Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

493/1988

Reglugerð um rekstur radíóstöðva

1. gr.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð og orðasambönd þá merkingu er hér greinir: Radíóstöð er einn eða fleiri radíósendar eða radíómóttakarar eða sambland hvors tveggja að meðtöldum öllum aukabúnaði, sem nauðsynlegt er að hafa á einum stað til að geta tekið þátt í radíófjarskiptum. Hver radíóstöð skal kennd við þá þjónustu, sem henni er ætlað að taka þátt í.

Radíóbylgjur eru rafsegulbylgjur með tíðni (radíótíðni) allt að 3000 gígaherz (GHz), sem breiðast út í eða utan gufuhvolfsins án tilbúins leiðara.

Radíóþjónusta er fjarskiptastarfsemi, sem byggir á sendingu, útgeislun og/eða móttöku radíóbylgju.

Radíómiðun er móttaka radíóbylgju í þeim tilgangi að miða út radíóstöð. Radíóstjörnufræði er stjörnuathugun, byggð á móttöku radíóbylgju utan úr geimnum. Vísinda- og iðnaðarradíó er starfræksla tækja eða búnaðar til að framleiða og nota

staðbundið radíótíðniorku við vísindarannsóknir, í iðnaði, í lækningum, í heimilistækjum og öðrum álíka tilvikum, án þess að um fjarskipti sé að ræða.

2. gr.

Eftirfarandi þjónusta telst radíóþjónusta:

1. Fastaþjónusta, þ.e. þjónusta milli fastra ákveðinna staða.

2. Farstöðvaþjónusta milli landstöðvar og farstöðva eða milli farstöðva, þ.m.t.

- landfarstöðvaþjónusta milli móðurstöðvar og landfarstöðva eða milli landfarstöðva, - sjófarstöðvaþjónusta milli strandarstöðvar og sjófarstöðva eða milli sjófarstöðva. Björgunarbátastöðvar og neyðarsendar falla einnig undir þessa þjónustu,

- flugfarstöðvaþjónusta milli móðurstöðvar og flugfarstöðva eða milli flugfarstöðva. Stöðvar í björgunarbátum flugvéla og neyðarsendar í gúmmíbátum falla einnig undir þessa þjónustu.

3. Útvarpsþjónusta með beinni móttöku almennings á hljóðvarps- eða sjónvarpssendingum. 4. Radíóákvörðunarþjónusta með notkun útbreiðslueiginleika radíóbylgju til að ákveða staðsetningu, hraða eða einhvern annan eiginleika hlutar. Undir hana falla radíóleið­söguþjónusta og radíóstaðsetningarþjónusta.

5. Veðurtækjaþjónusta fyrir veðurfræðilegar mælingar og kannanir.

6. Jarðkönnunarþjónusta milli jarðstöðva og einnar eða fleiri geimstöðva þar sem gerð er könnun á ýmiss konar eiginleikum jarðar utan úr geimnum.

7. Tímamerkjaþjónusta með sendingu ákveðinnar tíðni, tímamerkis eða hvors tveggja með mikilli nákvæmni fyrir almenna móttöku.

8. Radíóáhugamannaþjónusta fyrir þjálfun, tilraunir og samskipti radíóáhugamanna án fjárhagslegs ávinnings þeirra.

9. Öryggisþjónusta til verndar lífi og eignum.

10. Sérþjónusta fyrir ótilgreindar sendingar, sem ekki eru fyrir almenning. Að öðru leyti er vísað til alþjóðaradíóreglugerðarinnar.

3. gr.

Póst- og símamálastofnun veitir heimild til notkunar á radíótíðni, í samræmi við samþykktir alþjóðaráðstefna, sem haldnar eru að undirlagi Alþjóðafjarskiptastofnunarinnar. Sending á radíótíðni án heimildar er bönnuð.


4. gr.

Póst- og símamálastofnun gefur út leyfisbréf til handa stofnunum og einkaaðilum, sem samkvæmt lögum er falið eða er heimilt að reka sendistöðvar í útvarps-, radíóákvörðunar- og tímamerkjaþjónustu, en fyrir móttöku slíkra sendinga þarf ekki leyfisbréf.

Leyfisbréf þarf ekki fyrir vísinda- og iðnaðarradíó né fyrir radíóstöðvum fyrir radíó­stjörnumælingar.

Öll fastaþjónusta á radíóbylgjum fellur undir einkarétt ríkisins samkvæmt fjarskiptalög­um.

Póst- og símamálastofnun gefur út leyfisbréf fyrir radíóstöðvum í annarri radíóþjónustu en fyrr hefur verið talin upp í þessari grein. Leyfi eru takmörkuð við fjarskipti leyfishafa, við þjónustustöðvar stofnunarinnar eða fjarskipti milli tveggja eða fleiri radíóstöðva hans í samræmi við reglur um viðkomandi radíóþjónustu. Leyfishafa er óheimilt að taka að sér fjarskiptaafgreiðslu fyrir annan aðila, hvort sem greiðsla kemur fyrir eða ekki. Póst- og símamálastofnun er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði í sérstökum tilvikum, enda liggi það fyrir, að þjónustustöðvar hennar geti ekki annast þau fjarskipti, sem um er að ræða.

Póst- og símamálastofnun skal þegar í stað gera ráðstafanir til að stöðva starfrækslu radíóstöðva, sem ekki er leyfisbréf fyrir, og ekki eru undanþegnar leyfisskyldu samkvæmt þessari grein.

5. gr.

Á leyfisbréf skal skráð nafn leyfishafa, staðsetning þeirra tækja sem leyfisbréfið nær til, tíðni, sendiafl og aðrir mikilvægir eiginleikar radíótækjanna.

Leyfisbréfið veitir eingöngu heimild til starfrækslu radíóstöðva á Íslandi og í íslenskri landhelgi og lofthelgi.

Leyfisbréf fyrir stöðvum í farstöðvaþjónustu, sem er alþjóðleg, gildir einnig í íslenskum farartækjum utanlands, en þó með þeim takmörkunum sem reglur þess lands, sem farartækið er staðsett í, setja.

Breytingar á tækjum eða fyrirkomulagi, svo og eigendaskipti, skal leyfishafi þegar í stað tilkynna Póst- og símamálastofnun, sem gefur út nýtt leyfisbréf ef þörf krefur.

6. gr.

Þeir einir, sem fengið hafa tilskilin skírteini mega annast starfrækslu radíósendistöðva í fastaþjónustu og opinberri farþjónustu Póst- og símamálastofnunar, þegar um er að ræða farartæki sem notuð eru til fólksflutninga í atvinnuskyni. Undanþegnir eru þeir sem starfrækja farstöðvar í hinu almenna farsímakerfi Póst- og símamálastofnunar.

Skírteini eru gefin út í samræmi við alþjóðaradíóreglugerðina. Skírteinishafar samkvæmt þessari grein skulu hafa fengið tilsögn í notkun radíóstöðva og lært undirstöðuatriði í radíóviðskiptum í skóla sem Póst- og símamálastofnunin viðurkennir.

7. gr.

Fyrirkomulag radíóviðskipta skal vera í samræmi við alþjóðaradíóreglugerðina. Ekki er heimilt að annast radíóviðskipti undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa. Öll viðskipti í radíóþjónustu skulu vera eins stutt og mögulegt er án þess að rýra gildi þeirra upplýsinga sem verið er að skiptast á. Ef um er að ræða tíðni, sem notuð er af fleiri en einum aðila, ber að athuga að engin önnur viðskipti séu í gangi áður en notkun hennar hefst. Í upphafi skal notandi kynna sig með nafni eða kallmerki, hafi því verið úthlutað.

Heimilt er að veita undanþágu til að nota félagsnúmer í stað kallmerkis, enda séu slík númer frábrugðin kallmerkjum í notkun. Skrár yfir félagsnúmer, sem notuð eru á þennan hátt, skulu afhentar Póst- og símamálastofnun.


8. gr.

Þegar leyfisbréf er gefið út á nafn stofnunar eða fyrirtækis, er starfsmönnum þeirra heimilt að taka þátt í viðkomandi radíóþjónustu innan marka leyfisbréfsins. Leyfisbréf gefið út á nafn félags er takmarkað við forsvarsmenn og launaða starfsmenn. Póst- og símamála­stofnun er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði í sérstökum tilvikum.

Maka einstaklings, sem fengið hefur leyfisbréf, er heimilt að nota radíóstöð þá sem leyfisbréfið fjallar um, á sama hátt og leyfishafi. Skráður leyfishafi er þó ábyrgur á allan hátt fyrir starfrækslu stöðvarinnar.

Eingöngu þeir, sem náð hafa 16 ára aldri, mega starfrækja radíósendistöðvar.

9. gr.

Handhöfum leyfisbréfa, sem heimild hafa fengið til að starfrækja radíótæki á tíðni, sem enginn annar notar, er heimilt að nota dulmál eða brengla útsendingu þannig að hún verði óskiljanleg öðrum en þeim sem hafa lykil að sendingunni. Leyfishafi skal tilkynna radíóeftir­liti Póst- og símamálastofnunar fyrirfram um slíka notkun. Leiði hún til truflana á annarri radíóþjónustu skal henni þegar í stað hætt. Póst- og símamálastofnun getur einnig heimilað takmarkaða notkun dulmáls á tíðnum sem eru í almennri notkun, enda liggi ljóst fyrir að slík notkun hafi ekki áhrif á viðskipti annarra.

Í öllum tilvikum sem dulmál er notað, skal sá, sem sendir, kynna sig án dulmáls með nafni eða kallmerki í upphafi og lok sendingar. Ráðherra getur úrskurðað að radíóeftirlitinu skuli afhentur dulmálslykill eða upplýsingar um á hvern hátt útsendingar eru brenglaðar. Á ófriðartímum er stranglega bannað að nota dulmál eða brengla útsendingar, nema fengist hafi sérstakt leyfi ráðherra.

10. gr.

Öll fjarskipti um radíóstöðvar við aðila í öðrum löndum eru bönnuð nema veitt hafi verið til þess sérstakt leyfi í samræmi við fjarskiptalög. Handhöfum áhugamannaleyfis er þó heimilt að hafa samband við önnur lönd við tilraunir á radíóbúnaði og útbreiðslu og skiptast á skoðunum um þessa hluti við hliðstæða aðila erlendis. Sams konar heimild getur Póst- og símamálastofnun veitt vegna vísindarannsókna, ef einungis er um að ræða vísindalegar eða tæknilegar upplýsingar.

11. gr.

Við útgáfu leyfa til notkunar á radíótíðni skal þess gætt að truflun verði ekki á annarri fjarskiptastarfsemi.

Póst- og símamálastofnun skal láta rannsaka truflanir, sem verða á radíómóttöku. Radíóeftirlitsmönnum skal heimill aðgangur að radíóstöðvum fyrirvaralaust, enda sýni þeir viðeigandi skilríki, sem kveða á um stöðu þeirra. Starfrækslu radíóstöðva, sem valda truflunum á annarri fjarskiptastarfsemi og eru ekki í samræmi við gildandi leyfisbréf og reglur, skal þegar í stað hætt, þegar gefin eru fyrirmæli þess efnis af Póst- og símamálastofnun.

Ef reglur um viðkomandi radíóþjónustu kveða á um reglubundna skoðun, skal Póst- og símamálastofnun framkvæma hana, og gefa út vottorð þar að lútandi. Í vottorðinu skal koma fram hvaða atriðum er áfátt í tækjum og búnaði, ef hann er ekki í fullkomnu lagi. Veittur skal hæfilegur frestur til úrbóta.

12. gr.

Starfræksla rafmagnstækja, þ.m.t. mótóra, véla og tölvubúnaðar, sem gefa frá sér hátíðnibylgjur út á rafmagnsnetið eða geislun út í loftið með styrk umfram sett hámark og valda truflunum á starfsemi radíóstöðva, er óheimil. Þyki sýnt að rafmagnstæki uppfylli ekki sett skilyrði skal eiganda þess skylt að bæta úr því á eigin kostnað. Sé um alvarlega truflun á fjarskiptaþjónustu að ræða skal notkun hins truflandi tækis hætt uns úr hefur verið bætt.


13. gr.

Ráðherra setur reglur um starfsemi radíóstöðva, sem taka eiga þátt í radíóþjónustu. Í reglunum skal kveðið á um umfang hverrar radíóþjónustu, skilyrði fyrir útgáfu leyfisbréfa, viðurkenningu radíóstöðva og tæknileg ákvæði um gerð radíóstöðva.

Póst- og símamálastofnun athugar nýjar radíóstöðvar í því skyni að sannreyna að tæknilegum ákvæðum í reglum sé fylgt. Sé um að ræða notendabúnað til tengingar við hið opinbera fjarskiptakerfi eða radíóstöðvar til notkunar í land-, sjó- og flugfarstöðvaþjónustu skal farið eftir ákvæðum reglugerðar um notendabúnað til tengingar við hið opinbera fjarskiptakerfi. Radíóstöðvar fyrir aðra þjónustu skulu prófaðar af Póst- og símamálastofnun. Að lokinni prófun skal Póst- og símamálastofnun tilkynna réttum aðila, hvort viðurkenningin er veitt, en tilgreina ástæðu, ef svo er ekki. Nánari ákvæði um prófun skulu vera í sérstakri reglugerð um viðkomandi þjónustu.

Óheimilt er framleiðendum og innflytjendum að afhenda til uppsetningar og notkunar radíótæki eða taka sjálfir í notkun tæki sem ekki hafa öðlast viðurkenningu þess að þau uppfylli tæknileg ákvæði fyrir viðkomandi þjónustu.

14. gr.

Framleiðendur radíóstöðva og aðrir, sem smíða sl'kar stöðvar eða hluti til þeirra, eru ábyrgir fyrir því að engar útsendingar eigi sér stað áður en stöðvarnar hafa hlotið viðurkenn­ingu nema að fenginni undanþágu Póst- og símamálastofnunar. Við prófanir skal þess gætt að nota gerviálag, sem ekki geislar út, svo að valdi truflunum á radíóþjónustu. Afhending radíóstöðva til notenda skal vera í samræmi við reglur um viðkomandi radíóþjónustu.

15. gr.

Réttindi, sem krafist er af þeim sem annast uppsetningu, tengingu og viðhald radíó­stöðva, sem tengjast hinu opinbera fjarskiptaneti eru skilgreind í reglugerð um notendabún­að. Sams konar réttinda er krafist vegna annarra radíóstöðva. Loftskeytamenn hafa sömu réttindi að því er varðar farstöðvar í land-, sjó- og flugfarstöðvaþjónustu og stöðvum sem ekki þarf leyfisbréf fyrir, og útvarpsvirkjar, að því er varðar stöðvar, sem ekki þarf leyfisbréf fyrir. Fyrirtæki sem hyggjast annast uppsetningu og viðgerð á radíóstöðvum öðrum en þeim, sem falla undir notendabúnað sbr. 13. gr., skulu afla viðurkenningar Póst- og símamálastofnunar, sem setur lágmarkskröfur um mælitækjabúnað verkstæða og reglur um prófanir á radíóstöðv­um.

16. gr.

Á ófriðartímum í landinu skulu allar radíósendingar annarra en opinberra aðila þegar í stað stöðvaðar, þangað til ráðherra veitir heimild til notkunar á ný. Ráðherra getur úrskurðað að radíóstöðvar skuli innsiglaðar eða teknar í vörslu hins opinbera enda sé þeim skilað aftur eftir að ófriðarástandi lýkur.

17. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt lögum um fjarskipti.

18. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 73/1984 staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 113, 20. júní 1945 um sama efni.

Samgönguráðuneytið, 31. október 1988.

Steingrímur J. Sigfússon.

Ragnhildur Hjaltadóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica