1111/2025
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 551/2005 um sérkröfur um stöðugleika ekjufarþegaskipa.
1. gr.
2. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Skilgreiningar.
Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
- ekjufarþegaskip: skip, sem flytur fleiri en 12 farþega, með ekjufarmrými eða sérstök rými eins og þau eru skilgreind í reglu II-2/3 í SOLAS-samþykktinni með áorðnum breytingum,
-
gamalt ekjufarþegaskip: ekjufarþegaskip þar sem kjölurinn hefur verið lagður eða smíði er á svipuðu stigi fyrir 5. desember 2024. Með smíði á svipuðu stigi er átt við að:
| i) |
smíði tiltekins skips sé greinilega hafin og |
| ii) |
samsetning þessa skips sé hafin og það sé orðið að minnsta kosti 50 tonn að þyngd eða 1% af áætluðum massa alls smíðaefnisins, hvort heldur er minna, |
- nýtt ekjufarþegaskip: ekjufarþegaskip sem er ekki gamalt ekjufarþegaskip,
- farþegi: einstaklingur annar en skipstjóri og skipverjar eða þeir aðrir sem eru ráðnir til tiltekinna starfa um borð eða gegna einhverri stöðu um borð í skipi í þágu þess, þó ekki börn undir eins árs aldri,
-
SOLAS-samþykktin: alþjóðasamningur um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974 og breytingar á honum sem eru í gildi;
| i) |
SOLAS90: alþjóðasamningur um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974, eins og honum var síðast breytt með ályktun MSC.117(74), |
| ii) |
SOLAS 2009: alþjóðasamningur um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974, eins og honum var síðast breytt með ályktun MSC.216(82), |
| iii) |
SOLAS 2020: alþjóðasamningur um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974, eins og honum var síðast breytt með ályktun MSC.421(98), |
-
áætlunarferðir: siglingar ekjufarþegaskipa milli tveggja sömu hafna eða fleiri hafna eða siglingar til og frá einni og sömu höfn án viðkomu á öðrum stöðum, annaðhvort:
| i) |
samkvæmt birtri áætlun eða |
| ii) |
með svo reglulegum eða tíðum ferðum að telja má að um kerfisbundnar og reglubundnar ferðir sé að ræða, |
- Stokkhólmssamningurinn: samningur sem var gerður í Stokkhólmi 28. febrúar 1996 skv. 14. ályktun ráðstefnu SOLAS 95, "svæðisbundnir samningar um sérkröfur um stöðugleika fyrir ekjufarþegaskip" sem samþykkt var 29. nóvember 1995,
- stjórnvald fánaríkis: lögbær yfirvöld ríkis sem ekjufarþegaskipinu er heimilt að sigla undir fána hjá,
- hafnarríki: EES-ríki þar sem ekjufarþegaskip er í áætlunarferðum til eða frá höfnum þess,
- millilandasiglingar: siglingar frá höfn EES-ríkis til hafnar utan þess EES-ríkis eða öfugt,
- sérkröfur um stöðugleika: kröfur um stöðugleika, sem um getur í 6. gr., þegar hugtakið er notað sem safnheiti,
- hæð kenniöldu (hs): meðalhæð þriðjungs hæstu mældrar öldu á tilteknu tímabili,
- afgangsfríborð (fr): lágmarksfjarlægð á milli laskaða ekjuþilfarsins og endanlegrar vatnslínu á þeim stað þar sem tjónið átti sér stað án þess að tillit sé tekið til viðbótaráhrifa uppsöfnunar sjávar á laskaða ekjuþilfarinu,
- félag: eigandi ekjufarþegaskips eða hver sú stofnun eða einstaklingur, t.d. framkvæmdastjóri eða leigutaki þurrleiguskips, sem hefur tekið á sig ábyrgð á rekstri farþegaskipsins fyrir hönd eiganda.
2. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. reglugerðarinnar:
2. mgr. orðist svo:
Samgöngustofa skal ganga úr skugga um að ekjufarþegaskip sem sigla undir fána annars ríkis en EES-ríkis, uppfylli kröfur þessarar reglugerðar að öllu leyti áður en þau geta hafið áætlunarferðir til eða frá höfnum á Íslandi, í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2110.
3. gr.
4. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Hæð kenniöldu.
Nota skal hæð kenniöldu (hs) til að ákvarða þá vatnshæð á bílaþilfari sem er notuð við beitingu sérkrafnanna um stöðugleika í A-þætti I. viðauka. Hæðargildi kenniöldu skulu ekki vera hærri en sem nemur 10% líkindum á ársgrundvelli.
4. gr.
5. gr. reglugerðarinnar orðist svo:
Hafsvæði.
- Vegagerðin skal útbúa og uppfæra skrá yfir hafsvæði sem ekjufarþegaskip sigla um í áætlunarferðum til eða frá höfnum Íslands ásamt samsvarandi hæðargildum kenniöldu þessara svæða.
- Vegagerðin og siglingayfirvöld annarra EES-ríkja eða, ef við á og það er mögulegt, Vegagerðin og siglingayfirvöld ríkja utan EES á hvorum enda siglingaleiðarinnar skulu saman skilgreina hafsvæðin og viðeigandi hæðargildi kenniöldu á svæðunum. Ef siglingaleið skips nær yfir fleiri en eitt hafsvæði skal skipið fullnægja sérkröfum um stöðugleika að því er varðar hæsta hæðargildi kenniöldu sem er tilgreint fyrir þessi svæði.
- Skrá skv. 1. mgr. skal birt á heimasíðu Vegagerðarinnar. Eftirlitsstofnun EFTA skal tilkynnt um hvar þessar upplýsingar er að finna ásamt hvers konar uppfærslum á skránni og um ástæður slíkra uppfærslna.
5. gr.
6. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Sérkröfur um stöðugleika.
- Með fyrirvara um beitingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/45/EB skulu ný ekjufarþegaskip, sem heimilt er að flytja fleiri en 1.350 farþega, uppfylla sérkröfur um stöðugleika sem settar eru fram í B-hluta kafla II-1 í SOLAS 2020.
-
Að vali félags skulu ný ekjufarþegskip, sem heimilt er að flytja 1.350 farþega eða færri, uppfylla:
| a) |
sérkröfurnar um stöðugleika sem settar eru fram í A-þætti I. viðauka við þessa reglugerð eða |
| b) |
sérkröfurnar um stöðugleika sem settar eru fram í B-þætti I. viðauka við þessa reglugerð. |
Fyrir hvert slíkt skip skal Samgöngustofa, innan tveggja mánaða frá útgáfudegi skírteinisins sem um getur í 8. gr., tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um valkost sinn, sem um getur í fyrstu undirgrein, og láta uppplýsingarnar, sem um getur í III. viðauka, fylgja með slíkri tilkynningu.
- Þegar EES-ríkin beita kröfunum, sem settar eru fram í A-þætti I. viðauka, skulu þau nota viðmiðunarreglurnar, sem settar eru fram í II. viðauka, svo framarlega sem það er framkvæmanlegt og samrýmist hönnun skipsins sem um ræðir.
-
Að vali félags skulu gömul ekjufarþegaskip, sem heimilt er að flytja fleiri en 1.350 farþega og félagið hyggst hafa í áætlunarferðum til eða frá höfnum Íslands eftir 5. desember 2024 og sem hafa aldrei verið samþykkt í samræmi við þessa reglugerð, uppfylla:
| a) |
sérkröfurnar um stöðugleika, sem settar eru fram í B-hluta kafla II-1 í SOLAS 2020, eða |
| b) |
sérkröfurnar um stöðugleika, sem settar eru fram í A-þætti I. viðauka við þessa reglugerð, til viðbótar við þær sem settar eru fram í B-hluta kafla II-1 í SOLAS 2009. |
Kröfurnar um stöðugleika, sem beitt er, skulu tilgreindar í skírteini skipsins sem krafist er skv. 8. gr.
-
Að vali félags skulu gömul ekjufarþegaskip, sem heimilt er að flytja 1.350 farþega eða færri og félagið hyggst hafa í áætlunarferðum til eða frá höfnum á Íslandi eftir 5. desember 2024 og sem hafa aldrei verið samþykkt í samræmi við þessa reglugerð, uppfylla:
| a) |
sérkröfurnar um stöðugleika, sem settar eru fram í A-þætti I. viðauka við þessa reglugerð, eða |
| b) |
sérkröfurnar um stöðugleika sem settar eru fram í B-þætti I. viðauka við þessa reglugerð. |
Kröfunar um stöðugleika, sem beitt er, skulu tilgreindar í skírteini skipsins sem um getur í 8. gr.
- Gömul ekjufarþegaskip, sem voru í áætlunarferðum til eða frá höfnum Íslands eigi síðar en 5. desember 2024 skulu halda áfram að uppfylla sérkröfurnar um stöðugleika, sem settar eru fram í I. viðauka, í þeirri útgáfu sem gilti fyrir gildistöku þessarar reglugerðar.
6. gr.
7. gr. reglugerðarinnar fellur brott.
7. gr.
8. gr. reglugerðarinnar verður svohjóðandi:
Skírteini.
- Öll ný og gömul ekjufarþegaskip, sem sigla undir fána EES-ríkis, skulu hafa um borð skírteini sem staðfestir að skipið uppfylli sérkröfurnar um stöðugleika sem um getur í 6. gr.
Stjórnvald fánaríkis skal gefa út skírteinin og heimilt er að sameina þau öðrum tengdum skírteinum. Að því er varðar ekjufarþegaskip, sem uppfylla sérkröfurnar um stöðugleika í A-þætti I. viðauka, skal tilgreina í skírteininu hæð kenniöldu sem skipið þarf að standast til að uppfylla sérkröfurnar um stöðugleika.
Skírteinið skal gilda þann tíma sem ekjufarþegaskipið er starfrækt á hafsvæði þar sem hæðargildi kenniöldu er hið sama eða lægra.
- Samgöngustofa skal viðurkenna skírteini sem annað EES-ríki gefur út í samræmi við þessa reglugerð.
- Samgöngustofa skal viðurkenna skírteini sem þriðja land gefur út sem sýnir fram á að ekjufarþegaskip uppfylli sérkröfurnar um stöðugleika sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð.
8. gr.
9. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Árstíðabundinn rekstur og annar rekstur til styttri tíma.
- Ef félag, sem býður upp á áætlunarferðir árið um kring, óskar eftir því að bæta við fleiri ekjufarþegaskipum til styttri tíma í þessar áætlunarferðir skal það tilkynna Samgöngustofu, og ef við á öðrum lögbærum yfirvöldum hafnarríkja, um það eigi síðar en einum mánuði áður en fyrrnefnd skip hefja þessar áætlunarferðir.
- Ef nauðsynlegt reynist, af ófyrirséðum ástæðum, að skipta út í skyndi ekjufarþegaskipi til að tryggja áframhaldandi þjónustu skal 4. mgr. 4. gr. tilskipunar (ESB) 2017/2110 og liður 1.3 í XVII. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/16/EB gilda í stað tilkynningarskyldunnar í 1. mgr.
- Ef félag óskar eftir því að bjóða upp á árstíðarbundnar áætlunarferðir í styttri tíma en sex mánuði á ári skal það tilkynna Samgöngustofu, og ef við á öðrum lögbærum yfirvöldum hafnarríkja, um það eigi síðar en þremur mánuðum áður en slíkar áætlunarferðir hefjast.
- Að því er varðar ekjufarþegaskip sem uppfylla sérkröfurnar í A-þætti I. viðauka, ef áætlunarferðir í skilningi 1., 2. og 3. mgr. þessarar greinar fara fram við aðstæður þar sem hæðargildi kenniöldu er lægra en þau gildi sem ákvörðuð hafa verið fyrir sama hafsvæði vegna áætlunarferða árið um kring, er Samgöngustofu heimilt að nota hæðargildi kenniöldu fyrir styttra tímabil til að ákvarða vatnshæð á þilfari þegar sérkröfum um stöðugleika í A-þætti I. viðauka er beitt. EES-ríkin eða, ef við á og það er mögulegt, EES-ríki og þriðju lönd á hvorum enda siglingaleiðarinnar skulu koma sér saman um skilgreiningu á viðeigandi hæðargildi kenniöldu fyrir þetta styttra tímabil.
- Þegar Samgöngustofa, og ef við á önnur lögbær yfirvöld hafnarríkja, hefur komist að samkomulagi um áætlunarferðir, í skilningi 1., 2. og 3. mgr., skal þess krafist að ekjufarþegaskip í slíkum áætlunarferðum hafi um borð skírteini sem staðfestir að skipið uppfylli ákvæði þessarar reglugerðar eins og kveðið er á um í 1. mgr. 8. gr.
9. gr.
Hvar sem orðið "gistiríki" kemur fyrir, komi í viðeigandi beygingarfalli: hafnarríki
10. gr.
Eftirfarandi breyting verður á I. viðauka við reglugerðina:
- Eftirfarandi er bætt við á eftir fyrirsögninni I. viðauki:
A-þáttur.
- Eftirfarandi inngangsmálslið er bætt við á eftir þessari nýju fyrirsögn:
Að því er varðar A-þátt skal líta á tilvísanir í reglur SOLAS-samþykktarinnar sem tilvísanir í þessar reglur, eins og þær giltu samkvæmt SOLAS 90.
-
Í 1. lið kemur eftirfarandi í stað málsgreinarinnar á undan liðum 1.1-1.6:
- Til viðbótar við kröfur reglu II-1/B/8 í SOLAS-samþykktinni, að því er varðar vatnsþétta niðurhólfun og stöðugleika í löskuðu ástandi, skal uppfylla kröfur þessa þáttar.
-
Í stað liðar 3.1 kemur eftirfarandi:
| 3.1. |
Að því er varðar skip, sem einungis á að starfrækja í stuttan tíma, í skilningi 9. gr., skulu hafnarríkin meðfram siglingaleiðinni komast að samkomulagi um hæð viðeigandi kenniöldu. |
-
Eftirfarandi þætti er bætt við:
B-þáttur.
Fara skal að kröfunum í B-hluta kafla II-1 í SOLAS 2020. Þrátt fyrir reglu II-1/B/6.2.3 í SOLAS 2020 skal þó ákvarða nauðsynlegan niðurhólfunarstuðul R sem hér segir:
| Einstaklingar um borð (N) |
Niðurhólfunarstuðull (R) |
| N < 1.000 |
R = 0,000088 * N + 0,7488 |
| 1.000 ≤ N ≤ 1 350 |
R = 0,0369 * ln (N + 89,048) + 0,579 |
þar sem:
| N |
= |
heildarfjöldi einstaklinga um borð. |
11. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á II. viðauka reglugerðarinnar:
Í stað inngangsliðar fyrirsagnarinnar "Beiting" kemur eftirfarandi:
Í samræmi við 3. mgr. 6. gr. þessarar reglugerðar skulu stjórnvöld EES-ríkjanna nota þessar viðmiðunarreglur við beitingu sérstöku krafnanna um stöðugleika, sem settar eru fram í A-þætti I. viðauka, að því marki sem það er framkvæmanlegt og í samræmi við hönnun viðkomandi skips. Númer liðanna hér á eftir vísa til samsvarandi liða í A-þætti I. viðauka.
12. gr.
Við reglugerðina bætist III. viðauki svohljóðandi:
Upplýsingar sem eiga að koma fram í tilkynningu.
I. Almenn gögn
- Viðeigandi kröfur um stöðugleika: A- eða B-þáttur I. viðauka
- Auðkennisnúmer skips (IMO-númer, kallmerki)
- Helstu gögn
- Aðalfyrirkomulagsteikning
- Fjöldi einstaklinga um borð
- Brúttótonn
- Er skipið opið í báða enda? Já/Nei
- Er skipið með langar undirlestir? Já/Nei
II. Sértæk gögn - fyrir ekjufarþegaskip sem falla undir líkindatengdar kröfur sem settar eru fram í SOLAS-samþykktinni.
- dl, dp, ds,
- R - stuðull sem krafist er,
- yfirlitsteikning sem sýnir heilleika vatnsþéttni (e. watertight integrity plan) undirhólfa með öllum innri og ytri opum, þ.m.t. tengdra undirhólfa þeirra, og upplýsingar sem eru notaðar til að mæla rýmin, s.s. aðalfyrirkomulagsteikning og teikning af geymum; mörk niðurhólfunar, langsum, þversum og lóðrétt skulu talin með. Þessi gögn skulu lögð fyrir stjórnvöld í samræmi við lið 2.2 í viðbætinum við ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar MSC.429 (98),
- fengið gildi niðurhólfunarstuðuls A með yfirlitstöflu yfir alla framlagsþætti (e. contributions) löskuðu svæðanna, með sérstökum dálki fyrir niðurhólfunarstuðul (w*p*v) sem unnt er að ná. Þessi gögn skulu lögð fyrir stjórnvöld í samræmi við lið 2.3.1 í viðbætinum við ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar MSC.429 (98),
- fyrir tjónstilvik á svæði 1 og 2, hundraðshluti tjónstilvika sem voru ekki rannsökuð (þ.e. tilvik sem eru ekki innifalin í stuðlinum (w*p*v)), þar sem s = 0, s = 1 og 0 < s < 1,
- fyrir tjónstilvik á svæði 1 og 2, hundraðshluti tjónstilvika þar sem um er að ræða ekjurými sem voru ekki rannsökuð (þ.e. tilvik sem eru ekki innifalin í stuðlinum (w*p*v)), þar sem s = 0, s = 1 og 0 < s < 1,
- fyrir hvert tjón, sem stuðlar að því fá fram gildi niðurhólfunarstuðulsins A, skal tilgreina rými sem flætt hefur inn í, framlagsgildi og stuðulinn "s". Þessi gögn skulu lögð fyrir stjórnvöld í samræmi við lið 2.3.1 í viðbætinum við ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar MSC.429 (98),
- upplýsingar um tjón þar sem ekki er um að ræða framlagsþætti (s = 0 og p > 0) að því er varðar ekjufarþegaskip sem eru búin langri undirlest, þ.m.t. allar upplýsingar um reiknaða stuðla. Þessi gögn skulu lögð fyrir stjórnvöld í samræmi við lið 2.3.1 í viðbætinum við ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar MSC.429 (98).
III. Sértæk gögn - fyrir ekjufarþegaskip þar sem ákvæðum A-þáttar I. viðauka er beitt.
- Aðferðir til að tryggja að kröfur séu uppfylltar:
- prófanir með líkani,
- útreikningar.
Tilgreina skal hvort látið hafi verið ógert að reikna út vatnsmagn á þilfari, t.d. vegna þess að afgangsfríborð er hærra en 2,0 m í öllum tjónstilvikum: Já/Nei
- Hæð kenniöldu samkvæmt reglugerðinni.
13. gr.
Við 11. gr. reglugerðarinnar bætist eftirfarandi:
Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirtaldar gerðir sem vísað er til í XIII. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2023/946 frá 10. maí 2023 um breytingu á tilskipun 2003/25/EB að því er varðar að auka kröfur um stöðugleika og aðlögun þeirrar tilskipunar að kröfum um stöðugleika sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur skilgreint, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2024 frá 2. febrúar 2024.
14. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 24. gr. og 2. mgr. 40. gr. skipalaga, nr. 66/2021, og 2. mgr. 10. gr. laga um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, nr. 120/2012, og öðlast þegar gildi.
Innviðaráðuneytinu, 23. október 2025.
Ingilín Kristmannsdóttir.
B deild - Útgáfudagur: 27. október 2025