Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

707/1997

Reglugerð um vitagjald.

REGLUGERÐ

um vitagjald.

1. gr.

Við ákvörðun vitagjalda samkvæmt stærð skipa skal miðað við brúttótonnatölu skips samkvæmt alþjóðlegu mælibréfi, sem gefið er út samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar um mælingu skipa frá 1969.

Vitagjald kr. 60,70 af hverju brúttótonni skal greiða vegna skipa sem eru 10 brúttótonn eða stærri og taka höfn hér á landi og skal hálft tonn eða þar yfir teljast heilt tonn, en minna broti sleppt. Fyrir skip sem flytja engan farm fyrir borgun, annan en farþega, skal gjaldið þó vera kr. 15,20.

2. gr.

Undanþegin gjaldi þessu eru herskip, varðskip, tollgæslubátar og vitaskip. Sama gildir um skip sem leita hafnar í neyð, en taka engan farm úr landi né úr öðrum skipum né heldur flytja farm í land eða í önnur skip enda hafi sannast í sjóprófi eða með annarri lögfullri sönnun að þau hafi verið í nauðum stödd af árekstri eða sjóskemmdum eða af veikindum eða farmskekkju eða ófriði.

Heimil er niðurfelling gjaldsins vegna skipa, sem eigi eru notuð á gjaldárinu.

3. gr.

Vegna íslenskra skipa skal gjald þetta greitt eigi síðar en 1. apríl ár hvert og þá þar sem skipið er skrásett. Af erlendum skipum, sem setja farþega eða vörur á land, skal greiða 1/4 hluta vitagjaldsins við hverja komu til landsins, en þó aldrei oftar en fjórum sinnum á hverju almanaksári. Fyrir slík skip greiðist gjaldið í fyrstu höfn sem það tekur hér við land.

4. gr.

Lögreglustjórar, í Reykjavík tollstjórinn, sjá um innheimtu vitagjaldsins. Skyldur er skipstjóri að sàna innheimtumanni leiðarbók skipsins og skipsskjöl og er innheimtumanni rétt að halda eftir alþjóðamælibréfi og þjóðernisskírteini, nema gjaldið hafi verið greitt.

Ágreiningi um gjaldskyldu og útreikning má skjóta til úrskurðar ráðuneytisins.

5. gr.

Vitagjaldinu er varið til að standa straum af kostnaði við rekstur Siglingastofnunar Íslands.

6. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum, nema þyngri refsing liggi við.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. lögum nr. 56 frá 29. maí 1981 um vitagjald, staðfestist hér með til að öðlast gildi frá og með 1. janúar 1998 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 188 frá 15. mars 1995.

Samgönguráðuneytinu, 22. desember 1997.

Halldór Blöndal.

Jón Birgir Jónsson.

 

 

 

 

 

 

 

Reglugerð sem fellur brott:
Þetta vefsvæði byggir á Eplica