöguskyldu er mælt fyrir í reglugerð um viðkomandi höfn. Hafnarstjórnir ráða hafnsögumenn við hafnsöguskyldar hafnir.

3.gr.

Leiðsögumaður hefur heimild til þess að annast leiðsögu skipa innan þess svæðis sem löggildin hans nær til með þeim réttindum og skyldum sem leiðir af lögum og reglum þar að lútandi.

4.gr.

Leiðsögumanni er skylt að veita stjórnendum skips sem hann leiðbeinir svo og yfirvöldum hvers konar upplýsingar varðandi siglingu og öryggi skipsins og aðstæður á svæðinu.

Ef leiðsögumaður verður þess var í skyldustörfum sínum að lögum og reglum um skipið, búnað, áhöfn eða siglingu þess er ekki fylgt skal hann þegar í stað tilkynna það Siglingastofnun Íslands. Ef leiðsögumaður verður þess var í skyldustörfum sínum að öðrum lögum og reglum, þ. á. m. tolla- og heilbrigðislöggjöf, er ekki fylgt skal hann þegar í stað tilkynna það viðkomandi stjórnvaldi.

II. KAFLI Löggilding leiðsögumanna og hafnsögumanna.

5.gr.

Siglingastofnun Íslands löggildir leiðsögumenn og hafnsögumenn og gefur í því skyni út skírteini.

6.gr.

Löggildingin gildir fyrir ákveðið svæði, eitt eða fleiri, sem tilgreint er í skírteininu.

Leiðsögumanni, sem fengið hefur löggildingu til þess að annast leiðsögu skipa innan ákveðins svæðis, er heimilt að annast leiðsögu skipa innan þeirra hafnasvæða, sem falla undir það svæði, ef ekki er kveðið á um hafnsöguskyldu í reglugerð viðkomandi hafna. Siglingastofnun Íslands getur þó mælt fyrir um annað í skírteini.

Löggildingin gildir til allt að fimm ára í senn og skal gildistími hennar tilgreindur í skírteininu.

Leiðsögumenn og hafnsögumenn skulu í leiðsögustörfum sínum sýna skírteini sitt, sé þess krafist af skipstjóra eða löggæslumanni.

7.gr.

Umsókn um löggildingu skal send til Siglingastofnunar Íslands. Í umsókninni skal greint frá nafni, kennitölu og lögheimili umsækjanda og hvaða svæði óskað er eftir að löggilding nái til.

Með umsókninni skulu fylgja eftirfarandi gögn:

  1. Tvær nýlegar passamyndir af umsækjanda.
  2. Læknisvottorð, sem sýnir að umsækjandi sé fær um að gegna starfi sem leiðsögumaður. Skal þar gera sömu kröfur og gerðar eru til skipstjórnarmanna skv. 12. gr. laga nr. 112/1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum og reglugerðum sem settar eru þar að lútandi.
  3. Afrit gilds atvinnuskírteinis, sem sýnir að umsækjandi hafi lokið 2. stigs skipstjórnarnámi eða samsvarandi námi að mati Siglingastofnunar Íslands.
  4. Afrit prófskírteinis eða stvinnuskírteinis, sem sýnir að umsækjandi hafi lokið námskeiði til að vera leiðsögumaður með fullnægjandi árangri.
  5. Yfirlýsing tveggja staðkunnugra og hæfra manna um að mælt sé með umsókninni, að umsækjandi hafi reynslu af silglingu sem skipstjóri eða stýrimaður á því svæði sem löggilding á að ná til og að umsækjandi sé nákunnugur siglingaleiðum og öllum aðstæðum á svæðinu. Ef sótt er um löggildingu sem hafnsögumaður skal yfirlýsing þessi gefin út af stjórn þeirrar hafnar, sem löggildingin á að ná til.

8.gr.

Hver sá sem vill fá endurútgefið skírteini skal uppfylla þær kröfur sem eru tilgreindar í 7.gr.

Siglingastofnun Íslands er heimilt að setja það skilyrði fyrir endurútgáfu skírteinis, að umsækjandi ljúki 8 kennslustunda endurmenntunarnámskeiði í leiðsögu skipa frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík.

9.gr.

Siglingastofnun Íslands skal halda skrá um löggilta leiðsögumenn og hafnsögumenn.

10.gr.

Um gjaldtöku vegna útgáfu skírteina fer eftir ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs.

III. KAFLI. Námskeið fyrir leiðsögumenn.

11.gr.

Stýrimannaskólinn í Reykjavík heldur 60 kennslustunda námsekið fyrir leiðsögumenn skv. 4. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 34/1993 um leiðsögu skipa og leggur til kennara, kennslubúnað og kennsluaðstöðu.

Stýrimannaskólinn í Reykjavík semur námsskrá í samráði við Siglingastofnun Íslands, þar sem fram koma reglur um nánari tilhögun kennslunnar. Námsskráin er háð samþykki Siglingastofnunar Íslands.

Siglingastofnun Íslands er heimilt að viðurkenna sambærilegt námskeið frá öðrum skólum.

12.gr.

Umsjón prófa er í höndum Stýrimannaskólans í Reykjavík en prófdómari skal tilnefndur af Siglingastofnun Íslands.

Til þess að standast skriflegt og/eða munnlegt próf, skal nemandi hljóta lágmarkseinkunnina 5,0 en hæsta einkunn er 10. Meðaleinkunn skal þó eigi vera lægri en 6,0.

Standist nemandi námskröfur skal hann fá útgefið prófskírteini, þar sem fram kemur námsárangur hans.

13.gr.

Stýrimannaskólinn í Reykjavík heldur 8 kennslustunda endurmenntunarnámskeið fyrir þá leiðsögumenn og hafnsögumenn sem óska eftir endurnýjun skírteinis og hafa þegar lokið námskeiði skv. 11. gr. til að vera leiðsögumaður. Stýrimannaskólinn í Reykjavík skipuleggur námskeiðið í samráði við Siglingastofnun Íslands.

Siglingastofnun Íslands er heimilt að viðurkenna sambærilegt endurmenntunarnámskeið frá öðrum skólum.

IV. KAFLI Viðurlög og gildistaka.

14.gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða missi leiðsögumannsréttinda og/eða skipstjórnarréttinda og sektum skv. 9. gr. laga um leiðsögu skipa nr. 34/1993, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum. Með mál út af brotum gegn reglugerð þessari skal fara að hætti opinberra mála.

15.gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum um leiðsögu skipa nr. 34 frá 27. apríl 1993 og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um leiðsögu skipa nr. 215 frá 28. júlí 1972.

Samgönguráðuneytinu, 27. maí 1998.

Halldór Blöndal

Helgi Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.