I. KAFLI
Inngangur.
1. gr.
Símatorg er upplýsingaþjónusta, sem rekstrarleyfishafa er heimilt að bjóða fram í tengslum við talsímaþjónustu á stafrænu neti. Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar, sem vilja veita upplýsingar á símatorginu nefnast upplýsingaveitendur. Einungis þeir, sem hafa fengið leyfi til reksturs talsímaþjónustu, mega tengja saman notendur og upplýsingaveitendur. Upplýsingar skulu lesnar inn á sjálfvirkan svörunarbúnað og má nálgast þær með því að hringja í sérstök uppkallsnúmer, sem rekstrarleyfishafi í talsímaþjónustu úthlutar upplýsingaveitanda í samræmi við verðflokka þjónustunnar. Heimilt er að taka aukagjald fyrir símtöl við símatorgsnúmer.
II. KAFLI
Skráning, ábyrgð og þagnarskylda.
2. gr.
Upplýsingaveitandi, sem óskar eftir að veita upplýsingaþjónustu á símatorgi, skal sækja um tengingu og símatorgsnúmer til rekstrarleyfishafa í talsímaþjónustu. Í umsókn skal koma fram nafn, kennitala og heimilisfang upplýsingaveitanda ásamt upplýsingum um fyrirhugaða upplýsingaþjónustu. Einnig skal tilgreina hver er ábyrgðarmaður þeirra upplýsinga sem veittar verða í upplýsingaþjónustunni.
Áður en opnað er fyrir tengingu til upplýsingaveitanda skal rekstrarleyfishafi tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um hinn nýja upplýsingaveitanda.
Enginn upplýsingaveitandi getur fengið eða áskilið sér einkarétt á þjónustu á símatorgi.
3. gr.
Öll svörun í númer á símatorgi skal vera sjálfvirk. Upplýsingaveitandi skal varðveita upplýsingatexta í a.m.k. 6 mánuði eftir að hætt hefur verið að nota hann.
4. gr.
Upplýsingaveitandi ber einn ábyrgð á upplýsingum, sem hann lætur í té á símatorginu.
5. gr.
Upplýsingaveitandi og starfsmenn sem og rekstrarleyfishafi og starfsmenn hans skulu bundnir þagnarskyldu gagnvart notendum í samræmi við fjarskiptalög. Óheimilt er að veita öðrum upplýsingar um notkun símatorgs en rétthafa viðkomandi síma og upplýsingaveitanda.
III. KAFLI
Flokkun þjónustu og gjaldflokkar.
6. gr.
Uppkallsnúmer og verðflokkar skulu tengjast með þeim hætti að verðflokk þjónustu megi sjá af uppkallsnúmeraröðinni, t.d.
1. flokkur 901 xxxx
2. flokkur 902 xxxx
3. flokkur 903 xxxx
4. flokkur 904 xxxx
5. flokkur 905 xxxx
Rekstrarleyfishafi ákveður mínútugjald í hverjum verðflokki fyrir sig. Heimilt er rekstrarleyfishafa að ákveða að aðgangur að upplýsingaþjónustu í verðflokkum, einum eða fleiri, sé bundinn áskrift.
7. gr.
Rekstrarleyfishafa er skylt að læsa fyrir aðgang símanotanda að símatorgi, ef hann óskar þess skriflega. Símanotandi skal eiga þess kost að læsa annað hvort fyrir alla símatorgsþjónustu eða fyrir alla flokka nema þá tvo lægstu. Fyrsta læsing skal vera endurgjaldslaus, en kostnað af enduropnun og endurlæsingu ber símanotandi.
8. gr.
Rekstrarleyfishafa er heimilt að breyta uppkallsnúmeri í símatorgsþjónustu af tæknilegum ástæðum, enda sé það gert með hæfilegum fyrirvara.
IV. KAFLI
Almennar takmarkanir á efni þjónustu á símatorgi.
9. gr.
Hámarkslengd símtals við símatorgsnúmer skal vera 30 mínútur. Símtal skal hins vegar rofið eftir 10 mínútur hafi ekki komið til nein aðgerð af hálfu símanotanda. Upplýsingaveitandi er ábyrgur fyrir því að búnaður hans rjúfi símtal þegar þessum hámarkstímum er náð.
10. gr.
Efni, sem er sérstaklega ætlað börnum, má ekki taka lengri tíma en 10 mínútur og skal vera í 1. eða 2. gjaldflokki.
11. gr.
Rabblínur, þ.e. samtenging notenda í einu símtali, eru ekki leyfilegar á símatorgi. Póst- og fjarskiptastofnun getur í einstökum tilfellum heimilað uppsetningu leikja á símatorgi enda sé þeim að fullu lokið innan 10 mínútna.
12. gr.
Óheimilt er að kynna eða auglýsa annað uppkallsnúmer í símatorgssímtali.
13. gr.
Óheimilt er hafa á símatorgi efni, sem brýtur gegn almennum siðgæðisreglum svo sem efni, sem hvetur til ofbeldis og glæpa eða efni, sem kynnir eða tengist kynferðislegum athöfnum eða líkir eftir þeim.
V. KAFLI
Gjaldtaka og innheimta greiðslna.
14. gr.
Upplýsingaveitandi greiðir rekstrarleyfishafa fyrir númer og línur í samræmi við gjaldskrá hins síðarnefnda. Rekstrarleyfishafi annast innheimtu símatorgsgjalda með símareikningum eða með sérstökum reikningi. Ef símatorgsgjald er innheimt með símareikningi skal koma fram hvert var heildargjald fyrir símatorgsþjónustu á viðkomandi tímabili.
Rétthafi síma á rétt á að fá sundurliðun á símatorgsnotkun sinni, ef hann leggur fram skriflega beiðni þar að lútandi. Hann skal á beiðninni staðfesta að öðrum notendum símans hafi verið gerð grein fyrir því að símtöl í símatorgsþjónustu verði sundurliðuð á símareikningum. Fyrir sundurliðun reikninga greiðist samkvæmt gjaldskrá rekstrarleyfishafa.
Rekstrarleyfishafa er ekki heimilt að loka síma vegna vanskila fyrir símatorgssímtöl.
Rekstrarleyfishafi skal í samningi við upplýsingaveitanda ákveða skiptingu mínútugjaldsins milli þeirra svo og hvenær uppgjör fari fram.
Rekstrarleyfishafa er heimilt að draga frá í uppgjöri hlut upplýsingaveitanda vegna vanskila símanotenda fyrir símatorgsímtöl. Hafi upplýsingaveitandi þegar fengið greiðslu fyrir slík símtöl er heimilt að krefja hann um endurgreiðslu. Rekstrarleyfishafa er ennfremur heimilt að krefja upplýsingaveitanda um greiðslu kostnaðar við árangurslausar innheimtutilraunir reikninga fyrir símatorgsþjónustu í hlutfalli við þá fjárhæð, sem fallið hefði í hlut viðkomandi upplýsingaveitanda. Rekstrarleyfishafi skal gefa viðhlítandi skýringar á slíkum kostnaði.
VI. KAFLI
Auglýsingar og kynning.
15. gr.
Í öllum auglýsingum og kynningu um símatorgsþjónustu skal koma fram á skýran hátt verð fyrir hverja mínútu. Í prentuðum auglýsingum og myndauglýsingum skulu verðupplýsingar vera með a.m.k. jafnstórum stöfum og megintexti.
Í auglýsingum og kynningu skal ekki gefa til kynna að veittar séu aðrar eða víðtækari upplýsingar en fram koma við uppkall. Auglýsingar og kynning skulu ekki brjóta í bága við ákvæði 13. gr.
16. gr.
Upplýsingaveitendur mega eingöngu vísa til þjónustu hvers annars í markaðsaðgerðum að um það hafi verið gerður samningur þeirra á milli. Rekstrarleyfishafa er heimilt í sínum markaðsaðgerðum að vísa til upplýsingaveitenda, sem hann hefur á samningi.
Rekstrarleyfishafa er heimilt að krefjast þess að markaðsaðgerðir upplýsingaveitenda séu ekki í ósamræmi við afkastagetu þeirra.
17. gr.
Þagnarskylda um símatorgsþjónustu skal ríkja milli rekstrarleyfishafa og upplýsingaveitanda í samræmi við góða viðskiptahætti.
VII. KAFLI
Eftirlit.
18. gr.
Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með því að rekstrarleyfishafar og upplýsingaveitendur fylgi ákvæðum fjarskiptalaga og reglugerðar þessarar.
Eftirlit Póst- og fjarskiptastofnunar skal m.a. felast í upphringingum í uppkallsnúmer upplýsingaveitenda. Hver rekstrarleyfishafi, sem starfrækir símatorg, skal úthluta Póst- og fjarskiptastofnun sérnúmeri, sem stofnunin skal nota eingöngu til eftirlits. Rekstrarleyfishafi skal ekki gjaldfæra Póst- og fjarskiptastofnun fyrir slík númer og notkun sem tengjast þeim né á upplýsingaveitandi rétt á greiðslu fyrir uppköll úr slíkum númerum.
Póst- og fjarskiptastofnun getur við mat á því hvort upplýsingar, sem veittar eru á símatorgi, brjóti gegn ákvæðum 13. gr. um almennar siðgæðisreglur, leitað til sérstakrar símatorgsnefndar, sem samgönguráðherra skipar til þriggja ára í senn. Nefndin skal skipuð fjórum fulltrúum, einum frá hverjum eftirtalinna aðila: Samgönguráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, barnaverndarráði og Neytendasamtökunum. Nefndin velur sér sjálf formann. Hún kemur saman að ósk Póst- og fjarskiptastofnunar eða að frumkvæði einstakra nefndarmanna og skal gefa álit á því, hvort efni á símatorgi stríði gegn almennum siðgæðisreglum. Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa álit nefndarinnar til hliðsjónar við endanlega ákvörðun sína um málið.
Árleg þóknun nefndarmanna ákveðst af þóknunarnefnd og skal hún greidd úr ríkissjóði.
VIII. KAFLI
Viðurlög og heimild til lokunar.
19. gr.
Ef talið er að upplýsingaveitandi brjóti gegn almennum ákvæðum reglugerðar þessarar skal Póst- og fjarskiptastofnun gefa honum kost á að bæta úr því.
Við ítrekuð eða stórfelld brot getur stofnunin skyldað rekstrarleyfishafa til að loka uppkallsnúmeri upplýsingaveitanda.
Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að láta loka fyrirvaralaust uppkallsnúmeri upplýsingaveitanda, sem veitir upplýsingar, sem stofnunin telur brjóta gegn almennu siðgæði. Innan viku frá slíkri lokun skal stofnunin vísa málinu til símatorgsnefndar. Upplýsingaveitandi á ekki kröfu á skaðabótum vegna lokana.
20. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 143/1996 og staðfestist hér með til að taka gildi 1. júní 1997 og birtist til eftirbreytni öllum, sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 419/1992 um símatorgsþjónustu.
Samgönguráðuneytinu, 27. maí 1997.
Halldór Blöndal.
Ragnhildur Hjaltadóttir.