Samgönguráðuneyti

133/2001

Reglugerð um rannsókn sjóslysa. - Brottfallin

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til slysa og atvika á sjó, í reglugerð þessari nefnd sjóslys, köfunarslysa og slysa og annarra atvika á vötnum.

Rannsóknarnefnd sjóslysa starfar sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Hún ákveður sjálf hvenær efni eru til rannsóknar slysa og annarra atvika skv. 1. mgr.

Lögsaga rannsóknarnefndar sjóslysa tekur til allra íslenskra skipa, svo og allra erlendra skipa í siglingum að og frá landinu þegar sjóslys varðar íslenska hagsmuni. Heimilt er nefndinni að rannsaka önnur slys eða atvik sem verða á erlendum skipum er koma til landsins eða í íslenska efnahagslögsögu ef nefndin telur ástæðu til eða þess er óskað af fánaríki skipsins.


2. gr.
Tilgangur rannsóknar.

Nefndin skal í öllum sínum rannsóknum hafa að leiðarljósi að rannsóknir samkvæmt lögum nr. 68/2000 og þessari reglugerð miði að því einu að koma í veg fyrir slys um borð í skipum og að öryggi til sjós megi aukast. Tilgangur rannsóknar er ekki að skipta sök eða ábyrgð.


3. gr.
Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð og orðasambönd þá merkingu sem hér segir:

Aðili máls er sá eða þeir sem rannsókn leiðir í ljós að geti hafa átt þátt í því að sjóslys varð að mati nefndarinnar sem og þeir sem hafa orðið fyrir alvarlegum meiðslum.

Sjóslys merkir atburð sem leitt hefur til einhvers eftirfarandi:
1. að dauðsfall eða alvarleg meiðsl verði á manni í tengslum við útgerð skips.
2. að maður falli fyrir borð vegna, eða í tengslum við útgerð skips,
3. að skip farist, eða að líklegt sé talið að skip hafi farist eða að skip sé yfirgefið,
4. að skemmdir verði á skipi eða hlutum þess í tengslum við útgerð skips,

5. umhverfisskaða vegna skemmda á skipi eða skipum sem orðið hafa við, eða í tengslum við útgerð skips eða skipa og

6. annarra slysa eða tilvika sem nefndin telur ástæðu til að rannsaka.

Mjög alvarlegt slys er þegar sjóslys verður þannig að skip ferst, mannskaði verður eða meiri háttar mengun.

Alvarlegt slys er þegar sjóslys verður sem ekki telst vera mjög alvarlegt slys en eitthvert eftirtalið á sér stað:

1. eldur, sprenging, strand, ásigling, skemmdir vegna óveðurs, skemmdir vegna íss, sprunga í bol eða grunur leikur á um galla í skipsbol, sem veldur;
2. bolskemmdum svo að skipið er ekki lengur haffært eins og þegar gat kemur á bolinn undir sjólínu, röskun á stöðugleika, stöðvun aðalvéla, miklum skemmdum á vistarverum o.s.frv.,
3. mengun (án tillits til magns),
4. bilun með þeim afleiðingum að taka þarf skipið í drátt eða aðstoðar er þörf frá landi og
5. alvarleg slys á mönnum í tengslum við útgerð skips.
Atvik á sjó

merkir atburð sem gerist vegna, eða í tengslum við útgerð skips, svo að skip eða fólk er í hættu statt eða gæti valdið alvarlegum skemmdum á skipi, mannvirki eða umhverfinu.

Orsakir, þær aðgerðir, aðgerðarleysi, atburðir, aðstæður eða sambland af þessu sem voru eða eru og leiddu til slyssins eða atviks.

Skip er sérhvert fljótandi far.


II. KAFLI
Rannsóknarnefnd sjóslysa.
4. gr.
Heiti og heimilisfang.

Nefndin heitir rannsóknarnefnd sjóslysa, á ensku Icelandic Marine Accident Investigation Board, skammstafað IMAIB. Nefndin hefur aðsetur í Stykkishólmi.


5. gr.
Þagnarskylda.

Nefndarmönnum, starfsmönnum og ráðgjöfum nefndarinnar er bannað að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra óviðkomandi aðilum frá upplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.


6. gr.
Hæfi.

Um sérstakt hæfi nefndarmanna og starfsmanna nefndarinnar til meðferðar máls gilda ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Nefndarmenn skulu sjálfir gæta að hæfi sínu og gera formanni eða varaformanni aðvart telji þeir sig vanhæfa til meðferðar máls. Skal þá varamaður viðkomandi nefndarmanns taka sæti í nefndinni.


7. gr.
Persónuskilríki o.fl.

Samgönguráðherra lætur nefndarmönnum í té persónuskilríki til sönnunar um réttarstöðu þeirra og heimildir í störfum.

Nefndarmenn ásamt tilkvöddum sérfræðingum skulu í starfi sínu slysatryggðir í samræmi við áhættu þá sem starfið felur í sér.


8. gr.
Framkvæmdastjóri og starfsmenn.

Samgönguráðherra ræður, að fenginni umsögn nefndarinnar, framkvæmdastjóra sem ræður annað starfslið í samráði við nefndina. Æskilegt er að framkvæmdastjóri hafi menntun og starfsreynslu á sviðum er snerta skip, rekstur skipa og reynslu af stjórnunarstörfum. Rannsóknarnefnd sjóslysa ákveður hvaða kröfur skulu gerðar til annarra starfsmanna nefndarinnar.


III. KAFLI
Tilkynningar og skráning sjóslysa o.fl.
9. gr.
Tilkynningar um sjóslys.

Skipstjóra, eða þeim er kemur í hans stað, er skylt að tilkynna rannsóknarnefnd sjóslysa um slys á mönnum sem verða á skipi.

Skipstjóra, útgerðarmanni, tilkynningarskyldu íslenskra skipa, Landhelgisgæslu, lögregluyfirvöldum eða öðrum sem verða þess áskynja ber að tilkynna rannsóknarnefnd sjóslysa um sjóslys þegar eignatjón hefur orðið en ekki slys á mönnum.

Tilkynningar skv. 1. og 2. mgr. skulu sendar rannsóknarnefnd sjóslysa án undandráttar og eigi síðar en innan 7 daga frá því sjóslys varð á eyðublaði sem rannsóknarnefnd sjóslysa lætur í té. Tilkynning á rafrænu formi skal metin jafngild.

Rannsóknarnefnd sjóslysa skal hafa samráð við slysaskrá Íslands og Tryggingastofnun ríkisins um móttöku og úrvinnslu tilkynninga sjóslysa þegar slys hafa orðið á mönnum.


10. gr.
Skráning sjóslysa.

Rannsóknarnefnd sjóslysa skal annast skráningu allra sjóslysa. Nefndinni er heimilt að leita samráðs og samvinnu við slysaskrá Íslands um skráningu sjóslysa. Skráning sjóslysa skal fara fram í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000.

Í ársskýrslu skv. 18. gr. skulu birtar upplýsingar úr skráningu sjóslysa.


IV. KAFLI
Málsmeðferð fyrir rannsóknarnefnd sjóslysa.
11. gr.
Vettvangsrannsókn.

Þegar framkvæmdastjóra, starfsmanni nefndarinnar eða nefndarmönnum berst tilkynning um sjóslys eða slys sem nefndin rannsakar skal viðkomandi þegar gera ráðstafanir til þess að rannsókn nefndarinnar hefjist.

Berist framkvæmdastjóra eða starfsmanni tilkynning um mjög alvarlegt slys skal hann gera formanni nefndarinnar, eða ef ekki næst til hans, einhverjum nefndarmanna aðvart. Skulu þeir hafa samráð um vettvangsrannsókn. Formaður eða varaformaður geta falið ákveðnum nefndarmanni eða þar til bærum aðila að annast vettvangsrannsókn ásamt framkvæmdastjóra eða starfsmanni nefndarinnar.

Sé ekki um mjög alvarlegt slys að ræða metur framkvæmdastjóri eða starfsmaður hvort ástæða sé til vettvangsrannsóknar.

Framkvæmdastjóri, starfsmaður eða annar tilnefndur fulltrúi nefndarinnar skulu vernda vettvang eins lengi og þeir telja þörf á í þágu rannsóknar nefndarinnar. Komi upp ágreiningur um aðgerðir nefndarinnar í því sambandi skal formanni gert viðvart.

Rannsóknarnefnd sjóslysa, starfsmenn hennar eða fulltrúar nefndarinnar skulu hafa óheftan aðgang að vettvangi sjóslyss. Fulltrúi nefndarinnar skal stjórna rannsókn á vettvangi eftir atvikum að höfðu samráði við lögreglu fari jafnframt fram lögreglurannsókn.

Að lokinni vettvangsrannsókn skal framkvæmdastjóri, starfsmaður eða fulltrúi nefndarinnar semja skýrslu um þá rannsókn.


12. gr.
Kyrrsetning á skipum.

Rannsóknarnefnd sjóslysa getur haldið skipi eða einhverjum hluta þess og búnaði svo lengi sem hún telur þörf á vegna rannsóknarinnar. Slíkri heimild skal þó ekki beita nema það teljist óhjákvæmilegt vegna rannsóknar málsins.

Ágreining um hvort skip sé látið laust má bera undir dómara í varnarþingi þar sem skipið er statt.


13. gr.
Framhaldsrannsókn.

Þegar tilkynning berst um sjóslys eða slys sem rannsóknarnefnd sjóslysa rannsakar skal framkvæmdastjóri, starfsmaður nefndarinnar eða fulltrúi hennar gera ráðstafanir til að afla þeirra rannsóknargagna, sem þýðingu geta haft við rannsókn málsins.

Framkvæmdastjóri eða starfsmaður nefndarinnar skulu leggja mál fyrir nefndina eins fljótt og kostur er. Sé um mjög alvarlegt slys að ræða skal framkvæmdastjóri eða starfsmaður leggja rannsóknargögn fyrir nefndina innan fjögurra vikna frá því slys átti sér stað.

Nefndarmenn geta á öllum stigum rannsóknar fengið rannsóknargögn í hendur og farið fram á að tiltekinna gagna verði aflað. Komi upp ágreiningur varðandi öflun ákveðinna gagna tekur formaður ákvörðun um það hvort þeirra verði aflað en skjóta má slíkri ákvörðun til nefndarinnar.

Rannsóknarnefnd sjóslysa og starfsmenn hennar geta krafist allra skjala er varða skip, allra vottorða sem skylt er að hafa um borð í skipi, skráar yfir skipverja, útskrifta úr tölvum er varða siglingu og vélbúnað skips, svo og annarra gagna, t.d. um fjarskipti, og gögn sem varða rekstur og siglingu skips. Siglingastofnun Íslands og öðrum opinberum stofnunum er skylt að láta nefndinni í té upplýsingar.

Rannsóknarnefnd sjóslysa og starfsmönnum hennar er heimilt að taka skýrslur af eiganda, notanda eða umráðanda skips, áhöfn þess og hverjum þeim sem ætla má að geti veitt upplýsingar er stuðli að því að leiða í ljós orsök sjóslyss. Heimilt er að hljóðrita skýrslur.

Aðila máls, fyrirsvarsmanni hans og öðrum þeim sem rannsóknarnefnd sjóslysa telur nauðsynlegt að gefi skýrslu til að upplýsa málið er skylt að koma fyrir nefndina til að svara spurningum sem til þeirra er beint.

Með framburði skýrslugjafa fyrir nefndinni skal fara sem trúnaðarmál. Hann skal ekki notaður í öðrum tilgangi en að leiða í ljós orsök sjóslyss.


14. gr.
Nefndarfundir o.fl.

Ákvarðanir nefndarinnar skulu teknar á fundum. Fundur nefndarinnar er lögmætur ef þrír nefndarmenn sitja fund.

Nefndin getur leitað aðstoðar rannsóknastofnana, innlendra eða erlendra, eftir því sem nauðsynlegt er við rannsókn sjóslyss. Innlendum aðilum er skylt að veita nefndinni umbeðna aðstoð.

Nefndinni er heimilt að kalla til starfa sérfræðinga á tilteknum sviðum í því skyni að upplýsa mál.

Nefndin ákveður endanlegt umfang rannsóknar, fyrst og fremst með tilliti til gildis hennar hvað öryggi sjófarenda varðar.


15. gr.
Afgreiðsla mála.

Þegar rannsókn er lokið skal nefndin svo fljótt sem verða má semja skýrslu um niðurstöðu rannsóknar. Í skýrslunni skal m.a. eftirfarandi koma fram:

a) Atvikalýsing.
b) Á hvaða gögnum skýrslan byggir.
c) Hvaða nefndarmenn fjölluðu um málið.
d) Orsök eða sennileg orsök sjóslyss.
e) Tillögur um varúðarráðstafanir sem gera má til að afstýra frekari slysum af sama eða líkum toga ef tilefni er til þess.

Verði nefndarmenn ekki einhuga um niðurstöðu skal minnihluti nefndarinnar gera sérstaklega grein fyrir sinni niðurstöðu.

Nefndin getur gefið út áfangaskýrslu áður en rannsókn máls er lokið til þess að koma á framfæri upplýsingum telji hún þess þörf vegna eðli máls.

Nefndin getur ákveðið að ljúka rannsókn í minni háttar málum með bókun í fundargerðarbók og er þá rannsóknarskýrsla ekki gefin út. Um slíkar afgreiðslur skal þó getið í heildarskýrslu nefndarinnar ár hvert.


16. gr.
Geymsla málsgagna.

Nefndin skal varðveita í öruggum geymslum gögn sem þýðingu hafa í rannsókn máls. Hljóðritanir teknar á segulbönd skulu varðveittar í öruggri, læstri og eldvarinni geymslu. Gögn þau skulu varðveitt á sama hátt og hljóðritanir.

Nefndin skal takmarka opinbera birtingu á töluðu máli samkvæmt hljóðritunum sem beinlínis tengist viðkomandi sjóslysi sem rannsakað er.

Ekki skal afhenda gögn sem geyma framburð aðila og vitna fyrir nefndinni.


17. gr.
Umsögn.

Aðila máls, eiganda, útgerðarmanni viðkomandi skips og flokkunarfélagi þess svo og Siglingastofnun Íslands skal gefið tækifæri, með þeim hætti sem rannsóknarnefnd sjóslysa ákveður, að tjá sig um drög að lokaskýrslu nefndarinnar innan tilskilins frests, enda liggi ekki þegar fyrir í gögnum málsins afstaða þeirra eða það sé augljóslega óþarft.


18. gr.
Lokaskýrslur.

Þeir aðilar sem eiga rétt á því að tjá sig um drög að lokaskýrslu nefndarinnar skulu jafnframt fá lokaskýrsluna í hendur þegar hún hefur verið afgreidd frá nefndinni.

Skýrslur um einstök mál skulu einnig sendar samgönguráðherra, Siglingastofnun Íslands og siglingaráði. Nefndin ákveður að öðru leyti hverjir fái skýrslurnar sendar en þær teljast opinber gögn og er nefndinni heimilt að selja þær á kostnaðarverði. Birting á netinu er jafngild.


19. gr.
Úrbætur.

Rannsóknarnefnd sjóslysa skal gera tillögur í öryggismálum til sjós eftir því sem rannsókn á orsökum sjóslysa gefur tilefni til. Siglingastofnun Íslands skal sjá til þess að tillögur nefndarinnar í öryggismálum séu teknar til formlegrar afgreiðslu hverju sinni. Leiði athugun stofnunarinnar til þess, að talið sé nauðsynlegt að grípa til sérstakra aðgerða skal hún eiga frumkvæði að þeim, þ.m.t. tillögur að laga- og reglugerðarbreytingum. Verði því við komið skal Siglingastofnun Íslands senda afgreiðslu sína á tillögum innan tveggja mánaða frá því þær berast nefndinni. Í árslok skal Siglingastofnun Íslands senda nefndinni yfirlit yfir afgreiðslur ársins og stöðu mála sem eru í vinnslu.


20. gr.
Ársskýrsla.

Nefndin skal gefa út heildarskýrslu um störf sín hvert ár og afhenda samgönguráðherra. Samgönguráðherra leggur fram á Alþingi skýrslu um rannsóknir sjóslysa. Nefndin ákveður að öðru leyti dreifingu skýrslunnar.

Í ársskýrslu skulu m.a. koma fram niðurstöður nefndarinnar í einstökum málum ásamt tillögum til úrbóta. Jafnframt skal koma fram hvaða úrbætur hafi verið gerðar í framhaldi af niðurstöðum nefndarinnar. Í ársskýrslu skulu birtar upplýsingar úr gagnagrunni nefndarinnar um skráningu sjóslysa.


V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
21. gr.
Endurupptaka mála.

Nefndin getur endurupptekið þegar rannsakað mál ef fram koma ný og mikilvæg gögn eða upplýsingar sem að hennar mati hefðu getað breytt niðurstöðu nefndarinnar. Mat nefndarinnar í þessu efni er endanlegt.


22. gr.
Samningar og samráð við aðra aðila.

Rannsóknarnefnd sjóslysa getur gert samning við Siglingastofnun Íslands eða aðra aðila um fyrirkomulag samstarfs, þar á meðal um skyldubundna aðstoð við einstakar rannsóknir nefndarinnar, gagnkvæmar upplýsingar og tilkynningar svo og málsmeðferð varðandi tilkynningar og aðvaranir vegna öryggis á sjó. Samningurinn skal staðfestur af samgönguráðherra.

Nefndin skal leitast við að hafa góða samvinnu við sams konar aðila annarra þjóða.


23. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum um rannsókn sjóslysa nr. 68/2000, öðlast þegar gildi.


Samgönguráðuneytinu, 24. janúar 2001.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica