Samgönguráðuneyti

118/1996

Reglugerð um atvinnuskírteini skipstjórnar- og vélstjórnarmanna. - Brottfallin

 

REGLUGERÐ

um atvinnuskírteini skipstjórnar- og vélstjórnarmanna.

 

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Skilyrði atvinnuskírteina.

Hver íslenskur ríkisborgari sem fullnægir skilyrðum reglugerðar þessarar um menntun, siglingatíma og aldur á rétt á að fá útgefið atvinnuskírteini og stunda samkvæmt því atvinnu sem skipstjórnar- eða vélstjórnarmaður á íslenskum skipum. Enginn getur öðlast skírteini til skipstjórnar eða vélstjórnar nema sá sem er fær um að gegna starfinu af heilsufarsástæðum samkvæmt læknisvottorði, sbr. reglugerð nr. 304/1993.

Þennan rétt hafa einnig ríkisborgarar annarra ríkja, sem eiga aðild að samningi um Evrópska efnahagssvæðið, enda fullnægi þeir skilyrðum reglugerðar þessarar og STCW alþjóðasamþykktar um þjálfun, skírteini og vaktstöðu farmanna.

Skipstjóri og yfirvélstjóri á íslensku skipi skulu þó ávallt vera íslenskir ríkisborgarar eða njóta atvinnuréttinda sem íslenskur ríkisborgari og bera fulla ábyrgð á framkvæmd laga þeirra og reglna sem lúta að starfi hans og settar eru af þar til bærum stjórnvöldum. Til að geta starfað sem skipstjóri eða yfirvélstjóri á íslenskum skipum verða ríkisborgarar annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins að geta sýnt fram á þekkingu á íslensku og íslenskum lögum og reglum er varða þau störf sem þeir fá réttindi til að gegna.

 

2. gr.

Útgáfa atvinnuskírteina.

Atvinnuskírteini skipstjórnar- og vélstjórnarmanna til íslenskra ríkisborgara skulu gefin út af sýslumönnum og tollstjóranum í Reykjavík á þar til gerðum eyðublöðum eftir fyrirmynd sem samgönguráðuneytið semur. Skírteinin skulu gefin út á íslensku og ensku og gilda til fimm ára í senn.

Sýslumenn og tollstjórinn í Reykjavík gefa einnig út atvinnuskírteini til ríkisborgara annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins sem uppfylla skilyrði þessarar reglugerðar, laga um atvinnuréttindi útlendinga og hafa lokið prófi við íslenskan skóla eða sambærilegan erlendan skóla. Áður en atvinnuskírteini er gefið út skal umsækjandi leita umsagnar Stýrimannaskólans í Reykjavík eða Vélskóla Íslands eftir því sem við á, hvaða stigi skipstjórnar- eða vélstjórnarmenntunar prófgögn og menntun hans samsvarar.

Um útgáfu atvinnuskírteina samkvæmt STCW alþjóðasamþykktinni fer eftir ákvæðum 12. gr. reglugerðar þessarar.

Um útgáfu atvinnuskírteina til ríkisborgara utan Evrópska efnahagssvæðisins fer eftir ákvæðum 1. mgr. 14. gr. reglugerðar þessarar.

 

3. gr.

Erlend atvinnuskírteini.

Skipstjórnar- og vélstjórnarmenn sem leggja fram atvinnuskírteini gefið út í landi þar sem STCW alþjóðasamþykktin með síðari breytingum hefur tekið gildi, skulu fá sérstaka áritun á þar til gerð vottorð, sem eru gerð og gefin út af Siglingamálastofnun ríkisins í samræmi við fyrirmynd og fyrirmæli STCW alþjóðasamþykktarinnar.

 

II. KAFLI

Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna.

4. gr.

Til að öðlast skírteini stýrimanns eða skipstjóra þarf viðkomandi að vera 20 ára eða eldri og hafa siglingatíma og menntun í samræmi við eftirfarandi stig stýrimannaskóla:

 

1. stig:

 1.            Yfirstýrimaður/1. stýrimaður á fiskiskipum og öðrum skipum 200 rúmlesta og minni í innanlandssiglingum.

Siglingatími: 24 mánuðir, þar af a.m.k. 12 mánuðir háseti á skipum stærri en 30 rúmlestir. Heimilt er að 6 mánuðir séu á 12 rúmlesta skipum og minni.

                (Skírteini A-3)

 2.            Undirstýrimaður á 500 rúmlesta fiskiskipum og minni í innanlandssiglingum.

Verður að vera handhafi atvinnuskírteinis sem skipstjóri á 200 rúmlesta fiskiskipum og minni í innanlandssiglingum.

                (Skírteini A-4)

 3.            Skipstjóri á 200 rúmlesta fiskiskipum og minni í innanlandssiglingum.

Skipstjóra- eða stýrimannstími: 12 mánuðir á skipi yfir 30 rúmlestum.

                (Skírteini A-4)

 

2. stig:

 1.            Yfirstýrimaður/1. stýrimaður á fiskiskipum og öðrum skipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði.

Siglingatími: 27 mánuðir, þar af a.m.k. 12 mánuði háseti á skipum yfir 100 rúmlestum.

                (Skírteini A-5)

 2.            Yfirstýrimaður á 200 rúmlesta kaupskipum og minni í strandsiglingum.

Siglingatími: 27 mánuðir, þar af a.m.k. 12 mánuði háseti á skipum yfir 100 rúmlestum.

                (Skírteini A-5)

 3.            Undirstýrimaður á kaupskipum og varðskipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði.

Siglingatími: 27 mánuðir, þar af a.m.k. 12 mánuði háseti á skipum yfir 100 rúmlestum.

                (Skírteini A-5)

 4.            Skipstjóri á fiskiskipum og öðrum skipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði.

Skipstjóra- eða stýrimannstími: 24 mánuðir á skipi stærra en 30 rúmlestir, þar af a.m.k. 6 mánuðir yfirstýrimaður/1. stýrimaður á skipum yfir 100 rúmlestum.

                (Skírteini A-6)

 5.            Skipstjóri á 200 rúmlesta kaupskipum og minni í strandsiglingum.

Skipstjóra- eða stýrimannstími: 24 mánuðir á skipi yfir 100 rúmlestum, þar af a.m.k. 6 mánuðir sem yfirstýrimaður/1. stýrimaður.

                (Skírteini B-1)

 

3. stig:  

 1.            Yfirstýrimaður/1. stýrimaður á kaupskipum og varðskipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði.

Siglingatími: 36 mánuðir, þar af a.m.k. 18 mánuði háseti á skipi yfir 100 rúmlestum.

                (Skírteini B-2)

2.             Skipstjóri á kaupskipum af ótakmarkaðri stærð í strandsiglingum.

Skipstjóra- eða stýrimannstími: 24 mánuðir á skipi yfir 100 rúmlestum, þar af a.m.k. 6 mánuði yfirstýrimaður.

                (Skírteini B-3)

3.             Skipstjóri á kaupskipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði.

Skipstjóra- eða stýrimannstími: 24 mánuðir á skipi yfir 100 rúmlestum, þar af a.m.k. 6 mánuði yfirstýrimaður á skipi í utanlandssiglingum.

                (Skírteini B-4)

 

4. stig:

 1.            Skipstjóri á varðskipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði.

Stýrimannstími: 30 mánuðir á skipum yfir 100 rúmlestum, þar af a.m.k. 6 mánuði sem yfirstýrimaður á varðskipi.

                (Skírteini B-5)

Þegar talað er um önnur skip í grein þessari er átt við skip sem ekki eru fiskiskip, kaupskip eða varðskip.

 

5. gr.

11 rúmlesta réttindi:

Þeir sem fæddir eru árið 1934 eða fyrr og stundað hafa skipstjórn á báti 11 rúmlestir og minni um 10 ára skeið eiga rétt á að fá útgefið atvinnuskírteini sem bundið er viðkomandi skipi eða öðru skipi, þó eigi yfir 11 rúmlestum. Siglingatíma má sanna með vottorðum tveggja valinkunnra manna. Þegar skilyrði þessi eru uppfyllt á viðkomandi rétt á að fá útgefið atvinnuskírteini með árituninni "Hefur réttindi til að annast skipstjórn á skipi 11 rúmlestir og minna í innanlandssiglingum". (Skírteini T)

 

 

Ótímabundin takmörkuð réttindi:

Að fengnum tillögum nefndar um undanþágur er samgönguráðherra heimilt að veita þeim skipstjórnarmönnum, sem fæddir eru á árinu 1934 eða fyrr og starfað höfðu undangengin 10 ár fyrir gildistöku laga nr. 112/1984 á undanþágu við skipstjórnarstörf, ótímabundin takmörkuð réttindi. Þegar skilyrði þessi eru uppfyllt á viðkomandi rétt á að fá útgefið atvinnuskírteini með árituninni "Hefur réttindi til að gegna stöðu _____________________ á ________________________ í innanlandssiglingum".

(Skírteini T)

 

Breyting á skipi:

Nú hefur skipstjórnarmaður notið undanþágu frá ákvæðum laganna til skipstjórnarstarfa á sama skipi sem vegna breytinga á því mælist meira en 200 rúmlestir eða aðrar hliðstæðar ástæður eru fyrir hendi sem taldar hafa verið fullgildar ástæður fyrir undanþágu og er þá heimilt að veita honum þau atvinnuréttindi óskert til starfa á sama skipi að uppfylltum öðrum skilyrðum. Í tilvikum þessum skal áritað á atvinnuskírteini hver séu atvinnuréttindi viðkomandi og á hvaða skipi. (Skírteini T)

 

 

30 rúmlesta réttindi:

Sá sem hefur setið 30 rúmlesta námskeið og lokið prófum frá viðurkenndum skóla í samræmi við reglugerð sem menntamálaráðuneytið hefur sett um 30 rúmlesta réttindanám, hefur rétt til að vera skipstjóri á skipum 30 rúmlestir og minni í innanlandssiglingum.

Siglingatími: 18 mánuðir háseti á skipi.

(Skírteini A-1)

 

Ákvæði til bráðabirgða:

Fram til 1. september 1996 getur sá sem fæddur er árið 1945 og fyrr og annast hefur skipstjórn lengur en 8 ár fengið réttindi sem skipstjóri á skipi 30 rúmlestir og minna, þegar viðkomandi hefur setið námskeið í sjómanna- og skipstjórnarfræðum, sem haldið er á vegum viðurkennds skóla í samræmi við reglugerð sem menntamálaráðuneytið setur. Í stað þess að gangast undir próf getur viðkomandi fengið vottorð um að hafa setið námskeiðið og sé hæfur til skipstjórnarstarfa að mati námskeiðshaldara. Þegar skilyrði þessi eru uppfyllt á viðkomandi rétt á að fá útgefið atvinnuskírteini með árituninni "Hefur setið námskeið fyrir 30 rúmlesta skipstjórnarréttindi án próftöku og hefur réttindi til að vera skipstjóri á skipi 30 rúmlestir og minna í innanlandssiglingum". (Skírteini T)

80 rúmlesta réttindi:

Skipstjóri á fiskiskipum og öðrum skipum, allt að 80 rúmlestir, í innanlandssiglingum.

Siglingatími: 24 mánuðir, þar af a.m.k. 12 mánuðir háseti á skipum stærri en 30 rúmlestir. Heimilt er að 6 mánuðir séu á 12 rúmlesta skipum og minni. Til að öðlast skipstjóraréttindi þarf 12 mánaða stýrimannstíma á skipi yfir 30 rúmlestir.

(Skírteini A-2)

 

6. gr.

Siglingatími.

Siglingatími telst sá tími er stýrimannsefni starfar á skipi sem er í rekstri og þar sem viðkomandi fær undirstöðuþekkingu í störfum á þilfari og í brú, stjórn manna og forsjá. Af siglingatíma verður stýrimannsefni að hafa gengið sjóvaktir a.m.k. 6 mánuði í brú undir umsjón skipstjórnarmanns. Af siglingatíma mega 6 mánuðir vera við önnur störf á skipi en skipstjóra-, stýrimanns- eða hásetastörf. Nám eða störf í verklegri sjómennsku og notkun öryggis- og björgunarbúnaðar á viðurkenndum námskeiðum má meta sem siglingatíma í allt að einn mánuð.

Lögskráning sem 1. stýrimaður fyrir gildistöku laga nr. 112/1984 jafngildir yfirstýri-mannstíma.

Siglingatíma skal sanna með sjóferðabók, innlendri eða útlendri, eða vottorði lögskráningarstjóra. Til staðfestingar siglingatíma á skipum 12 rúmlestir og minni má leggja fram vottorð tveggja valinkunnra manna.

 

7. gr.

Endurnýjun atvinnuskírteina.

Við endurnýjun atvinnuskírteina til skipstjórnar á skipum stærri en 30 rúmlestir skal siglingatími umsækjanda vera að minnsta kosti 1 ár á næstliðnum 5 árum. Að öðrum kosti verður umsækjandi að gangast undir hæfnispróf eða námskeið sem skipulögð verða af Stýrimannaskólanum í Reykjavík.

Enginn getur fengið endurnýjun atvinnuskírteinis til skipstjórnar nema sá sem er fær um að gegna starfinu af heilsufarsástæðum samkvæmt læknisvottorði, sbr. reglugerð nr. 304/1993.

 

III. KAFLI

Atvinnuskírteini vélstjórnarmanna.

8. gr.

Til að öðlast skírteini vélstjórnarmanns þarf viðkomandi að vera 18 ára eða eldri og hafa starfstíma og menntun í samræmi við eftirfarandi stig vélskóla:

1. stig:

1.             Vélavörður á skipi.

                (Skírteini VV)

2.             Yfirvélstjóri á skipi með aðalvél 375 kW. og minni

Starfstími: 6 mánuðir sem vélavörður á skipi.

                (Skírteini VVy)

 

2. stig:

1.             Vélavörður á skipi.

                (Skírteini VV)

2.             Yfirvélstjóri á skipi með aðalvél 375 kW. og minni

Starfstími: 5 mánuðir sem vélavörður á skipi.

                (Skírteini VVy)

3.             Yfirvélstjóri á skipi með 750 kW. vél og minni.

Starfstími: 9 mánuðir sem vélavörður á skipi, þar af a.m.k. 5 mánuði á skipi með 401-750 kW. vél.

                (Skírteini VS.III)

 

3. stig:

1.             Vélavörður á skipi.

                (Skírteini VV)

2.             Yfirvélstjóri á skipi með aðalvél 375 kW. og minni

Starfstími: 4 mánuðir sem vélavörður á skipi.

                (Skírteini VVy)

3.             Yfirvélstjóri á skipi með 750 kW. vél og minni.

Starfstími: 6 mánuðir sem vélavörður á skipi með 401 - 750 kW. vél.

                (Skírteini VS.III)

4.             1. vélstjóri á skipi með 1500 kW. vél og minni.

Starfstími: 12 mánuðir sem vélavörður eða vélstjóri á skipi með 401 kW. vél

og stærri.

                (Skírteini VS.II)

5.             Yfirvélstjóri á skipi með 1500 kW. vél og minni og 2. vélstjóri

                á skipi með ótakmarkaða vélarstærð.

Starfstími: 18 mánuðir sem vélstjóri eða vélavörður á skipi, þar af a.m.k.

6 mánuðir sem vélavörður, en 12 mánuði sem vélstjóri. Af vélstjóratímanum,

vélstjóri a.m.k. 3 mánuði við 751 kW. vél og stærri.

                (Skírteini VS.I)

4. stig ásamt sveinsprófi í viðurkenndri málmiðnaðargrein, þ.e. vélfræðingur:

1.             1. vélstjóri á skipi með 1500 kW. vél og minni og 2. vélstjóri

                á skipi með ótakmarkaða vélarstærð.

                (Skírteini VF.IV)

2.             Yfirvélstjóri á skipi með 1500 kW. vél og minni.

Starfstími: 6 mánuðir sem vélstjóri á skipi með 751 kW. vél og stærri.

                (Skírteini VS.I)

3.             1. vélstjóri á skipi með ótakmarkaða vélarstærð.

Starfstími: 12 mánuðir sem vélstjóri á skipi með 751 kW. vél og stærri.

                (Skírteini VF.III)

4.             Yfirvélstjóri á skipi með 3000 kW. vél og minni.

Starfstími: 24 mánuðir sem vélavörður eða vélstjóri á skipi, þar af a.m.k.

12 mánuðir sem 1. vélstjóri á skipi með 1501 kW. vél og stærri og rétt til

að öðlast atvinnuskírteini VF.III.

                (Skírteini VF.II)

5.             Yfirvélstjóri á skipi með ótakmarkaða vélarstærð.

Starfstími: 36 mánuðir sem vélavörður eða vélstjóri á skipi, þar af a.m.k.

12 mánuðir sem 1. vélstjóri á skipi með 1501 kW. vél og stærri.

                (Skírteini VF.I)

 

9. gr.

Vélgæsluréttindi:

Vélgæslumaður á skipi að 20 rúmlestum með aðalvél 220 kW. og minni (Skírteini VM).

Þessi réttindi öðlast viðkomandi eftir að hafa setið viðurkennt nám í vélgæslufræðum og lokið prófum samkvæmt reglugerð sem menntamálaráðuneytið setur.

Ákvæði til bráðabirgða:

Fram til 1. september 1996 getur sá sem fæddur er árið 1945 og fyrr og annast hefur vélgæslu á bátum í 5 ár fengið réttindi sem vélgæslumaður, þegar viðkomandi hefur setið nám í vélgæslufræðum. Í stað þess að gangast undir próf getur viðkomandi fengið vottorð um að hann hafi setið vélgæslumannanám og sé hæfur til vélgæslustarfa að mati námskeiðshaldara. Þegar skilyrði þessa töluliðar eru uppfyllt á viðkomandi rétt á að fá útgefið atvinnuskírteini með árituninni "Hefur setið námskeið í vélgæslufræðum án próftöku og hefur réttindi til að vera vélgæslumaður á skipi að 20 rúmlestum í innanlandssiglingum". (Skírteini T).

 

11 rúmlesta réttindi:

Þeir sem fæddir eru árið 1934 eða fyrr og stundað hafa vélgæslu á báti 11 rúmlestir og minni um 10 ára skeið eiga rétt á að fá útgefið atvinnuskírteini sem bundið er viðkomandi skipi eða öðru skipi, þó eigi yfir 11 rúmlestum. Siglingatíma má sanna með vottorðum tveggja valinkunnra manna. Þegar skilyrði þessi eru uppfyllt á viðkomandi rétt á að fá útgefið atvinnuskírteini með árituninni "Hefur réttindi til að annast vélstjórn á skipi 11 rúmlestir og minni í innanlandssiglingum." (Skírteini T)

Ótímabundin takmörkuð réttindi:

Að fengnum tillögum nefndar um undanþágur er samgönguráðherra heimilt að veita þeim vélstjórum, sem fæddir eru á árinu 1934 eða fyrr og starfað höfðu undangengin 10 ár fyrir gildistöku laga nr. 113/1984 á undanþágu við vélstjórn, ótímabundin takmörkuð réttindi. Þegar skilyrði þessi eru uppfyllt á viðkomandi rétt á að fá útgefið atvinnuskírteini með árituninni "Hefur réttindi til að gegna stöðu __________________________ á ___________________ skipi." (Skírteini T).

 

10. gr.

Starfstími.

Starfstími vélstjóra til atvinnuréttinda telst sá tími sem hann er lögskráður á skip sem vélstjóri eða vélavörður, að meðtöldum lögskráningardegi og afskráningardegi.

Til starfstíma vegna atvinnuréttinda má einnig telja störf við vélaviðgerðir um borð í skipi, í vélsmiðju eða í annarri sambærilegri málmiðnaðargrein. Þessi tími skal þó aldrei verða lengri en sem nemur 1/4 hluta starfstíma til atvinnuréttinda.

Við mat á starfstíma til atvinnuréttinda er heimilt að taka tillit til starfsreynslu við vélstjórn við aðrar stærðir véla en 8. gr. tilgreinir.

Starfstíma skal sanna með sjóferðabók innlendri eða útlendri eða vottorði lögskráningarstjóra. Til staðfestingar starfstíma á skipum 12 rúmlestir og minni má leggja fram vottorð tveggja valinkunnra manna.

 

11. gr.

Endurnýjun atvinnuskírteina.

Við endurnýjun atvinnuskírteina skal siglingatími umsækjanda vera að minnsta kosti 1 ár á næstliðnum 5 árum. Að öðrum kosti verður umsækjandi að gangast undir hæfnispróf eða námskeið sem skipulögð verða af Vélskóla Íslands.

Enginn getur fengið endurnýjun atvinnuskírteinis til vélstjórnar nema sá sem er fær um að gegna starfinu af heilsufarsástæðum samkvæmt læknisvottorði, sbr. reglugerð nr. 304/1993.

IV. KAFLI

Alþjóðleg atvinnuskírteini.

12. gr.

Atvinnuskírteini samkvæmt STCW alþjóðasamþykktinni skulu gefin út af Siglingamálastofnun ríkisins í samræmi við lög um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum nr. 112/1984 með síðari breytingum, lög um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum nr. 113/1984 með síðari breytingum og alþjóðasamþykkt um þjálfun, skírteini og vaktstöður farmanna (STCW).

 

 

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

13. gr.

Nú vill einhver ekki hlíta úrskurði sýslumanna, tollstjórans í Reykjavík eða Siglingamálastofnunar ríkisins um útgáfu atvinnuskírteinis og getur hann þá lagt málið undir úrskurð samgönguráðuneytisins. Við það skerðist þó ekki réttur hans til þess að leita dómsúrskurðar um málið.

14. gr.

Samgönguráðuneytið getur að fengnum umsögnum Stýrimannaskólans í Reykjavík, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Vélskóla Íslands og Vélstjórafélags Íslands, heimilað ríkisborgurum utan Evrópska efnahagssvæðisins og ríkja sem ekki eru aðilar að STCW alþjóðasamþykktinni, og lokið hafa skipstjórnar- og vélstjórnarnámi við íslenskan skóla eða sambærilegan erlendan skóla, að fá útgefið viðeigandi atvinnuskírteini, að fullnægðum öðrum skilyrðum, þó ekki skipstjóraskírteini nema við eigi samningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað.

Á sama hátt getur samgönguráðuneytið að fenginni umsögn Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands, eftir því sem við á, heimilað þeim íslensku ríkisborgurum sem lokið hafa skipstjórnar- eða vélstjórnarnámi við erlenda skóla að fá útgefið viðeigandi atvinnuskírteini, að fullnægðum öðrum skilyrðum.

 

15. gr.

Skírteinishafi skal hafa skírteinið meðferðis við skipstjórn og vélstjórn og sýna það þegar löggæslumaður krefst þess.

 

16. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum nr. 112/1984 með síðari breytingum og lögum um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum nr. 113/1984 með síðari breytingum, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

 

Samgönguráðuneytinu, 9. febrúar 1996.

 

Halldór Blöndal.

Jón Birgir Jónsson.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica