Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

52/1976

Reglugerð um meðalþunga, sem lagður er til grundvallar við hleðslu loftfara

1. gr.

Orðaskýringar.

1.1. Þegar eftirfarandi orð og orðasambönd eru notuð í þessari reglugerð, hafa þau merkingu þá sem hér segir:

a) Flugrekandi: Einstaklingur eða félag sem fengið hefur leyfi samgönguráðuneytis eða flugmálastjórnar eftir því sem við á, til þess að stunda flugrekstur í atvinnuskyni.

b) Flugstjóri: Flugmaður, sem ber ábyrgð á ferðum og öryggi loftfars meðan á flugtíma stendur.

c) Flugverji: Starfsmaður flugrekanda sem gegnir starfi um borð í loftfari meðan á flugtíma stendur enda telst starf hans nauðsynlegt fyrir örugga starfrækslu loftfarsins eða fyrir öryggi farþeganna.

d) Óreglubundið flug: Með því er átt við flutning á farþegum eða farmi, sem ekki er áætlunarflug og framkvæmt er með loftförum sem hafa mestan leyfilegan flugtaksþunga meiri en 5700 kg.

e) Þjónustuliði: Áhafnarliði, sem er starfsmaður flugrekanda og falið er starf um borð i loftfari meðan á flugtíma stendur sem nauðsynlegt er öryggi farþega, annað en starf flugliða.

2. gr.

Almennt.

2.1. Í hvers konar flugstarfsemi má leggja til grundvallar þann meðalþunga, sem ákveðinn er með reglum þessum, við útreikninga á flugtaksþunga og á því hvernig farmi loftfars skal komið fyrir.

3. gr.

Meðalþungi fólks.

3.1. Við útreikninga á flugtaksþunga og á hleðslu loftfars, sem hefur mesta leyfi­legan flugtaksþunga meiri en 5700 kg, skal leggja til grundvallar þann meðalþunga fólks sem hér greinir:

a) karl í áhöfn.................................................. 80 kg

b) kona í áhöfn ................................................ 70 kg

c) karlfarþegi .................................................. 75 kg

d) kvenfarþegi ................................................ 65 kg

e) barn 2-12 ára .............................................. 35 kg

f) barn yngra en 2 ára ..................................... 10 kg

Ath.: Flugrekandi, sem annast reglubundið áætlunarflug eða óreglubundið flug, getur fengið heimild flugmálastjórnar til þess að leggja til grund­vallar annan meðalþunga fyrir áhöfn og farþega ef hann með nægilega stóru úrtaki sannar að meðalþungi sé annar en að framan greinir.

3.1.1. Í meðalþunganum fyrir áhöfn er innifalinn 5 kg handfarangur. Annar farangur áhafnar skal veginn og færður inn á hleðslu- og jafnvægisskrá.

3.1.2. Í meðalþunganum fyrir farþega er innifalinn aðeins léttur handfarangur, sem telja má nauðsynlegan meðan á ferðinni stendur vegna veðurfars, heilsufars eða hreinlætis. Farangur þessi má ekki fara fram úr 2 kg á mann. Farangur þessi er t. d.:

a) fatnaður,

b) regnhlíf og stafur,

c) handtaska,

d) hreinlætisvörur,

e) ljósmyndavél og sjónauki, svo og

f) takmarkaður fjöldi leikfanga.

Ath.: Allan annan farangur farþega skal vega og færa inn á hleðslu- og jafnvægisskrá.

3.1.3. Þegar nauðsynlegt er talið, skal ganga úr skugga um raunverulegan þunga fólks, með því að vigta alla, farþega og áhöfn ásamt handfarangri. Athuga­semd um þetta skal gerð í hleðslu- og jafnvægisskrá.

3.2. Við útreikninga á flugtaksþunga og á hleðslu loftfara, sem hafa mestan leyfilegan flugtaksþunga 5700 kg eða minni, skal leggja til grundvallar þann meðalþunga fólks sem hér greinir:

a) flugverjar og farþegar af báðum kynjum........ 75 kg

b) barn 2-12 ára .............................................. 35 kg

c) barn yngra en 2 ára .................................... 10 kg.

Ath. Flugrekandi, sem rekur reglubundið áætlunarflug, getur fengið heimild flugmálastjórnar til þess að leggja til grundvallar annan meðalþunga fyrir áhöfn og farþega í loftförum sem hafa 15 eða fleiri farþegasæti ef hann með nægilega stóru úrtaki sannar að meðalþungi sé annar en að framan greinir.

3.2.1. Í þessum þungatölum er aðeins innifalinn sams konar handfarangur og greinir í gr. 3.1.2.

3.2.2. Ef flugstjóri telur að raunverulegur þungi sé annar en sá sem hér er nefndur meðalþungi fólks þá skal hann ganga úr skugga um hver sé hinn raunverulegi þungi fólks og farangurs.

4. gr.

Farangur sem flytja má í farþegaklefa.

4.1. Taka má annan handfarangur en um getur í gr. 3.1.2. inn í farþegaklefa, svo sem skjalatösku, innkaupatösku, smápakka og annað slíkt, þó ekki þyngra en 5 kg, enda sé farangrinum komið fyrir undir farþegasætum eða í þar til gerðum geymsluhólfum.

4.1.1. Handfarangur þann, sem nefndur er í gr. 4.1., má ekki telja með f meðalþunga fólks, þeim sem greinir í gr. 3.1. og 3.2.

Á þeim flugvöllum, þar sem afgreiðsla flugfarþega er ekki framkvæmd af starfsliði flugrekanda eða af aðilum sem það hefur þjálfað eða viðurkennt, skal flugstjórinn sjá um að reglur þessar séu haldnar.

4.1.2. Þjónustuliðar í farþegaklefa, eða einhver tiltekinn aðili í áhöfn, skal sjá svo um að allur farangur, sem farþegar flytja með sér í farþegaklefa, sé á öruggum stað við flugtak og lendingu, svo sem í farangurs- og vöruhólfi, undir farþegasætum eða á annan hátt tryggilega frá honum gengið.

4.2. Flugrékandi skal, annaðhvort með tilkynningaspjöldum eða áletrun á farmiða eða á annan handhægan og greinilegan hátt láta farþega vita um ákvæði þessara reglna um handfarangur.

5. gr.

Staðlaður þungi farangurs.

5.1. Flugrekandi, sem annast reglubundið áætlunarflug eða óreglubundið flug, getur fengið leyfi flugmálastjórnar til þess að nota staðlaðan þunga farþegafarangurs á tilteknum leiðum ef það stuðlar að einfaldari afgreiðslu farþega.

6. gr.

Eðlisþyngd eldsneytis og olíu.

6.1. Ef raunveruleg eðlisþyngd eldsneytis og olíu er ekki kunn, skal miða við eftirfarandi lágmarksgildi við útreikning á flugtaksþunga og hleðslu loftfars:

a) bensín................................................ 0.71 kg/líter

b) þotueldsneyti

JP-1 .................................................. 0.79 kg/líter

JP-4 .................................................. 0.76 kg/líter

c) smurolía ............................................ 0.88 kg/líter

Brot á reglugerð þessari varða við 179. gr. laga um loftferðir, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum, auk þess sem heimilt er að svipta flugrekanda flugrekstrarleyfi, sbr. 86. gr. laga um loftferðir.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt l86, og 188. gr. laga um loftferðir nr. 34 21. maí 1964 og gildir um íslensk og erlend loftför sem íslenskur aðili notar eða ræður yfir, hvar sem þau eru stödd, staðfestist hér með til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim er hlut eiga að máli.

Samgönguráðuneytið, 27. febrúar 1976.

Halldór E. Sigurðsson.

Brynjólfur Ingólfsson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica