Samgönguráðuneyti

224/1999

Reglugerð um greiðslu bóta fyrir eignir skipverja á íslenskum skipum, sem eyðileggjast við sjóslys eða bruna.

1. gr.

Útgerðarmanni ber að greiða bætur fyrir eignir skipverja á íslenskum skipum, sem eyðileggjast við sjóslys eða bruna og greiðast bæturnar eftir eftirfarandi reglum.

2. gr.

Bæturnar skulu nema sannvirði eigna þeirra sem eyðilögðust, og þó aldrei fara fram úr upphæðum skv. reglugerð þessari, nema samið hafi verið um hærri bætur.

A. Á skipum í utanlandssiglingum, á flutninga- og farþegaskipum, 75 brúttótonn eða stærri, í innanlandssiglingum, svo og varðskipum ríkisins, björgunarskipum, dæluskipum og dýpkunarskipum:

I.

Til skipstjóra

kr. 240.000

II.

Til annarra yfirmanna, að meðtöldum brytum og fjar-

skiptamönnum

kr. 227.000

III.

Til annarra skipverja

kr. 214.000

B. Á togurum og öðrum fiskiskipum, 75 brúttótonn eða stærri í innanlandssiglingum og á veiðum:

I.

Til skipstjóra

kr. 211.000

II.

Til annarra yfirmanna, að meðtöldum brytum og fjarskiptamönnum

kr. 199.000

III.

Til annarra skipverja

kr. 189.000

C. Á fiskiskipum 18 - 75 brúttótonn í innanlandssiglingum og á veiðum:

I.

Til yfirmanna

kr. 146.000

II.

Til annarra skipverja

kr. 137.000

III.

Á skipum 18 brúttótonn eða stærri, er skipverjar búa ekki

í, til skipverja

kr. 73.000

Upphæðir skv. þessari grein skulu breytast skv. vísitölu neysluverðs. Grunnupphæðir miðast við vísitölu neysluverðs í mars 1999.

3. gr.

Nú hefur skipverji misst bækur, sjófræðiáhöld, smíðatól eða annað slíkt, er hann þurfti að hafa á skipi til þess að geta innt þar af hendi starf sitt, og hann átti sjálfur að leggja sér til, og skal þá útgerðarmaður bæta honum þessar eignir, umfram bætur þær er um ræðir í 2. gr.

4. gr.

Nú er sá maður látinn sem átti eignir þær sem bæta skal og ganga þá bæturnar til bús hans eða erfingja. Skal er þannig stendur á greiða hámark bóta skv. 2. gr.

Sé sá sem eignirnar átti, hins vegar á lífi, skal honum skylt að gefa að viðlögðu drengskaparvottorði, skýrslu um muni þá, er hann hefur misst og sennilegt verð þeirra.

5. gr.

Reglugerð þessi sem sett er skv. 69. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 með síðari breytingum öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt falla úr gildi reglur um greiðslur bóta fyrir eignir íslenskra skipverja, þær er farist hafa við sjóslys eða bruna nr. 31/1964.

Samgönguráðuneytinu, 19. mars 1999.

Halldór Blöndal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica