Samgönguráðuneyti

69/1953

Reglugerð um öryggisráðstafanir við fermingu og affermingu skipa

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Vinnuveitanda ber að sjá um, að vinnu sé stjórnað á heppilegan hátt og að vakandi auga sé haft með öryggi verkamanna á vinnustað.

Séu einhver af tækjum eða vélum þeim, sem notaðar eru við vinnu, eign annars en vinnuveitanda, t. d. hafna eða skipaeiganda, ber vinnuveitanda þó að vaka yfir, að slík tæki eða vélar séu í fullkomnu lagi og að þegar bætt úr göllum, sem fram kunna að koma, eða krefjast lagfæringar af eigendum.

2. gr.

A. Verkstjórar við fermingu og affermingu skipa megi ekki samtímis hafa á hendi eða taka að sér stjórn meira en sex vinnuflokka (gengi) í mesta lagi.

Sami verkstjóri má því aðeins hafa stjórn á vinnu í meira en einu skipi, að skipin séu hvert hjá öðru.

Ef vinnuflokkar eru fleiri en sex, skal einn af verkamönnum, sem til þess þykir hæfur, valinn verkstjóra til aðstoðar, til að sjá um vinnuna.

B. Starf verkstjóra er meðal annars:

Að sjá um, að gölluð áhöld og tæki séu þegar tekin úr notkun.

Að stöðva þegar vinnu, ef eitthvað það kemur í ljós við tæki eða vélar, sem notaðar eru við vinnuna, sem ætla mætti, að verkamönnum stafaði hætta af.

C. Sé unnið í vöktum, skal verkstjóri taka hvíld um leið og vinnuflokkar hans.

D. Þeir af áhöfn skipsins, sem sjá um röðun og hleðslu á vörum í farmrúmum þess, skoðast sem verkstjórar við þá vinnu og á þeim hvíla þær skyldur verkstjóra, sem tilgreindar eru hér að framan.

3. gr.

A. Varðstöðu við lestarop (lúguvörður), stjórn vindu eða krana, má fela þeim einum, sem þekktur er að árvekni, hefur fulla sjón og heyrn og góðan raddstyrkleika. Sá sem hefur á hendi stjórn krana, skal auk þess geta fært sönnur á, að hann hafi næga þekkingu til að stjórna slíku tæki.

Þeim einum má fela störf þau, sem um getur í 1. málsgr. þessarar greinar, sem orðnir eru fullra 18 ára og eru reglusamir. Ákvæði þetta nær þó eigi til vinnu skipverja í þágu skipsins.

B. Starf lúguvarðar er að fylgjast af árvekni með vinnunni og skal hann vera þannig staðsettur að hann geti óhindrað fylgzt með gangi vinnunnar frá farmrúmi til hafnarbakka eða báts og frá báti eða hafnarbakka til farmrúms. Hann skal gefa kranastjóra eða vindumanni greinileg merki samkvæmt merkjakerfi (sjá 1. fylgisblað) og aðvara í tíma þá, sem eru í farmrúmi, báti eða á hafnarbakka.

Að jafnaði skal lúguvörður vera með hverjum vinnuflokki.

4. gr.

Vinnusvæði á hafnarbakka, eða annars staðar á landi, svo og gangstígar eða akbrautir til vinnustaðar frá næsta alfaravegi, skulu nægilega upplýstir með ljósi, sem ekki blindar.

Við vinnu um borð í skipum, þar sem dagsljós nær ekki til, skal séð fyrir annarri nægilegri lýsingu. Til slíkrar lýsingar má ekki nota opinn loga.

5. gr.

Hafnarbökkum og bryggjum skal vel við haldið, svo verkamenn geti óhindrað farið þar um án hættu. Þar sem hálka er skal bera sand á eða gera aðrar ráðstafanir til að draga úr hálkunni. Halli hafnarbakka eða bryggju út frá landi, skal á brúninni vera slá eða hæfilega hár fótlisti.

Ekki má hlaða vörum þannig á hafnarbakka, að umferð verkamanna til landgöngubrúar eða annars umferðarstaðar milli skips og hafnarbakka tálmist. Að jafnaði má ekki setja vörur á hafnarbakka eða bryggju nær brúninni sjávarmegin en 90 cm.

Þurfi verkamenn að nota bát til þess að fara milli lands og skips, skal til þess notaður fulltraustur bátur og þess að jafnaði gætt, að burðarmagni hans sé ekki ofboðið.

Traustur kaðalstigi eða trappa skal vera fyrir verkamenn til að fara eftir milli skips og báts.

6. gr.

Þurfi verkamenn að nota vinnupalla til að hlaða upp vörum, skulu pallarnir vera úr traustu efni og vel um þá búið. Stólar undir verkpöllum skulu vera fulltraustir og hvíla á öruggum undirstöðum.

Þegar vinnupallar hvíla á færanlegum stólum, skulu stólarnir þannig gerðir. að hækka megi þá og lækka, svo að pallurinn sé ávallt í heppilegri hæð fyrir vinnuna.

Aldrei mega vinnupallar, sem hvíla á færanlegum stólum, vera meira en 3 m frá gólfi eða jörð.

Lausar gangbrautir úr plönkum skulu vera með streng eða handlista til að styðja sig við, í 90 cm hæð. Á föstum umferðarpöllum skal vera 90 cm hátt handrið með tveimur langslám og skulu handrið vera beggja megin, ef pallurinn er ekki við vegg. Umferðarpallar skulu vera að minnsta kosti 90 cm breiðir.

Lausir hallandi flekar, sem notaðir eru til aksturs eða umferðar, skulu hvíla á góðum undirstöðum, svo ekki sé hætta á að þeir renni til eða velti. Eigi að aka handvagni um slíka fleka, má halli hans vera mest 1:10. Milli hjólabrauta skulu vera þverslár, til fótfestu, þannig að menn renni þar ekki.

Ekki má nota hlera af lestaropum í umferðafleka eða vinnupalla.

7. gr.

Þurfi verkmenn að nota aðra stiga en hina venjulegu föstu stiga niður í farmrúm eða kolarúm skipa, skulu stigarnir vera traustir og annað hvort bundnir fast að ofan eða vera með krókum á efri enda, til að tryggja það, að þeir renni ekki til eða velti.

8. gr.

Fullrar varúðar skal gætt, þegar hlerar á lestaropum eru teknir af eða lagðir á sinn stað. Nota skal lyftuhringi eða handföng þau, sem á hlerunum eru og þess jafnan gætt, þegar lestaropi er lokað, að hver hleri komi á sinn stað.

Þegar lestaropsbitum er lyft úr lestaropi eða komið fyrir í því og til þess notuð vinda eða krani, skal þess jafnan gætt, að til þess séu notaðar traustar þar til gerðar keðjur eða stroffur.

Lestaopshlerum og lestaropsbitum, sem teknir hafa verið úr lestaropi, skal þannig raðað á þilfarið, að ekki stafi hætta af eða umferð og vinna við lestaropið tálmist.

Lestaropsbitar, sem látnir eru vera í lestaropi meða á vinnu stendur, skulu vera læstir, svo þeir geti ekki lyfzt úr skorðum sínum, þó krókur eða vörur sláist upp undir þá.

9. gr.

Krana og önnur lyftitæki, sem notuð eru við fermingu og affermingu skipa, svo og aðra hluta tilheyrandi þessum tækjum, svo sem vírstrengi, keðjur og gripskóflur, má aldrei nota til að lyfta meiri þunga en hámarksþunga þeim, sem þeir eru gerðir fyrir.

Þegar meira en ein bóma er notuð samtímis við lestarop, svokallaðar samtengdar bómur, skulu bómurnar hafa tvöfalda eða styrkta stjórntauma ("gerta"). Lyftikrókar skulu vera nægilega traustir og þannig að lögun, að ekki sé hætta á að þeir sleppi eða krækist í.

Aldrei má skilja við byrði í lyftitæki, verði þó ekki komizt hjá þessu, skal ábyggilegur maður vera á verði, meðan byrðin hangir

Eftir því, sem frekasr er unnt, skal forðast alla umferð undir hangandi byrði og athygli manna vakin á hættunni, sem getur verið samfara.

10. gr.

Augasmeyging (spleis) á vírstreng skal vera með að minnsta kosti þremur smeygingum á óskertum þætti og síðan tveimur smeygingum með minnkandi þráðafjölda í þætti, eða á annan hátt gengið jafntryggilega frá auganu.

Stroffur úr vírstreng eða kaðli svo og keðjur, sem notaðar eru á sama hátt, skulu geymdar hangandi á heppilegum stað við vinnustaðinn.

Stroffurnar skulu flokkaðar og merktar svo, að á þeim sjáist, hversu gildar þær eru og hvaða hámarksþunga má leggja á þær. Á geymslustaðnum skal hanga uppi spjald samkvæmt 2. fylgiblaði, sem sýnir hvaða burðarþol má ætla hverjum gildleika af stroffu eða keðju. Stroffurnar skulu auðkenndar og á keðjur skal letra með að minnsta kosti 6 mm háum stöfum, hvaða þunga má mestan leggja á þær.

Tunnuhaka má einungis nota til lyftingar á tunnum, þegar laggir þeirra eru svo góðar, að hakarnir grípi örugglega.

Gripskóflur skulu vera þannig gerðar, að hægt sé að lyfta þeim, án þess að þær lokist.

Kolamál og önnur ílát, sem sveiflast um ás, skulu búin öruggum lásum, svo ekki sé hætta á að þau hvolfist óviljandi. Lásarnir skulu þannig gerðir, að ílátinu verði auðveldlega hvolft án hættu fyrir þann, sem opnar lásinn.

11. gr.

Hverju sinni áður en lyftitæki eða áhald er tekið í notkun, ber verkstjóra að fullvissa sig um, að lyftitæki og áhöld hafi verið skoðuð og prófuð og að þau hafi gildandi skoðunarvottorð.

Sjá nánar um skoðun og prófun lyftitækja og áhalda í II. kafla reglugerðar þessarar.

12. gr.

Þegar vörum er raðað í keðjulengju eða stroffu skal vanda svo röðunina, að ekki sé hætta á að vöruknippið aflagist, svo að úr stroffunni hrynji.

Stroffurnar skulu ná alveg utan um vöruknippið og skal þess jafnan gætt, að keðjur séu ekki snúnar eða "áhlekkjaðar". Aldrei má stytta keðju með því að hnýta á hana hnút.

Ef hætta er á að hvassar brúnir skemmi keðju eðs stroffu, skulu brúnirnar vel varðar.

Ekki má krækja krók á band, sem eingungis er ætlað til þess að halda kassa eða pakka saman.

13. gr

Ef meira en einn vinnuflokkur vinnur við sama lestarop í einu, skulu eftirfarandi ráðstafarnir gerðar:

a. Sérstakur lúguvörður skal vera fyrir hvern vinnuflokk.

b. Í farmrúmi skal haga losun og lestun svo, verði því mögulega við komið, að ávallt sé aðgengilegt skot, þar sem verkamenn geta í skyndi leitað skjóls undir þilfari, ef hætta er á ferðum.

c. Þegar unnið er við mjög löng stykki, svo sem, bjálka, járnstengur, pípur og timbur, má ekki meira en einn vinnuflokkur í einu vinna við sama lestarop, nema að það sé að minnsta kosti 5 m langt og vinnu sé hagað eins og um getur í b-lið þessarar greinar.

d. Varast skal að flytja vörur yfir stað, þar sem verkamenn eru við vinnu, og aldrei nema að undangenginni aðvörun.

Þegar vörum er hlaðið í stafla eða vörur teknar úr stafla í farmrúmi, skal gæta fyllstu varúðar, svo staflar hrynji ekki.

14. gr.

Ef setja þarf farm á þilfar, þannig að hann teppi aðgang að lestaropi við losun eða lestun, skal þannig um búið, meðan unnið er, að ekki sé slysahætta af. Þess skal og jafnan gætt, að þilfarsfarmur hindri ekki lúguvörð í starfi sínu.

Ef þilfarsfarmur nær það hátt upp, að borðstokkur eða lestaropsumgerð veitir ekki nægilega vörn gegn falli út fyrir, skal koma fyrir umbúnaði sem varnar því, að menn falli fyrir borð eða niður í farmrúm.

15. gr.

Á aðgengilegum stað á vinnustað skal vera skápur eða hirzla með nauðsynlegum umbúðum til bráðabirgðahjálpar, ef slys ber að höndum. Þá skulu og vera hentugar sjúkrabörur á vinnustaðnum.

Einn verkamanna á hverjum vinnustað skal kunna undirstöðuatriði í hjálp í viðlögum og skal honum falin umsjá með umbúðakistunni og öðrum tækjum til bráðabirgðahjálpar á staðnum.

Á hafnarbakka skulu vera nauðsynleg björgunartæki, svo sem stigi með krókum, krókstjaki og bjarghringur með línu.

Björgunartæki má einungis nota til þess, sem þau eru ætluð, og ekki má bera þau burt frá hinum fasta geymslustað, nema nauðsyn krefji, og skulu þau þá strax að notkun lokinni látin á sinn stað.

16. gr.

Verkamenn skulu eiga greiðan aðgang að drykkjarvatni á vinnustað.

Hæfilega mörg salerni skulu vera á vinnustaðnum, og skal þeim haldið hreinum.

Aðbúnaður verkamanna skal að öðru leyti vera samkvæmt því, sem krafizt er í reglugerð um vinnustöðvar úti.

II: KAFLI

Skoðun og prófun lyftitækja og áhalda.

17. gr.

Lyftitæki nefnast í eftirfarandi greinum tæki, sem notuð eru til lyftingar á vörum við fermingu og affermingu skipa, svo sem vindur og kranar, ásamt tilheyrandi búnaði, strengjum, keðjum og greipskóflum, gafallyftur og færibönd.

Áhöld nefnast laus hjálpartæki, svo sem "stroffur", keðjulengjur, hringir, krókar, lásar og blokkir eða önnur slík tæki, sem notuð eru við lyftingu á vörum.

18. gr.

Áður en nýtt lyftitæki eða áhald er tekið í notkun, skal framkvæmd á því aðalskoðun og prófun.

Hafi lyftitæki eða áhaldi verið breytt eða framkvæmd á því meiriháttar viðgerð, skal það skoðað og prófað eins og nýtt væri, áður en það er tekið í notkun á ný.

19. gr.

Aðalskoðun er fólgin í eftirfarandi:

Rannsókn á styrkleika og ásigkomulagi allra þeirra hluta lyftitækis eða áhalds, sem ætla má að hætta geti stafað af.

Rannsókn teikninga og útreikninga, athugun vottorða yfir efnisgæði og þýðingarmestu hluta, svo og suðu og afglóðun, að svo miklu leyti, sem telja verður nauðsynlegt til að ganga úr skugga um styrkleik og rekstraröryggi lyftitækis eða áhalds.

Prófun með þunga samkvæmt 20. gr.

Leiði aðalskoðun í ljós, að lyftitæki eða áhald sé ekki nægilega traust fyrir þann þunga, sem því er örugglega ætlað að þola, skal þegar tilkynna það vinnuveitanda, sem þá ber að gera nauðsynlegar ráðstafanir til úrbóta.

20. gr.

Losunarkranar og lík lyftitæki skulu prófuð sem hér segir:

Mesti leyfilegur hámarksþungi Prófþungi umfram mesta

í smálestum: leyfilegan hámarksþunga:

Allt að 5 smál. 25 %

Frá 5 til 20 smál. 20 %

Frá 20 til 50 smál. 15 %

Yfir 50 smál. 10 %

Allar venjulegar hreyfingar lyftitækisins skulu gerðar með prófþunganum.

Áhöld, svo sem stroffur, keðjulengjur, hringir, krókar, lásar og blokkir skal prófa með prófþunga, sem er 50% yfir mesta leyfilegum hámarksþunga.

Að prófun lokinni skulu allir hlutar tækisins nákvæmlega athugaðir, svo gengið verði úr skugga um það, hvort nokkur þeirra hefur gefið sig við prófunina.

21. gr.

Að lokinni aðalskoðun gefur eftirlitsmaður út vottorð um árangur skoðunarinnar. Skal vottorð geymt í eða við lyftitækið og á því tilgreint, hversu lengi það gildi. Getur eftirlitsmaður, hvenær sem er, krafizt þess að fá að sjá vottorðið.

Vottorð um aðalskoðun áhalda skulu geymd á geymslustað áhaldanna.

22.gr.

Eftir að lyftitæki eða áhald er tekið í notkun, að lokinni aðalskoðun og prófun, skal framkvæma á því aukaskoðun á tólf mánaða fresti, að minnsta kosti.

Við aukaskoðun skulu allir burðarhlutar skoðaðir, svo og strengir, keðjur og blokkir. Blokkir skulu teknar sundur og hjól þeirra og ásar skoðuð sérstaklega.

Að lokinni aukaskoðun gefur eftirlitsmaður út vottorð um árangur skoðunarinnar, og skal það geymt á sama stað og getur um í 21. gr.

Eftirlitsmaður ákveður í vottorði, hversu lengi það skuli gilda, og skal síðan aukaskoðun framkvæmd á ný, áður en tími sá er útrunninn, sem tilgreindur er í vottorðinu.

23. gr.

Lyftitæki og áhöld skulu vera undir stöðugu eftirliti, meðan þau eru í notkun.

Eftirlit þetta skal vera í því fólgið, að fylgzt skal stöðugt með ástandi strengja og keðja og festingum þeirra. Skal allt slíkt athugað vikulega að minnsta kosti, samkvæmt nánari leiðbeiningum öryggiseftirlitsins.

Áhöld skulu jafnan athuguð, áður en þau eru tekin úr geymslu til notkunar, og síðan reglulega á viku fresti, ef þau eru í stöðugri notkun.

Hið stöðuga eftirlit skal fela föstum starfsmanni á vinnustaðnum, sem til þess hefur næga þekkingu, að dómi öryggismálastjóra.

Skal sá, sem eftirlitið hefur, færa bók yfir athuganir sínar, þar sem tilfærð er dagsetning hverrar skoðunar, athugasemdir sem gerðar eru, lagfæringar og annað, sem máli skiptir, varðandi öryggi lyftitækis eða áhalds.

24. gr.

Við útreikinga á þoli stálstrengja við vélknúin lyftitæki, skal fara eftir reglum öryggiseftirlitsins.

Um styrkleika og álag á keðjulengjur og stroffur skal fara eftir meðfylgjandi töflum, sjá 2. fylgiblað.

Áhöld skulu afglóðuð samkvæmt 25. gr.

25. gr.

Með afglóðun er átt við hitun efnisins á þann hátt, að það haldi sinni upprunalegu kornastærð og seigju.

Keðjur, hringir, lásar, krókar og þess háttar áhöld skulu afglóðuð

a. Þegar smíði þeirra nýrra er lokið;

b. einu sinni ár hvert;

c. ef áhaldið hefur að nokkru eða öllu leyti verið umsmíðað.

Glóðun skal framkvæma í sérstökum lokuðum ofni á loftstraums við 900-950

C. Að lokinni hitun skal áhaldið látið kólna sjálf í lofti, án þess að um það leiki súgur eða vatn.

Stór stykki skulu hituð það lengi, að öruggt sé að þau séu jafnheit í gegn.

Að lokinni afglóðun skulu áhöldin vandlega skoðuð.

36. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum frá 50-5000 krónum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum. Sektirnar renna í ríkissjóð.

Meðmál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi er hér með sett samkvæmt lögum nr. 23 1. febrúar 1952, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, til þess að öðlast þegar gildi, og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Samgöngumálaráðuneytið, 16. apríl 1953.

Björn Ólafsson.

_______________

Páll Pálmason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica