Samgönguráðuneyti

852/1999

Reglugerð um rannsóknarnefnd flugslysa - Brottfallin

REGLUGERÐ

um rannsóknarnefnd flugslysa.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til starfsemi rannsóknarnefndar flugslysa. Lögsaga rannsóknarnefndar flugslysa tekur til íslensks yfirráðasvæðis, svo og til alls hins íslenska flugstjórnarsvæðis að því er varðar flugumferðaratvik.

Nefndin skal m.a. rannsaka:

a) flugslys og flugatvik þar sem borgaralega skráð loftför eiga hlut að máli og sem verða á eða yfir íslensku yfirráðasvæði,

b) flugslys og flugatvik þar sem loftför skráð á Íslandi eiga hlut að máli og sem verða utan yfirráðasvæðis annarra ríkja eða á svæði þar sem viðkomandi ríki hefur ekki skuldbundið sig til þess að framkvæma rannsóknina,

c) flugumferðaratvik sem verða á eða yfir íslensku yfirráðasvæði eða á íslensku flugstjórnarsvæði,

d) flugatvik sem verða utan íslensks yfirráðasvæðis þar sem loftför skrásett á Íslandi eiga hlut að máli, nema því aðeins að viðkomandi ríki framkvæmi rannsóknina.

2. gr.

Orðskýringar.

Þegar eftirfarandi orð eða orðasambönd eru notuð í þessari reglugerð, hafa þau þá merkingu sem hér segir:

Aðili máls: Sá eða þeir sem rannsókn leiðir í ljós að geti hafa átt þátt í því að flugslys, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1996, varð að mati nefndarinnar.

Alvarleg meiðsl (Serious injury): Meiðsl sem maður hefur hlotið í slysi og:

a) leiða til sjúkrahúsvistar sem varir lengur en 48 klukkustundir og hefst innan 7 daga frá því að maðurinn slasaðist; eða

b) valda beinbroti (fyrir utan minni háttar brot á fingrum, tám eða nefi); eða

c) valda skurðsárum sem af leiðir alvarlegar blæðingar eða skemmdir á taugum, vöðvum eða sinum; eða

d) innri líffæri skaddast; eða

e) valda annars eða þriðja stigs bruna eða brunasárum sem þekja meira en 5% af yfirborði líkamans; eða

f) hafa sannarlega valdið því, að menn hafi komist í snertingu við smitandi efni eða skaðlega geislun.

Áfangaskýrsla: Skýrsla sem varðar flugöryggi og rannsóknarnefnd flugslysa gefur út áður en rannsókn máls er lokið, til þess að koma upplýsingum á framfæri við flugmálayfirvöld og málsaðila.

Flugatvik (Aircraft incident): Atburður, annar en flugslys, sem tengist starfrækslu loftfars og hefur eða getur haft áhrif á starfræksluöryggi.

Flugriti (Flight Recorder): Hvers konar upptökutæki sem komið er fyrir í loftfari til að auðvelda rannsókn flugslyss eða flugatviks.

Flugumferðaratvik (Air traffic incident): Flugatvik sem aðallega tengist reglum er varða flugumferðarþjónustu og þar sem loftför fara framhjá hvort öðru í slíkri nánd að hættuástand verður, eða þar sem aðrir erfiðleikar, sem orsakast af ófullnægjandi starfsaðferðum, eða af því að ekki var farið eftir viðurkenndum starfsaðferðum, eða af göllum í tækjabúnaði á jörðu, valda því að hættuástand verður.

Flugslys (Aircraft accident): Atburður sem gerist í tengslum við starfrækslu loftfars frá því að maður fer um borð í loftfarið í þeim tilgangi að fljúga með því og þar til allir eru farnir frá borði, þar sem:

a) maður lætur lífið eða hlýtur alvarleg meiðsl vegna þess að:

- hann var um borð í loftfarinu, eða

- hann var í beinni snertingu við einhvern hluta loftfarsins, þar á meðal hluta sem hafa losnað frá loftfarinu, eða

- hann varð fyrir útblæstri þotuhreyfils

nema þegar meiðslin eiga sér eðlilegar orsakir, eru af völdum mannsins sjálfs eða annarra, eða þegar meiðsl verða á laumufarþegum sem leynast utan svæðis sem farþegar og áhöfn hafa venjulega aðgang að; eða

b) loftfar verður fyrir skemmdum eða bilun eða brestur verður í burðarvirki þess sem:

- hefur veruleg áhrif á styrkleika þess, afkastagetu eða flugeiginleika og

- myndi að öllu jöfnu krefjast mikillar viðgerðar eða þess að skipt væri um viðkomandi íhluta,

nema um sé að ræða hreyfilbilun eða skemmd sem takmarkast við hreyfil, hlífar hans eða fylgibúnað eða um er að ræða skemmdir sem takmarkast við loftskrúfur, vængenda, loftnet, hjólbarða, hemla, hlífar, smádældir eða göt á ytra byrði loftfarsins; eða

c) loftfars er saknað eða engin leið er að komast að því.

Orsakir (Causes): Aðgerðir, aðgerðarleysi, atvik eða aðstæður, eða sambland af þessu, sem leiddi til flugslyss eða flugatviks.

Rannsókn (Investigation): Hún er ferli athugana sem gerðar eru í því skyni að fyrirbyggja flugslys og flugatvik og felst í því að safna upplýsingum og greina þær, draga af þeim áklyktanir, þar á meðal að ákvarða orsakir og setja fram tillögur í öryggisátt þegar það á við.

Rannsóknarstjóri flugslysa (Chief Inspector of Accidents): Framkvæmdastjóri rannsóknarnefndar flugslysa, sbr. 3. gr. laga nr. 59/1996.

Stjórnandi rannsóknar (Investigator in Charge): Maður sem, á grundvelli menntunar og hæfis, ber ábyrgð á skipulagningu, framkvæmd og stjórn einstakrar rannsóknar.

Tillaga í öryggisátt (Safety Recommendation): Tillögur frá rannsóknarnefnd flugslysa, byggðar á upplýsingum úr tiltekinni rannsókn og settar fram í því skyni að koma í veg fyrir flugslys og flugatvik.

3. gr.

Heiti og skipan nefndarinnar.

Nefndin heitir rannsóknarnefnd flugslysa, skammstafað RNF, á ensku Aircraft Accident Investigation Board, skammstafað AAIB.

Nefndin, sem hefur aðsetur í Reykjavík, heyrir stjórnsýslulega undir samgönguráðherra.

Í nefndinni eiga sæti fimm menn. Einn skal vera formaður nefndarinnar og annar varaformaður. Samgönguráðherra ræður þá sérstaklega til starfa í nefndinni en skipar aðra nefndarmenn til fjögurra ára í senn.

Formaður og varaformaður nefndarinnar skulu hafa sérmenntun, þjálfun og starfsreynslu á sviði flugslysarannsókna. Aðrir nefndarmenn skulu hafa menntun og starfsreynslu á þeim sviðum sem sérstaklega nýtast við flugslysarannsóknir.

4. gr.

Þagnarskylda og hæfi nefndarmanna.

Nefndarmönnum, starfsmönnum og ráðgjöfum nefndarinnar er bannað að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra óviðkomandi aðilum frá upplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

Ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda um sérstakt hæfi nefndarmanna.

5. gr.

Rannsókn máls.

Tilgangur með rannsókn nefndarinnar á flugslysi, flugatviki eða flugumferðaratviki er sá einn að koma í veg fyrir slíka atburði. Tilgangur rannsóknar er ekki að ákvarða sök eða ábyrgð.

Um störf nefndarinnar skulu gilda ákvæði tilskipunar ráðsins 94/56/EB frá 21. nóvember 1994 um setningu grundvallarreglna við rannsóknir á flugslysum og flugatvikum í almenningsflugi. Í starfi sínu skal nefndin ennfremur taka sérstakt tillit til ákvæða viðauka nr. 13 við Alþjóðaflugmálasáttmálann (ICAO Annex-13) ásamt fylgiritum hans.

Allir nefndarmenn skulu að jafnaði taka þátt í rannsókn máls og aldrei færri en þrír og skal einn þeirra vera stjórnandi rannsóknarinnar (Investigator in Charge).

6. gr.

Nefndarfundir.

Ákvarðanir nefndarinnar skulu teknar á fundum. Fundur nefndarinnar er lögmætur ef þrír nefndarmanna sitja hann.

Nefndin heldur fundi eftir þörfum. Formaður boðar fundi og stjórnar þeim.

Nefndin heldur fundargerðabók sem samþykkt skal af samgönguráðherra.

7. gr.

Um formann nefndarinnar.

Formaður nefndarinnar er rannsóknarstjóri flugslysa. Hann er yfirmaður skrifstofu nefndarinnar og stjórnar störfum hennar. Varaformaður er staðgengill formanns og eru gerðir hans jafngildar og ef formaður hefði að þeim staðið.

Formaður ber m.a. ábyrgð á endanlegum frágangi rannsóknarskýrslna nefndarinnar og undirritar þær einn fyrir hennar hönd.

Formaður er ritstjóri ársskýrslu nefndarinnar.

Formaður ber ábyrgð á fjármálum og bókhaldi nefndarinnar.

Formaður eða varaformaður stjórna að jafnaði rannsókn máls. Formaður getur falið einhverjum öðrum nefndarmönnum slíka stjórn rannsóknar, sbr. 5. gr.

8. gr.

Sjálfstæði og rannsóknarforræði nefndarinnar.

Rannsóknarnefnd flugslysa starfar sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Hún ákveður sjálf hvenær efni eru til rannsóknar flugslyss eða flugatviks.

Rannsókn á meintri refsiverðri háttsemi í tengslum við flugslys, flugatvik eða flugumferðaratvik er óháð rannsókn samkvæmt þessari reglugerð.

Nefndin ákveður endanlegt umfang rannsóknar, fyrst og fremst með tilliti til gildis hennar hvað flugöryggi varðar.

9. gr.

Sérfræðiaðstoð.

Nefndin getur leitað eftir nauðsynlegri sérfræðiaðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 59/1996, eftir því sem hún telur þörf í hverju máli.

10. gr.

Skylda Flugmálastjórnar til að láta nefndinni í té gögn.

Flugmálastjórn er skylt að láta nefndinni í té hvers konar gögn sem hún hefur í höndum og nauðsynleg eru til rannsóknar máls, t.d. gögn er varða loftfarið og þá aðila sem málinu tengjast, þar á meðal heilsufarslegar upplýsingar.

Mat nefndarinnar um hvað teljist nauðsynleg gögn í þessu sambandi er endanlegt.

11. gr.

Meðferð minni háttar mála.

Nefndin getur ákveðið að ljúka rannsókn í minni háttar málum með bókun í fundargerðabók og er þá rannsóknarskýrsla ekki gefin út.

12. gr.

Útgáfa áfangaskýrslna.

Nefndin getur gefið út áfangaskýrslu telji hún þess þörf vegna eðli máls.

13. gr.

Persónuskilríki nefndarmanna.

Samgönguráðherra lætur nefndarmönnum í té persónuskilríki til sönnunar um réttarstöðu þeirra og heimildir í störfum.

14. gr.

Skrifstofuaðstaða, útbúnaður og tæki nefndarinnar.

Nefndin skal afla sér þess búnaðar sem nauðsynlegur er, svo sem til skrifstofuhalds, ferðalaga, rannsókna á vettvangi og fjarskipta. Skal í því efni höfð hliðsjón af handbók Alþjóðaflugmálastofnunarinnar fyrir rannsakendur flugslysa, Manual of Aircraft Accident Investigation, DOC 6920-AN/855/4, með síðari breytingum.

Nefndarmenn ásamt tilkvöddum sérfræðingum, sbr. 9 gr., skulu í starfi sínu slysatryggðir í samræmi við áhættu þá sem starfið felur í sér.

15. gr.

Opinber birting á hvernig úrbótatillögum hefur verið framfylgt.

Nefndin skal árlega birta opinberlega yfirlit um það, hvernig úrbótatillögum hennar (tillögum í öryggisátt), sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 59/1996, hefur verið framfylgt.

16. gr.

Geymsla og afhending málsgagna.

Nefndin skal varðveita í öruggum geymslum gögn sem þýðingu hafa í rannsókn máls. Hljóðritanir teknar á segulbönd skulu varðveittar í öruggri, læstri og eldvarinni geymslu. Gögn þau úr flugrita sem nefndin hefur stuðst við skulu varðveitt á sama hátt og hljóðritanir.

Nefndin skal takmarka opinbera birtingu á töluðu máli samkvæmt hljóðritunum og flugritum við það sem beinlínis tengist viðkomandi flugslysi eða atviki sem rannsakað er.

Ekki skal afhenda gögn sem geyma framburð aðila og vitna fyrir nefndinni.

17. gr.

Samningar og samráð við aðra aðila.

Nefndin skal gera formlegan samning við Flugmálastjórn um skyldubundna aðstoð við einstakar rannsóknir nefndarinnar, sbr. 3. mgr. 6 gr. laga nr. 59/1996, gagnkvæmar upplýsingar og tilkynningar svo og málsmeðferð varðandi tilkynningar og aðvaranir vegna flugöryggis. Samningurinn skal vera staðfestur af samgönguráðherra.

Nefndin skal gæta þess að hafa eðlilegt samráð við aðra rannsóknaraðila sem starfa eftir sérlögum þegar rannsóknarskylda nefndarinnar skarast við slíka aðila.

Nefndin skal leitast við að hafa góða samvinnu við sams konar aðila annarra þjóða, svo sem þátttöku í árlegum norrænum fundum rannsakenda flugslysa, í starfi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) svo og Evrópusambands flugmálastjórna (ECAC). Nefndin skal taka þátt í alþjóðasamskiptum að því er flugöryggismál varðar, svo og í rannsóknum sbr. 4. og 5. lið 6. gr. tilskipunar ráðs Evrópubandalagsins nr. 94/56/EB.

Rannsóknarnefnd flugslysa og Flugmálastjórn skulu samræma sín í milli, samskipti við ICAO og ECAC um málefni sem varða starfsemi rannsóknarnefndar flugslysa.

18. gr.

Símenntun nefndarmanna.

Nefndarmenn skulu, eftir því sem fjárveitingar leyfa, sækja námskeið varðandi rannsóknartækni flugslysa, til viðhalds kunnáttu sinni og færni, svo sem tíðkast um sambærilega rannsóknaraðila í öðrum löndum. Stefnt skal að því að einn nefndarmanna sæki að jafnaði endurmenntunarnámskeið ár hvert.

19. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 18. gr. laga nr. 59 frá 21. maí 1996 um rannsókn flugslysa og öðlast gildi við birtingu. Jafnframt falla úr gildi starfsreglur fyrir flugslysanefnd nr. 324/1983.

Samgönguráðuneytinu, 6. desember 1999.

Sturla Böðvarsson.

Halldór S. Kristjánsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica