Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

45/1989

Reglugerð um starfrækslu jarðstöðva fyrir móttöku sjónvarpsefnis um fjarskiptatungl

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um starfrækslu jarðstöðva til móttöku sjónvarpsefnis, sem flutt er um fjarskiptatungl. Jarðstöð merkir hér hvers konar búnað, sem notaður er til að koma á fjarskiptasambandi um fjarskiptatungl.

Reglugerð þessi tekur þó ekki til sendinga frá sjónvarpsgervitunglum sem gagngert eru ætlaðar til að dreifa dagskrá beint til notenda.

2. gr.

Ráðherra gefur út leyfi til einstaklinga til að starfrækja jarðstöðvar til móttöku sjónvarpsefnis fyrir eigin not.

Ráðherra gefur einnig út starfræksluleyfi til aðila, sem dreifa mótteknu sjónvarpsefni innanhúss, þó ekki í atvinnuskyni.

Leyfi verður einungis veitt að fengnu samþykki eigenda fjarskiptatunglsins og viðurkenn­ingu á því að móttökubúnaðurinn sé í samræmi við setta staðla.

Umsækjandi ber ábyrgð á að heimildar rétthafa hinnar tilteknu sjónvarpsrásar hafi verið aflað.

Leyfi samkvæmt þessari grein gilda í 10 ár.

Áður en afstaða er tekin til umsókna um leyfi samkvæmt 1. og 2. mgr. skal leita umsagnar Póst- og símamálastofnunar um erindin.

3. gr.

Seljendur móttökubúnaðar skulu fullvissa sig um að kaupendur og notendur búnaðarins hafi aflað tilskilinna leyfa samkvæmt 2. gr. , áður en hann er afhentur.

4. gr.

Umsóknir um leyfi skulu sendar samgönguráðuneytinu ásamt nákvæmari lýsingu á þeim búnaði sem verður notaður.

5. gr.

Í þeim tilvikum, sem sjónvarpsefni frá fjarskiptatunglum er dreift áfram til almennings um útvarpsdreifikerfi, hvort sem það kann að vera gert á vegum opinberra stofnana eða einkaaðila á sviði sjónvarpsrekstrar, annast Póst- og símamálastofnun móttöku þess og sendingu ef um hana er að ræða.

Þegar um er að ræða tímabundna móttöku efnis getur stofnunin heimilað viðkomandi aðila að annast móttökuna sjálfur undir eftirliti.

6. gr.

Þeir sem taka á móti sjónvarpsefni frá fjarskiptatunglum eru ábyrgir fyrir greiðslu á afnotagjöldum, sem eigendur fjarskiptatunglanna krefjast fyrir aðgang að sendingum þeirra. Póst- og símamálastofnun sér um innheimtu gjaldanna.

7. gr.

Gjöld fyrir starfræksluleyfi samkvæmt 2. gr. reglugerðar þessarar skulu ákveðin með gjaldskrá sem ráðherra setur.

Gjöldin renna í ríkissjóð.

8. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 73/1984.

9. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 9. gr. laga nr. 73, 28. maí 1984, um fjarskipti, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 7, 8. janúar 1986 sbr. nr. 314/1986.

Samgönguráðuneytið, 11. janúar 1989.

Steingrímur J. Sigfússon.

Ragnhildur Hjaltadóttir.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica