Samgönguráðuneyti

739/1983

Reglugerð um einkennisbúning starfsmanna flugmálastjórnarinnar - Brottfallin

I. KAFLI

Gerð einkennisfatnaðar.

1. gr.

Einkennisbúningur sem um getur í reglugerð þessari og hin ýmsu einkenni, sem á honum eru, er til að gefa til kynna að sá sem hann ber sé starfandi hjá flugmálastjórn og hvert starf hans er.

2. gr.

Einkennisbúningur starfsmanna flugmálastjórnar skal vera sem hér segir:

a) Húfa úr bláu ullarefni með 5 cm breiðri uppstandandi gjörð, 6 cm breiðri reisn, gljáleðurskyggni og hökuól. Á gjörð skal vera 4 cm breiður svartur borði.

b) Jakki úr bláu ullarefni. Skal hann vera einhnepptur, með þremur hnöppum af stærri gerð og skal hneppt á þá alla. Á ermum skulu vera minni hnappar, tveir á hvorri. Hnappar skulu vera gylltir með merki flugmálastjórnar. Á ermum skulu vera einkenni er tákna stöðu viðkomandi starfsmanns, sem nánar er lýst í 4. gr. Á hægra brjósti skal borið merki flugmálastjórnar, ásamt nafni og stöðu viðkomandi.

c) Buxur, án uppbrota eða pils úr sama efni og jakkinn.

d) Yfirhafnir:

1. Frakki I, úr bláu efni, skal vera tvíhnepptur, með belti, án gylltra hnappa eða annarra einkenna.

2. Frakki II, vetrarfrakki skal vera með einkennum og gylltum hnöppum.

3. Nota má hlífðarúlpu með hettu.

Fatnað skv. þessum lið skal ekki afhenda oftar en á þriggja ára fresti.

e) Við búninginn skal nota hvíta skyrtu og blátt einlitt hálsbindi. Hálsklútur dökkblár.

f) Afgreiðslumenn flugvéla og aðrir sem gegna svipuðum störfum skulu klæðast bláleitum vinnufötum, með einkennum er síðar verða ákveðin.

II. KAFLI

Stöðueinkenni starfsmanna flugmálastjórnar.

3. gr.

Eftirtaldir starfsmenn flugmálastjórnar skulu bera einkennisbúning við störf sín, þegar þess er óskað af næsta yfirmanni:

  1. Flugmálastjóri og fulltrúar hans.
  2. Á Reykjavíkurflugvelli:

Flugumferðarstjórar, slökkviliðsmenn, loftferðaeftirlitsmenn og aðrir sem rétt hafa á einkennisbúningi skv. kjarasamningi.

c) Á Keflavíkurflugvelli:

Allir starfsmenn flugmálastjórnar.

4. gr.

Einkennismerki skulu vera sem hér segir:

a) Flugmálastjóri:

Á húfuskyggni tveir gylltir, útsaumaðir borðar. Á ermum fjórir gylltir borðar, sá fjórði með slaufu.

b) Framkvæmdastjórar, flugvallastjórar í Reykjavík og Keflavík og flugstjóri vélar flugmálastjórnar:

Á húfuskyggni, gylltur útsaumaður borði. Á ermum fjórir gylltir borðar.

c) Yfirflugumferðastjóri, slökkviliðsstjóri, umdæmisstjórar og deildarstjórar: Á ermum þrír gylltir borðar.

d) Varðstjórar flugumferðarstjórnar og slökkviliðs, verkstjórar radíódeildar og eftirlitsmenn:

Á ermum tveir gylltir borðar.

e) Flugumferðarstjórar, slökkviliðsmenn og radíómenn: Á ermum einn gylltur borði.

5. gr.

Starfsmönnum er óheimilt að nota önnur einkenni en þau sem eiga við stöðu þeirra og lýst er hér að framan. Þó getur flugmálastjóri síðar sett ákvæði um merki sem starfsmenn bera, önnur en þau sem þegar eru talin.

III. KAFLI

Úthlutun einkennisfatnaðar.

6. gr.

Framangreindir starfsmenn eiga rétt á einkennisbúningi, allt að þriðja hvert ár. Þess á milli eiga þeir rétt á vinnufatnaði.

7. gr.

Starfsmaður skal sjálfur kaupa fatnað tilheyrandi einkennisbúningi, s.s. skyrtu og skó. Þó skulu starfsmenn í slökkviliði Reykjavíkurflugvallar og starfsmenn radíódeildar fá skyrtu og bindi árlega.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

8. gr.

Flugmálastjóri setur nánari reglur um framkomu og hegðun starfsmanna flugmálastjórnar, þegar þeir bera einkennisbúning.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. lögum nr. 119 28. desember 1950 um stjórn flugmála, til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 204 16. október 1952 um sama efni.

Samgönguráðuneytið, 18. október 1983.

Matthías Bjarnason.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica