Samgönguráðuneyti

130/1981

Reglugerð um starfsmenntun leiðsögumanna ferðafólks - Brottfallin

1. gr.

Markmið starfsmenntunar leiðsögumanna ferðafólks er að mennta og þjálfa fólk til að kynna Ísland fyrir ferðamönnum, erlendum og innlendum.

2. gr.

Í þessu skyni stendur Ferðamálaráð Íslands, svo oft sem þurfa þykir, fyrir námskeiðum, þar sem kennd eru undirstöðuatriði um:

a) sögu landsins og þjóðmenningu, jarðfræði, náttúrufræði, þjóðfélagsleg málefni, bókmenntir og listir.

b) þau landssvæði, sem ferðamenn heimsækja og þær ferðir, sem í boði eru fyrir ferðamenn.

c) þróun ferðaþjónustu, skipulag ferðamála, skyndihjálp, starfsreglur og tæknilegar leiðbeiningar i leiðsögu, framsögn og notkun talkerfa.

3. gr.

Á námskeiðum þessum skal leggja áherslu á fræðslu um eftirfarandi atriði:

I. Almennur fróðleikur.

1. Jarðfræði: Aldur jarðar. Jarðsöguleg tímabil. Aldur Íslands. Jarðsöguleg uppbygging landsins. Landrekskenningin og tengsl landsins við Atlantshafshrygginn. Jarðskjálftabeltin. Virku gosbeltin. Orsök eldvirkni og tíðni eldgosa hér á landi. Helstu þættir landmótunar. Helstu eldfjöll, bergtegundir og gerðir eldstöðva. Hraungerðir og stærð hrauna. Jarðhiti og skipting í háhita- og lághitasvæði. Notkun jarðhita hér á landi. Goshverir og orsök hveragosa. Holufyllingar, helstu tegundir og myndun þeirra. Jöklar og menjar jökulrofs. Ár, fossar og gljúfur. Áfok og uppblástur. Hagnýt jarðefni. Útskýring á helstu náttúrumyndunum.

2. Gróður: Einkenni íslenska plöturíkisins. Breytingar á gróðurfari frá því fyrir ísöld til þessa dags. Helstu orsakir gróðureyðingar. Gróðurmörk. Skógarmörk. Landgræðsla. Skógrækt. Friðaðar plöntutegundir. Íslenskar jurtir í þjóðtrú, til lækninga og litunar.

3. Dýralíf: Einkenni íslenska dýraríkisins. Helstu fuglategundir hérlendis. Uppruni íslenskra húsdýra. Einkenni íslenska hestsins. Íslenskir ferskvatnsfiskar. Laxa- og silungsrækt. Dýr í íslenskri þjóðtrú.

4. Veður: Helstu veðurfarsbreytingar hér á landi og afleiðingar. Einkenni veðurfars nú á dögum. Golfstraumurinn og áhrif hans á veðurfar og landshagi. Úrkoma. Meðalhiti.

5. Náttúruvernd: Lög um náttúruvernd. Mismunandi tegundir friðlýsingar. Friðlýstir staðir og staðir á náttúruminjaskrá. Umgengnisreglur á gæslustöðum. Samskipti ferðamanna, leiðsögumanna og gæslumanna.

6. Saga Íslands: Elstu heimildir um Ísland og fyrstu heimsóknir manna til landsins. Uppruni víkinga. Kenningar um orsakir víkingaferða. Helstu víkingabyggðir. Ásatrú. Landnám Íslands. Uppruni landnámsmanna. Afdrifarríkustu atburðir Íslandssögunnar: Stofnun Alþingis. Þjóðveldi. Kristni. Mótun íslenskrar kirkju. Tíund. Sturlungaöld. Ísland fer undir stjórn Noregskonungs og síðan Danakonungs. Svarti dauði. Siðaskipti. Verslunareinokun. Einveldi Danakonungs á Íslandi. Sjálfstæðisbaráttan: Stjórnarskrá, heimastjórn, fullveldi, fullt sjálfstæði. Stjórn landsins. Alþingi. Stjórnmálaflokkar. Alþjóðasamtök, sem Ísland á aðild að.

7. Atvinnuvegir: Helstu þáttaskil í þróun aðalatvinnugreinanna, landbúnaðar, fiskveiða, verslunar og iðnaðar. Ástand og horfur í atvinnumálum. Helstu viðskiptalönd. Skipting útflutnings og innflutnings eftir vörutegundum. Skipting mannafla eftir atvinnugreinum.

8. Þjóðfélagsmál: Íslensk menning. Kirkjumál. Menntamál. Heilbrigðismál. Skattamál. Húsnæðismál. Lífsafkoma o. s. frv.

9. Bókmenntir: Innihald íslenskra fornbókmennta. Kenningar, orsakir og gildi íslenskrar sagnaritunar. Helstu tegundir bókmennta frá landnámi til þessa dags. Íslensk bókagerð og bókaútgáfa. Þekktir íslenskir rithöfundar. Verðlaunahafar.

10. Listir: Íslenskur heimilisiðnaður. Þróun listgreina, sem hér ern stundaðar svo sem byggingarlist, myndlist, höggmyndalist. tónlist, leiklist, listdans. Leikhús og leikhússókn. Þekktir íslenskir listamenn. Verðlaunahafar. Styrkir til íslenskra listamanna.

11. Söfn: Byggðasöfn og listasöfn hérlendis. Safngripir og höfundar listaverka.

12. .Annað: Helstu íþróttagreinar, sem hér ern stundaðar, og staða þeirra borið saman við árangur annarra þjóða. Helstu afreksmenn.

13. Ferðamál: Þróun ferðaþjónustu hér á landi. Skipulag ferðamála. Ýmsar greinar ferðaþjónustunnar svo sem ferðaskrifstofur, gisti- og veitingastaðir, flugfélög og ferðir, bílastöðvar, bílaleigur, minjagripaverslanir o. fl. Skipulagðar ferðir.

II. Svæðafræðsla:

Landinu skal skipt í svæði og framangreindir málaflokkar athugaðir með tilliti til þess. Kynntir helstu áningarstaðir ferðamanna á svæðunum og þær ferðir, sem þar eru í boði.

III. Skyndihjálp og tæknilegar leiðbeiningar:

Lögð skal áhersla á, eftir því sem aðstæður leyfa, að búa þátttakendur undir að geta veitt farþegum fyrstu hjálp, ef slys ber að höndum. Einnig skal eftir föngum kynna þátttakendum starfsreglur leiðsögumanna og gefa tæknilegar leiðbeiningar í leiðsögu, framsögn og notkun talkerfa.

4. gr.

Námsskrá og prófskilyrði skulu nánar ákveðin af stjórnarnefnd Ferðamálaráðs í samvinnu við stjórn Félags leiðsögumanna.

5. gr.

Námskeiðin skulu vera opin þeim, sem eru íslenskir ríkisborgarar og orðnir 20 ára og byggja á vinnu við leiðsögu eða. fararstjórn ferðamanna. Æskilegt er að þátttakendur hafi stúdentspróf eða hliðstæða menntun. Víkja má frá þessari reglu að fenginni umsögn stjórnar Félags leiðsögumanna.

6. gr.

Heimilt er að takmarka fjölda þátttakenda á hverju námskeiði og ef þörf krefur velja úr umsóknum með tilliti til tungumálakunnáttu, framkomu, reynslu í ferðamennsku, hæfileikum til hópstjórnar og tjáningar.

Ofangreindir þættir skulu kannaðir með viðtölum við umsækjendur, áður en námskeið hefst.

7. gr.

Námskeiðin skulu standa frá hausti til vors og skiptast í tvær annir, haustönn on vorönn. Báðum önnum skal ljúka með munnlegum og skriflegum prófum, þar sem hönnuð skal þekking á staðreyndum og hæfileikum til að koma þeim á framfæri á skýran og skipulegan hátt. Munnleg próf skulu tekin á þeim erlendu tungumálum, sem þátttakendur bjóða fram. Skrifleg próf skulu tekin á íslensku og/eða erlendum tungumálum að einhverjum hluta.

Þeir, sem standast munnleg og skrifleg próf í lok haustannar, fá rétt til þátttöku í vorönn. Þeir einir, sem standast bæði munnleg og skrifleg próf vorannar hljóta skírteini sem leiðsögumenn ferðafólks og gilda þau í 5 ár. Að 5 árum liðnum endurnýjast skírteinin sjálfkrafa, enda hafi leiðsögumaður unnið a. m. k. 15 dagsverk að jafnaði árlega á þessu tímabili, ella sæki hann endurhæfingarnámskeið.

Eldri félagar Félags leiðsögumanna skulu hafa starfsréttindi og sömu skírteini og þeir sem ljúka prófi frá leiðsögumannanámskeiðum Ferðamálaráðs, enda hafi þeir unnið a. m. k. 15 dagsverk að jafnaði árlega á s. 1. 5 árum, en sæki endurhæfingarnámskeið ella.

8. gr.

Ferðamálaráð Íslands skal, svo oft sem þörf krefur, halda endurhæfingar- og sérhæfingarnámskeið fyrir starfandi leiðsögnmenn ferðafólks þar sem þeim gefst kostur á að sérhæfa sig í ákveðnu kjörsviði eða kjörsvæði. Á slíkum sérhæfingarnámskeiðum skal lögð áhersla á fyllri og nákvæmari fræðslu um ákveðin svæði eða sérsvið en unnt er að veita á byrjendanámskeiðunum og búa þátttakendur undir að fræða hópa, sem gera sérhæfðar kröfur, svo sem um ákveðin svæði landsins eða sérsvið (t. d. sögn, fuglalíf, jarðfræði, þjóðfélagsmál o. þ. h.). Um námsskrá og kröfur fyrir þessi námskeið gilda ákvæði 4. gr.

9. gr.

Ferðamálaráð greiðir kostnað við nám og þjálfun leiðsögumanna að svo miklu leyti sem þátttökugjöld hrökkva ekki til.

Ferðamálaráð getur falið öðrum framkvæmd einstakra námskeiða að einhverju eða öllu leyti.

10. gr.

Ferðamálaráð skal halda skrá yfir alla þátttakendur á námskeiðum þessum og skrá við nöfn þátttakenda þá áfanga og sérhæfingu, sem hver og einn hefur aflað sér samkvæmt reglum þessum.

Ferðamálaráð skal starfrækja ráðningarmiðstöð fyrir leiðsögumenn og vinnuráðendur þeirra í samvinnu við samtök þessara aðila um a. m. k. þriggja mánaða skeið að sumrinu til.

11. gr.

Ef erlendur ríkisborgari stundar störf á Íslandi (leiðsögu, fararstjórn eða önnur skyld landkynningarstörf), skal hann hafa atvinnuleyfi frá Félagsmálaráðuneyti.

12. gr.

Leiðsögumanni ferðafólks er skylt að sjá um að farþegar hans fylgi settum reglum um umgengni við landið og náttúru þess, svo og vara þá við fyrirsjáanlegum hættum.

Leiðsögumaður skal í starfi sínu vera hlutlaus í frásögn og forðast að særa siðgæðisvitund og trúartilfinningu farþega sinna.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 5. tl. 7. gr. laga nr. 60 31. mat 1976 um ferðamál, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi, og birtist til eftirbreytni öllum þeim er hlut eiga að máli.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 80 5. janúar 1981 um sama efni.

Samgönguráðuneytið, 5. janúar 1981.

Steingrímur Hermannsson.

Ólafur S. Valdimarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica