Samgönguráðuneyti

123/1999

Reglugerð um björgunarbáta sem gerðir eru út frá landi. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um björgunarbáta sem gerðir eru út frá landi.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um björgunarbáta sem hafin er smíði á eða koma til landsins eftir gildistöku reglugerðar þessarar og eru gerðir út frá landi. Þó gilda ákvæði í IV. kafla, um öryggisbúnað, fyrir alla björgunarbáta við fyrstu aðalskoðun eftir gildistöku reglugerðar þessarar.

2. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a)             Björgunarbátur er bátur sem er gerður til björgunar- og hjálparstarfa.

b)            Þilfarsbátur er bátur sem hefur þétt þilfar ofan hleðsluvatnslínu stafna á milli, frá síðu til síðu, nema þar sem þilfarið er rofið af veðurþéttri yfirbyggingu og lúgum, eða síðuvösum til að ná manni úr sjónum.

c)             Opinn bátur er bátur sem er ekki þilfarsbátur.

d)            Yfirbyggður bátur er bátur sem er yfirbyggður að einhverju leyti þannig að bátsverjar geti leitað skjóls.

e)             Lengd er skráningarlengd eins og hún er skilgreind í reglum nr. 527/1997 um mælingu skipa með lengd allt að 24 m.

f)             Mesta lengd er lengd bátsins mæld í metrum, frá öftustu brún til fremstu brúnar. Undanskildir eru slitlistar sem ekki teljast til flothólfa eða eru fastur hluti bátsins.

3. gr.

Viðurkenningar og skoðanir.

Reglugerð þessi er einkum miðuð við samþykkt á raðsmíðuðum bátum, þar sem fyrsti bátur hverrar bátsgerðar er skoðaður nákvæmlega og prófaður, en eftirlit með smíði annarra báta viðkomandi bátsgerðar fari fram með skyndiskoðunum.

Þegar bátsgerð hefur fengið viðurkenningu skal hver bátur bátsgerðarinnar vera eins og frumgerð hennar. Fyrir hverja bátsgerð skal framleiðandi setja upp gæðaeftirlit sem tryggir að bátarnir verði af sömu gæðum og frumgerðin.

Bátar sem eru sérsmíðaðir og ekki eintak í raðsmíði skulu skoðaðir og prófaðir á sama veg og frumgerð.

Allar breytingar og endurbætur á björgunarbátum eru háðar samþykki Siglingastofnunar Íslands.

Hver bátur skal skoðaður með tilliti til laga nr. 35/1993 um eftirlit með skipum. Búnaður sem ætlað er að rétta við báta á hvolfi skal prófaður árlega og loftslöngur sem reiknast sem flotholt skulu skoðaðar og þrýstiprófaðar minnst þriðja hvert ár.

4. gr.

Jafngildi og prófanir.

Siglingastofnun Íslands er heimilt að samþykkja jafngilda smíði, búnað eða fyrir-komulag og reglur þessar mæla fyrir um.

Siglingastofnun Íslands getur tekið gildar prófanir og samþykktir sem gerðar eru hjá stofnunum eða flokkunarfélögum sem viðurkennd eru.

5. gr.

Merking og öryggislitur.

Björgunarbátur skal merktur samkvæmt ákvæðum reglna nr. 493/1986 um merkingu skipa.

Auk þeirra merkinga sem tilgreindar eru í 1. mgr., skal björgunarbátur merktur með nafni skipasmíðastöðvar, smíðanúmeri og smíðaári.

Báturinn skal vera með öryggislit samkvæmt gildandi reglum.

II. KAFLI

Smíði og sjóhæfni.

6. gr.

Smíði og fyrirkomulag.

Bolur björgunarbáta úr hörðum efnum s.s. tré, stáli, áli eða trefjaplasti skal smíðaður skv. reglum nr. 592/1994 (Norðurlandareglum) um vinnubáta með mestu lengd allt að 15 m, með áorðnum breytingum eða sambærilegum reglum.

Vegna sérstakra nota björgunarbáta, skal við hönnun á undirstöðum og styrkingum fyrir vélar og annan búnað, taka tillit til þess álags sem þeir verða fyrir, svo sem við það að hvolfa og rétta sig við.

Hver bátur skal búinn föstum sætum fyrir áhöfn bátsins. Fyrir aðra bátsverja nægir að þeir geti setið á tryggan hátt innan skjólborðsklæðningar.

Þar sem gert er ráð fyrir sjúkrabörum, skulu vera tryggar festingar fyrir börurnar.

7. gr.

Fastur búnaður.

Hver björgunarbátur allt að 8 m að lengd skal búinn griplínu úr flothæfu efni, sem fest er utan á allan bátinn. Undanskilin eru svæði við stýri og skrúfu/drif.

Heimilt er að samþykkja annað fyrirkomulag en framangreint, sem gefur sömu möguleika til að ná handfestu á björgunarbátnum, hvort sem hann er á réttum kili eða á hvolfi.

Hver bátur skal búinn fullnægjandi handriði frá stjórntækjum bátsins fram að stefni, ef Siglingastofnun Íslands telur það nauðsynlegt.

8. gr.

Stöðugleiki.

Þegar björgunarbátur allt að 8 m að lengd er hlaðinn helmingi af heildarfjölda þeirra manna sem bátnum er ætlað að bera, sitjandi á þeim stöðum sem þeim eru ætlaðir annars vegar miðlínu, skal fríborð þeim megin mælt frá vatnslínu að efri brún þilfars, flothylkja eða slangna vera minnst 1,5% af mestu lengd, þó aldrei minna en 100 mm.

Björgunarbátur skal geta rétt sig við á innan við 5 mínútum. Ef nota þarf sérstakan búnað til að rétta bátinn við skal búnaðurinn þannig gerður að hægt sé að ræsa hann handvirkt af manni sem er í sjónum.

Við ræsi réttibúnaðar skulu vera handföng til að maður sem ræsir búnaðinn geti haldið sér í bátinn.

9. gr.

Flotholt.

Sérhver opinn björgunarbátur skal búinn flotholtum sem nægja til að halda bátnum sem næst láréttum á floti, fullum af vatni.

Flotholt eiga að vera úr frauðplasti sem varið er fyrir ákomu og vatni, hvort heldur það er í innbyggðum hólfum eða utanáliggjandi slöngum. Þó mega flotholtin vera innbyggðir geymar eða ófylltar slöngur, en þannig flotholtum skal skipt upp í hluta, sem hver um sig er ekki lengri en 20% af mestu lengd bátsins.

10. gr.

Slöngur.

Slöngur sem notaðar eru sem flotholt á björgunarbáta, skulu uppfylla viðeigandi ákvæði í ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar nr. A.689(17) og í dreifibréfi stofnunarinnar nr. MSC/Circ. 809.

III. KAFLI

Vélbúnaður.

11. gr.

Almennt.

Vélbúnaður og tengd kerfi björgunarbáta skulu uppfylla ákvæði reglna nr. 592/1994 (Norðurlandareglna) um vélbúnað vinnubáta og viðbótarákvæði við þær reglur, með áorðnum breytingum. Þó er heimilt að nota utanborðsbensínvélar.

Bátar sem knúnir eru utanborðsvél eða utanborðsdrifi skulu búnir hólk, grind eða öðrum jafngildum búnaði umhverfis skrúfuna til að koma í veg fyrir að fólk sem er í sjónum lendi í skrúfunni.

12. gr.

Eldsneytiskerfi.

Eldsneytiskerfið skal þannig gert að sjór komist ekki í kerfið, þó að bátnum hvolfi.

13. gr.

Smurolíukerfi.

Smurolíukerfi skal þannig gert að vélin missi ekki smurolíu við að bátnum hvolfi og skal vera hægt að ræsa vélina eftir að báturinn hefur rétt sig við, án þess að hætta sé á að hún skemmist.

14. gr.

Kælivatnskerfi.

Í bátum með tvær vélar skulu kælivatnsinntökin vera tvö, eitt fyrir hvora vél, og skulu þau staðsett svo langt frá hvoru öðru sem mögulegt er.

15. gr.

Austur- og slökkvibúnaður.

Austurbúnaður skal uppfylla ákvæði reglna nr. 592/1994 (Norðurlandareglna) um austurbúnað vinnubáta, með áorðnum breytingum.

Slökkvibúnaður skal uppfylla ákvæði reglna nr. 592/1994 (Norðurlandareglna) um slökkvibúnað vinnubáta, með áorðnum breytingum.

16. gr.

Rafbúnaður.

Rafbúnaður skal uppfylla ákvæði reglna nr. 592/1994 (Norðurlandareglna) um rafbúnað vinnubáta, með áorðnum breytingum.

Aðalrafkerfi skal geta starfað við allar aðstæður jafnvel eftir að báti hefur hvolft og hann rétt sig við aftur.

Rafgeymar skulu þola að snúast 360° um láréttan ás sinn og skulu ekki losna úr sæti sínu. Jafnframt skulu rafgeymar þola að vera á hvolfi í allt að 8 mínútur án þess að geymasýra leki úr þeim.

Þegar báturinn er í notkun má sjór ekki geta komist í rafgeymarými eða rafgeymakassa.

IV. KAFLI

Öryggisbúnaður.

17. gr.

Almennt.

Allur búnaður björgunarbáta skal vera tryggilega fastur eða geymdur í sérstökum vatnsheldum skápum eða rýmum. Búnaðinn má ekki geyma í rýmum sem með tilliti til sjóhæfni bátsins eiga að vera lokuð til sjós.

18. gr.

Ljós og tæki til hljóðmerkja.

Björgunarbátur skal búinn siglingaljósum og hljóðgjöfum skv. alþjóðasiglingareglum, sbr. lög nr. 7/1975.

Björgunarbátur skal búinn bláu blikkljósi og leitarljósi. Báturinn skal einnig búinn tveimur vatnsþéttum rafmagnsljósum sem nota má til morsmerkjagjafa.

19. gr.

Legufæri og tóg.

Legufæri björgunarbáta skulu vera skv. reglum nr. 592/1994 (Norðurlandareglum) um legufæri vinnubáta. Ákvæði um legufæri 15 m báta í línuriti á mynd 16.1, í reglum nr. 592/1994 (Norðurlandareglum), gilda fyrir björgunarbáta með mestu lengd 15 m og allt að 24 m að mestu lengd. Fyrir stærri björgunarbáta skal ákveða legufæri sérstaklega.

20. gr.

Talstöðvar.

Hver björgunarbátur skal búinn VHF talstöð fasttengdri við bátinn og skal talstöðin annað hvort vera vatnsheld eða vera í vatnsheldum kassa (IP 67) eða í stýrishúsi.

21. gr.

Sjúkrakassar.

Hver björgunarbátur skal búinn a.m.k. einum sjúkrakassa, þeirrar gerðar sem reglugerð nr. 365/1998, um heilbrigðisþjónustu, lyf og læknishöld um borð í íslenskum skipum, mælir fyrir um.

22. gr.

Flugeldar og blys.

Hver björgunarbátur skal búinn flugeldum og blysum í samræmi við reglur um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa, nr. 189/1994.

23. gr.

Gúmmíbjörgunarbátar.

Hver björgunarbátur skal búinn gúmmíbjörgunarbáti, samkvæmt grein 5.2. í reglum um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa, nr. 189/1994.

Sjálfréttandi björgunarbátar og björgunarbátar búnir réttibúnaði eru undanþegnir kröfum um gúmmíbjörgunarbáta, þó skulu björgunarbátar sem eru 10 m að lengd og lengri búnir gúmmíbjörgunarbát sem rúmar áhöfn björgunarbátsins.

24. gr.

Annar búnaður.

Hver björgunarbátur skal búinn eftirgreindum búnaði:

-

Áttavita.

-

Sjónauka.

-

Flotvinnubúningi fyrir hvern mann í áhöfn.

-

Krókstjaka.

-

Neti til að ná manni úr sjónum.

-

Tveimur kast- eða björgunarhringjum með minnst 30 m langri línu.

Hver opinn björgunarbátur skal auk þess búnaðar sem tilgreindur er í 1. mgr. búinn:

-

Hnífi.

-

Rekakkeri með hanafæti og minnst 30 metra langri línu með 10 kN slitþoli.

V. KAFLI

Viðurlög og gildistaka.

25. gr.

Viðurlög.

Um mál er rísa kunna út af brotum á reglugerð þessari fer að hætti opinberra mála. Um refsingar fer samkvæmt 29. gr. laga nr. 35/1993, um eftirlit með skipum, með áorðnum breytingum.

26. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 3. mgr. 1. gr. og 5. mgr. 3. gr. laga nr. 35/1993, um eftirlit með skipum, öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 5. febrúar 1999.

Halldór Blöndal.

__________________

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica