Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

257/1964

Reglugerð um ríkisframlag til þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum.

1. gr.

Í kaupstöðum og kauptúnum með 300 íbúa eða fleiri, skulu þeir vegir teljast þjóðvegir, sem ákveðnir eru með reglugerð samkvæmt 30. gr. vegalaga, nr. 71 30. desember 1963.

2. gr.

Framlagi ríkisins til þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum skal varið til viðhalds og lagningar þeirra vega, sem ákveðnir eru sem þjóðvegir.

Greiða má af hluta sveitarfélaga kostnað vegna kaupa á fasteignum í þágu þjóðvegar. Hins vegar er óheimilt að greiða kostnað við holræsi, færslur á leiðslum, gangstéttir, umferðarljós, götulýsingu og því um líkt.

Þegar lagningu þjóðvega í sveitarfélagi er lokið, að dómi vegamálastjóra, skal sveitarstjórn verja sínum hluta ríkisframlags, að frádregnum viðhaldskostnaði þjóðvega, til annarrar varanlegrar gatnagerðar, og gilda þá ákvæði þessarar reglugerðar um slíka gatnagerð eftir því, sem við á.

3. gr.

Sveitarstjórn lætur gera tæknilega og fjárhagslega áætlun um framkvæmdir á þjóðvegum sveitarfélasins, áður en verk er hafið. Skulu áætlanir háðar samþykki vegamálastjóra.

4. gr.

Heimilt er sveitarstjórn að nota ríkisframalag sitt til greiðslu lána, sem stofnað er til vegna lagningar þjóðvega í sveitarfélaginu.

Ef sveitarstjórn hefur notað eigið fé til lagningar þjóðvega, má endurgreiða það af ríkisframlagi næstu ára.

5. gr.

Nú ákveður sveitarstjórn að nota ekki ríkisframlag sitt, og er þá heimilt að geyma það allt eða hluta þess, unz sveitarstjórn ákveður að nota það. Skal slíkt geymslufé vera í vörzlu Vegargerðar ríkisins.

6. gr.

Vegagerð ríkisins er veghaldari þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum, sem annarra opinberra vega.

Heimilt er Vegagerð ríkisins að fela hlutaðeigandi sveitarstjórn, að nokkru eða öllu leyti, lagningu og viðhald þjóðvega í kaupstað og kauptúni.

Nú er heimild í 2. mgr. notuð, og skal þá Vegagerð ríkisins hafa eftirlit með, að lagning og viðhald umræddra vega sé framkvæmt á viðunandi hátt. Sé um vanrækslu að ræða, að dómi Vegagerðar ríkisins, skal hún gefa sveitarstjórn fyrirmæli um að framkvæma nauðsynlegar umbætur innan hæfilegs frests.

7. gr.

Nú telur Vegagerð ríkisins, að viðhald þjóðvega sé vanrækt, og ekki fæst úr því bætt innan tiltekins tíma, og getur þá vegagerðin látið framkvæma nauðsynlegt viðhald, sem kostað skal af ríkisframlagi viðkomandi sveitarfélags.

8. gr.

Framkvæmdir við lagningu þjóðvega skulu miðast við, að varanlegt slitlag sé sett á þá. Vegamálastjóri getur þó heimilað sveitarfélagi að fresta lagningu slitlagsins.

Sé frestur veittur, er sveitarstjórn heimilt að verja ríkisframlagi, að frádregnum viðhaldskostanði þjóðveganna, til annarrar gatnagerðar samkvæmt 2. gr., ef lagningu þjóðvega er að öðru leyti lokið.

Vegamálastjóri getur hvenær sem er afturkallað frestunarheimild, og skal þá ríkisframlagi eingöngu varið til lagningar slitlags, unz því verki er lokið.

9. gr.

Vegargerð ríkisins hefur á hendi greiðslu ríkisframlags til sveitarstjórna. Greiðsla skal innt af hendi að verki loknu, eða að loknum ákveðnum áföngum verks, ef um stærri verk er að ræða, og aðilar koma sér saman um það.

Áður en greiðsla fer fram, skal sveitarstjórn færa á það sönnur, sem Vegargerð ríkisins tekur gildar, að umræddri upphæð hafi verið varið í samræmi við reglugerð þessa og vegalög, nr. 71 30. desember 1963. Sé þetta ekki gert, að dómi vegagerðarinnar, skal hún halda eftir hlutfallslega af ríkisframlagi og varðveita sem geymslufé samkvæmt 5. gr., unz fénu er varið á þann hátt, sem reglugerðin og lögin gera ráð fyrir.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt vegalögum, nr. 71 30. desember 1963, öðlast þegar gildi, og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að málai.

Samgöngumálalráðuneytið, 2. desember 1964.

Ingólfur Jónsson.

_________________

Brynjólfur Ingólfsson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica