Samgönguráðuneyti

627/1983

Reglugerð um lágmarksbúnað loftfara - Brottfallin

1.      Almennt.

1.1. Orðskýringar.

Aðflugshalla- og stefnuviðtæki - ILS-receiver.

Beygju- og skriðmælir - Turn and slip indicator.

Fjarlægðarmælir - DME.

Fjölstefnuviðtæki - VOR-receiver.

Flugriti - Flight recorder.

Þriggja-ása sjálfstýring - Three axis autopilot.

Hljóðriti - Cockpit voice recorder.

Hvít leifturljós - Strobe lights.

Hæðarvari - Altitude alerter.

Merki og hættir - Codes and modes.

Jarðvari - Ground proximity warning system.

Klifurmælir - Vertical speed indicator.

Markviti - Marker beacon.

Radarsvari - Transponder.

Radíóáttaviti - ADF.

Rautt blikkandi varúðarljós - Anticollision light.

Siglingaljós - Navigation lights.

Stefnusnúður - Directional gyro.

Stöðuvísir - Attitude indicator.

1.2. Auk þess, sem almennt er krafist fyrir lofthæfi íslenskra loftfara, m. a. samkvæmt almennum ákvæðum ICAO Annex 6 (Operation of Aircraft), skulu flugvélar og þyrlur hafa búnað þann sem greinir í þessari reglugerð.

1.3. Mælitækjum og öðrum búnaði skal þannig komið fyrir að flugliðar geti úr sæti sínu auðveldlega lesið af þeim eða náð til þeirra, eftir því sem við á.

2. Búnaður í öllu flugi.

2.1. Björgunarvesti og björgunarbátar.

2.1.1. Björgunarvesti fyrir áhöfn og farþega skulu ávallt vera fyrir hendi.

2.1.2. Íslenskar flugvélar og þyrlur, eða slík loftför á vegum íslenskra aðila, skulu í flugi til eða frá Íslandi og fara fjær ströndu en 93 km (50 sjómílur), búin björgunarbátum er rúmi alla um borð. Sama krafa gildir fyrir loftför sem notuð eru í reglubundnu áætlunarflugi með farþega. Neyðarsendir sem getur sent á tíðni 121,5 og 243 MHz, og fullnægir kröfum flugmálastjórar um slíka senda, skal vera í eða festur við a. m. k. einn björgunarbát loftfarsins.

2.2 Sjúkrakassar.

2.2.1 Sjúkrakassar viðurkenndir af flugmálastjórn skulu ávallt vera um borð.

2.3. Slökkvitæki.

2.3.1. Slökkvitæki, viðurkennd af flugmálastjórn, skulu ávallt vera um borð.

2.4. Ísvarnartæki/ísbrotar.

2.4.1. Flugvélar, sem notaðar eru til blindflugs í atvinnuskyni, og flugvélar sem flogið er í veðurfari þar sem tilkynnt hefur verið um ísingu eða búist er við henni, skulu búnar fullnægjandi ísvarnartækjum, að mati flugmálastjórnar.

2.5. Neyðarsendir.

2.5.1. Flugvélar með leyfilegan hámarksflugtaksmassa allt að 5 700 kg, svo og þyrlur, skulu búnar sjálfvirkum neyðarsendi sem getur sent á tíðni 121,5 og 243 MHz og fullnægir kröfum flugmálastjórnar um slíka senda.

2.5.2. Flugmálastjórn getur undanþegið loftför þessu ákvæði þegar þeim er flogið til staða þar sem setja á neyðarsenda í þau eða gera á við þá.

2.6. Neyðarbúnaður.

2.6.1. Í flugi einshreyfils loftfara skal hafa meðferðis búnað, sem tryggi öryggi áhafnar og farþega í a. m. k. sólarhring ef til nauðlendingar kæmi. Búnaður skal miðaður við aðstæður hverju sinni svo sem: varmpokar, skjólfatnaður og neyðarkostur. Í flugvélum með leyflegan hámarks flugtaksmassa allt að 5 700 kg, svo og í þyrlum, skulu vera álpokar fyrir alla um borð.

2.7. Flug yfir sjó.

2.7.1. Einshreyfils landflugvélum skal ekki flogið lengra frá landi en svo, að hægt sé að ná til lands í renniflugi. Flugmálastjórn getur veitt sérstakar undanþágur til ferjuflugs.

2.8. Jarðvari.

2.8.1. Flugvélar, sem knúnar eru hverfilhreyflum og hafa leyfilegan hámarksflugtaksmassa yfir 5 700 kg, skulu búnar jarðvara, sem viðurkenndur er af flugmálastjórn.

2.8.2. Jarðvarinn skal þannig gerður og fyrir komið að hann vari við hættulegri flugstefnu miðað við jörð í hæð sem er lægri en 760 m (2 500 fet) yfir jörðu.

2.8.3. Jarðvarinn skal gefa bæði sjáanleg og heyranleg hættumerki í stjórnklefa. Hættumerki skulu:

  1. hefjast samtímis og vera auðgreind frá öðrum hættumerkjum í stjórnklefa.
  2. vera stöðugt skynjanleg uns hættuástandið er liðið hjá og
  3. hefjast sjálfkrafa án aðgerða áhafnarinnar.

2.8.4. Jarðvaranum skal ætíð haldið í lagi. Ef hann bilar má þó ljúka við hafið flug eða flugröð.

2.9. Veðurradar.

2.9.1. Flugvélar með jafnþrýstiklefa skulu búnar veðurradar, þegar flogið er í atvinnuflugi með farþega í nætur- eða blindflugi inn á svæði þar sem búast má við þrumuveðri eða öðrum hættulegum veðurskilyrðum, sem greina má í radar flugvéla.

2.10. Hljóðriti og flugriti.

2.10.1. Flugvélar, sem búnar eru hverfilhreyflum og hafa leyfilegan hámarksflugtaksmassa yfir 5 700 kg, skulu búnar hljóðrita og flugrita af gerðum sem hlotið hafa viðurkenningu flugmálastjórnar.

2.11. Ljósabúnaður.

2.11.1. Í næturflugi skal a. m. k. hafa eftirfarandi ljós:

a) Siglingaljós og rautt blikkandi varúðarljós og/eða hvítleifturljós við vængenda og stél eða komið fyrir á annan viðurkenndan hátt.

b) Tvö lendingarljós. Á einshreyfils loftförum nægir eitt lendingarljós.

c) Lýsingu fyrir öll mælitæki, svo og fyrir annan búnað sem þarf til öruggrar stjórnar loftfarsins, þ. á. m. við notkun flugkorta.

d) Vasaljós við hvert tæki flugliða.

Eigi má nota blikkandi siglingaljós með blikkandi varúðarljósum.

3. Búnaður í einkaflugi og kennslu- og þjálfunarflugi.

3.1. Flugmælitæki.

3.1.1. Til sjónflugs þarf eftirfarandi búnað:

  1. Hraðamæli.
  2. Hæðarmæli.
  3. Seguláttavita.

3.1.2. Til blindflugs og næturflugs þarf eftirfarandi búnað:

  1. Hraðamæli tengdan kerfi sem hefur búnað til að hindra skekkju vegna ísmyndunar eða vatnsþéttingar.
  2. Hæðarmæli. Fjölhreyfla loftför, sem notuð eru í kennslu- og þjálfunarflugi, skulu búin tveim hæðarmælum.
  3. Seguláttavita.
  4. Klifurmæli.
  5. Beygju- og skriðmæli. Aflgjafi skal vera annar en fyrir tæki í lið f) og g).
  6. Stöðuvísi.
  7. Stefnusnúðu.
  8. Búnað sem sýnir hvort aflgjafi snúðumælitækjanna er í lagi, t. d. sogmæli fyrir loftknúin tæki og flögg fyrir rafknúin tæki.
  9. Klukku sem sýnir klukkustundir, mínútur og sekúndur.
  10. Mæli sem sýnir hitastig utan loftfarsins.

3.2. Fjarskipta- og leiðsögutæki.

3.2.1. Til sjónflugs innan flugstjórnarsviðs þarf VHF-sendi og viðtæki til fjarskipta við hlutaðeigandi flugturn.

3.2.2. Til blindflugs, svo og næturflugs utan 28 km (15 sjómílna) frá lýstum flugvelli, þarf eftirfarandi tæki:

a) VHF-sendi og viðtæki til fjarskipta við flugstjórnarmiðstöð, aðflugsstjórn, flugturna og flugradíóstöðvar.

b) Tvo radíóáttavita, eða einn radíóáttavita og eitt fjölstefnuviðtæki, svo og viðtæki fyrir markvita eða fjarlægðarmæli.

Fjarskiptatæki skulu þannig gerð að hægt sé að hlusta stöðugt á tiltekna tíðni og samtímis nota flugleiðsögutækin.

3.2.3. Til blindflugs þarf radarsvara fyrir 4096 merki og hætti A og C. Ekki er gerð krafa um tengingu radarsvara við hæðarmæli og sendingu hæðarupplýsinga.

4. Búnaður í atvinnuflugi.

4.1. Flugmælitæki.

Sami búnaður og getið er um í gr. 3.1.2. Í farþegaflutningum í blindflugi og/eða næturflugi skulu vera tveir hæðarmælar.

4.2. Fjarskipta- og flugleiðsögutæki.

Sami búnaður og getið er um í gr. 3.2., að viðbættum eftirfarandi ákvæðum.

4.2.1. Í farþegaflutningum í blindflugi og/eða næturflugi þarf eftirfarandi búnað:

a) Tvö VHF-sendi- og viðtæki til fjarskipta við flugstjórnarmiðstöð, aðflutningsstjórn, flugturna og flugradíóstöðvar. Auk þess tvo hljóðnema og tvö heyrnartól, eða eitt heyrnartól og einn hátalara.

b) Tvo radíóáttavita óháða hvor öðrum, eitt fjölstefnuviðtæki, viðtæki fyrir markvita og fjarlægðarmæli, svo og aðflugshalla- og stefnuviðtæki.

c) Radarsvara sem sendir 4096 merki og hætti A og C.

Fjarskiptatækin skulu þannig gerð að hægt sé að hlusta stöðugt á tiltekna tíðni og samtímis nota flugleiðsögutækin.

4.2.2. Þar sem einn flugmaður er við stjórn flugvélar í blindflugi í farþegaflutningum, skal eftirtalinn búnaður vera fyrir hendi:

  1. Þriggja-ása sjálfstýring.
  2. Hæðarvari.

4.3. Samræmdur tækjabúnaður.

Þegar um er að ræða rekstur fleiri en eins loftfars sömu eða svipaðrar gerðar hjá sama flugrekanda, er æskilegt að gerð og staðsetning tækja í stjórnklefa verði samræmd eftir því sem kostur er.

5. Undanþágur.

5.1. Flugmálastjórn getur veitt tímabundnar undanþágur frá ákvæðum þessarar reglugerðar er sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

6. Refsiákvæði.

6.1. Brot gegn reglugerð þessari varðar refsingu samkvæmt XIII. kafla laga nr. 34, 21. maí 1964 um loftferðir.

7. Gildistaka.

7.1. Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 89. og 186. gr. laga nr. 34 21. maí 1964 um loftferðir, og tekur til íslenskra flugvéla og þyrlna, svo og annarra flugvéla og þyrlna, sem íslenskur aðili notar eða ræður yfir, staðfestist hér með til þess að öðlast gildi frá og með 1. janúar 1984. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð um lágmarksbúnað loftfara til sjónflugs, næturflugs, blindflugs, óbyggðaflugs og flugs yfir sjó nr. 117 22. febrúar 1977, og reglugerð um jarðvara nr. 139 16. mars 1978.

Samgönguráðuneytið, 7. september 1983.

Matthías Bjarnason.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica