Samgönguráðuneyti

322/1990

Reglugerð um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis

I.0 ORÐASKÝRINGAR

Þegar eftirfarandi orð og orðasambönd eru notuð í reglugerð þessari hafa þau þá merkingu sem hér segir:

Alvarleg meiðsl (Serious injury): Meiðsl sem maður verður fyrir í slysi og

a) hafa í för með sér meira en 48 klst. sjúkrahússvist sem hefst innan 7 daga frá þeim degi er meiðslin áttu sér stað, eða

b) eru fólgin í beinbroti (þó eru undanþegin lokuð brot á fingrum, tám eða nefi), eða

c) eru fólgin í upprifnum sárum sem hafa í för með sér alvarlegar blæðingar eða skemmdir á taugum, vöðvum eða sinum, eða

d) eru fólgin í sköddun á innra líffæri, eða

e) eru fólgin í annars eða þriðja stigs bruna eða einhverjum bruna sem nær til meira en 5% af yfirborði líkamans, eða

f) eru fólgin í því að maður hafi orðið fyrir smiti eða skaðlegri geislun.

Farþegaloftfar (Passenger aircraft): Loftfar sem flytur fólk annað en flugverja, starfsmann flugrekanda sem er í starfi í þjónustu hans, fulltrúa hlutaðeigandi stjórnvalds eða umsjónarmann sem fylgir flutningi eða öðrum farmi.

Flugliði (Flight crew member): Flugverji sem er handhafi fullgilds skírteinis og falið er starf sem nauðsynlegt er við starfsemi eða rekstur loftfars meðan á fartíma stendur.

Flugrekandi (Operator): Einstaklingur, fyrirtæki eða stofnun sem stundar eða býðst til að stunda rekstur loftfara.

Flugstjóri (Pilot in command): Flugmaður sem ber ábyrgð á starfrækslu og öryggi loftfars meðan á fartíma stendur.

Flugverji (Crew member): Starfsmaður flugrekanda sem gegnir starfi um borð í loftfari meðan á fartíma stendur.

Hleðslueining (Unit load device): Hvers konar gerð af vörugámi, loftfaragámi, loftfarapalli með neti, eða loftfarapalli með neti yfir hvolfþaki.

Hleðsluríki (State of Origin): Ríki þar sem vörusendingu var fyrst komið í loftfar. Hlífðarumbúðir (Overpack): Umbúðir, sem einstakur sendandi notar utan um einn eða fleiri pakka, til þess að mynda einingu til hagræðingar í flutningi og geymslu.

Hættulegur varningur (Dangerous goods): Hlutir eða efni sem valdið geta verulegri hættu á heilsutjóni, öryggi eða eignatjóni ef þau eru flutt flugleiðis.

Óhapp í tengslum við hættulegan varning (Dangerous goods incident): Atvik, annað en slys í tengslum við hættulegan varning, tengt flutningi hættulegs varnings flugleiðis, sem gerist ekki endilega um borð í loftfari, og hefur í för með sér meiðsl á manni, eignatjón, eldsvoða, brot, leka á vökva eða geislavirkni, eða önnur ummerki er benda til þess að umbúðir hafi bilað. Sérhvert atvik tengt flutningi hættulegs varnings, sem stofnar loftfari eða þeim sem um borð eru í hættu, telst einnig óhapp í tengslum við hættulegan varning.

Ósamþýðanlegur (Incompatible): Notað um hættulegan varning sem hætt er við að valdi útstreymi hita eða gass eða myndi tærandi efni ef hann blandast öðrum slíkum varningi.

Pakki (Package): Frágengin vörusending, umbúðir og innihald, tilbúin til flutnings.


Pökkun (Packing): Verknaðurinn að koma hlutum eða efnum fyrir í tryggum og hæfum umbúðum.

Rétt sendingarheiti (Proper shipping name): Heiti sem nota skal um tiltekinn hlut eða efni í öllum farmskírteinum og tilkynningum, og á umbúðunum í þeim tilvikum sem það á við.

Ríki flugrekanda (State of the Operator): Ríki þar sem flugrekandi hefur aðalaðsetur flugrekstrar síns, eða, ef slíkur staður er ekki til, þá fastur aðsetursstaður hans.

Slys í tengslum við hættulegan varning (Dangerous goods accident): Atvik, tengt flutningi hættulegs varnings flugleiðis, sem hefur í för með sér banvæn eða alvarleg meiðsl á manni eða meiri háttar eignatjón.

Umbúðir (Packaging): Ílát eða hirsla sem og sérhverjir aðrir hlutir eða efni sem nauðsynlegir eru til þess að ílátið eða hirslan gegni hlutverki sínu svo að tryggt sé að fylgt sé pökkunarákvæðum þessarar reglugerðar.

UN-númer (UN number): Fjögurra stafa einkennistala sem sérfræðinganefnd Sameinuðu þjóðanna um flutning á hættulegum varningi hefur gefið efnum eða efnasamböndum.

Undantekning (Exception): Ákvæði í reglugerð þessarri, sem leysir tiltekinn hættulegan varning undan kröfum sem að öllu jöfnu ættu við hann.

Undanþága (Exemption): Heimild gefin út af hlutaðeigandi stjórnvaldi til þess að víkja frá ákvæðum reglugerðar þessarar.

Vöruloftfar (Cargo aircraft): Sérhvert loftfar, annað en farþegaloftfar, sem notað er til að flytja vörur og verðmæti.

Vörusending (Consignment): Einn eða fleiri pakkar sem í er hættulegur varningur og sem flugrekandi tekur við og kvittar fyrir sem einni heild, frá einum sendanda, í eitt skipti, á einum stað til að flytja til eins viðtakanda á einum ákvörðunarstað.

2.0 GILDISSVIÐ

2.1 Almennt gildissvið.

Reglugerð þessi, sem er samhljóða viðbæti 18 við stofnskrá Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO - Annex 18), gildir í millilandaflugi með íslenskum loftförum og erlendum loftförum sem íslenskur aðili notar eða ræður yfir. Hún gildir einnig um erlend loftför sem hafa viðkomu á Íslandi eða fljúga um íslenska lofthelgi. Hlutaðeigandi ríki geta veitt undanþágu frá þessum ákvæðum þegar brýna nauðsyn ber til eða þegar annars konar flutningsaðferð er óheppileg eða þegar ekki er unnt vegna almannaheilla að fara eftir reglugerðinni, að því tilskildu að í slíkum tilvikum sé allt gert til þess að gætt sé sama öryggis og reglugerðin gerir ráð fyrir.

2.2 Tæknilegar leiðbeiningar um hættulegan varning.

2.2.1 "Tæknilegar leiðbeiningar um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis" (Technical Instructions for the Safe Transport of Dangerous Goods by Air, Doc 9284), gefnar út af Alþjóðaflugmálastofnuninni, ICAO og fáanlegar hjá Flugmálastjórn, fjalla um flutning hættulegs varnings flugleiðis.

2.3 Innanlandsflug.

2.3.1 Reglugerð þessi gildir einnig um flutning hættulegs varnings flugleiðis í innanlandsflugi nema Flugmálastjórn ákveði annað.

2.4 Undantekningar.

2.4.1 Undantekin í reglugerð þessari eru hlutir og efni sem að öðru jöfnu teldust hættulegur varningur en er þörf á um borð í loftförum í samræmi við gildandi ákvæði um lofthæfi eða flugrekstur, svo og ef þeirra er þörf í þeim sérstaka tilgangi sem um getur í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

2.4.2 Þegar hlutir eða efni, ætluð til endurnýjunar þeim sem um getur í gr. 2.4.1, eru flutt í loftförum skal það gert í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar nema flutningur sé heimill í samræmi við ákvæði "Tæknilegra leiðbeininga um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

2.4.3 Hlutir og efni, sem ætluð eru til persónulegra nota farþega og flugverja, eru undantekin ákvæðum reglugerðar þessarar að því marki sem um getur í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

3.0 FLOKKUN

Flokkun hluta eða efna skal vera í samræmi við ákvæði "Tæknilegra leiðbeininga um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

4.0 TAKMARKANIR Á FLUTNINGUM HÆTTULEGS VARNINGS FLUGLEIÐIS

4.1 Hættulegur varningur sem leyfilegt er að flytja flugleiðis.

Bannað er að flytja hættulegan varning flugleiðis nema farið sé eftir því sem kveðið er á um í þessari reglugerð, svo og fyrirmælum og leiðbeiningum í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

4.2 Hættulegur varningur sem bannað er að flytja flugleiðis nema veitt sé undanþága. Eftirfarandi hættulegan varning er bannað að flytja flugleiðis nema undanþága sé veitt af hlutaðeigandi ríkjum samkvæmt ákvæðum í gr. 2.1, eða hann megi flytja með leyfi útgefnu af hleðsluríki í samræmi við "Tæknilegar leiðbeiningar um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis":

a) Hluti og efni sem eru á skrá í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis" yfir bannaðan varning við venjulegar aðstæður, og b) sýkt lifandi dýr.

4.3 Hættulegur varningur sem skilyrðislaust er bannað að flytja flugleiðis.

Hlutir og efni, sem tilgreind eru sérstaklega með heiti eða efnislýsingu í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis" og ákvæði eru um að bannað sé að flytja flugleiðis, skulu ekki flutt í neinu loftfari.

5.0 PÖKKUN

5.1 Almenn ákvæði.

Hættulegum varningi skal pakkað í samræmi við ákvæði þessa kafla og í samræmi við "Tæknilegar leiðbeiningar um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

5.2 Umbúðir.

5.2.1 Umbúðir, sem notaðar eru við flutning hættulegs varnings flugleiðis, skulu vera í háum gæðaflokki og skulu þær vera vandlega gerðar og þeim tryggilega lokað svo að úr þeim leki ekki við flutning við venjulegar aðstæður vegna breytinga á hita, raka eða þrýstingi eða við titring.


5. júlí 1990 879 Nr. 322

5.2.2 Umbúðir skulu henta innihaldinu. Umbúðir, sem eru í beinni snertingu við hættulegan varning, eiga að standast efnaverkanir og aðrar verkanir frá slíkum varningi.

5.2.3 Efni og gæði umbúða skal vera í samræmi við ákvæði "Tæknilegra leiðbeininga um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

5.2.4 Umbúðir skulu prófaðar í samræmi við ákvæði "Tæknilegra leiðbeininga um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

5.2.5 Umbúðir, sem einkum er ætlað að geyma í vökva, skulu, án þess að leka, geta þolað þrýsting þann sem um getur í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

5.2.6 Búa skal um innri umbúðir á tryggilegan hátt, festa þær eða setja við þær púða til að hindra að þær brotni eða leki og hafa stjórn á hreyfingum þeirra í ytri umbúðum við eðlilegar aðstæður í flutningum flugleiðis. Efni, sem deyfa högg eða eru gleypin, mega ekki valda hættu ef þau komast í snertingu við innihaldið.

5.2.7 Engin ílát eða hirslur má endurnota fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að þau hafi ekki orðið fyrir neinni tæringu eða öðrum skaða. Þegar ílát eða hirslur eru notuð aftur ber að sjá um að varningur, sem í þau er settur, mengist ekki.

5.2.8 Ef hætta getur stafað af óhreinsuðum tómum ílátum eða hirslum vegna eiginleika þeirra efna, sem áður hafa verið í þeim, skal loka þeim kirfilega og meðhöndla þau í samræmi við þá hættu sem af þeim stafar.

5.2.9 Hættuleg efni mega eigi loða við pakka að utanverðu í því magni að hætta stafi af.

6.0 MERKIMIÐAR OG MERKINGAR

6.1 Merkimiðar.

Sérhver pakki með hættulegum varningi skal merktur með viðeigandi merkimiðum og í samræmi við ákvæði "Tæknilegra leiðbeininga um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis", nema öðruvísi sé ákveðið í þeim leiðbeiningum.

6.2 Merkingar.

6.2.1 Sérhver pakki með hættulegum varningi skal merktur með réttu farmheiti innihaldsins, viðeigandi UN-númeri, ef um það er að ræða, ásamt öllum öðrum merkjum sem ákvæði kunna að vera um í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

6.2.2 Sérmerkingar á umbúðum.

Sérhverjar umbúðir, sem framleiddar eru samkvæmt sérstökum vörulýsingum "Tæknilegra leiðbeininga um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis", skulu merktar sér í samræmi við ákvæði þeirra og engar umbúðir skulu þannig sérmerktar nema þær fullnægi þeim sérkröfum sem um getur í þessum leiðbeiningum.

6.3 Tungumál sem nota skal við merkingar.

Til viðbótar þeim tungumálum, sem krafist er af hleðsluríki, skal enska notuð við merkingar tengdar hættulegum varningi.

7.0 ÁBYRGÐ SENDANDA

7.1 Almenn ákvæði.

Áður en nokkur afhendir pakka, með eða án hlífðarumbúða, sem í er hættulegur varningur til flutnings flugleiðis, ber honum að ganga úr skugga um að ekki sé bannað að flytja varninginn flugleiðis, að hann sé rétt flokkaður, pakkaður og merktur og að honum fylgi fullnægjandi farmskírteini um hættulegan varning eins og kveðið er á um í þessari reglugerð og í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

7.2 Farmskírteini um hættulegan varning.

7.2.1 Sá sem afhendir hættulegan varning til flutnings flugleiðis skal fylla út, undirrita og afhenda flugrekanda farmskírteini yfir hættulegan varning þar sem fram koma þær upplýsingar sem kveðið er á um í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis" nema öðruvísi sé kveðið á um í þeim leiðbeiningum.

7.2.2 Í farmskírteinum þessum skal vera yfirlýsing frá þeim, sem afhendir hættulegan varning til flutnings, um að varningnum sé fullkomlega og réttilega lýst með réttum farmheitum, að hann sé flokkaður, pakkaður og merktur og þannig frá honum gengið að hann sé hæfur til flutnings flugleiðis í samræmi við gildandi reglur.

7.3 Tungumál sem nota skal.

Til viðbótar þeim tungumálum, sem krafist er af hleðsluríki, skal enska notuð í farmskírteinum hættulegs varnings.

8.0 ÁBYRGÐ FLUGREKANDA

8.1 Móttaka til flutnings.

Flugrekandi skal ekki taka á móti hættulegum varningi til flutnings flugleiðis:

a) ef hinum hættulega varningi fylgja ekki útfyllt farmskírteini yfir hættulegan varning, nema þeirra sé ekki þörf samkvæmt ákvæðum "Tæknilegra leiðbeininga um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis",

b) þangað til pakkinn, hlífðarumbúðirnar eða vörugámurinn, sem geyma hinn hættulega varning, hafa verið rannsökuð í samræmi við móttökuákvæði þau sem frá er greint í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

8.2 Gátlisti fyrir móttöku hættulegs varnings.

Flugrekandi skal útbúa og nota gátlista um móttöku hættulegs varnings til hægðarauka við að framfylgja ákvæðum í gr. 8.1 hér að framan.

8.3 Skoðun með hliðsjón af skemmdum eða leka.

8.3.1 Pakka og hlífðarumbúðir, sem hafa að geyma hættulegan varning, og vörugáma, sem hafa að geyma geislavirk efni, skal rannsaka með hliðsjón af því hvort einhver merki eru um leka eða skemmdir áður en þeim er hlaðið um borð í loftfar eða í hleðslueiningu. Pökkum, hlífðarumbúðum eða vörugámum sem leka eða eru skemmdir, skal ekki hlaða um borð í loftfar.

8.3.2 Hleðslueiningu skal ekki hlaðið um borð í loftfar nema rannsókn einingarinnar hafi leitt í ljós að engin merki séu um leka frá hættulegum varningi í henni né skemmdir á varningnum.

8.3.3 Sérhvern pakka hættulegs varnings, sem hlaðið hefur verið um borð í loftfar og virðist hafa skaddast eða leka, skal flugrekandi fjarlægja úr loftfarinu eða sjá til þess að hann sé fjarlægður af hlutaðeigandi stjórnvaldi eða stofnun og síðan skal flugrekandi ganga úr skugga um að afgangur vörusendingarinnar sé í skaðlausu ástandi til flutnings flugleiðis og að enginn annar pakki hafi mengast.

8.3.4 Pakka eða hlífðarumbúðir, sem geyma hættulegan varning, og vörugáma, sem geyma geislavirk efni, skal skoða með hliðsjón af því hvort einhver ummerki séu um skemmdir eða leka, þegar þeir eru affermdir úr loftfari eða hleðslueiningu. Ef í ljós koma ummerki um skemmdir eða leka skal rannsaka svæði það í loftfarinu, þar sem hinn hættulegi varningur eða hleðslueining voru geymd, með hliðsjón af skemmdum eða mengun.

8.4 Takmarkanir á flutningi í farþegarými eða stjórnklefa.

Hættuleg efni má hvorki flytja í farþegarými, þegar farþegar eru um borð, né í stjórnklefa loftfars nema í þeim tilvikum sem slíkt er heimilað í samræmi við ákvæði "Tæknilegra leiðbeininga um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

8.5 Eyðing mengunar.

8.5.1 Eyða skal tafarlaust hverri hættulegri mengun sem finnst í loftfari og stafað hefur af leka eða skemmdum á hættulegum varningi.

8.5.2 Loftfar sem mengast hefur af geislavirkum efnum skal þegar í stað tekið úr notkun og eigi tekið í notkun aftur fyrr en geislavirkni á öllum aðkvæmum stöðum og geislamengun, sem hefur ekki verið eytt, er neðan þeirra marka sem tilgreind eru í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

8.6 Aðgreining og einangrun.

8.6.1 Pökkum, sem í er hættulegur varningur sem hugsanlegt er að tæki hættulegum efnahvörfum ef pakkarnir kæmust í snertingu hver við annan, skal ekki hlaða hverjum nærri öðrum í loftfari eða á þann hátt að hætta geti verið á slíkum efnahvörfum ef leki kemur að einhverjum umbúðum.

8.6.2 Pökkum með eitri og efnum, sem geta valdið smiti, skal hlaða í loftfar í samræmi við ákvæði "Tæknilegra leiðbeininga um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

8.6.3 Í loftförum skal pökkum, sem í eru geislavirk efni, komið fyrir fjarri fólki, lifandi dýrum og óframkölluðum filmum í samræmi við ákvæði um slíka flutninga í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

8.7 Öruggur frágangur hættulegs varnings.

Þegar hættulegum varningi, sem fellur undir ákvæði reglugerðar þessarar, er hlaðið í loftfar skal flugrekandi sjá til þess að hann sé varinn gegn skemmdum og skal ganga frá slíkum varningi í loftförum á þann hátt að hann hreyfist ekki úr stað á flugi þannig að afstaða einstakra pakka breytist. Gengið skal þannig frá pökkum, sem geyma geislavirk efni, að tryggt sé að ákvæðum í gr. 8.6.3 sé ætíð fullnægt.

8.8 Hleðsla í vöruloftför.

Ef ekki er gert ráð fyrir annarri skipan í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis" skal pökkum, sem geyma hættulegan varning og merktir eru "Aðeins vöruloftför" (Cargo aircraft only), hlaðið þannig að flugverji eða annar aðili, sem til þess hefur heimild, geti séð, meðhöndlað og, ef stærð og þyngd leyfa, aðskilið slíka pakka frá öðrum farmi á flugi.

9.0 ÁKVÆÐI UM UPPLÝSINGAR

9.1 Upplýsingar fyrir flugstjóra.

Flugrekandi skal sjá til þess að flugstjóra loftfars, sem á að flytja hættulegan varning, séu afhentar, eins fljótt og unnt er fyrir brottför, þær skriflegu upplýsingar sem kveðið er á um í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

9.2 Upplýsingar og fyrirmæli fyrir flugliða.

Flugrekanda ber skylda til að hafa þess konar upplýsingar í flugrekstrarhandbók sinni að flugliðar geti rækt skyldur sínar við flutning hættulegs varnings. Honum er enn fremur skylt að sjá um að til séu fyrirmæli um aðgerðir áhafnar ef neyðarástand, tengt hinum hættulega varningi, skapast.

9.3 Upplýsingar fyrir farþega.

Flugrekendur skulu tryggja að upplýsingum sé komið á framfæri við farþega þannig að þeir séu varaðir við hvers konar varningi, sem þeim er bannað að hafa meðferðis í flugvélum, bæði í handfarangri og í öðrum farangri í farangursgeymslu.

9.4 Upplýsingar fyrir aðra.

Flugrekendur, sendendur eða aðrir (samtök/stofnanir/félög), sem tengjast flutningi hættulegs varnings flugleiðis, skulu veita starfsfólki sínu upplýsingar, sem gera því kleift að rækja skyldur sínar við flutning hættulegs varnings, og veita því leiðbeiningar um aðgerðir sem grípa skal til ef neyðarástand skapast í sambandi við flutning hættulegs varnings.

9.5 Upplýsingar flugstjóra til flugvallaryfirvalda.

Ef neyðarástand verður í flugi ber flugstjóra skylda til að tilkynna hlutaðeigandi flugumferðarþjónustudeild um allan hættulegan varning um borð til þess að unnt sé að láta flugvallaryfirvöld vita. Ef unnt er, skal hann tilkynna um rétt farmheiti, flokk, aukahættu vegna sérlega merkts varnings, samþýðanleikahóp við Flokk 1 (sprengiefni), svo og magn og hvar í loftfarinu hinn hættulegi varningur er geymdur.

9.6 Upplýsingar við flugslys eða óhapp.

9.6.1 Ef flugslys verður og hættulegur varningur er innanborðs skal hlutaðeigandi flugrekandi tilkynna flugmálastjórn þess ríkis, þar sem slysið varð, eins fljótt og unnt er, um þann hættulega varning sem fluttur var, rétt farmheiti hans, flokk, aukahættu vegna sérlega merkts varnings, samþýðanleikahóp við Flokk 1 (sprengiefni), magn og hvar í loftfarinu hinn hættulegi varningur er geymdur.

9.6.2 Ef loftfar, sem flytur hættulegan varning, verður fyrir óhappi ber flugrekandanum, ef hann er um það krafinn af flugmálayfirvöldum þess ríkis þar sem óhappið varð, að láta þeim í té allar upplýsingar sem þarf til þess að hætta vegna skemmda af völdum hins hættulega varnings verði sem minnst.

10.0 FRÆÐSLA OG ÞJÁLFUN

Þjálfunaráætlanir vegna hættulegs varnings skulu gerðar og endurbættar eins og gert er ráð fyrir í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".

11.0 ÖNNUR ÁKVÆÐI

Flugmálastjórn hefur eftirlit með því að flugrekendur fylgi ákvæðum reglugerðar þessarar. Póst- og símamálastofnun hefur eftirlit með því að þessari reglugerð sé fylgt að því er varðar póstsendingar.

12.0 TILKYNNINGAR UM SLYS OG ÓHÖPP VIÐ FLUTNING HÆTTULEGS VARNINGS FLUGLEIÐIS

Flugrekendur skulu án tafar tilkynna flugmálastjórn um öll slys eða óhöpp, sem stafa af hættulegum varningi, eftir að hann hefur verið afhentur til flutnings flugleiðis. Slíkar tilkynningar skal gefa í samræmi við nánari ákvæði í "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis".


13.0 ÝMIS ÁKVÆÐI

13.1 Undanþágur.

13.1.1 Flugmálastjórn/loftferðaeftirlit getur veitt tímabundnar undanþágur frá reglugerð þessari þegar sérstökum ástæðum er til að dreifa.

13.2 Refsiákvæði.

13.2.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt XIII. kafla laga um loftferðir nr. 34, 21. maí 1964.

13.3 Gildistaka.

13.3.1 Reglugerð þessi er sett samkvæmt 186. og 188. gr. laga um loftferðir nr. 34 21. maí 1964 og staðfestist hér með til þess að öðlast gildi 1. ágúst 1990. Jafnframt fellur úr gildi "Reglugerð um öruggan flutning hættulegra efna með loftförum" nr. 553/1987.

Samgönguráðuneytið, 5. júlí 1990.

Steingrímur J. Sigfússon.

Halldór S. Kristjánsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica