Samgönguráðuneyti

232/1996

Reglugerð um hafnamál. - Brottfallin

 

REGLUGERÐ

um hafnamál.

 

I. KAFLI

Yfirstjórn hafnamála.

1. gr.

Samgönguráðherra fer með yfirstjórn hafnamála og framkvæmd þeirra á þann hátt sem kveðið er á um í hafnalögum nr. 23/1994.

 

 

II. KAFLI

Frumrannsóknir.

2. gr.

Siglingastofnun Íslands skal hafa umsjón með frumrannsóknum, sem kostaðar eru að fullu af ríkissjóði. Með frumrannsóknum er m.a. átt við gerð grunnkorta af hafnarsvæðum, dýptarmælingar, jarðvegsathuganir, straumfræðirannsóknir, undirstöðurannsóknir á sjólagi og strandbreytingum, líkantilraunir og hagkvæmniathuganir. Þegar rannsóknir eru komnar á það stig að unnt er að taka ákvörðun um staðsetningu mannvirkis, gerð og byggingarefni telst frumrannsóknum lokið. Rannsóknir á útboðsstigi teljast ekki til frumrannsókna.

 

3. gr.

Beiðni um frumrannsóknir skal koma frá viðkomandi hafnarstjórn og við framkvæmd rannsókna skal hafa náið samstarf og samráð við hana. Áður en vinna við frumrannsóknir hefst, skal liggja fyrir verklýsing og kostnaðaráætlun, svo og nauðsynlegt fjármagn. Samgönguráðuneytið eða Siglingastofnun Íslands geta einnig haft frumkvæði að frum-rannsóknum, sé það talinn nauðsynlegur þáttur í gerð langtímaáætlana um hafnargerðir.

Siglingastofnun Íslands annast frumrannsóknir ýmist sjálf með eigin mannafla eða kaupir þjónustu af ráðgjafarfyrirtækjum.

 

III. KAFLI

Mat á hafnaþörfum og hafnaáætlun.

4. gr.

Siglingastofnun Íslands skal að staðaldri vinna áætlanir um hafnarframkvæmdir á Íslandi. Hafnaáætlun til fjögurra ára skal leggja fyrir Alþingi á tveggja ára fresti. Við gerð hafnaáætlunar skal leggja til grundvallar mat á hafnaþörfum, fjárhagslega stöðu hafnarsjóða, tæknilegar rannsóknir á hafnarstæðum og skipulag.

 

5. gr.

Siglingastofnun Íslands skal vinna mat á hafnaþörfum, sem hefur það að markmiði, að hægt verði að meta óskir um framkvæmdir í höfnum landsins með sambærilegum mælikvarða og forgangsraða verkefnum.

Við mat á þörf fyrir framkvæmdir skal meta umfang og starfsemi hafnar og mikilvægi hennar fyrir viðkomandi landshluta og sveitarfélög, sem að henni standa. Meta skal ástand og notagildi mannvirkja og bera saman við staðalkröfur, sem settar eru fyrir mismunandi stærðarflokka hafna.

 

6. gr.

Um allar meiri háttar framkvæmdir skulu hafnarstjórnir koma á framfæri óskum sínum við Siglingastofnun Íslands a.m.k. tveimur árum áður en áætlað er að framkvæmdir hefjist. Skal þessum óskum fylgja rökstuðningur fyrir hverri einstakri framkvæmd og upplýsingar um fjármögnunarmöguleika viðkomandi hafnarsjóðs. Þá skulu liggja fyrir skýrslur um notkun hafnarinnar, umferð, afla og vörumagn, svo og nýtingu viðlegumannvirkja.

Sé um minni háttar framkvæmdir að ræða, að dómi Siglingastofnunar Íslands, má víkja frá ofangreindum ákvæðum um tímafrest.

 

7. gr.

Á grundvelli óska hafnarstjórna, mats á hafnaþörfum, fjárhagslegri stöðu hafnarsjóða og tæknilegra forsendna skal Siglingastofnun Íslands gera tillögu að hafnaáætlun. Þeir þættir tillögunnar, er lúta að einstökum höfnum, skulu sendir viðkomandi hafnarstjórn til athugunar og umsagnar. Hafnasamband sveitarfélaga skal fá tillögurnar í heild til umsagnar. Skulu þessir aðilar fá fjórar vikur til að skila umsögn sinni og athugasemdum til Siglingastofnunar Íslands.

Breytingar á gildandi hafnaáætlun, sem fela í sér að ný verkefni séu tekin inn á áætlun, eru háðar samþykki Alþingis, en Siglingastofnun Íslands getur heimilað færslu framlaga milli verkefna í einstökum höfnum.

Kostnaður við mat á hafnaþörfum og gerð hafnaáætlunar skal greiddur af ríkissjóði á sama hátt og frumrannsóknir.

 

IV. KAFLI

Greiðsluþátttaka ríkissjóðs í hafnarframkvæmdum.

8. gr.

Við ákvörðun um að ríkisframlag samkvæmt 26. gr. hafnalaga verði lægra en þar greinir, þ.e. til hafna sem metnar eru fjárhagslega færar um að standa undir hærri kostnaðarþátttöku sbr. 27. gr. laganna skal eftirfarandi haft til hliðsjónar:

Miða skal við að viðkomandi hafnarsjóður fullnýti gjaldskrárstofna sína og rekstrar-gjöld hans og lánabyrði séu innan eðlilegra marka. Þá skal tekið tillit til mats á hafnaþörfum og umfangs nýframkvæmda skv. hafnaáætlun.

 

V. KAFLI

Framkvæmdir í höfnum og greiðsla kostnaðar við hafnargerðir.

9. gr.

Þegar hafnaáætlun hefur verið samþykkt samkvæmt 29. gr. hafnalaga er viðkomandi hafnarstjórn heimilt að láta fullhanna þau mannvirki, sem þar eru metin styrkhæf. Hönnunarkostnaður færist á byggingarreikning viðkomandi mannvirkis. Áætlanir og uppdrættir skulu send Siglingastofnun Íslands til samþykktar og skal stofnunin afgreiða erindin eins fljótt og mögulegt er. Stofnunin skal m.a. hafa eftirlit með að framkvæmdir séu innan marka hafnaáætlunar svo og að lágmarkskröfur um gæði, varanleika og öryggi séu uppfylltar. Tillögur um fjárframlög úr ríkissjóði skulu síðan byggðar á þessum áætlunum.

 

10. gr.

Áður en ráðist er í framkvæmdir, sem njóta eiga styrks samkvæmt hafnalögum, skal eigandi hafnar leggja fram fjármögnunar- og greiðsluáætlun. Þar komi m.a. fram greiðsluþátttaka ríkissjóðs, hafnarsjóðs og annarra ef við á. Við gerð greiðsluáætlunar skal leitast við að greiðslur hvors aðila um sig verði í samræmi við fyrirfram ákveðið þátttökuhlutfall. Sá hluti áætlunarinnar, sem fjallar um greiðslu á hlut ríkissjóðs skal unninn í samráði við Siglingastofnun Íslands og heildaráætlunin að lokum send stofnuninni til staðfestingar.

Ef framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir að tekinn verði fyrir stærri áfangi en þegar samþykkt fjárframlög ríkissjóðs leyfa, skal liggja fyrir samþykki samgönguráðuneytisins þar að lútandi. Sé í slíkum tilvikum ætlunin að fjármagnskostnaður af lánum, sem tekin verða út á væntanlegan hluta ríkissjóðs, verði metinn styrkhæfur, skal jafnframt liggja fyrir heimild fjárlaganefndar Alþingis. Með fjármagnskostnaði er átt við lántökukostnað, vexti, hækkun verðtryggðra lána og gengistap á erlendum lánum. Greiðsluþátttaka ríkissjóðs í fjármagnskostnaði þessum nemur sama hundraðshluta og í framkvæmdinni sjálfri.

 

11. gr.

Hafnarframkvæmdir eru á ábyrgð eiganda hafnar. Hafnarframkvæmdir, er njóta ríkisstyrks, skulu unnar undir tækni- og fjárhagslegu eftirliti Siglingastofnunar Íslands. Fylgja skal lögum og reglum ríkisins um opinber innkaup og skipan opinberra framkvæmda. Hafnarstjórn annast reikningshald og greiðslur vegna framkvæmda og uppgjör verka á því formi sem Siglingastofnun Íslands og Hafnasamband sveitarfélaga koma sér saman um.

Skipulag, hönnun, útboð, samningar og efniskaup skulu háð samþykki Siglingastofnunar Íslands, sbr. 1. mgr. 22. gr. hafnalaga og skulu gögn þar að lútandi send stofnuninni til staðfestingar áður en til skuldbindinga kemur. Meginreglan í samningum við verktaka skal vera verksamningur gerður í framhaldi af útboði. Hagkvæmasta tilboði með tilliti til verðs og gæða skal að jafnaði tekið. Við mat á tilboðum skal þó jafnframt tekið tillit til reynslu verktakans, hæfni hans og möguleika til að skila góðu verki á réttum tíma. Sé hagstæðasta tilboð ekki jafnframt það lægsta ber hafnarstjórn að senda bjóðendum, sem áttu lægri tilboð en það sem var tekið, greinargerð með rökstuðningi um valið.

 

12. gr.

Hafnarstjórn og Siglingastofnun Íslands geta samið um að stofnunin taki að sér stjórn ákveðinna framkvæmda fyrir hafnarstjórn sbr. 22. gr. hafnalaga.

Kostnaður við verkið skal færður til skuldar hjá viðkomandi hafnarsjóði, en Siglingastofnun Íslands veitt umboð til að gera þær fjárhagslegu ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru vegna verksins.

13. gr.

Á meðan á verki stendur skal fylgjast reglulega með áföllnum kostnaði. Verði á fram-kvæmdatímanum ljóst, að kostnaður fari verulega fram úr áætlun, skal framkvæmda- og/eða eftirlitsaðili þegar tilkynna það hafnarstjórn, er ber að gera ráðstafanir til frekari fjáröflunar.

Verði sökum fjárskorts að hætta verki fyrr en er lokið, skal miða frágang við, að framkvæmdin nýtist sem best og mannvirkið liggi ekki undir skemmdum þar til hægt verður að halda framkvæmdum áfram.

 

14. gr.

Fyrir hönd ríkissjóðs hefur Siglingastofnun Íslands á hendi tækni- og fjárhagslega yfirumsjón með hafnarframkvæmdum er njóta ríkisstyrks og fylgist með að framkvæmdir séu í samræmi við samþykktar áætlanir. Skilyrði fyrir greiðslu úr ríkissjóði er að framkvæmdir séu í samræmi við gildandi hafnaáætlun.

Daglegt eftirlit með framkvæmdum skal annaðhvort vera í höndum Siglingastofnunar Íslands eða eftirlitsmanna sem stofnunin hefur samþykkt. Skila skal skýrslum og verkfundargerðum til Siglingastofnunar Íslands mánaðarlega eða oftar ef þurfa þykir.

Í október ár hvert skal Siglingastofnun Íslands ganga frá bráðabirgðauppgjöri yfir framkvæmdir yfirstandandi árs til nota við gerð fjárlaga næsta árs.

Í apríl ár hvert skal stofnunin hafa lokið uppgjöri framkvæmda á næstliðnu ári, þar sem m.a. komi fram staða fjárveitinga og heimahluta. Uppgjör þetta skal síðan sent ráðherra sem efni í skýrslu hans um framkvæmdir í hafnamálum. Kostnaður við tækni- og fjárhagslegt eftirlit og yfirumsjón skal færður á byggingarreikning viðkomandi mannvirkis.

 

VI. KAFLI

Afmörkun styrkhæfra mannvirkja og viðhald.

15. gr.

Hafnarstjórnir og Siglingastofnun Íslands skulu koma sér saman um mörk einstakra hafnarmannvirkja, marka þau á uppdrátt og senda til samgönguráðuneytis til staðfestingar. Náist ekki samkomulag sker ráðherra úr. Á uppdráttinn skal m.a. merkja þær umferðaræðar og uppfyllingar innan marka hafnarsvæðis, sem geta notið framlags úr ríkissjóði, siglingaleiðir og mörk hafnarsvæðis.

 

16. gr.

Að jafnaði skal miða við að mörk bryggju eða viðlegumannvirkis annars vegar og upplands hafnar hins vegar sé í allt að 20 metra fjarlægð frá bryggjukanti. Uppfyllingar sem teljast nauðsynlegur hluti viðlegumannvirkja geta notið framlags úr ríkissjóði. Breidd slíkra uppfyllinga takmarkast af því svæði sem þarf til að koma fyrir burðarvirkjum viðlegu-mannvirkisins eða 20 metra reglunni. Framkvæmdir við viðlegumannvirki geta notið framlags úr ríkissjóði en ekki framkvæmdir við uppland eða athafnasvæði á landi.

Umferðaræðar innan marka hafnarmannvirkja geta notið framlags úr ríkissjóði. Hér er átt við akbrautir, sem tengja saman viðlegumannvirki innan hafnar, eða akbrautir, sem tengja viðlegumannvirki við hafnarvog. Ef vinna á hafnarsvæði krefst þess, þarf að vera hægt að loka styrkhæfum akbrautum fyrir utanaðkomandi umferð, án þess að það hafi áhrif á almenna umferð í sveitarfélaginu. Akbrautir á hafnarsvæði, sem einnig eru húsagötur eða njóta ríkisstyrks samkvæmt vegalögum geta ekki notið styrks samkvæmt hafnalögum. Sama gildir um akbrautir, sem tengja saman hafnarsvæði og almennt umferðarkerfi sveitarfélags.

Dreifikerfi vatns og rafmagns um viðlegumannvirki vegna þjónustu við skip ásamt búnaði til að lýsa upp sömu mannvirki geta notið framlags úr ríkissjóði. Sama gildir um búnað til að lýsa upp styrkhæfar akbrautir á hafnarsvæðum, raflagnir að siglingarmerkjum og tengigjöld fyrir framangreindan búnað. Tengigjöld og búnaður á landsvæði hafnar, sem notaður er til sölu á rafmagni til annarra aðila en skipa er ekki styrkhæfur.

Stofnkostnaður við siglingamerki og leiðsögubúnað til að sigla inn á hafnir getur notið framlags úr ríkissjóði. Til slíks búnaðar teljast m.a. vitar og önnur föst merki á landi, fljótandi leiðarmerki og tæki sem geta gefið upplýsingar um veður og sjólag í og við hafnir.

 

17. gr.

Til viðhalds hafnarmannvirkja teljast almennar viðgerðir og venjulegt viðhald allra slitflata og búnaðar hafnarmannvirkja, er láta á sjá vegna notkunar eða skorts á fyrirbyggjandi viðhaldi. Hér er t.d. átt við endurnýjun þybba, þekja, slitlaga og lagna og endurnýjun einstakra hluta í upptökumannvirkjum. Kostnaður við slíkt viðhald er ekki styrkhæfur.

Komi upp ágreiningur milli Siglingastofnunar Íslands og hafnarstjórnar um hvort í einstökum tilvikum sé um að ræða eðlilegt viðhald eða styrkhæfa endurbyggingu skal málinu skotið til ráðherra til úrskurðar.

 

VII. KAFLI

Slysavarnir í höfnum.

18. gr.

Með slysavörnum er hér átt við aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir slys á mönnum, t.d. takmörkun umferðar um hafnarsvæði, og öryggisbúnað, sem ætlaður er til að koma í veg fyrir slys og nota má til bjargar þeim sem fyrir óhöppum verða. Til öryggisbúnaðar teljast t.d. lausir og fastir stigar, bjarghringir, krókstjakar, björgunarnet, ljós á hafnarbökkum, girðingar og hlið, símar o.fl.

 

19. gr.

Við hönnun og endurbætur hafnarmannvirkja skal gert ráð fyrir uppsetningu öryggis-búnaðar og mannvirki þannig hönnuð að þeim sem um hafnir fara sé sem minnst slysahætta búin.

Siglingastofnun Íslands ákveður hvort nægjanlegt tillit sé tekið til ofangreindra atriða við hönnun hafnarmannvirkja, sbr. 22. gr. hafnalaga og hvað teljist fullnægjandi öryggisbúnaður á hverjum stað.

Reglur um slysavarnir samkvæmt reglugerð þessari skulu settar í samráði við Slysavarnafélag Íslands og Vinnueftirlit ríkisins.

 

20. gr.

Stofnkostnaður við slysavarnir í höfnum er styrkhæfur, sbr. 5. tl. 1. mgr. 24. gr. og 3. tl. 1. mgr. 26. gr. hafnalaga.

Siglingastofnun Íslands ákveður hvað teljast styrkhæfar slysavarnir á hverjum stað.

 

21. gr.

Hafnarstjórnir skulu sjá til þess að öryggisbúnaði í höfnum sé ætíð vel við haldið og hann nothæfur.

Eftir að öryggisbúnaði hefur verið komið upp hefur Vinnueftirlit ríkisins á hendi eftirlit með honum.

22. gr.

Hafnarstjórnum er heimilt í öryggisskyni að loka hafnarsvæðum fyrir allri óviðkomandi umferð.

Hafnarstjórnir skulu, eftir því sem við á, leita eftir samstarfi við viðkomandi lögregluyfirvöld um eftirlit með umferð á hafnarsvæðum.

 

23. gr.

Siglingastofnun Íslands skal aðstoða hafnarstjórnir við að gera áætlanir um slysavarnir í viðkomandi höfnum og stofnkostnað við þær.

 

VIII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

24. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum um vitamál nr. 56/1981 og hafnalögum nr. 23/1994 og lögum um Siglingastofnun Íslands nr. 6/1996 öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 494/1986 með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Fram til 1. október 1996 fer Hafnamálastofnun ríkisins með þau verkefni sem Siglingastofnun Íslands eru fengin með reglugerð þessari, sbr. 8. gr. laga um Siglingastofnun Íslands nr. 6/1996.

 

Samgönguráðuneytinu, 16. apríl 1996.

 

Halldór Blöndal.

Halldór S. Kristjánsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica