Samgönguráðuneyti

389/1999

Reglugerð um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum.

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum nr. 13/1999 og gildir um fólksflutninga á landi með bifreiðum sem rúma níu farþega eða fleiri. Reglugerðin gildir líka um akstur sérleyfishafa þegar þeir nota bifreiðar sem rúma þrjá til átta farþega og um akstur sérútbúinna bifreiða t.d. til fjallaferða enda þótt slíkar bifreiðar rúmi færri farþega en níu.

Reglugerð þessi gildir ekki um akstur í eigin þágu.

Leyfi Vegagerðarinnar þarf til að hafa með höndum fólksflutninga í atvinnuskyni, sem reglugerð þessi nær til. Leyfið skal gilda í fimm ár og vera óframseljanlegt.

2. gr.

Reglubundnir fólksflutningar eru fastar ferðir á ákveðinni leið samkvæmt fyrirfram birtri áætlun einu sinni eða oftar í viku allt árið eða hluta þess og þjónustan er öllum opin.

Til reglubundinna fólksflutninga telst:

1. Sérleyfi sem er leyfi til reglubundinna fólksflutninga þar sem heimilt er að taka upp og setja af farþega hvar sem er á leiðinni.

2.Einkaleyfi sem er sérleyfi sveitarfélags til reglubundinna fólksflutninga innan lögsagnarumdæmis þess.

3. Sérstakir reglubundnir fólksflutningar sem eru flutningar á ákveðnum hópi farþega en aðrir farþegar eru útilokaðir.

4. Aðrir reglubundnir fólksflutningar sem eru flutningar sem hvorki eru sérleyfi né sérstakir reglubundnir fólksflutningar.

Óreglubundnir fólksflutningar eru aðrir fólksflutningar en reglubundnir.

3. gr.

Vegagerðin hefur með höndum útgáfu leyfa og umsjón með eftirliti samkvæmt reglugerð þessari. Við útgáfu leyfa er henni heimilt að leita umsagnar fulltrúa hagsmunaaðila er að greininni standa.

Allar ákvarðanir Vegagerðarinnar eru kæranlegar til samgönguráðuneytisins. Kærufrestur er 3 mánuðir.

II. KAFLI

Skilyrði leyfis.

4. gr.

Þeir einir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum mega starfa sem fólksflutningsaðilar á landi:

1. Hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu. Fullnægjandi fjárhagsstaða merkir að hafa aðgang að nægilegu fjármagni til að stofna fyrirtæki og tryggja öruggan rekstur þess. Fyrirtæki verður að hafa eigið fé sem eru a.m.k. EUR 9.000 eða kr. 750.000 fyrir fyrsta ökutæki en EUR 5.000 eða kr. 400.000 fyrir hvert ökutæki umfram það. Vegagerðinni er heimilt að taka gilda staðfestingu löggilts endurskoðanda, banka eða annarrar viðurkenndrar stofnunar til sönnunar á fjárhagsstöðu. Heimilt er að veita slíka staðfestingu í formi bankaábyrgðar eða annarrar samsvarandi tryggingar.

2. Hafa fullnægjandi starfshæfni. Til að uppfylla skilyrðið um starfshæfni skal viðkomandi gangast undir skriflegt próf og skal prófa þekkingu umsækjenda á þeim sviðum sem greinina varðar. Vegna þessa skal Vegagerðin útbúa námskrá að höfðu samráði við þá hagsmunaaðila sem að greininni standa og skal námskrá þessi staðfest af samgönguráðuneytinu. Þátttökugjald skal einnig tilgreint í námskránni. Heimilt er að veita undanþágu frá námskeiði ef umsækjandi sýnir fram á að hafa a.m.k. 5 ára samfellda starfsreynslu á sviði framkvæmdastjórnar fólksflutningafyrirtækis, ef umsækjandi getur sýnt fram á að hafa lokið prófi í einhverri þeirra greina sem um getur í námskrá, enda sé um handhöfn prófs frá viðurkenndum framhaldsskóla að ræða. Hafa ekki verið dæmdir til refsivistar né framið alvarleg eða ítrekuð brot á reglum sem um starfsgreinina gilda. Hafi brot verið smávægilegt eða langt um liðið frá því að brot var framið getur umsækjandi þó öðlast leyfi.

Ofangreindum skilyrðum verður leyfishafi að fullnægja á leyfistímanum.

5. gr.

Þegar sótt er um leyfi í fyrsta sinn skal umsækjandi leggja fram ítarlega áætlun um rekstur, greiðslustreymi og efnahag fyrir yfirstandandi og næsta ár. Áætluninni skal fylgja staðfesting endurskoðanda á að áætlunin sé rétt miðað við gefnar forsendur. Þegar umsókn er endurnýjuð skal áritaður ársreikningur eða staðfest skattframtal fylgja umsókn auk rekstraráætlunar fyrir yfirstandandi og næsta ár. Áætluninni skal fylgja staðfesting endurskoðanda á að áætlunin sé rétt miðað við gefnar forsendur.

Vegagerðin leggur mat á forsendur áætlunarinnar og þau gögn sem umsókn fylgja og er henni heimilt að óska eftir frekari gögnum gerist þess þörf og vísa frá þeim umsóknum sem ekki hafa fullnægjandi gögn til stuðnings.

III. KAFLI

Reglubundnir fólksflutningar.

6. gr.

Sérleyfi er leyfi til reglubundinna fólksflutninga og er veitt samkvæmt 4. gr. laga nr. 13/1999 enda hafi umsækjandi þegar leyfi samkvæmt 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Sérleyfi skal alla jafna gilda í fimm ár og vera óframseljanlegt. Veita má umsækjanda fleiri en eitt leyfi. Við útgáfu sérleyfa skal Vegagerðin leita umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Þeir sérleyfishafar, sem hafa haft sérleyfi áður, skulu að jafnaði sitja fyrir um endurveitingu sérleyfa á viðkomandi leiðum ef þeir aðilar sækja um þau og fá meðmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Vegagerðin getur sagt upp sérleyfi á leyfistímanum vegna skipulagsbreytinga innan ákveðinna svæða sem viðkomandi sveitarfélög standa sameiginlega að. Slíkur uppsagnarfrestur skal ekki vera skemmri en tvö ár.

Umsækjandi um sérleyfi skal útfylla sérstakt umsóknareyðublað og skal í umsókn sinni skýra frá bifreiðakosti sínum, er hann ætlar að nota til fólksflutninganna, ástæðu fyrir leyfisumsókn ásamt öðrum þeim upplýsingum er Vegagerðin kann að óska eftir.

Vegagerðin skal í leyfisbréfi tilgreina skyldur sérleyfishafa.

Í sérleyfisakstri er sérleyfishafa heimilt að nota bifreiðar sem rúma 3-8 farþega.

7. gr.

Ferðaáætlanir sérleyfishafa skulu háðar samþykki Vegagerðarinnar. Við umfjöllun ferðaáætlana skal hafa hliðsjón af upplýsingum og tillögum frá viðkomandi sveitarfélagi eða samtökum þeirra, hafi þær borist.

Sérleyfishafa er óheimilt að leggja niður ferðir á sérleyfisleið eða fækka þeim nema með samþykki Vegagerðarinnar. Óski sérleyfishafi eftir breytingu á ferðaáætlun skal hann senda Vegagerð skriflega beiðni um það og getur hún breytt ferðaáætlun ef sérstök ástæða er til. Breytingar á áætlun sérleyfishafa skal þegar tilkynnt til Vegagerðarinnar þegar sérleyfishafa er um hana kunnugt.

8. gr.

Á sérleyfisleið eða hluta hennar er sérleyfishafa einum heimilt og skylt að halda uppi fólksflutningum eftir föstum, fyrirfram birtum áætlunum allan ársins hring eða hluta þess.

Sérleyfishafa er skylt að fullnægja fólksflutningsþörf á þeirri leið sem sérleyfi hans tekur til, eftir því sem fram er tekið í sérleyfi hans.

Farþega er heimilt að hafa með sér án sérstakrar greiðslu farangur allt að 20 kg að þyngd.

Sérleyfishafa er skylt að láta afhenda farþegum kvittun fyrir greiddu fargjaldi, sé þess óskað.

9. gr.

Við sérleyfisakstur ber leyfishafa að nota bifreið sem uppfyllir gæða- og tæknikröfur Vegagerðarinnar um hópferðabifreiðar og er tilgreind á leyfisbréfi hans.

Sérleyfishafa er skylt, ef bifreið hans bilar að útvega aðra í hennar stað eftir því sem við verður komið hverju sinni en er ekki skylt að leggja til aukabifreið fyrir færri farþega en fimm nema farþegi hafi pantað far minnst einni klukkustund áður en áætlunarferð hefst.

10. gr.

Sveitarfélögum er heimilt að taka að sér reglubundna fólksflutninga, þ.e. sérleyfi, innan síns lögsagnarumdæmis. Slíkt sérleyfi er einkaleyfi og ótímabundið.

Nú ákveður sveitarstjórn að taka í sínar hendur rekstur reglubundinna fólksflutninga innan síns lögsagnarumdæmis þar sem áður hefur verið sérleyfi og er þá skylt að veita sveitarstjórn einkaleyfi þegar tímabil sérleyfishafa er útrunnið, enda hafi sveitarstjórn sótt um það eigi síðar en sex mánuðum áður en sérleyfið fellur úr gildi sbr. þó 2. mgr. 6. gr.

Við veitingu einkaleyfis er Vegagerðinni heimilt að binda leyfið því skilyrði að einkaleyfishafinn skuli skuldbundinn til að kaupa þær fasteignir og bifreiðar sem notaðar höfðu verið til reksturs á viðkomandi leið og teljast nauðsynlegar á verði sem samkomulag næst um milli aðila. Ef ekki næst samkomulag um verð skal það ákveðið með mati tveggja dómkvaddra manna.

Öðrum en einkaleyfishafanum er óheimilt nema með samþykki hans að flytja um einkaleyfissvæðið aðra farþega en þá sem teknir eru upp utan þess og þá sem teknir eru upp innan svæðisins til flutnings út fyrir það.

11. gr.

Með sérstökum reglubundnum fólksflutningum er átt við flutninga á ákveðnum hópi farþega en aðrir farþegar eru útilokaðir. Hér er átt við flutninga starfsfólks að og frá vinnustað á kostnað vinnuveitanda og akstur skólanema. Ekki þarf annað leyfi til sérstakra reglubundinna flutninga en um getur í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1999.

Ekkert leyfi þarf til flutnings í eigin þágu.

12. gr.

Aðrir reglubundnir fólksflutningar eru flutningar sem hvorki eru sérleyfi né sérstakir reglubundnir fólksflutningar. Vegagerðin gefur út leyfi til annarra reglubundinna flutninga á sérstöku umsóknareyðublaði enda hafi umsækjandi leyfi skv. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1999. Leyfið skal gilda í eitt ár og vera óframseljanlegt. Veita má umsækjanda fleiri en eitt leyfi.

Við ákvörðun á úthlutun leyfis til annarra reglubundinna fólksflutninga skal Vegagerðin taka mið af þeim sérleyfum sem kunna að vera í gildi á svæðinu og þeirri flutningsþörf sem þar kann að vera. Leyfi til annnarra reglubundinna fólksflutninga er ekki veitt beint ofan í gildandi sérleyfi nema um sérstaka þjónustu við ferðamenn sé að ræða.

IV. KAFLI

Óreglubundnir fólksflutningar.

13. gr.

Óreglubundnir fólksflutningar teljast aðrir flutningar en reglulegir sbr. 6., 11. og 12. gr. reglugerðar þessarar.

Ekki þarf annað leyfi til óreglubundinna fólksflutninga en um getur í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1999.

Ekki er heimilt að skipuleggja fólksflutninga sem eru samsvarandi þeim reglubundnu fólksflutningum sem fyrir eru og um getur í 6. og 12. gr. þótt tímabundnir séu.

14. gr.

Akstur sérútbúinna bifreiða.

Vegagerðin skal veita leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða, t.d. til fjallaferða, enda þótt slíkar bifreiðar rúmi færri farþega en níu. Skilyrði slíks leyfis er að það sé notað í tengslum við þjónustu við ferðamenn og að umsækjandi hafi leyfi skv. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1999. Leyfi samkvæmt þessari grein er ekki veitt á hverja einstaka bifreið heldur einungis á rekstraraðila. Hann skal þó merkja þær bifreiðar sem hann notar til akstursins. Leyfi þetta skal í fyrsta sinn gilda í eitt ár en síðan í tvö ár í senn og vera óframseljanlegt.

V. KAFLI

Almenn ákvæði.

15. gr.

Leyfi má veita einstaklingum, hlutafélögum, einkahlutafélögum, sameignarfélögum eða byggðarsamlögum enda uppfylli þau skilyrði um fullnægjandi fjárhagsstöðu.

Hjá félaginu skal starfa forsvarsmaður sem ber ábyrgð á rekstrinum. Hann skal uppfylla skilyrði 2. og 3. tl. 4. gr.

Látist sá sem uppfyllir grunnskilyrði leyfis eða verður svo líkamlega eða andlega vanhæfur að hann getur ekki lengur gegnt starfi sínu er heimilt að reka fólksflutningafyrirtæki tímabundið, að hámarki í eitt ár, með möguleika á framlengingu í sex mánuði hið mesta. Að þeim tíma loknum ber nýjum fyrirsvarsmanni að sækja um leyfi skv. 3. mgr. 1. gr.

16. gr.

Leyfishafar skulu gæta þess að bifreiðastjórar þeirra uppfylli 3. tl. 4. gr. reglugerðarinnar sbr. lög nr. 13/1999, hafi tilskilin ökuréttindi og séu að öðru leyti til þess fallnir að starfa við fólksflutninga.

Leyfishafar, bifreiðastjórar þeirra og afgreiðslumenn skulu gæta þess að sýna farþegum lipurð og kurteisi í afgreiðslu og allri umgengni og sjá til þess eins og kostur er að ferðin verði sem þægilegust fyrir farþega og gæta þess að hávaði angri ekki farþega. Þeir skulu halda bifreiðum sínum þrifalegum að utan sem innan eftir því sem við verður komið. Einnig skal hafa áletrun á skráningarmerki bifreiða vel læsilega. Um reykingar í hópferðabifreiðum fer eftir lögum um tóbaksvarnir.

Vegagerðin skal útbúa rúðumerki fyrir hópferðabifreiðar og ber leyfishöfum að setja rúðumerki þessi á bifreiðar sínar, er sýni að bifreiðin hafi tilskilin leyfi til fólksflutninga. Leyfishafa er óheimilt að nota aðrar bifreiðar til hópferðaaksturs en leyfi hljóðar á sbr. þó 14. gr.

17. gr.

Bifreið sem notuð er til fólksflutninga samkvæmt lögum þessum og uppfyllir gæða- og tæknikröfur Vegagerðarinnar um hópferðabifreiðar má eingöngu nota til slíkra flutninga meðan leyfið gildir, sbr. þó 14. gr.

Þó er heimilt að flytja fragt í þar til gerðu rými enda uppfylli bifreiðin að öðru leyti skilyrði fólksflutningabifreiðar og er notuð í þeim tilgangi.

VI. KAFLI

Eftirlit og leyfisgjöld.

18. gr.

Hverjum leyfishafa er skylt að greiða árlega kr. 1.000 vegna hverrar bifreiðar sem hann færir til skoðunar samkvæmt 17. gr.

Enn fremur skal greiða fyrir útgáfu leyfa:

kr. 35.000 vegna leyfis samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1999,

kr. 7.000 vegna leyfis til annarra reglubundinna fólksflutninga samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1999,

kr. 50.000 vegna sérleyfis samkvæmt 4. gr. laga nr. 13/1999,

kr. 4.000 vegna leyfis til aksturs sérútbúinna bifreiða samkvæmt 9. gr. laga nr. 13/1999, nema þegar leyfi er veitt í fyrsta sinn, þá skal greiða kr. 2.000 fyrir hvert leyfi.

Framangreind gjöld skulu renna til Vegagerðarinnar og standa undir eftirliti og leyfisveitingum.

Vegagerðinni er heimilt að fela þriðja aðila að sjá um eftirlit samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1999.

VII. KAFLI

Viðurlög.

19. gr.

Verði aðili uppvís að því að stunda leyfisskylda starfsemi samkvæmt lögum nr. 13/1999 án þess hafa til þess tilskilin leyfi ber Vegagerðinni að stöðva hana þegar í stað og kyrrsetja bifreiðar hans þar til leyfi hefur verið fengið til starfseminnar.

20. gr.

Brot gegn lögum nr. 13/1999 og reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum og skal fara með slík mál að hætti opinberra mála.

Við alvarleg eða ítrekuð brot er Vegagerðinni heimilt að svipta viðkomandi leyfum er honum hafa verið veitt samkvæmt lögum nr. 13/1999 og reglugerð þessari. Slík svipting tekur gildi þegar í stað og gildir þar til úrlausn hefur fengist í málinu.

21. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 13/1999 öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um fólksflutninga með langferðabifreiðum nr. 90/1990.

Samgönguráðuneytinu, 26. maí 1999.

Halldór Blöndal.

Jón Birgir Jónsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica