Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

1191/2020

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 659/2000 um skráningu einstaklinga sem sigla með farþegaskipum, með síðari breytingum.

1. gr.

Hvar sem orðin "Siglingastofnun" eða "Siglingastofnun Íslands", í hvers konar beygingarfalli, koma fyrir í reglugerðinni, kemur í viðeigandi beygingarfalli: Samgöngustofa.

 

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. reglugerðarinnar:

b-liður orðist svo: farþegaskip er skip eða háhraðafar sem flytur fleiri en tólf farþega;

f-liður orðist svo: umsjónarmaður farþegaskráningar er einstaklingur sem fyrirtæki hefur til­nefnt til að sjá um að ákvæðum ISM-kóðans sé fullnægt, eftir atvikum, eða einstaklingur sem félag tilnefnir til að senda upplýsingar um einstaklinga sem stíga um borð í farþegaskip félagsins;

h-liður falli brott.

i-liður orðist svo: áætlunarferðir eru siglingar skips milli tveggja eða fleiri hafna eða siglingar til og frá einni höfn án viðkomu á öðrum stöðum, annaðhvort:

  a) samkvæmt áætlun, eða
  b) með svo reglulegum eða tíðum ferðum að telja má að um reglubundnar ferðir sé að ræða;

Við bætast tveir nýir stafliðir, l og m, svohljóðandi:

  l) hafnarsvæði er svæði eins og það er skilgreint í r-lið 2. gr. tilskipunar 2009/45/EB;
  m) skemmtisnekkja eða skemmtibátur er skip sem ekki er nýtt í atvinnuskyni, óháð knúnings­máta.

 

3. gr.

3. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Þessi reglugerð gildir um farþegaskip, að undanskildum:

  a) Herskipum og liðsflutningsskipum;
  b) Skemmtisnekkjum og skemmtibátum;
  c) Skipum sem eru einungis starfrækt innan hafnarsvæðis eða á skipagengum vatnaleiðum.

4. gr.

2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Fyrir brottför farþegaskipsins skal tilkynna skipstjóra skipsins um fjölda einstaklinga um borð og nota viðeigandi tækniaðferð til að tilkynna um fjöldann í gegnum sameiginlega gagnagátt vakt­stöðvar siglinga skv. reglugerð nr. 619/2017.

 

5. gr.

5. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Þegar farþegaskip siglir úr höfn á Íslandi eða íslenskt farþegaskip leggur úr höfn í öðru EES-ríki, í þeim tilgangi að hefja sjóferð þar sem vegalengdin frá brottfararhöfn að næstu viðkomuhöfn er meiri en 20 sjómílur, skal skrá eftirfarandi upplýsingar:

  a) Kenninöfn, eiginnöfn, kyn, þjóðerni og fæðingardag allra einstaklinga um borð;
  b) Upplýsingar um hvort viðkomandi þurfi á sérstakri umönnun eða aðstoð að halda í neyðartilviki, ef farþegi býður þær sjálfviljugur;

Safna skal þeim upplýsingum sem skráðar eru í 1. mgr. fyrir brottför farþegaskipsins og til­kynna þær í gegnum sameiginlega gagnagátt vaktstöðvar siglinga skv. reglugerð nr. 619/2017 við brottför farþegaskipsins en eigi síðar en 15 mínútum eftir brottför þess.

Án þess að hafa áhrif á aðrar lagaskyldur sem kunna að vera til staðar og samræmast lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018, skulu persónuupplýsingar sem safnað er í samræmi við þessa reglugerð ekki unnar eða notaðar í neinum öðrum tilgangi. Slíkar persónu­upplýs­ingar skulu ávallt meðhöndlaðar í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónu­upplýsinga nr. 90/2018 og skal þeim eytt sjálfvirkt og án ástæðulausrar tafar um leið og þeirra er ekki lengur þörf.

 

6. gr.

2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Fyrirtæki sem rekur farþegaskip sem siglir undir fána þriðja lands og lætur úr höfn utan EES-svæðisins og stefnir til hafnar á Íslandi, skal sjá til þess að upplýsingarnar sem tilgreindar eru í 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr., séu látnar í té eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 5. gr.

 

7. gr.

8. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Skráning og meðferð upplýsinga.

Hvert það félag sem ber ábyrgð á rekstri farþegaskips skal, þegar þess er krafist skv. 4. og 5. gr. skipa umsjónarmann farþegaskráninga sem ber ábyrgð á að tilkynna þær upplýsingar sem um getur í þeim ákvæðum, í gegnum sameiginlega gagnagátt vaktstöðvar siglinga skv. reglugerð nr. 619/2017.

Félagið skal ekki geyma persónuupplýsingar sem safnað er í samræmi við 5. gr. lengur en þörf krefur að því er varðar reglugerðina og í öllum tilvikum aðeins fram að þeirri stundu þar sem við­komandi sjóferð hefur lokið örugglega og gögnin verið tilkynnt í gegnum sameiginlega gagnagátt vakstöðvar siglinga skv reglugerð nr. 619/2017. Án þess að hafa áhrif á aðrar sértækar laga­skyldur, svo sem vegna tölfræðivinnslu á grundvelli laga, reglugerða eða annarra stjórnvalds­fyrirmæla, skal upplýsingunum, þegar ekki er lengur þörf á þeim í þessum tilgangi, eytt sjálf­virkt og án ástæðu­­lausrar tafar.

Sérhvert félag skal tryggja að upplýsingar um farþega, sem látið hafa í ljós að þeir þurfi á sérstakri umönnun eða aðstoð að halda í neyðartilviki, séu skráðar með tilhlýðilegum hætti og tilkynntar skipstjóra fyrir brottför farþegaskipsins.

 

8. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. reglugerðarinnar:

1. mgr. orðist svo: Samgöngustofu er heimilt að veita farþegaskipum undanþágu frá því að tilkynna fjölda um borð skv. 4. gr. í sameiginlega gagnagátt vaktstöðvar siglinga skv. reglugerð nr. 619/2017, að því tilskildu að skipið sé ekki háhraðafar, það sigli áætlunarferðir sem taka innan við klukkustund milli hafna og sigli einungis á hafsvæði D, sbr. reglugerð um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum nr. 666/2001 með áorðnum breytingum ásamt viðaukum. Þá skal undanþága einungis veitt ef nálægð við leitar- og björgunarþjónustu er tryggð á hafsvæðinu.

2. mgr. orðist svo: Samgöngustofu er heimilt að veita farþegaskipum sem sigla milli tveggja hafna eða til og frá sömu höfn án viðkomu á öðrum stöðum, undanþágu frá skyldum skv. 5. gr. reglu­gerðarinnar að því tilskildu að skipið sigli einungis á hafsvæði D, sbr. reglugerð um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum nr. 666/2001 með áorðnum breytingum ásamt viðaukum og að nálægð við leitar- og björgunarþjónustu sé tryggð á hafsvæðinu.

 

9. gr.

10. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Skráningarkerfi og stjórnvöld.

Fyrirtæki skulu hafa verklag við gagnaskráningu sem tryggir að upplýsingar sem krafist er sam­kvæmt reglugerðinni séu tilkynntar tímanlega og á nákvæman hátt.

Landhelgisgæslan skal hafa aðgang að upplýsingum skráðum á grundvelli reglugerðar þessarar.

Landhelgisgæslan, önnur stjórnvöld eða aðrir aðilar sem fá aðgang að upplýsingum á grundvelli reglugerðar þessarar vegna hlutverks síns skulu ekki geyma persónuupplýsingar sem aflað er í sam­ræmi við 5. gr. lengur en nauðsynlegt er vegna reglugerðar þessarar og í öllum tilvikum ekki lengur en:

  a) Þar til viðkomandi sjóferð hefur verið örugglega lokið, en undir öllum kringumstæðum eigi lengur en þar til 60 dögum eftir brottför skipsins, eða;
  b) Í neyðartilviki eða vegna eftirmála slyss, þar til rannsókn eða dómsmálum er lokið.

Með fyrirvara um aðrar sértækar lagaskyldur, svo sem vegna tölfræðivinnslu á grundvelli laga, reglugerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla, skal upplýsingunum, þegar ekki er lengur þörf á þeim í þessum tilgangi, eytt sjálfvirkt og án ástæðulausrar tafar.

 

10. gr.

11. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Söfnun og meðferð upplýsinga.

Við framkvæmd þessarar reglugerðar skal safna þeim gögnum og upplýsingum sem er krafist og skrá þau þannig að það valdi farþegum sem stíga um borð eða frá borði ekki ónauðsynlegum töfum.

Forðast skal að gagnaöflun fari fram mörgum sinnum á sömu eða svipuðum leiðum.

Vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt þessari reglugerð skal fara fram í samræmi við lög um persónu­vernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

 

11. gr.

Í viðauka I við reglugerð um samræmda afhendingu og miðlun upplýsinga um flutninga á sjó nr. 619/2017 bætist við nýr töluliður í A hluta, svohljóðandi:

  1. Upplýsingar um einstaklinga um borð samkvæmt 2. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 5. gr. reglu­gerðar um skráningu einstaklinga sem sigla með farþegaskipum nr. 659/2000, með síðari breyt­ingum.

 

12. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirfarandi gerð (ESB) með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2109 frá 15. nóvember 2017 um breytingu á tilskipun 98/41/EB um skráningu einstaklinga sem eru um borð í farþegaskipum sem sigla til og frá höfnum aðildarríkja Bandalagsins og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/65/ESB um formsatriði við skýrslugjöf að því er varðar skip sem koma í og/eða láta úr höfn í aðildarríkjum, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2020 frá 14. júlí 2020, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54 frá 13. ágúst 2020, bls. 199-207.

 

13. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 2. og. 3. mgr. 16. gr. c. og 1. mgr. 17. gr. laga nr. 41/2003 um vaktstöð siglinga með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 26. nóvember 2020.

 

F. h. r.

Sigurbergur Björnsson.

Eggert Ólafsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica