Innanríkisráðuneyti

439/2012

Reglugerð um breytingu á reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands, nr. 400/2008.

1. gr.

Grein 1.2.4.4.1 orðast svo:

Fluglæknar og trúnaðarlæknir heilbrigðisskorar skulu hafa fengið þjálfun í fluglæknisfræði í samræmi við ákvæði reglugerðar um heilbrigðiskröfur flugliða (JAR-FCL 3). Fluglæknar og trúnaðarlæknir skulu fá upprifjunarþjálfun með reglulegu millibili. Áður en þeir eru samþykktir skulu þeir sýna fram á nægilega þekkingu í fluglæknisfræði. Fluglæknir sem annast útgáfu 3. flokks heilbrigðisvottorðs samkvæmt reglugerð um skírteini flug­umferðar­stjóra skal uppfylla sömu skilyrði og fluglæknir sem annast útgáfu 1. flokks heil­brigðis­vottorðs samkvæmt reglugerð um heilbrigðiskröfur flugliða.

2. gr.

Á eftir VII. kafla kemur nýr VIII. kafli: Aðilar sem annast mat á tungumála­kunnáttu (Language assessment bodies). Númer kafla og greina sem á eftir koma breytast til samræmis við það.

3. gr.

Grein 8.1 orðast svo:

8.1

Almennar reglur um aðila sem annast mat á tungumálakunnáttu.

8.1.1

Leyfi til að meta tungumálakunnáttu sem krafist er af flugliðum og flug­umferðar­stjórum skv. gildandi reglugerðum er eingöngu veitt aðila sem upp­fyllir skilyrði þessa kafla.

8.1.2

Leyfi til að annast mat á tungumálakunnáttu er gefið út til allt að þriggja ára. Leyfið má fella úr gildi ef kröfur til starfseminnar eru ekki lengur uppfylltar.

8.1.3

Mat á tungumálakunnáttu skal reka sjálfstætt óháð tungumálakennslu, þar sem slík kennsla fer fram hjá sama aðila, bæði hvað varðar skipulag og mönnun.



4. gr.

Grein 8.2 orðast svo:

8.2

Stjórnun og skipulag.

8.2.1

Aðili sem vill sækja um leyfi til að annast mat á tungumálakunnáttu samkvæmt reglugerð þessari skal sýna fram á að:

a.

stjórn og mönnun sé fullnægjandi;

b.

gæðakerfi sé fyrir hendi sem tryggir að starfsemin fullnægi öllum kröfum og reglum.

8.2.2

Gæðakerfi skv. 8.2.1 gr. skal taka til a.m.k eftirfarandi atriða:

a.

stjórnunar, skipulags og stefnumörkunar;

b.

vinnuferla;

c.

eftirfylgni við viðeigandi lög, reglur og viðmið;

d.

skilgreiningar ábyrgðar fyrir þróun og rekstur gæðakerfis;

e.

skjalfestingar;

f.

gæðatryggingaráætlunar;

g.

menntunar og þjálfunar matsmanna;

h.

þeirra krafna sem gerðar eru til mats á tungumálakunnáttu;

i.

ánægju viðskiptavina.



5. gr.

Grein 8.3 orðast svo:

8.3

Vistun gagna.

8.3.1

Aðili sem annast mat á tungumálakunnáttu samkvæmt reglugerð þessari skal vista gögn um niðurstöðu mats í að minnsta kosti sex ár.



6. gr.

Grein 8.4 orðast svo:

8.4

Mat á tungumálakunnáttu.

8.4.1

Með mati á tungumálakunnáttu skal ákveða hæfni skírteinishafa/umsækjanda til að tala og skilja það tungumál sem notað er í talfjarskiptum samkvæmt þeim kröfum sem gerðar eru í reglugerðum um skírteini gefnum út af Flugmálastjórn.



7. gr.

Grein 8.5 orðast svo:

8.5

Matsmenn í tungumálakunnáttu.

8.5.1

Leyfi til að meta tungumálakunnáttu samkvæmt reglugerðinni er háð því að hjá umsækjanda starfi hæfur matsmaður með fullnægjandi tungumálakunnáttu. Matsmaður í tungumálakunnáttu skal annaðhvort hafa sérfræðiþekkingu á sviði flugmála eða sérfræðiþekkingu á sviði tungumála að viðbættri flugtengdri þekkingu.

8.5.2

Matsmaður í tungumálakunnáttu skal hafa fengið viðurkennda þjálfun og sýnt fram á hæfni sína í að meta tungumálakunnáttu.

8.5.3

Leyfi matsmanna gildir í þrjú ár í senn og má fella úr gildi ef matsmaður uppfyllir ekki lengur gildandi kröfur.



8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 31. og 73. gr., sbr. 145. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 30. apríl 2012.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica