Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

326/2000

Reglugerð um flugmálahandbók útgefna af Flugmálastjórn Íslands.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Flugmálahandbók Flugmálastjórnar Íslands er gefin út í þremur deildum. Nefnast þær:

(1) AIP Ísland - Iceland;

(2) Reglur um loftferðir og

(3) Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands.

Flugmálahandbók skal skjalastýrt og uppfærslur og breytingar gefnar út eins og þörf krefur. Einnig er heimilt að gefa flugmálahandbók út á rafrænu formi að hluta eða öllu leyti.

2. gr.

Flugupplýsingahandbók AIP (Aeronautical Information Publication) er gefin út á íslensku og ensku. Í flugupplýsingahandbók koma fram undirstöðuupplýsingar um íslensk flugmál, flugleiðsögukerfi og flugvelli. Upplýsingar er varða alþjóðaflug og aðflugskort skal rita á ensku.

3. gr.

Í 2. deild (Reglur um loftferðir) er samantekt um helstu lög og reglur er snerta loftferðir, rekstur loftfara, flugvelli og flugumferð ásamt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland hefur gengist undir, hvort sem er með milliríkjasamningum eða skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Umfangsins vegna er heimilt að takmarka efni við það sem helst snertir flugöryggi.

4. gr.

Í 3. deild (Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands) eru birtar upplýsingar um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli 140. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 og reglna settra samkvæmt þeim sem almennt gildi hafa en birtast eigi í Stjórnartíðindum.

Flugmálastjórn ákvarðar hvort efni skv. 1. mgr. skuli birta á íslensku eða ensku og skal setja sér verklagsreglur þar um. Heimilt skal að birta tæknilega staðla á ensku eingöngu.

5. gr.

Allir handhafar flugrekstrarleyfa og flugkennsluleyfa skulu vera áskrifendur að flugmálahandbók Flugmálastjórnar Íslands. Flugmálastjórn er heimilt að telja fullnægjandi tölvukost og aðgang að Lýðnetinu (Internetinu) jafngildan áskrift að 2. og 3. deild. Handhafa skírteinis flugmanns er rétt að vera áskrifandi að 1. deild flugmálahandbókar, eða hafa aðgang að henni hjá atvinnurekanda sínum.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 140. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir, öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 5. maí 2000.

Sturla Böðvarsson.

Halldór S. Kristjánsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.