Samgönguráðuneyti

288/1987

Reglugerð um veitinga- og gististaði - Brottfallin

REGLUGERÐ

um veitinga- og gististaði.

 

1.KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um alla sölu á gistingu á gististöðum, alla veitingasölu, sem almenningur á aðgang að, og leigu á samkomusölum í atvinnuskyni.

Reglugerðin gildir ekki um áfengisveitingar.

 

II. KAFLI

Leyfisveitingar.

2. gr.

Leyfi lögreglustjóra þarf til þess að stunda rekstur gisti- og veitingastaða.

Synja má leyfisumsókn ef sérstakar aðstæður eru til staðar, er brjóta í bága við almannaheill og því þyki réttlætanlegt að synja um leyfisumsókn þótt almennum skilyrðum sé fullnægt. Umsækjanda skal tilkynnt slík ákvörðun skriflega og ástæður tilgreindar.

Sá sem telur sig órétti beittan getur skotið máli sínu til ráðuneytis.

 

3. gr.

Umsókn um leyfi skal send lögreglustjóra á sérstöku eyðublaði, réttilega útfylltu og undirrituðu.

Umsókn skal fylgja nákvæm teikning og lýsing á fyrirhuguðu húsnæði ásamt nauðsynlegum skýringum á rekstri.

Gjald fyrir leyfisbréf, sem innheimt er samkvæmt reglugerð um aukatekjur ríkissjóðs, skal greitt þegar umsókn er lögð inn.

 

4. gr.

Umsókn ásamt fullnægjandi gögnum skal send til umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar, eldvarnaeftirlits, heilbrigðisnefndar og vinnueftirlits.

Umsagnir framangreindra aðila skulu að jafnaði veittar eigi síðar en 45 dögum frá móttöku erindis lögreglustjóra þar að lútandi.

Framlengja má frest samkvæmt 2. mgr. ef gera þarf breytingar á húsnæði og ennfremur ef viðkomandi húsnæði er ekki tilbúið til endanlegrar úttektar. Lögreglustjóra skal þá tilkynnt um ástæðu.

Umsagnaraðilar samkvæmt 1. mgr. skulu leitast við að hafa samráð sín á milli.

 

5. gr.

Ef leyfishafi vill gera umtalsverðar breytingar á húsnæði því er til rekstrarins er ætlað skulu um það gilda sömu reglur og um nýbyggingu væri að ræða.

 

6. gr.

Leyfi samkvæmt reglugerð þessari skal gefið út á nafn eiganda/eigenda og heimilar það eingöngu rekstur í þeim flokki og því húsnæði sem tilgreint er í leyfinu.

Ef eigandi veitinga- eða gististaðar er ekki framkvæmdastjóri starfseminnar er heimilt að gefa leyfisbréf út á nafn framkvæmdastjórans, með samþykki eiganda/eigenda. Óheimilt er að nota á veitinga- eða gististað nafn, sem gefur til kynna annan rekstur en leyfi er veitt til.

 

7. gr.

Verði eigendaskipti að veitinga- eða gististað skal sótt um nýtt leyfi svo skjótt sem auðið er eftir eigendaskiptin. Sama gildir er nýr framkvæmdastjóri tekur við rekstri, ef leyfisbréf er skráð á hans nafn.

 

8. gr.

Lögreglustjóri heldur skrá yfir veitt leyfi. Á skránni skulu vera ítarlegar upplýsingar um starfsemina, nafn leyfishafa, nafn staðar, hvar starfsemi er rekin, til hvaða flokks hún telst og gildistíma leyfis.

Skrá samkvæmt 1. mgr. skal gefin út árlega.

 

9. gr.

Leyfi eru veitt til fjögurra ára í senn. Leyfi til tækifærisveitinga skv. 1. mgr. 35. gr. eru þó bundin við einstök tækifæri.

Leyfisbréfum skal þannig komið fyrir að viðskiptamenn og eftirlitsaðilar geti á auðveldan hátt kynnt sér efni þeirra.

 

10. gr.

Þeir sem eftirlit hafa með veitinga- og gististöðum skulu tilkynna lögreglustjóra hafi orðið þær breytingar á búnaði eða rekstri að nauðsynlegt sé að endurskoða leyfið.

 

11. gr.

Lögreglustjóri getur afturkallað leyfi þegar leyfishafi fullnægir af einhverjum orsökum ekki lengur einhverju þeirra skilyrða sem sett eru fyrir útgáfu leyfisins í 2. gr. laga um veitinga- og gististaði, og ennfremur ef leyfishafi hefur verið dæmdur til refsingar fyrir brot gegn lögunum eða reglugerð þessari.

 

III. KAFLI

Búnaður gististaða.

12. gr.

Húsnæði og búnaður gististaða skal fullnægja kröfum heilbrigðis- og byggingareglugerða, brunamálareglugerðar og reglugerðar um húsnæði vinnustaða.

 

13. gr.

Gólfflötur eins manns herbergja skal vera a.m.k. 7 ferm. en tveggja manna herbergja minnst 12 ferm.

Ef sérstakar ástæður mæla með því má veita undanþágu frá 1. mgr. vegna gistingar á einkaheimilum.

 

14. gr.

Rúm skulu vera a.m.k. 2.00 x 0.9 m fyrir einn, en a.m.k. 2.00 x 1.4 m fyrir tvo. Í rúmi skal, auk sængur og kodda, vera hlífðardýna og rúmteppi sem auðvelt er að þvo.

Borð og lesljós skal vera við hvert rúm. Í herbergi skal vera góð lýsing og þannig frá gluggum gengið að útiloka megi birtu.

Gestir skulu eiga aðgang að síma.

 

15. gr.

Ákvæði 13. og 14. gr. gilda ekki um gistiskála.

 

16. gr.

Á gististað skal haldin skrá yfir næturgesti með upplýsingum um nafn, kennitölu eða vegabréfsnúmer, heimilisfang og þjóðerni. Skráin skal varðveitt í a.m.k. 12 mánuði.

 

Hótel.

17. gr.

Hótel er gististaður þar sem gestamóttaka er opin allan sólarhringinn. Jafnframt er þar fullbúin snyrting með hverju herbergi, sbr. þó 2. mgr. 18. gr.

 

18. gr.

Fullbúin snyrting, með baðkeri eða sturtu ásamt salerni og handlaug skal vera með hverju herbergi.

Undanþágu má veita fyrir hluta herbergja, þó ekki fleiri en fjórðung. Handlaug skal vera í hverju herbergi, og minnst ein snyrting fyrir hverja sex gesti á gistihæð.

Snyrting skal vera vel loftræst, með spegli og tengli fyrir rakvél, a.m.k. tveimur handklæðum fyrir hvern gest þar af einu baðhandklæði, svo og þvottastykki, vatnsglasi, sápu og ruslafötu.

 

19. gr.

Í hverju herbergi skal vera a.m.k. 1 stóll fyrir hvern gest, aðstaða til bréfaskrifta, fataslá, hillur og herðatré, töskugrind og pappírskarfa.

Ef ekki er sími á herbergi skal vera bjalla, sem tengd er gestamóttöku.

 

Gistiheimili.

20. gr.

Gistiheimili er gististaður með næturvörslu. Æskilegt er að gestamóttaka sé opin allan sólarhringinn og morgunverður framreiddur.

 

21. gr.

Handlaug skal vera í hverju herbergi og a.m.k. eitt salerni fyrir hverja átta gesti. Jafnframt skulu gestir eiga aðgang að fullkominni baðaðstöðu, sem samþykkt hefur verið af viðkomandi heilbrigðisnefnd.

Hver gestur skal hafa a.m.k. 2 handklæði auk sápu og vatnsglass.

 

22. gr.

Í hverju herbergi skal vera a.m.k. einn stóll fyrir hvern gest, aðstaða til bréfaskrifta, pappírskarfa, spegill og tengill fyrir rakvél. Ennfremur fataskápur með hillu og töskugrind. Ef ekki er sími á herbergi skal vera bjalla sem tengd er gestamóttöku eða næturvörslu.

 

Gistiskáli.

23. gr.

Gistiskáli er gististaður með svefnpokagistingu, með eða án rúmfata, ýmist í herbergjum eða svefnsölum.

 

24. gr.

Í gistiskála skulu vera svefndýnur. Gestir skulu eiga aðgang að viðunandi salerni og hreinlætisaðstöðu, sem samþykkt hefur verið af viðkomandi heilbrigðisnefnd.

 

Gisting á einkaheimilum.

25. gr.

Gisting á einkaheimilum er gististaður á heimili leigusala. Ávallt skal a.m.k. 1 af heimilismönnum búa á heimili og gegna hlutverki næturvarðar.

Þegar um er að ræða sveitagistingu er nægjanlegt að heimilismaður hafi fasta búsetu á jörðinni.


 

26. gr.

Ef leigð eru út fleiri en 8 herbergi eða 16 rúm á einkaheimili telst staður gistiheimili.

 

27. gr.

Ekki skulu fleiri en 8 gestir vera um hverja snyrtingu.

Snyrting skal vera vel loftræst og sé hún notuð af gestum og heimilisfólki skulu þar aðeins vera hreinlætistæki með tilheyrandi nauðsynjum og skulu gestir hafa þar forgang.

 

28. gr.

Í hverju gistiherbergi skal vera aðstaða til að hengja upp föt, pappírskarfa, nægilegur fjöldi handklæða, sápa og vatnsglas.

 

IV. KAFLI

Búnaður veitingastaða.

29. gr.

Húsnæði og búnaður veitingastaða skal fullnægja kröfum heilbrigðis- og byggingareglugerða, brunamálareglugerðar og reglugerðar um húsnæði vinnustaða.

 

30. gr.

       Gestir skulu eiga greiðan aðgang að snyrtingu.

 

31. gr.

Yfirmaður í eldhúsi veitingastaðar skal búa yfir fullnægjandi menntun og þekkingu í meðferð matvæla, hreinlæti og verkstjórn.

 

Veitingahús.

32. gr.

Veitingahús er veitingastaður með fullkomna þjónustu og fjölbreyttar veitingar í mat og drykk.

 

33. gr.

Í veitingahúsi skal vera starfandi maður með fullnægjandi þekkingu í framreiðslu.

 

Skemmtistaður.

34. gr.

Skemmtistaður er veitingastaður þar sem áhersla er lögð á skemmtistarfsemi ásamt fjölbreyttum veitingum í mat og/eða drykk og fullkomna þjónustu.

 

Veitingastofa, greiðasala.

35. gr.

       Veitingastofa er veitingastaður þar sem gestir afgreiða sig sjálfir að hluta eða öllu leyti.

 

Veisluþjónusta, veitingaverslun.

36. gr.

       Veisluþjónusta, veitingaverslun er veitingastaður þar sem seldar eru máltíðir eða smáréttir ekki til neyslu á staðnum, enda sé slík sala meginhluti rekstrarins.

 

Einkasalir, félagsheimili og útisamkomur.

37. gr.

Tækifærisveitingar eru sala veitinga í atvinnuskyni sem ekki eru látnar í té að staðaldri, heldur einungis við einstök tækifæri.

Ef veitingasala fer að staðaldri fram í einkasal eða félagsheimili er heimilt að veita leyfi samkvæmt öðrum ákvæðum þessa kafla.

 

38. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum um veitinga- og gististaði nr. 67 28. júní 1985 öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

 

Samgönguráðuneytið, 10. júní 1987.

 

Matthías Bjarnason.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica